Dagur - 20.12.1979, Blaðsíða 2
Hin fegursta rósin er fundin
°g fagnaðarsœl komin stundin.
Er frelsarinn fœddist á jörðu,
hún fannst meðal pyrnanna hörðu.
Það var eiginlega stjarnan, sem
markaði upphaf jólanna.
Margt hafði þó gerzt, áður en
stjaman birtist vitringunum og
dýrð Drottins ljómaði um fjár-
hirðana í haganum.
Ýmis muna eftir frásögninni
um það, er engillinn flutti Maríu
boðskap Drottins. Og, ef þeir
hafa lært biblíusögur sínar nógu
vel, þá muna þeir líka eftir
spádómum Gamla testamentisins
um frelsarann, sem átti að fæðast.
Stundum er að þvi fundið, að
verið sé að kenna í skólum frá-
sagnir úr Gamla testamentinu.
Það sé boðskapur Jesú Krists,
sem máli skipti, og því sé
ástæðulaust að eyða dýrmætum
tíma í það að kenna þætti úr
fomaldarsögu Gyðingaþjóðar-
innar.
Aðrir telja óþarft með öllu að
vera nokkuð að kenna biblíusög-
ur, þar sem enginn Guð sé til.
Það sjónarmið er í sjálfu sér
skiljanlegt.
Nýlega hitti ég mann, sem ég
oft hefi séð á kristilegum fundum,
glaðan og áhugasaman. En nú
virtist hann mjög miður sín vegna
alvarlegra vandamála samtíðar-
innar og spurði, hvort ég héldi að
það væri nokkur veruleiki á bak
við boðskap kristindómsins.
Sannarlega er margt í þessari
tilveru, sem ekki virðist í fljótu
bragði staðfesta boðskapinn um
algóðan og almáttugan Guð.
Jafnvel hinir beztu og greindustu
trúmenn — og kannski einmitt
þeir — hljóta stundum að finna til
efa í hjarta sínu og spyrja, eins og
kunningi minn, hvort nokkur
vemleiki sé á bak við fagnaðar-
boðskap kristindómsins.
Hann var heldur ekki bjartur
alltaf, sá veruleiki, sem blasti við
fjárhirðum Gyðingalands forð-
um. Lífsbarátta þeirra var hörð
og miskunnarlaus. I stöðugri bar-
áttu við villidýr og stigamenn
drógu þeir fram lífið við hinn
þrengsta kost, og munu sumir
þeirra jafnvel sjálfir hafa gripið til
rána og ofbeldisverka, til þess að
bæta auma lífsafkomu sína.
Ef einhver hefði reynt að segja
þeim, að tilveran öll sé í hendi
algóðs og almáttugs Guðs, hefðu
þeir ekki skilið það.
En Guð notaði aðra aðferð.
Hann notaði ljósið — hið fagra og
máttuga táknmál, sem allir skilja.
Þegar dýrð Drottins ljómaði
um fjárhirðana, hlutu þeir að fara
rakleitt til Betlehem til að sjá það,
er þeim hafði verið kunngjört.
Hvernig gátu þeir, undir slíkum
kringumstæðum, efast um þann
veruleika, sem er á bak við fagn-
aðarboðskap jólanna.
Eflaust hafa hinir gáfuðu og
upplýstu vitringar verið ennþá
efagjarnari. En líka þeir létu
sannfærast af hinu bjarta ljósi
jólastjörnunnar, svo að þeir hófu
langa og erfiða för á eftir stjörn-
unni, unz þeir fundu sjálft jóla-
bamið, sem stjarnan fékk birtu
sína frá.
Atburðir hinnar helgu nætur
eru alltaf að endurtaka sig í lífi
mannanna, það mikla undur, er
kærleiksljós Guðs skín í myrkri
mannlegrar tilveru.
Hver þekkir ekki af eigin raun
syndarmyrkur breyzkrar samtíð-
ar og sinnar eigin sálar. Það hefir
reyndar ekki verið vel séð á síðari
árum að tala mikið um synd. En
ekki þurfum við þó lengi að leita,
hvorki í fréttum samtíðarinnar né
í fylgsnum okkar eigin sálar, til
þess að skilja þann sannleik, sem
fólginn er í orðum hins gamla
jólasálms:
Upp frá því oss saurgaði syndin,
og svívirt var Guðs orðin myndin,
var heimur að hjálprœði snauður
og hver einn í ranglœti dauður.
„Nei, heyrðu nú;“ myndu nú
eflaust margir vilja segja.
„Er þetta ekki að draga upp
fulldökka mynd? Varla er heim-
urinn svona slæmur. Ertu búinn
að gleyma síðustu söfnun, og svo
ótalmörgu öðru, sem gert er til að
hjálpa og líkna nauðstöddum
heimi? Er það ekki staðreynd, að í
samtíð okkar megi finna ótal
dæmi, ekki bara um synd og
mannvonzku, heldur og um
fómfýsi, kærleika og vináttu;"
Nei, ég var ekki búinn að
gleyma þessu. Og skáldið gleymdi
heldur ekki:
Þá skaparinn himinrós hreina
i heiminum spretta lét eina
vorn gjörspilltan gróður að bceta
og gjöra hans beizkjur sœta.
Nei, við skulum ekki gleyma
öllu því fagra og góða, sem til-
veran er líka svo rík af. Einmitt
þess vegna höldum við heilög jól,
til þess að fagna rósinni, sem
skáldið talar um, honum, sem
fæddist meðal harðra þyrna
mannlífsins og leið og dó og reis
aftur upp frá dauðum til þess að
gefa okkur nýtt kærleikslögmál,
nýja trú og nýja von.
Margt er í samtíð okkar örðu
vísi heldur en það ætti að vera. En
boðskapur jólanna byggist á
veruleika, sem hafinn er yfir alla
mannlega synd, sorg og neyð.
Megi algóður Guð gefa okkur
náð til að varðveita þann boðskap
og gera hann að lifandi veruleika
í lífi okkar, svo að við ávallt get-
um sagt með skáldinu:
Þótt heimur mig hamingju sneyði,
þótt harðir mig þyrnarnir meiöi,
þótt hjartanu af hrellingi sviði,
ég held þér, mín rós, og ei kvíði.
Guð gefi okkur öllum gleðileg
jól.
Örn Friðriksson.