Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Blaðsíða 84
ÞORKELL GRIMSSON
STÓLL RAFNS BRANDSSONAR
Einhver merkasti gripurinn á Þjóðminjasafni íslands er án efa hinn forni,
útskorni stóll frá Grund í Eyjafirði sem þar stendur. Vegna rúnaáletrunar á
honum hefur hann oft verið kenndur við Þórunni Jónsdóttur á Grund, dóttur
Jóns Arasonar Hólabiskups. Annar stóll, mjög líkur honum, nefndur eftir
sama stað, var í eigu bróður hennar, Ara Jónssonar lögmanns í Möðrufelli í
Eyjafirði. Sá gripur er nú í Þjóðminjasafni Danmerkur. Báðir þessi stólar
voru sendir frá Grund til Kaupmannahafnar árið 1843, látnir í té fornminja-
safni Dana, Oldnordisk Museum, og birt um þá skýrsla í tímariti fornritafé-
lagsins. Hlutu þeir safnnúmerin 7726 og 7727. Fyrrnefnda stólnum, en hann
bar síðara númerið, var svo skilað til íslands árið 1930 ásamt fleiri fornum
munum héðan, og fékk hann númerið 10925 á Þjóðminjasafninu. Báðir eru
Grundarstólar smíðaðir úr birki að mestu leyti, þeir bera ósvikið yfirbragð
fornra húsgagna, eru fremur lágir, all-breiðir, með hornstólpagrind, viðir
felldir saman og neglt með nöglum úr tré, kassi er undir setunni, all-djúpur,
en nær þó ekki að gólfi, og lok haft ofan á, efri endi stoðanna fjögurra er Iát-
inn rísa upp fyrir annað verk, armbríkur eru varla neinar, bakið ofan setu
með opinni grind, og þar höfð röð fimm rimla. Mikill og veglegur útskurður
prýðir stólana, blasa við heilskornar myndir efst á stoðum en annars staðar er
útskurður að mestu lágt upphleyptur, sums staðar er einungis rist, greina má
myndir manna, dýra, kynjavera og gripa, jurtaskreyti teygir sig yfir hvern
flötinn á fætur öðrum, óhlutlægra atriða gætir nokkuð og mikið er
snoturlegra umgerða. Lagið má teljast samhverft í aðalatriðum. Þar eð ekkert
skraut er á bakhliðunum virðist líklegt að húsgögn þessi hafi staðið uppi við
vegg. Stíllinn er hinn rómanski stíll, sem reynst hefur svo mjög lífseigur í
íslenskum handíðum, þó verða greind sterk tengsl við list víkingaaldar,
einkum í skrautinu ofan á stólpum, þar sem ormatrjónur rísa, og finna má
auk þess nokkur einkenni hins gotneska stíls.
Meðfram efri brúninni á bakslá stólsins í Þjóðminjasafni er rist rúnaáletrun
í einni línu, þar stendur: „Hústrú Þórunn á stólen en Benedictt Narfa.” Jón
Sigurðsson túlkaði áletrunina þannig, skömmu eftir að stóllinn var kominn til
Hafnar, að Þórunn sú sem getið er um væri Þórunn Jónsdóttir Arasonar, og
hafa menn yfirleitt hallast að því. Áletrunin virðist endaslepp, hefur verið