Dagur - 21.12.1960, Blaðsíða 25

Dagur - 21.12.1960, Blaðsíða 25
vöxtuleg skógarbelti. Milli þeirra er ekki annað að sjá en lynggróður. Þessi skóg- erbelti gera það að verkum, að það er mögulegt að rækta og nytja heiðalöndin, ella myndu nytjajurtir naumast þrífast þar vegna næðinga. A Jótlandi, einkum Vestur-Jótlandi, er stormasamara og lak- ari veðrátta en í eyjunum og því nokkru seinna sáð. I eyjunum og beztu sveitum Jótlands er búið að sá korni nú, en hér eru þeir fyrstu að byrja það. Hér eru 6 kýr, 2 dráttarhestar, nokkur svín og hænsni. Slíkt bú hefði verið kallað stór- bú i Danmörku fyrir 50 árum, segir Spandet. En hann hefur ekki tekið við stórbúi að erfðum. Hann byrjaði á ó- byggðu og óræktuðu landi. Nú fjölgar gripum árlega og akrar stækka. Eftir 10 -—20 ár verður hér sennilega álitlegui og arðsæll búskapur.*) Faðir Peders býr í Timring góðu búi. Hann hefur einnig unnið sig upp á ó- ræktaðri jörð. Hann þekkir orðið marga Islendinga og er flestum Dönum kunn- ari um Islands hagi. Þar eru Islendingar ætíð sjálfsagðir gestir, ef þeir koma í nágrennið. Um morguninn 16. apríl legg ég af stað. Peder er farinn með mjólkina til mjólkurbúsins, svo hann getur ekki fylgt mér, en ég hef ekki lengi gengið, er ég mæti föður hans, sem kemur akandi í lítilli lystikerru til að sækja mig. Hann ekur fyrst með mig heim og veitir góð- gerðir og flytur mig síðan á brautarstöð- ina. Skilur hann ekki við mig fyrr en lestin þýtur af stað. Gott er að njóta góðra vina. Þannig er manni tekið, þar sem góðir samlandar hafa áður verið. Nú er ferðinni heitið til Lillering í grennd við Aarhus. Eg hef skrifað til fé- laga míns þar, sem ég á heimboð hjá. Lestin fer um Silkeborg, Skandelborg, Ry og Aarhus. Á þessum slóðum virðist mér fegursta landslagið í Danmörku. Þar sjást bæði vötn og mishæðir, þ. á. m. Himmelbjerget. Á stöðinni í Lillering kemur aldraður maður til móts við mig og spyr, hvort ég sé Islendingurinn, sem ætli að heimsækja Marjus. Eg kveð svo vera. Hann segir Marjus því miður ekki vera heima. Hann hafi farið í gær í vist, þar sem hann dvelji í sumar. Hann segist vera faðir Marjusar og nú skuli ég samt *) Ólafur Jónsson, ráðunautur, heim. sótti Spandet nýlega í utanför sinni. Þá var orðinn þar myndarlegasti búgarður og sonur Spandets búinn að reisa þar á litlegt nýbýli. koma heim með sér. Þar er stórmyndar- legur búgarður, sem ég fæ að skoða, eftir að hafa þegið góðgerðir. Svo spyr gamli maðurinn, hvort ég vilji heldur gista hjá sér eða heimsækja annan skóla- félaga minn, sem eigi heima þar skammt frá og búi þar með móður sinni. Eg hafði að vísu ekki heimboð til hans, en gjarna vildi ég komast í samband við hann. Ná- um við svo tali af honum í síma og vill hann endilega, að ég þiggi gistingu hjá sér. I Gamli maðurinn býr sig nú til ferðar, hitar upp gljáandi fólksbíl og við leggj- um af stað. Hann tíundar bú sitt á leið- inni. Landið er 80 tn að stærð, nautgrip- ir 50 og töluvert af svínum. Hann spyr mikið um íslenzkan landbúnað o. fl. Hans skoðun er, að búskapurinn byggist ekki síður á hyggindum og reynslu en mikilli bókfræðslu. Eftir um það bil 15 km akstur, staðnæmist bíllinn hjá mjög álitlegum búgarði, og þar kemur félagi minn til dyra ásamt móður sinni, sem er allforvitin, hefur aldrei séð Eskimóa. Hún undrast stórlega hve mjög ég líkist venjulegum mönnum og er mér þar ást- úðlega fagnað. Auðvitað vilja þau fá gamla manninn inn til að drekka kaffi, en hann er fastur i sessi og lætur ekki lokkast sem Fúsi forðum. Honum er heldur ekki flot boðið. Hann hlustar á kveðju mína og þakklæti, er ég þrýsti hönd hans, en vill ekki hlýða á eitt orð varðandi ómakslaun. Reyndi ég þó að láta skína í það, að ekki sé tómahljóð í buddunni, enda er ég nýútskrifaður frá Ollerup og það orð fer af nemendum Bukhs, að þeim finnist allir vegir færir. Enn er ég kominn á búgarð, þar sem er ríkmannlega og haganlega um gengið. Vart hef ég enn séð jafn snyrtilega um- gengni, jafnt úti sem inni. Eg finn sárt til vegna ástandsins heima á Islandi varðandi snyrtimennsku utan húss. Hér eru góðar byggingar, álíka stórt land og þar, sem ég kom síðast, álíka margt bú- fé og nýlega er lokið við að byggja vand- að hænsnahús yfir 200 hænsni. Það líð- ur að kveldi og nú koma margir ungir herrar. Þeir eru að koma í kvöldboð. Það er slegið upp fínustu veizlu og því- næst spilað, teflt og sungið. Heimasætan leikur undir og allir syngja. Ekkjan er hrókur alls fagnaðar. Hún telur sig hafa himin höndum tekið að hafa íslending til sýnis í þessu samkvæmi, og hún á engin orð til að lýsa undrun sinni yfir því, að hann skuli kunna dönsk sönglög, leiki og spil og geti jafnvel sagt skák og mát. Listfengi í þessum íþróttum er, mér til hugarléttis þó, ekki meiri en svo hér, að lítið ber á minni vankunnáttu. Næsta morgun legg ég af stað með nesti, en ekki nýja skó, þarf heldur ekki langt að ganga. Félagi minn, Vissing Jör- gensen, fylgir mér á stöðina og svo skil- ar lestin mér án tafar til Aarhus. Þar hef ég aðeins tíma til að verða af með skeggið, áður en eimskipið leggur af stað yfir til Kalundborgar á Sjálandi. Sjóferðin tekur ekki mjög langan tíma, og þegar til Kalundborgar er komið, fæ ég að síma til Valerkilde-höjskole. Þar er einn skólafélagi minn ráðsmaður, sá síðasti, sem ég hef gert ráð fyrir að heimsækja. Klukkan er átta að kveldi, þegar ég kem þangað, og félagi minn fer strax með mig í skólaeldhúsið til kvenfólksins. Þangað er komið bréf til mín að heiman. Það hafði komið með Gullfossi og verið sent hingað frá Olle- rup. Eftir hæfilega matarhvíld fer ég að horfa á fimleikaæfingu hjá stúlkunum, er þar vel samæfður flokkur og stjórnand- inn nemandi frá Ollerup. Mér er sýnd- ur skólinn og sögð saga hans í stórum dráttum. Fimleikasalurinn er sá fyrsti, sem byggður var í Danmörku 1875—76. Mikill búrekstur er í sambandi við skól- ann. Gömul kona, sem lengi hefur starf- að við skólann, býður mér heim. Hún talar mikið og vel um þá Islendinga, sem verið hafa á skólanum. Hún þekkir vel Niels Bukh. Þau hafa alizt upp saman og hún segist oft hafa borið hann á há- hesti. Ber gamla konan honum vel sög- una og gleðst yfir dugnaði hans og frama. Hún segist láta dóttur sína fara á skólann til hans í sumar. Lestin verður að skila mér til Kaup- mannahafnar í kvöld, svo áætlun hald- ist. Kl. hálfníu að kveldi 18. apríl kem ég til höfuðborgarinnar eftir að hafa ferðazt um Danmörku, án þess að fá nokkurs staðar að greiða fyrir gistingu, án þess að eyða, svo nokkru næmi, fram yfir 40 kr. farmiða, sem gilti fyrir næst- um allt ferðalagið. Við erum orðin vön þvx að heyra í tíma og ótíma hamrað á því, hve Danir hafi undirokað Islendinga og mergsogið. Þetta vita allir, en nú gerist það ekki lengur, góðu heilli. Hins er öllu sjaldnar getið, sem við höfum gott þegið af þess- ari frændþjóð okkar. Það er síður en svo, að alþýða manna í Danmörku sé íslendingum óvinveitt. Sennilega hefur hún aldrei veriö það. En hún hefur til skamms tíma verið ófróð um land okkar og þjóð. Með vaxandi kynnum hefur þetta færzt til betri vegar. JÓLABLAÐ DAGS 25

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.