Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Blaðsíða 65
AF MINNISBLÖÐUM MÁLARA
69
arstóll” segir hann líkt og stóllinn hafi verið þar löngum. Hallmælir þeim er
hann sá í kirkjunni og telur hann yngri og ómerkilegri. Sá stóll er enn í Gröf.
Ekki eru tök á því að skera úr um þetta nú. Hugsa mætti sér gang mála eitt-
hvað á þessa leið: Þegar Halldórukirkja er tekin niður hefur þurft töluvert
pláss fyrir öll áhöld hennar og skrúða. Ekki er víst að staður hafi verið fyrir
það allt á Hólum og því komið fyrir á næstu bæjum, þar sem biskup átti inn-
angengt. Ekki er mér kunnugt um eignarhald á Gröf í þennan tíma og get því
ekkert fullyrt um það hvort Gísli biskup Magnússon hafi átt jörðina. Nú er
Grafarkirkja lögð niður með konungsbréfi 1765.25 Hugsast getur að í stað
þess að geyma stólinn hafi átt að nota hann í Gröf, en þegar ákveðið var að
leggja kirkjuna niður, hafi biskup gefið hann að Fagranesi. Hitt verður að
teljast öruggt að sjálfur prófasturinn í Skagafirði Jón Jónsson til Hofsstaða-
þinga hafi vitað hvað hann var að segja í Fagranesi um prédikunarstólinn þar
árið 1764. Aftur á móti minnist hann ekki á Gröf, enda þurfti það ekki máli
að skipta, frægð stólsins var framar öllu tengd Hólum. Hvers verðum við nú
vís, ef litið er til Hóla?
Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að Guðbrandur biskup Þor-
láksson tekur við Péturskirkju þá hann hefur embættisferil sinn. Þeirri miklu
miðaldakirkju þjónaði hann í 53 ár. Segja má að kirkja og biskup féllu sam-
tímis. í júnímánuði 1624 hné Guðbrandur niður úr slagi. Fimm mánuðum
síðar féll kirkjan ,,í norðan fjúkviðri miklu.” Um þann voða skaða fékk bisk-
up aldrei neinar fréttir. Hafi Guðbrandur látið gera prédikunarstólinn fyrir
þann tíma er eins víst að hann hafi farið í mask þegar dómkirkjan hrundi. Við
höfum reyndar heimildir fyrir því að svo hafi verið. Til er frásögn eftir Odd
biskup Einarsson af því þegar kirkjan féll, þar segir Oddur m.a. að „allir kal-
eikar náðust heilir og óbrotnir og allur messuskrúði og allt það sem fémætt
var náðist utan prédikunarstóllinn brotnaði i smáparta.”26 í uppskrift Sigurð-
arregisturs frá 1569 er þess getið að dómkirkjan eigi prédikunarstól.27 Nú gat
hann verið ómerkilegur að dómi Guðbrands og hann viljað fá annan betri.
Hitt er ljóst að enginn stóll er í Halldórukirkju þegar dóttursonur Guðbrands
Þorlákur Skúlason tekur við staðnum á Hólum 1628, það vottar afhendingar-
skráin. Eftir lát Þorláks Skúlasonar er prédikunarstólsins fyrst skýrt og skil-
merkilega getið í úttekt Hólastaðar. Þar er sagt berum orðum eins og áður er
greint, að Þorlákur biskup hafi gefið hann og kostað til 22 ríkisdölum. Ekki er
minnst einu orði á móðurafa hans. Síðan lætur sonur Þorláks Gísli biskup
gera himin yfir stólinn. Tvisvar á 17. öld er þess getið að stóllinn sé útlensk-
ur. Aftur á móti er einungis sagt að himinninn sé af sama verki. Óneitanlega
flýgur þá nafn Guðmundar bíldhöggvara Guðmundssonar i hugann, en hann
var einmitt í þjónustu Gísla biskups.