Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Blaðsíða 134
138
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
allstór. Hinn 8. september var afhjúpaður minnisvarði um Bjarna Pálsson
landlækni í Nesi, á 200. ártíð hans, reistur af Seltjarnarneskaupstað.
í Viðey var unnið áfram að viðgerð á gólfum og lagt aftur gólf á neðra lofti,
en unnið var tiltölulega skamman tíma þar, vegna þess að fjárveiting var tak-
mörkuð.
Unnið var talsvert í Norska húsinu í Stykkishólmi, einkum að viðgerð á þilj-
um á efri hæð og má hún nú kallast tilbúin undir málningu og veggfóðrun.
Hins vegar er mikið enn eftir við neðri hæðina. Yfirsmiður þar er Lárus
Pétursson, en verkið er unnið undir umsjá Harðar Ágústssonar.
Þingeyrakirkja var fullbúin hið innra eftir gagngera viðgerð sem Guðrún
Jónsdóttir arkitekt hafði umsjón með, en hins vegar er mikið verk eftir hið
ytra við múrveggi kirkjunnar. Var hátíðarmessa þar 10. júní og þá minnst 100
ára vígsluafmælis kirkjunnar árið áður, en hún var vígð 1878 og hafði þá
verið nokkur ár í smíðum.
Tekið var til að nýju við viðgerð Saurbæjarkirkju á Rauðasandi, en Gunnar
Guðmundsson smiður tók að sér að ljúka þessu verki. Svo illa tókst til, að
ekki var nægjanlega vel gengið frá grind kirkjunnar er hún var sett upp að
nýju og þurfti að taka hana sundur að talsverðu leyti og laga samsetningar,
sem kostaði bæði mikið fé og tók tíma.
15. júlí var Mosfellskirkja í Grímsnesi endurvígð eftir gagngera viðgerð sem
Hörður Ágústsson hefur séð um. Lítur kirkjan nú mjög vel út og sómir staðn-
um vel og hefur hún verið sett í upphaflegt horf eftir því sem unnt var. Jafn-
framt viðgerðinni hefur Hörður rannsakað byggingarsögu hennar og hinna
fyrri Mosfellskirkna og er það hluti af hinum miklu rannsóknum hans á forn-
um byggingararfi.
Gömlu húsin ofan við Lækjargötuna í Reykjavík, sem oft eru nefnd Bern-
höftstorfan, voru friðuð með bréfi menntamálaráðherra 9. ágúst. Þar með
var lokið fyrsta áfanga þess umdeilda máls, hvort húsin skyldu látin standa og
notuð til þeirra þarfa sem minjagildi þeirra sæmir. Var þó ekki hafist handa
um viðgerð húsanna á árinu en farið að leita úrræða um viðgerðir.
„Húsið” á Eyrarbakka, sem skipt hafði um eigendur og friðlýst er skv.
þjóðminjalögum, var tekið til mikillar viðgerðar, en það verður íbúðarhús
framvegis. Hafði Hjörleifur Stefánsson arkitekt umsjón með viðgerðinni, sem
var mjög vel af hendi leyst.
Mörg fyrrgreind verkefni eru ekki unnin beint á vegum safnsins, en það hef-
ur þó styrkt þær með fjárframlögum sumar hverjar en Húsafriðunarsjóður
aðrar, þannig að þjóðminjavarslan hefur óbeint haft þar hönd í bagga.
Hin síðari ár hefur minjavernd af þessu tagi vaxið út fyrir það að vera ein-
vörðungu fyrir framtak Þjóðminjasafnsins, og hafa byggðasöfn, sveitarfélög,
söfnuðir kirkna og einstaklingar æ meira látið hana til sín taka. Þetta er mjög