Morgunblaðið - 13.09.1983, Blaðsíða 16
16
MORGUNBLAÐID, ÞRIÐJUDAGUR13. SEPTEMBER1983
KRISTJflfl
SIGGEIRSSOfl HF
LAUGAVEGI 13, REYKJAVIK. SIMI 25870
Opið á fimmtudögum til kl. 21, á
föstudögum til kl. 19 og til hádegis
á laugardögum.
Tvær
Amsterdam - París
Vikuferð 30. sept.
Nú sláum viö saman tveimur skemmtilegustu borgum megin-
landsins og kynnumst þvi besta sem hvor um sig hefur upp á að bjóöa
Verökr. 16.350.-
miöað við gistingu í 2ja manna herbergi.
Innifaliö: Flug til og frá Amsterdam, gisting í 3 nætur á Victoria hóteli
i Amsterdam, 4 nætur á Mondial hóteli í París, skoðunarferöir um
París og til Versala, rútuferð Amsterdam-París-Amsterdam og
íslensk fararstjórn Barnaafsláttur kr. 4000.-
Samvinnuferdir - Landsýn
AUSTURSTRÆTI 12 - SÍMAR 27077 & 28899
«
AF ERLENDUM VETTVANGI
eftir BJÖRN BJARNASON
Stórveldatortryggni og
sameiginlegt öryggi
Káðstefnan um sameiginlegt öryggi sem haldin var í Stokkhólmi 2. til
4. september í vegum alþjóðlegu friðarrannsóknastofnunarinnar —
SIPRI — leiddi ekki til þess að þátttakendur yrðu sammála um skilgrein-
ingu á hugtakinu „sameiginlegt öryggi“. Það er ekki á næsta leiti að
vígbúnaðarkenningar, sem kenndar eru við ógnarjafnvægið, víki fyrir
sameiginlegu öryggi, eða með öðrum orðum að friðurinn hætti að styðjast
við kjarnorkuodda í austri og vestri.
Egon Bahr, hugmyndafræð-
ingur vestur-þýskra jafnað-
armanna í utanríkis- og örygg-
ismálum, er höfundur hugtaksins
„sameiginlegt öryggi". En það var
haft að leiðarljósi í störfum al-
þjóðlegrar og sjálfstæðrar nefnd-
ar um öryggis- og afvopnunarmál
undir forsæti Olof Palme. Á
ráðstefnunni í Stokkhólmi lýsti
Egon Bahr „sameiginlegu öryggi"
sem hernaðarlegum þætti slökun-
arstefnunnar og eðlilegu mark-
miði þeirra sem vildu hrinda
henni í framkvæmd.
í ráðstefnulok komst Lennart
Bodström, utanríkisráðherra Svf-
þjóðar, þannig að orði, að Svíar
hefðu í nokkra áratugi fylgt utan-
ríkisstefnu sem skilgreina mætti
á þann veg, að hún félli vel að því
sem nú væri farið að kalla sam-
eiginlegt öryggi. Taldi sænski
utanríkisráðherrann að samvinna
Norðurlanda væri góð fyrirmynd
að því sem stefnt væri að með
sameiginlegu öryggi. Vadim
Zagladin, miðstjórnarmaður í
kommúnistaflokknum og fyrirliði
Sovétmanna á ráðstefnunni,
sagði, að sovéska stjórnin væri
hlynnt sameiginlegu öryggi og
utanríkisstefna hennar bæri þess
glögg merki. Á blaðamannafundi í
ráðstefnulok velti einn fyrirspyrj-
anda því þess vegna fyrir sér,
hvort Svíar og Sovétmenn fylgdu
þá svipaðri utanríkisstefnu.
Zagladin lagði þá áherslu á að
stefna Sovétríkjanna væri sam-
stiga hugmyndunum um sameig-
inlegt öryggi — að vísu með fyrir-
vara.
í hópi Bandaríkjamanna á
ráðstefnunni var Richard Perle,
aðstoðarvarnarmálaráðherra. í
ræðu sinni benti hann á að það
væri rangt að halda því fram, að
bandarískar kjarnorkuvopna-
birgðir hefðu aukist jafnt og þétt
undanfarna tvo áratugi. Mega-
tonnin í kjarnorkuvopnabúrum
Bandaríkjanna væru til dæmis
núna aðeins einn fjórði af því sem
þau voru fyrir tuttugu árum. Eyð-
ingarmáttur einstakra vopna
hefði aukist, en hins vegar ættu
Bandaríkjamenn 8000 færri
kjarnorkuvopn núna en á sjöunda
áratugnum. Bandaríkjastjórn
hefði markvisst unnið að því að
fækka kjarnorkuvopnum. Perle
taldi, að annað hefði orðið upp á
teningnum í Sovétríkjunum og
þar hefði verið lögð mun meiri
áhersla á kjarnorkuhervæðingu
en unnt væri að réttlæta með því
að Sovétmenn væru að brúa bilið
gagnvart Bandaríkjamönnum.
I frásögn af fundum í einni af
nefndum ráðstefnunnar sem sam-
in var af Johan Jörgen Holst, for-
stjóra norsku utanríkismálastofn-
unarinnar, sagði, að Bandaríkja-
menn teldu það mikið áhyggjuefni
að heræfingar Sovétmanna gæfu
til kynna að þeir væru að búa sig
undir að heyja takmarkað kjarn-
orkustríð í Evrópu. Sagði síðan í
frásögn Holst að í nefndinni hefði
þessari fullyrðingu verið harðlega
andmælt af öðrum fundarmanni
og síðan stendur: „Sovétríkin
hefðu neyðst til að auka hernað-
armátt sinn til að brúa bilið".
Eftir að þessari frásögn hafði
verið dreift til • blaðamanna í
ráðstefnulok, var hún innkölluð
og þegar við ráðstefnugestir ætl-
uðum að ná í hana, var sagt að
það hefði orðið að skrifa hana upp
aftur vegna „villu“. Nánari athug-
un leiddi hins vegar í ljós, að Sov-
étmenn höfðu krafist þess að frá-
sögnin yrði dregin til baka af því
að í henni væri fleiri línum varið
til að lýsa viðhorfi Banda-
ríkjamanna en Sovétmanna!
Þessi litli atburður á ráðstefnu
sem efnt var til í því skyni að
ræða leið út úr því kerfi sem nú er
búið við í alþjóðlegum öryggis-
málum þar sem samkeppni risa-
veldanna í austri og vestri og
gagnkvæmur fælingarmáttur
kjarnorkuherafla þeirra er burð-
arásinn, sýnir að það eru margar
hindranir í veginum, smáar og
stórar, þar til tortryggninni er
rutt á brott og traust kemur í
staðinn. Hitt er svo annað mál,
hvort það sé besta leiðin til að
eyða þessari tortryggni að láta
undan öllum kröfum Sovétmanna
sama hve vitlausar þær eru. En á
ráðstefnunni í Stokkhólmi kom
fram, að Sovétmenn eru með öllu
blygðunarlausir í fullyrðingum
sínum um stöðu eigin kjarnorku-
herafla. Það er sama hve mjög
þeir fjölga til dæmis SS-20-kjarn-
orkueldflaugunum sem ógna
Vestur-Evrópu, þeir eru alltaf að
stefna að „jafnræði" eða „jafn-
stöðu“ gagnvart Vesturlöndum,
sem eiga þó engin sambærileg
vopn og viðurkenna ekki síðari
tíma skilgreiningar Sovétmanna
um að SS-20-eldflaugarnar séu
andsvar við frönskum og breskum
kjarnorkuvopnum sem hingað til
hefur verið litið á sem hluta af
„strategískum" kjarnorkuherafla,
en hann er ekki til umræðu þegar
fjallað er um Evrópueldflaugarn-
ar á fundum Sovétmanna og
Bandaríkjamanna í Genf — mik-
ilvægasta lota þeirra viðræðna
hófst 6. september síðastliðinn.
Verulegur tími fór í það á
ráðstefnunni í Stokkhólmi að
ræða Genfarviðræðurnar um Evr-
ópueldflaugarnar, en nú á næstu
mánuðum verður hafist handa við
að koma fyrir bandarískum
Pershing II-eldflaugum og stýri-
flaugum í Vestur-Þýskalandi, ít-
alíu og Bretlandi, náist ekki
samkomulag í Genf. Zagladin
sagði f Stokkhólmi, að það jafn-
gilti einhliða riftun á viðræðunum
í Genf, ef hafist yrði handa um að
koma bandarísku eldflaugunum
fyrir. Hann sagði þó jafnframt að
Sovétmenn myndu engu að síður
halda áfram friðarbaráttu sinni
og skynsamlegast væri að fresta
uppsetningu nýju eldflauganna
um 10 mánuði, svo að meiri tími
gæfist til samningaviðræðna, eða
þau fjögur ár sem menn gátu
vænst samkvæmt ákvörðun utan-
ríkisráðherra NATO um málið í
desember 1979. Richard Perle
sagði hins vegar að það breytti
engu þótt eldflaugunum yrði kom-
ið fyrir í Vestur-Evrópu, það yrði
bæði fljótlegt og auðvelt að fjar-
lægja þær ef nauðsyn krefði.
Ráðstefnan um sameiginlegt
öryggi snerist því frekar um
hefðbundinn ágreining austurs og
vesturs, en það sem sameinar
bandalögin f austri og vestri. Þeg-
ar kynnt var það sem fram fór í
þeirri nefnd ráðstefnunnar þar
sem fulltrúar frá rikjum þriðja
heimsins sátu, kom glögglega
fram, að þá fyrst væri að vænta
breytinga, þegar áhrifum risa-
veldanna hefði verið útrýmt. En
hvenær og með hvaða ráðum tekst
það?
í janúar 1984 hefst í Stokk-
hólmi ráðstefna um afvopnun og
leiðir til að skapa traust í hernað-
armálum á milli ríkja. Þátttak-
endur í þeirri ráðstefnu verða
fulltrúar frá ríkjunum 35 sem
rætt hafa um öryggi og samvinnu
í Evrópu í rúman áratug innan
ramma ráðstefnunnar sem lauk í
Madrid nú 7. til 9. september og
haldin var á grundvelli loka-
skjalsins frá Helsinki 1975. Var
helst að skilja á forráðamönnum
SIPRI, að ráðstefna þeirra um
Palme-skýrsluna myndi verða
gagnlegt framlag til Stokkhólms-
ráðstefnunnar sem hefst í janúar.
Hitt er einnig ljóst, að sænska
ríkisstjórnin undir forsæti Olof
Palme ætlar að nýta sér fyrirhug-
aða ráðstefnu til hins ítrasta í því
skyni að ítreka ágæti sænskrar
utanríkisstefnu. SIPRI-ráðstefn-
an einkenndist af stórveldator-
tryggni en ekki markvissri sókn
að sameiginlegu öryggi. Líklegt er
að hið sama verði upp á teningn-
um á Stokkhólmsráðstefnunni. Og
sé það óaðskiljanlegur liður í því
að ná markmiðum sameiginlegs
öryggis að trúa öllu því sem Sov-
étmenn segja gagnrýnilaust, er
betra heima setið en af stað farið.
Við skilgreiningu á hugtakinu
„sameiginlegt öryggi" geta menn
ekki leyft sér að horfa framhjá
staðreyndum og þeirri tortryggni
sem ríkir.
Frá Madrid-ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu. í kjölfar
hennar verður meðal annars efnt til nýrrar ráðstefnu í Stokkhólmi um
hernaðarlegar hliðar evrópskrar samvinnu. Á SIPRI-ráðstefnunni um
sameiginlegt öryggi töldu ýmsir að þar hefði verið safnað saman gagnlegu
efni sem kæmi að notum í umræðum um nýja skipan öryggismála, en allir
eru sammála um að hún sé næsta fjarlægur draumur.