Morgunblaðið - 11.12.1985, Blaðsíða 43
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR11. DESEMBER1985
43
Lítum þá fyrst á þetta söguljóð
í heild. Það er að mestu leyti frá-
sögn sjálfrar söguhetjunnar,
Helgu, sem rekur örlög sín frá
æsku til elli. Hún byrjar persónu-
lega frásögn sína í kafla II, enda
er fyrsta vísuorðið eins konar
inngangur og fer mjög vel á því.
Þareð frásögn ljóðsins er lögð að
langmestu leyti í munn konu leiðir
af því, að best færi á því að konu-
rödd flytti ljóðið, þótt það sé engan
veginn óhjákvæmilegt. Flytji karl-
maður hins vegar ljóðið verður
hann samt að sjálfsögðu að hafa
það í huga.
Þet’ta ljóð er mjög þrungið
stemmningu og því freistandi við-
fangsefni fyrir góðan upplesara.
Það er margt og misjafnt sem
hendir Helgu, og þess vegna er
lj óðið mj ög þlæbrigðaríkt.
Hvað snertir meginstemmning-
ar í ljóðinu er bersýnilegt, að
upphaf frásagnar söguhetjunnar
skýrir frá einum fegursta kafla
ævi hennar, æskuárunum. Að vísu
er birta yfir slíkum minningum
hjá flestum, en það er óvenjumargt
sem slær ljóma á æsku þessarar
konu. Hún er dóttir eins af æðstu
mönnum i landi sínu, auðugs
manns, sem hefur því getað veitt
henni allt sem nauðsynlegast er
fyrir konu að hafa í lífi sínu:
menntun, uppeldi, fagran klæðnað
og góð húsakynni. En auk þess
hefur hún til að bera það sem
fylgir ekki alltaf slíkri aðstöðu í
lífinu, því hún er bæði forkunnar-
fögur og gáfuð kona, og saga henn-
ar sýnir okkur ljóslega að hún býr
auk þess yfir miklum viljakrafti,
skapfestu, hugrekki og dirfsku.
Hún stendur eins og klettur við
hlið manns síns, þegar líf hans
hnígur á ógæfuhlið. Hér er lýst
miklum mannkostum. Skáldið
gerir okkur einnig ljóst, að hún
finnur til þeirrar ábyrgðar sem
því fylgir að vera stórættuð kona.
„Ég er Helga Haraldsdóttir, Hólm-
verjanna tigna drottning."
Upphaf kvæðisins (kafli I) er
einskonar forleikur, sem ber í sér
dramatískan tón þeirra myrku
örlaga sem bíða söguhetjunnar og
manns hennar. Hann ber því að
flytja hægt og með nokkrum
þunga.
En svo (með kafla II) hefst
persónuleg frásögn og endurminn-
ingar þessarar gömlu konu, sem
býr ein niður við hafið og á erfitt
með svefn sökum brimhljóðsins og
þá sækja að henni endurminning-
arnar hver af annarri.
Hverjum þeim sem einhvern
tíma hefur fengið um lengri eða
skemmri tíma að hverfa á vit forn-
ra minninga, er það ljóst, að slíkar
hugrenningar endurvekja raun*
verulega þær tilfinningar að meira
eða minna leyti, sem bundnar voru
því sem minnst er. Hugarástand
þess sem þannig rifjar upp endur-
minningar er þess vegna undir því
komið hvers eðlis endurminningin
er hverjusinni.
Og með hverjum hætti eru nú
þær endurminningar gömlu kon-
unnar, sem eitt sinn var hin fagra
og glæsilega Helga, dóttir jarls-
ins? Þær eru vitanlega fagrar og
gleðivekjandi.
Hún byrjar á að segja frá því
hve dáð hún hafi verið af hinum
ágætustu mönnum, sem felldu til
hennar ástarhug, en þeir hverfa
henni allir úr huga, þegar hún litur
fyrsta sinni hinn hávaxna, glæsi-
lega íslending Hörð Grímkelsson,
sem hún meðal annars segir um:
„Hann var logi, aðrir reykur." Og
að hætti ástfanginnar, ungrar
stúlku sér hún vitanlega ekkert
annað en kosti hans, sem Davíð
lætur hana lýsa af mikilli mælsku.
Síðan skýrir hún frá því hvernig
þau felldu hugi saman og tengdust
tryggðaböndum og er alsæl í ást-
arvímu sinni:
„Framtíðin var fagur draumur,
fögnuður í ungum sálum,“
segir hún og gengur að lokum
til skips með Herði sínum. Þessi
kafli (II kafli) endar svo á lýsingu
hennar á landsýn í slands og er hún
mjög fögur, enda viknar hin unga
konu við þá sýn.
íslendingar eru miklir sögu-
menn og eru margir þeirra ákaf-
lega færir í þeirri list að segja vel
sögu og sumir orðsnjallir, þótt
þeir búi ekki yfir snilld skálda á
borð við Davíð Stefánsson. Þeir
sem hafa einhvern tíma hlustað á
frásagnaglaðan mann segja frá
með þessum hætti, hafa vafalaust
tekið eftir því hve svipbrigði hans
breytast eftir efni frásagnarinnar.
Það er eðlileg afleiðing af innlifun
og einlægni sögumanns og eykur
mjöggildi frásagnarinnar.
Þetta sama einkennir einnig
góða lesara, þótt áhorfendur geti
alls ekki séð þá, eins og til dæmis,
þegar lesið er í hljóðvarp, eins og
nú gerist æ tíðara. Einhverjum
kynni nú að detta í hug að slíkt
væri með öllu óþarft, þareð það
kæmi hvort eð er ekki að neinu
gagni. En þetta er misskilningur.
Svipbrigðin eru speglun hugar-
ástands og það á vitanlega jafnan
að vera í samræmi við það sem
lesið er. Jafnvel í hljóðvarpi heyr-
ist það í lestri, í hljóðvarpi skiptir
rnáli til dæmis hvort lesari brosir
eða ekki, þegar hann les, því það
kemur fram í blæbrigðum raddar-
innar.
Þegar því lesinn er II kafli
kvæðisins um Helgu jarlsdóttur
eftir Davíð Stefánsson, skáld,
skiptir þetta máli. Þetta er feg-
ursti og bjartasti kaflinn í endur-
minningum þessarar konu og það
birtir því yfir sál hennar, þegar
hún rekur þær. Þetta verður lesari
að láta heyrast í lestri sínum.
Blæbrigði III kafla eru vitanlega
allt annars eðlis, sökum þess að í
þeim hluta endurminninga hinnar
öldnu konu tekur að dimma í
hennar hugarborgum. Kaldar
staðreyndir lífsins hafa tekið við
af björtum draumum um heillandi
lán og hamingju. Þessi tigna kona
hefur bundið örlög sín óláni eins
þeirra ógæfumanna, sem þrátt
fyrir hetjudáðir og mannkosti
verða að lúta hörðum örlögum. Og
sökum drengskapar, skapfestu,
trygglyndis og viljaþreks hikar
þessi aðdáanlega kona ekki við að
deila þessum hörðum kostum með
manni sínum, sem hún ann ^vo
heitt. Hún skapar sér því eilífan
orðstír með því að verða sjálf ein
af hetjum Harðar sögu og Hólm-
verja ásamt manni sínum.
Svo sterk er ást þessarar mikil-
hæfu konu, að hún nýtur hennar
jafnvel í hinum mestu hættum og
andstreymi:
„Svaf ég trygg í sekum örmum.
Sælt var mér að fylgja Herði.
Ást hans bætti úr öllum hörmum;
allt var gott sem Hörður gerði.“
Það liggur í augum uppi, að taka
verður raddlega öðrum tökum
þessa hluta III kafla þar sem hún
bregður birtu ástar sinnar yfir
endurminningar sínar, en hinum
þar sem hún með biturleik minnist
andstreymisins, eins og
„Af ýmsum var hann illa ræmdur,
ættarsmár og fjandamargur,
út í Hólminn friðlaus flæmdur,
fyrirlitinn brennuvargur “
Það er því ljóst að innan hvers
kafla skiptast á blæbrigði, sem
mjög er mikilvægt að komi fram
í lestrinum, og gildir hér enn það
sem margoft hefur verið bent á,
að það er efnið sem gefur tilefni tií
blæbrigðanna.
Það ber því ekki einungis að
ganga úr skugga um mismunandi
stemmningu hinna ýmsu kafla
kvæðisins, heldur að íhuga vand-
lega hvernig blæbrigðin skiptast
eftir efninu innan hvers kafla fyrir
sig.
Það sem hér hefur verið sagt á
að sjálfsögðu einnig við um IV og
V kafla kvæðisins. Aðeins skal þó
bent hér á eftirtektarvert atriði í
síðarnefnda kaflanum, sem veru-
legu máli skiptir fyrir upplesar-
ann. Þar er um að ræða 3. erindi
V kaflans, sem er svona:
„Naut ég afls og örmum beitti.
Yfir Þyrli máninn glóði.
Sundið fast ég friðlaust þreytti
og fannst ég synda í Harðar blóði.
Hjartað var þeim böndum bundið,
sem brúði veika að hetju gera.
Til hinsta dags skal Helgu sundið
heiðinni móður vitni bera.“
Hingað til hefur skáldið lagt
þessa dramatísku frásögn í munn
söguhetjunnar, Helgu; og er ekki
annað sjáanlegt en hún haldi henni
áfram í upphafi þessa erindis. En
nær það nokkurri átt, að Helga
taki allt í einu að leggja dóm á
eigin afrek með þessum orðum:
„Hjartað var þeim böndum bundið,
sem brúði veika að hetju gera.
Til hinsta dags skal Helgu sundið
heiðinni móður vitni bera.“ — ?
Nei, vitanlega kemur það engan
veginn til mála. Það er því skáldið
sjálft sem grípur fram í frásögn
Helgu með því að leggja dóm síðari
tíma á afrek hennar. Þetta er alveg
augljóst, því í næsta kafla heldur
Helga áfram endurminningum
sínum, eins og ekkert hafi í skortst.
Þareð þetta er hvergi annars stað-
ar aðferð skáldsins er óhjákvæmi-
legt að líta á þetta sem galla á
fögru kvæði. Þetta er ekki viðeig-
andi. Og hvað snertir því upplestur
þessa erindis verður lesari að gera
sér þetta alveg ljóst, því annars
hljómar það í eyrum hlustanda
eins og Helga sjálf sé farin að
grobba af afrekum sínum. Hér
verður því að hverfa frá þeim frá-
sagnartóni sem lesari hefur valið
Helgu í þessu kvæði; hafa þögn
eftir fyrstu fjórar línurnar til þess
að greina síðari línurnar frá per-
sónulegri frásögn hennar með
öðrum tón, og reyna með þeim
hætti að koma því til hlustanda,
að hér grípi höfundur fram í frá-
sögnina með að vísu lofsamlegum
dómi, sem .samt virðist of dýru
verði keyptur. Hér er mjótt á
mununum að misskilningur geti
orðið og verður lesari að kappkosta
að koma í veg fyrir hann.
f VI kafla kemur fyrir erindi,
sem getur sýnt betur í átta línum
blæbrigðaskipti en annað efni
þessa kvæðis. En það er síðasta
erindi þessa kafla, sem er þannig:
„Hún er fædd við eld og ísa,
ægileg og tignarfögur.
Hún er mild sem vögguvísa,
voldug eins og hetj usögur.
Hún er björt sem dýrðardagur,
draugaleg sem nóttin svarta.
Hún er grimm sem galdrabragur,
göfug eins og móðurhjarta"
Hér leggur skáldið söguhetjunni
i munn lýsing á íslensku þjóðinni,
sem er vægast sagt hástemmd. En
hvað sem því líður verður að vanda
að flytja hana í fullu samræmi við
textann, sem frá upplestrarsjónar-
miði er að því leyti athyglisverður,
að í þessum átta línum skiptast
mjög á blæbrigði, sökum þeirra
andstæðna sem höfundur hér sí-
fellt teflir fram í einu og sama
erindinu.
Andstæðurnar í erindinu liggja
í því, að ýmist bregður höfundur
upp því sem er hrikalegt og jafnvel
ógnarlegt eða hinu sem er milt og
fagurt. Samkvæmt því sem í þess-
um greinum hefur verið haldið
fram um skyldu lesara til að láta
heyrast blæbrigði efnisins, verður
hann að gæta þess vandlega að ná
þessum. blæbrigðum, þótt þau reki
hvert annað á svo skömmum tíma
í einu og sama átta lína erindinu.
Og hvernig eru þá þessi blæbrigði
í þessum texta? Og með hverjum
hætti er best að ná þeim?
I fyrstu tveim línunum er talað
um hinar miklu andstæður elds
og íss og lýsingarorðin „ægileg"
og „tignarfögur" notuð. Hér er því
um hrikafegurð að ræða. Því er
best að ná með djúpri rödd og
breidd (löngum sérhljóðum) í orð-
um.
En svo kemur þriðja línan með
allt öðrum blæ og andstæðum:
„Hún er mild sem vögguvísa."
Þessa línu verður því að lesa með
öðrum raddblæ mjúkri rödd og
bjartri, en fjórða línan er hins
vegar strax af hrikalegri gerðinni:
„voldug eins og hetjusögur." Og
verður því aftur að grípa til fyrri
raddbeitingar. Sama er að segja
um næstu tvær linur. Þær sýna
blæbrigðaandstæður:
„Hún er björt sem dýrðardagur,
draugaleg sem nóttin svarta."
Þessar tvær línur þurfa því hvor
um sig að hafa sinn blæ eftir
efninu. Og nákvæmlega hið sama
er að segja um síðustu tvær línurn-
ar.
Þetta erindi er því gott dæmi
um það hve nauðsynlegt er að
greina andstæður í blæbrigðum
eftir efni; og engu síður þótt þær
reki hver aðra frá einni línu til
annarrar, eins og hér gerist.
Þetta ætti að nægja að sinni um
þá möguleika til blæbrigða sem
þetta merkilega kvæði veitir góð-
um lesara.
Með kvæðunum Gunnarshólma
eftir Jónas Hallgrímsson og Helgu
jarlsdóttur eftir Davíð Stefánsson
er engan veginn verið að reyna að
kenna að lesa þau upp sérstaklega,
heldur hafa þau einungis verið
valin hér sem dæmi um íhugun á
lestrarefni almennt, sökum þeirra
miklu möguleika sem þau veita
góðum upplesara til frábærrar
túlkunar.
Hér lýkur þá þessum greina-
flokki mínum í Morgunblaðinu um
upplestur bundins máls og óbund-
ins. Tilgangur minn hefur meðal
annars verið sá, að vekja athygli á
íslenskri listgrein, sem ekki hefur
verið sýndur sá sómi sem henni
ber. I nágrannalöndum okkar eru
til listamenn, sem náð hafa mikilli
frægð einmitt á sviði frábærs
upplesturs. En hérlendis virðist
þessari listgrein engan veginn
sinnt sem vert væri. Annað veifið
hafa komið hingað til lands og
lesið upp fyrir okkur frábærir
upplesarar, einkum frá Danmörku,
en þess hafa ekki aðrir notið en
þeir, sem eru vel að sér í því tungu-
máli sem lesið er á. í þessu sam-
bandi er mér mjög minnisstæður
danskur maður, sem kom hingað
til lands fyrir mörgum áratugum
og ég man nú ekki lengur hvað
heitir. Sennilega hefur hann verið
lærður leikari, en hann var mjög
frægur upplesari í Danmörku. En
hann var sérfræðingur í léstri
hinna dásamlegu sagna skáldsins
H.C. Andersen. Ég var ungur pilt-
ur þegar ég sá og hlustaði á þennan
galdramann í upplestri, svo hann
stendur mér enn fyrir hugskots-
sjónum. Hann bókstaflega lék all-
ar persónur sögunnar, sem hann
vitanlega kunni utanbókar. Ég
undraðist ekki frægð þessa manns
í föðurlandi sínu þar sem þessar
heimsfrægu sögur eru á hvers
manns vörum.
Listfræðingurinn Björn Th.
Björnsson hafði fyrir nokkrum
árum útvarpsþátt, sem ég hafði
mikið yndi af að hlusta á sökum
þess, að í þættinum leyfði hann
hlustendum að heyra á ýmsa fræga
leikara enska lesa upp. Og var
unun á þá að hlýða. En sá er gall-
inn á slíkum upplestrum, að þeir
koma ekki að gagni öðrum en þeim
hlustendum, sem hafa verulega
góða þekkingu á máli því, sem
upplesturinn fer fram á.
Við eigum þegar hér á landi
nokkra mjög góða upplesara, sem
útvarpshlustendur eru jafnan
mjög fegnir að fá að hlusta á, en
þeir heyrast alltof sjaldan.
Ég vona að þessar greinar mínar
geti komið hverjum sem er að
nokkru gagni, sem langar til að
lesa vel upp. Hefjum nú þessa
vanræktu listgrein, upplesturinn,
til nýrrar virðingar.
Höfundur er leikari og hefur
kennt framhurð um írabil.
Guðlaun
hr. Rosewater
eftir Kurt Vonnegut
Þýðandi Sveinbjörn I. Baldvinsson.
Sprcnghlægileg en jafnframt átakanlcg saga
eftir hinn óviðjafnanlega bandaríska
rithöfund Kurt Vonnegut.
Sagan ef Eliot Rosewater, drykkfellda
sjálfboðaslökkviliðsmanninum, sem haldinn
er ofurást á meðbræðrum sínum, ekki síst
smælingjunum. Hvað á slíkur maður að
gera? Bókin kafar djúpt í bandarískt
samfélag og nútímann yfirleitt með hjálp
sinna skemmtilegu og fjölskrúðugu persóna.
BOK
AUÐVITAÐ
A1.MENNA BÓKAFÉLAGIÐ. AUSTURSTRÆTl 18. SlMI 25544