Morgunblaðið - 17.05.1984, Blaðsíða 40
40
MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 17. MAl 1984
Minning:
Sigurgeir Guðmunds-
son fv. skólastjóri
Fæddur 26. desember 1918
Dáinn 10. maí 1984
Fyrir mánuði sátum við Sigur-
geir Guðmundsson á heimili mínu
og ræddum sameiginlegt áhuga-
mál. Það hafði nokkuð dregist að
við næðum saman. Við vissum
báðir að sjónarmið okkar voru
svipuð eins og oft áður en spurn-
ingin var hvernig á málum skyldi
haldið til þess að ná þeim fram.
Ekki tók það okkur langan tíma
að komast að niðurstöðu og
ákveðnir vorum við í því halda
vöku okkar til þess að ná settu
marki.
Vinur minn Sigurgeir er nú all-
ur, en verkefnið sem hann var að
glíma við leysist vonandi eins og
hann óskaði sér.
Við Sigurgeir Guðmundsson
höfðum átt samstarf i um aldar-
fjórðung. Ég leitaði til hans ný-
tekinn við störfum í Sparisjóði
Hafnarfjarðar. Þurfti á að halda
reyndum manni á sviði bygg-
ingarmála vegna væntanlegrar
byggingar sparisjóðsins. Mér var
ljúfmannlega tekið og hann reiðu-
búinn til aðstoðar og reyndist mér
sú hjálparhella sem um munaði og
ráðhollur ævinlega síðan, því oft
leitaði ég til hans með margvísleg
málefni.
Sigurgeir Guðmundsson var
fæddur í Hafnarfirði 26. des. 1918
sonur hjónanna Guðmundar Ein-
arssonar framkvæmdastjóra
Dvergs hf. og Jónu Kristjánsdótt-
ur. Ungur hóf Sigurgeir trésmíða-
nám, síðar nám í byggingarfræði í
Svíþjóð og 1945 -dauk hann svo
námi við Samvinnuskólann í
Reykjavík.
Störf Sigurgeirs voru bundin
iðngrein hans með ýmsum hætti,
en lengst af var hann skólastjóri
Iðnskólans í Hafnarfirði. Til hans
leituðu ráða fjölmargir og hann af
opinberum aðilum víða til kvadd-
ur til ákvörðunartöku. Niðurstöð-
ur hans voru ævinlega vel undir-
búnar og því allir reiðubúnir til
þess að una þeim.
Á vettvangi félagsmála lét Sig-
urgeir ekki sitt eftir liggja. Sízt
skyldi gleyma störfum hans fyrir
Málfundafélagið Magna og Hellis-
gerði, en þar var hann í forystu í
mörg ár. Honum var það einkar
kært en faðir hans var einn af
stofnendum Magna og frumkvöð-
ull að Hellisgerði.
Síðustu starfsár Sigurgeirs var
hann framkvæmdastjóri St. Jós-
epsspítala í Hafnarfirði. Lét hann
sér mjög annt um þá stofnun og
hafði ákveðnar skoðanir á því hver
stefnan skyldi þar vera og reyndi
að tryggja framgang hennar
Hafnfirðingum til farsældar.
Eins og svo margir komst Sigur-
geir ekki hjá mótlæti í lífinu. Ung-
ur veiktist hann í fæti og varð að
gangast undir aðgerðir, sem hjálp-
uðu, en hann bar þess varanleg
merki.
Þá kom honum vel að við hlið
hans stóð traustur og umhyggju-
samur lífsförunautur en Sigurgeir
kvæntist í maí 1942 Kristínu
Magnúsdóttur Böðvarssonar bak-
arameistara í Hafnarfirði og konu
hans, Sigríðar Eyjólfsdóttur, ætt-
aðrar úr Kjós.
Kristín bjó eiginmanni sínum á
þeirra vinalega heimili það at-
hvarf sem hann þarfnaðist og
börnin þeirra, Bárður læknir og
Auður húsfreyja með fjölskyldu
sína, fullkomnuðu svo lífsham-
ingju þeirra.
Ekki get ég kvatt vin minn Sig-
urgeir án þess að minnast þess
hversu vel hann reyndist fjöl-
skyldu konu sinnar, ekki sízt
tengdamóður sinni, Sigríði. Þá var
umhyggju þeirra Kristínar og Sig-
urgeirs fyrir öldruðum föðurbróð-
ur Kristínar, Ólafi Böðvarssyni,
og einkadóttur hans, Maríu, ein-
stök, og sýndi betur en margt ann-
að þann drengskaparmann sem
Sigurgeir Guðmundsson hafði að
geyma. Veit ég að mættu þau
mæla í dag væru bornar fram
innilegar þakkir.
Við Sigrún sendum Kristínu og
börnum þeirra samúðarkveðjur og
ég bið vini mínum, Sigurgeiri
Guðmundssyni, Guðs blessunar.
Matthías Á. Mathiesen
Kveðja frá Haukum
Fyrir rúmum fimmtíu og þrem-
ur árum komu þrettán unglingar
saman til að stofna knattspyrnu-
félag, sem síðar hlaut nafnið
Haukar. Einn af þessum ungling-
um var Sigurgeir Guðmundsson,
sem við kveðjum hinstu kveðju í
dag. Hann er jafnframt sá fjórði
af þessum hópi, sem farinn er í
hinstu ferðina, sem er leiðin okkar
allra.
Á bernsku- og unglingsárunum
hans og þess, er þessar línur skrif-
ar, vorum við nágrannar. Myndað-
ist þá vinátta milli okkar, sem
varað hefur síðan. Á unglingsár-
um Sigurgeirs bar á heilsuleysi
hjá honum, sem olli því að um
þátttöku í íþróttum var ekki að
ræða, en félagsmálamaður var
hann. Starfaði og fylgdist mikið
með gengi félagsins.
Nú að leiðarlokum sendir stjórn
Hauka honum þakkir fyrir mikið
og gott starf. Eiginkonu og börn-
um svo og öðrum vandamönnum
sendir hún innilegar samúðar-
kveðjur.
Ég þakka honum góða samfylgd
og alla vináttu. Við stofnendur
Hauka kveðjum góðan félaga og
biðjum honum Guðs blessunar.
Bjarni Sveinsson
„Það var svo mikill friður og ró
í svip hans síðustu stundirnar, áð-
ur en hann skildi við,“ sagði Krist-
ín og hún bætti við: „Reyndar var
svo lengst af þann tíma, sem hann
lá meðvitundarlaus á spítalanum."
Þessi orð komu mér 1 hug þegar ég
settist niður til að festa á blað
nokkur kveðjuorð til minningar
um ræktunarmanninn Sigurgeir
Guðmundsson, skólastjóra. Hon-
um féll fátt betur, en að geta verið
í næði einn með sjálfum sér eða
sínum nánustu og sinnt því hugð-
arefni sínu að hlúa að gróðri,
hvort sem var í sælureit heimilis
síns að Sunnuvegi 4, í Hellisgerði
þar sem hann eyddi ómældum
stundum eða úti á víðavangi, þar
sem hann var manna fundvísastur
á fagra jurt í náttúrulegu um-
hverfi. Það gladdi auga hans þótt
við hinir sæjum þar aðeins hrjóst-
ur eitt.
Ég minnist löngu liðinnar
ánægjustundar við veiðivatnið
góða. Þó takmarkið væri, eins og
alltaf, að reyna að fá sem flesta
fiska, þá var varla hægt að komast
hjá því að heillast af umhverfinu í
blíðviðrinu, setjast niður til að
hlusta á náttúruna og njóta henn-
ar. Hinn fjölbreytti söngur fugl-
anna hljómaði eins og konsert í
kvöldkyrrðinni og dró að sér nýjar
og nýjar raddir. Álftaparið leið
tignarlega eftir rennisléttum
vatnsfletinum. Utar voru lómur og
skarfur í ætisleit og enn lengra í
burtu heyrðist hvellur einleikur
jaðrakans. Á mosató rétt hjá
okkur birtist heiðlóan og söng sitt
dirrin-dí, eins og hún ætti lífið að
leysa, en yfir öllu uppi í heiðblám-
anum þaut hrossagaukurinn með
eldingarhraða og hnegghljóð hans
bergmálaði í fjallinu fyrir ofan
þegar hann klauf loftið og yfir-
gnæfði allt annað, jafnvel sogandi
niðinn frá sjávarströndinni, sem
aldrei hverfur eyrum, þótt veður
sé kyrrt. Á slíkum stundum fyllist
maður lotningu fyrir höfundi til-
verunnar, lækkar ósjálfrátt rödd-
ina og telur það nánast til helgi-
spjalla að trufla þennan dýrðlega
óð. Við sátum áfram góða stund
við vatnið og flugunni var ekki
kastað oftar það kvöldið. Oft hafði
ég hlýtt á Sigurgeir lýsa skoðun-
um sínum á hinum margvísleg-
ustu mönnum og málefnum dag-
legs lífs, bæði á fundum í Mál-
fundafélaginu Magna og víðar og
Sigurgeir var ekkert myrkur í
máli ef svo bar undir, en þó tel ég
mig hafa kynnst honum betur
þessa stuttu kvöldstund við vatn-
ið, en í öllum okkar samskiptum
fyrr og síðar. Skelin, sem svo
margir brynja sig með, í hinu
venjubundna, erilsama og glaum-
mikla mannlífi nútimans, hvarf
fyrir þeim hughrifum lotningar og
helgi, sem einkenndi þessa stund
úti í guðsgrænni náttúrunni. Því
miður hygg ég að Sigurgeir, slíkur
náttúruunnandi sem hann var,
hafi alltof sjaldan haft tækifæri
til að njóta slíkra stunda.
Sigurgeir Guðmundsson fæddist
í Hafnarfirði 26. des. 1918. For-
eldrar hans voru hjónin Guð-
mundur Einarsson trésmíðameist-
ari og síðar framkvæmdastjóri í
Dverg hf. og Jóna Kristjánsdóttir
frá Hliðsnesi á Álftanesi. Sigur-
geir ólst upp f foreldrahúsum í
Hafnarfirði og þegar hann hafði
aldur til hóf hann nám í trésmíði á
Trésmíðaverkstæði Dvergs hf.
Þegar hann hafði lokið því hélt
hann til Svíþjóðar til náms í bygg-
ingafræði og lauk því árið 1938.
Að námi loknu hóf hann á ný störf
í Dverg hf. og starfaði þar uns
hann gerðist skrifstofumaður í
Eimskipafélagi fslands hf., en árið
1947 hóf hann störf hjá Húsa-
meistara ríkisins og síðar hjá
Teiknistofu landbúnaðarins, þar
sem hann starfaði til ársins 1958.
Jafnhliða störfum sínum hjá þess-
um stofnunum var hann stunda-
kennari við Iðnskólann í Hafnar-
firði á árunum 1945—1957 og
einnig annaðist hann stunda-
kennslu við Kvennaskólann i
Reykjavík og Samvinnuskólann
um tíma.
Árið 1957 verða nokkur þátta-
skil í lífi og starfi Sigurgeirs en þá
gerist hann skólastjóri IÖnskólans
í Hafnarfirði og stjórnaði þeim
skóla þar til hann sagði starfi sínu
lausu árið 1976. Þegar hér var
komið sögu hafði Sigurgeir um
langt árabil verið systrunum á St.
Jósefsspítala í Hafnarfirði innan
handar um ráðgjöf og hönnun-
arstörf við stækkun spítalans og
ýmsar breytingar og lagfæringar
á honum. Höfðu þær oft haft orð á
því við hann að þær þyrftu að ráða
mann til að annast þessar fram-
kvæmdir og nú var enn á döfinni
mikil stækkun spítalans og margs
konar breytingar, sem gera þurfti
innanhúss. Því var það að þegar
Sigurgeir sagði lausri skólastjóra-
stöðunni lét hann til leiðast að
taka þessi störf að sér og jafn-
framt var hann ráðinn forstjóri
spítalans. Því starfi gegndi hann
til dauöadags.
Mér er kunnugt um það að Sig-
urgeir lagði af mörkum geysimik-
ið starf fyrir spítalann, þrátt fyrir
það að hann gengi ekki heill til
skógar siðustu árin. Á þessari
þurru upptalningu á margþættum
störfum Sigurgeirs má glöggt sjá
hvílíkur eljumaður hann var alla
tíð.
Þó er hér ekki nema hálf sögð
sagan. Sigurgeir var mikill félags-
málamaður og sérlega samvisku-
samur um öll þau mál, sem hann á
annað borð léði atfylgi sitt. Hann
starfaði mikið að félagsmálum
iðnaðarmanna og átti í mörg ár
sæti i stjórn Sambands iðnskóla á
íslandi og Iðnskólaútgáfunnar og
var oft fulltrúi þeirra samtaka á
ráðstefnum erlendis. Einnig vann
hann mikið að skipulagsmálum og
átti m.a. sæti í byggingamefnd og
skipulagsnefnd Hafnarfjarðar-
kaupstaðar árin 1953—1964.
Sigurgeir mun ekki hafa verið
hár í loftinu þegar hann fór að
venja komur sínar í Hellisgerði.
Málfundafélagið Magni hafði ver-
ið stofnað árið 1920 i þeim tilgangi
að „æfa menn í að flytja mál sitt í
ræðuformi og í heyranda hljóði".
Félagsmenn tóku ætlunarverk sitt
alvarlega og voru fluttar fjölda-
margar framsöguræður um marg-
vísleg hagsmunamál bæjarfélags-
ins og urðu þær jafnan tilefni
fjörugra umræðna fundarmanna.
A fundi, sem haldinn var í mars-
mánuði 1922 hafði Guðmundur
Einarsson framkvæmdastjóri f
Dverg, faðir Sigurgeirs, framsögu
i máli, sem hann nefndi: „Getur
félagið Magni haft áhrif á útlit
Hafnarfjarðar?" Svaraði hann
spurningunni játandi og benti á
hvílík áhrif það gæti haft til bóta
á útlit bæjarins, ef félagið kæmi
upp blóma- og skemmtigarði, þar
sem sérkenni landslagsins,
hraunborganna og gjánna fengju
að halda sér, en gróðurinn væri
aukinn til prýði og yndis. Þarf
ekki að orðlengja um það að máli
Guðmundar var mjög vel tekið af
félagsmönnum og bæjarstjórn út-
hlutaði Magna Hellisgerði og
svæðinu umhverfis það. Var fljót-
lega hafist handa um að girða
svæðið og á næstu árum og ára-
tugum unnu Magnamenn gífur-
lega mikið ræktunarstarf i Hellis-
gerði. Þó Sigurgeir væri enn barn
að aldri, þegar þessar fram-
kvæmdir hófust, þá hreifst hann
af eldmóði föður síns og annarra
Magnamanna og lagði strax sitt
litla lóð á vogarskálina og mun
hafa verið þar öllum stundum þeg-
ar tækifæri gafst til og aðstoðað
þá sem þar voru við störf. Sigur-
geir tók miklu ástfóstri við gerðið
og gerðist síðar, eftir að hann
gekk í Magna, einn skeleggasti
baráttumaður fyrir því að stækka
Hellisgerði og auka ræktun þess.
Hann átti sæti í garðstjórn Hellis-
gerðis um 20 ára skeið og var einn-
ig um tíma formaður Málfundafé-
lagsins Magna og raunar einn
helsti forystumaður félagsins frá
því að hann gekk í það, óháð því
hvort hann sat við stjórnvölinn
eða ekki. Núverandi formaður fé-
lagsins, Ólafur Pálsson, óskaði
eftir því að ég bæri fram sérstakar
þakkir fyrir þann hlýhug og marg-
háttuð störf, sem Sigurgeir innti
af hendi f þágu Magna og Hellis-
gerðis, bæði fyrr og síðar og veit
ég að ég mæli þar fyrir munn allra
félaga hans í Magna.
En það var víðar en í Magna,
sem leiðir okkar Sigurgeirs lágu
saman. Þegar ég tók sæti í stjórn
Kirkjugarðs Hafnarfjarðar árið
1975 var Sigurgeir þar fyrir sem
fulltrúi Fríkirkjusafnaðarins í
Hafnarfirði og átti hann þar sæti
allt til dauðadags. Þessi ár voru
tímabil mikilla umsvifa í garðin-
um vegna stækkunar hans og
byggingarframkvæmda. Er mér
bæði ljúft og skylt að þakka, á
kveðjustund, starf hans allt að
málefnum kirkjugarðsins. Það var
ómetanlegt að njóta starfskrafta
hans og sérþekkingar við þessar
framkvæmdir, enda var hann til-
lögugóður og benti á margt, sem
betur mátti fara. Var ósjaldan
farið að hans leiðsögn í veigamikl-
um atriðum. Á þeim vettvangi er
nú skarð fyrir skildi og verður
hans sárt saknað, þar sem enn er
mörgu ólokið, sem gott hefði verið
að njóta ábendinga hans um.
í einkalífi sínu var Sigurgeir
gæfumaður. Hann kvæntist árið
1942 Kristínu Magnúsdóttur, dótt-
ur þeirra kunnu hjóna, Magnúsar
Böðvarssonar, bakarameistara í
Hafnarfirði, og Sigríðar Eyjólfs-
dóttur, sem bæði eru látin. Hjóna-
band þeirra Kristínar og Sigur-
geirs var einkar farsælt enda bor-
ið uppi af gagnkvæmri ást og virð-
ingu. Börn þeirra eru tvö: Bárður,
læknir, sem enn er í foreldrahús-
um, og Auður, húsmóðir 1 Hafnar-
firði.
Hér hefur verið stiklað á stóru
um lífshlaup Sigurgeirs. Hann var
á margan hátt svipmikill og
stórbrotinn persónuleiki, sem
hafði í heiðri fornar dyggðir, trúði
á sannleikann og heiðarleika í
mannlegum samskiptum en lét
ekki hlut sinn fyrir neinum ef
hann taldi sig halda á réttum
málstað. Hann var mjög vel máli
farinn og gerði sér far um að
vanda málfar sitt, hvort sem var í
einkaviðræðum eða í ræðustól.
Frímúrarabræður hans þakka
honum samfylgdina og góða leið-
sögn og óska honum fararheilla á
þeim brautum, sem hann nú geng-
ur, sannfærðir um að hann muni
hljóta þá inngöngu í ný heim-
kynni, sem honum ber. Kristínu
og fjölskyldu hans allri sendum
við samúðarkveðjur.
Eggert ísaksson
Með Sigurgeiri Guðmundssyni
er mikill öðlingsmaður horfinn af
þessum heimi. Öðlingsmaður, sem
gott og lærdómsríkt var að kynn-
ast. Alvörumaður, sem jafnframt
bjó yfir góðri og hlýrri kímnigáfu.
Dulur nokkuð, ekki allra, en kom
þó af fúsleika og alúð til móts við
þá, sem við hann vildu í einlægni
geði deila. Vandaður maður til
orðs og æðis, svo að sjaldgæft var.
Hagur bæði með hönd og huga, í
smáu og stóru, en það sem var ein-
stakt í fari hans var kannski
framar öllu það, að ekkert verk
var fyrir honum svo einfalt, að
ekki væri sjálfsagt að vanda það,
svo sem hann frekast kunni. Þegar
saman fara snilli og vandvirkni
verða verkin slík, að þau gleymast
ekki. — Trúmaður var Sigurgeir
og trúrækinn. Býst ég við að
margir fleiri en ég muni sunnu-
dagshugvekjur þær, sem hann um
skeið flutti í sjónvarpi fyrir
nokkrum árum. Efni þeirra er mér
gleymt, en áhrifin man ég og ekki
síst skörulegan og tiginmannlegan
flutning þeirra.
Kynni okkar Sigurgeirs urðu
vegna samstarfs innan Frímúr-
arareglunnar, félagsskapar, sem
varð ríkur þáttur þeirrar lífsfyll-
ingar, sem hann naut síðasta
þriðjung ævi sinnar. Þar var hann
kallaður til vandasamra trúnað-
arstarfa. Þar flutti hann marga
hugvekjuna til gagns og þroska
bræðrum sínum. Því var hann þar
dýrmætur félagi, en þó fyrst og
fremst vegna fordæmis síns um
þær eigindir, sem þar þykir mestu
varða að menn hafi til að bera, en
einkum og sér í lagi að menn efli
og þroski, því að það er svo bágt að
standa í stað. — Kynni okkar hóf-
ust þegar ég var kominn á sex-
tugsaldur en hann hálffimmtugur.
Það hefði verið ávinningur fyrir
mig að þau hefðu byrjað fyrr og
enst lengur. Það kom hinsvegar
engum á óvart að honum varð ekki
langlífis auðið — í árum talið. Það
var hjartað, sanna og góða, sem
brast og batt enda á gjöfula ævi
hans. Gjöful verði hún þó áfram
þeim sem eftir lifa, á meðan þeir
muna manninn, og honum sjálf-
um, því trúum við, í því framhaldi
sem honum er búið.
Kristínu, eiginkonu hans, og
börnum þeirra eru færðar einlæg-
ar samúðarkveðjur og þakkir.
Gunnar J. Möller
Mig langar að minnast hér með
nokkrum orðum góðs vinar og vel-
gerðarmanns, , Sigurgeirs Guð-
mundssonar, fyrrv. skólastjóra
Iðnskóla Hafnarfjarðar.
Fáum mönnum vandalausum á
ég og fjölskylda mín meira að
þakka en honum á margvisiegan
hátt.
Við í Syðra-Langholti töldum
okkur það til mikilla tekna að eiga
vináttu hans og hans ágætu eigin-
konu, Kristínar Magnúsdóttur, og
barna þeirra, Bárðar og Auðar.
Þau Bárður og Auður voru
sumar eftir sumar í sveit hjá
okkur og þá og síðan var þessi
ágæta fjölskylda tíðir og kær-
komnir gestir í sveitinni. Okkur