Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1980, Blaðsíða 133
SKÝRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1979
137
Utanferðir safnmanna
Þjóðminjavörður sótti fund þjóðminjavarða Norðurlanda í Tavastehus í
Finnlandi dagana 10.-12. september. Þar var eins og á fyrra fundinum í Roros
rætt um ýmis sameiginleg mál þjóðminjavörslunnar í þessum löndum, svo
sem lög, fjárveitingar, fornleifarannsóknir og þjóðminjavernd og annað það,
sem heyrir undir embættin. Slíkir fundir eru haldnir á hálfs annars árs fresti
og mun næsti fundur verða haldinn í Svíþjóð.
Þá sótti hann ásamt Runólfi Þórarinssyni stjórnarráðsfulltrúa fund um
byggingarvernd í Strasbourg dagana 29.-31. október.
Elsa E. Guðjónsson safnv. sótti sem varafulltrúi íslands í stjórn Norræna
búsýsluháskólans stjórnarfund skólans í Osló dagana 23.-26. febrúar. Einnig
vann hún í leiðinni að könnun heimilda í Norsk folkemuseum og National-
museet í Kaupmannahöfn og átti viðræður við safnverði þar, m.a. um endur-
skoðun á samnorrænu textílorðasafni, sem kom út í 3. útgáfu sama ár.
Dagana 24.-27. september sótti hún stjórnarnefndarfund og aðalfund al-
þjóðasamtaka textílfræðinga, sem haldinn var í Lyon í Frakklandi og flutti
þar erindi um hefðbundið prjón á íslandi frá upphafi, það er frá síðara hluta
16. aldar til vorra daga. Dagana 2.-4. október dvaldist hún síðan i Póllandi og
skoðaði textílsöfn í Varsjá.
Gamlar byggingar
Enn var haldið áfram viðgerð bæjarins í Selinu í Skaftafelli undir umsjá
Gísla Gestssonar fv. safnvarðar. Var baðstofan endurgerð og annaðist Gunn-
ar Bjarnason smíðaverkið. Viðgerð bæjarins er lokið hið ytra og lítur hann vel
út. Þá var einnig framkvæmd miki! viðgerð á hinum gömlu tvíása hlöðum
neðanvert við Selið, veggir hlaðnir upp og þil endurnýjuð. Það verk önnuðust
þeir Sigurþór Skæringsson og Jóhann G. Guðnason, sem áður hafa unnið
mikið að hleðslustörfum fyrir safnið. Þeir endurnýjuðu einnig gamla smiðju í
Bölta í Skaftafelli, sem áformað er að standi áfram, annaðhvort þar eða með
því að flytja hana annað, ef til vill að Selinu.
Einnig var gert yfirlit ásamt Náttúruverndarráði um það, sem varðveitt
skuli af gömlum mannvirkjum í Skaftafelli til frambúðar.
Þá var gengið frá kaupum ríkissjóðs á austurhluta Nesstofu og safninu af-
hentur hann til umráða 31. júlí, en tilskilið er í samningi að fyrrverandi eig-
endur haldi íbúðarrétti í húsinu meðan þeir þurfa við. Var lögð hitaveita í hús-
ið, sem Seltjarnarneskaupstaður annaðist og þá jafnframt settur hiti í vestur-
endann, sem stendur auður. Annaðist Pétur G. Jónsson það verk.
í desember varð vart mannabeina úr ganrla kirkjugarðinum í Nesi við bygg-
ingarframkvæmdir þar í túninu. Tókst með nokkurri vissu að sjá stærð
kirkjugarðsins, sem verið hefur norðaustan við stofuna og virðist hafa verið