Tölvumál


Tölvumál - 01.04.1991, Blaðsíða 30

Tölvumál - 01.04.1991, Blaðsíða 30
Apríl 1991 Frá orðanefnd Sigrún Helgadóttir, formaður orðanefndar SÍ public domain Allir hafa vafalaust heyrt um public domain sojtware eða public domainprogram eða að hugbún- aður eða forrit séu "in the public domain". Þetta mun þýða að hug- búnaður sé til frjálsra afnota og að honum megi dreifa að vild. Lagt er til að public domain software heiti á íslensku almenningshugbúnaður og að public domain heiti einfaldlega almenningur. Þá má tala um "að leggja forrit í almenning" ef öllum er heimilt að nota það án endurgjalds og dreifa því að vild. market-driven, product-driven Orðanefndin var nýlega beðin um að fjalla um þessi orð. Þótt þau séu ekki beinlínis úr tölvumáli þötti okkur rétt að verða við þeirri ósk. Orðin market-driven og product- driven em lýsingarorð sem virðast vera notuð um fyrirtæki. Market- driven company er þá fyrirtæki sem framleiðir vörur fyrir tiltekinn markað, þ.e. lagar sig að markaðsaðstæðum. Lagt er til að það heiti markaðsmótað fyrir- tæki. Product-driven company er hins vegar fyrirtæki sem fram- leiðir tilteknar vömr án hliðsjónar af markaðsaðstæðum. Lagt er til að það heiti vörumótað fyrir- tæki. laptop computer, portable computer, palmtop computer Þetta em allt tölvur sem em svo léttar og meðfærilegar að þær má bera nánast hvert á land sem er. Laptop computer hefur verið kölluð kjöltutölva á fslensku og portable computer hefur verið kölluð fartölva eða ferðatölva. Ekki virðist vera neinn munur á kjöltutölvum og fartölvum og má því líta á þessi tvö orð sem samheiti á sama hlutnum. En nú em einnig komnar á markað tölvur sem eru svo litlar að halda má á þeim í hendi. Þær munu kallaðar palmtop computers á ensku. Lagt er til að slíkar tölvur heiti lófatölvur á íslensku. groupware Fyrir nokkru kom til íslands maður að nafni C.A. Ellis og flutti erindi á vegum Skýrslu- tæknifélagsins um þróun skrif- stofukerfa. Þar talaði hann m.a. um fyrirbæri sem hann nefndi groupware. Þegar Halldór Kristjánsson var að semja fundarboðið hafði hann samband við mig og spurði hvort ég hefði á takteinum íslenskt heiti á þessu fyrirbæri. Það hafði ég að sjálfsögðu ekki þar sem ég hafði aldrei heyrt orðið. Ég fór síðan og hlustaði á Ellis þennan og fékk auk þess grein eftir hann og fleiri um þetta fyrirbæri. í greininni er sagt að groupware sé búnaður til þess að "hjálpa hópum manna til þess að hafa samskipti, vinna saman og samræma störf sín". Þar er einnig sagt að groupware sé "tölvukerfi sem aðstoðar hópa fólks sem vinna að sama verkefni og tölvukerfi sem sér þessu fólki fyrir aðgangi að sameiginlegu umhverfi". Orðanefndin leggur til að slíkur búnaður heiti einfaldlega samvinnubúnaður. edit Lengi hefur vafist fyrir orða- nefndinni og öðrum að finna viðunandi íslenska sögn sem nota mætti í stað þessarar ensku sagnar. Einnig tók langan ti'ma að finna íslenskt heiti fyrir editor. En ég er að minnsta kosti ánægð með orðið ritill sem birtist í Tölvu- orðasafninu. Þar er einnig lagt til að edit sé þýtt með ritsetja á íslensku. Sú þýðing hefur ekki náð neinni útbreiðslu. Sumir tala einnig um að ritfæra og jafnvel að sýsla. Ég var spurð að þvf fyrir nokkru hvort ekki mætti búa til sögnina að ritla. Það má að sjálfsögðu gera en sú sögn hefur einn ókost, manni finnst eins og hún eigi að vera áhriftlaus eins og t.d. fitla. Það þýðir að við gætum t.d. sagt "ég er að ritla", eða "ég er að ritla við textann" en tæplega "ég er að ritla textann". Ef sögnin að ritla væri áhrifssögn vissum við ekki hvort hún stýrði þolfalli eða þágufalli, þ.e. hvortvið "ritlum textann" eða "ritlumtextanum"? Þess vegna kom fram sú tillaga að nota sögnina að ritlaga um edit. Ekki leikur neinn vafí á því hvaða falli sú sögn stýrir, við ritlögum textann. En sögnina ritla má vel nota þegar þörf er á áhrifslausri sögn. 30 - Tölvumál

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.