Dagur - 20.12.1979, Qupperneq 28
FRÁSAGNIR MARGRÉTAR FRÁ FJALLI:
Fyrstu sýnir
ÞAÐ var vetur og víðast myrkur í
gamla bænum. Foreldrar mínir
voru frammi í fjósi en hitt fólkið
inni í baðstofu. Einhverra hluta
vegna var ég ein inni í búri. Þannig
háttaði til, að tvö búr voru á bæn-
um og var venjulega borðað í innra
búrinu. Þaðan var gengið í gegn um
fremra búrið og þar fyrir framan
var hlóðaeldhús og úr því langur
gangur inn baðstofu og þaðan var
einnig gengið inn í fjósið.
Ég var að stjákla þarna í búrinu
og hef sennilega ekki þorað að fara
í myrkrinu inn í baðstofu. En ljós-
geislinn í innra búrinu, þar sem ég
var, féll fram um fremra búrið og
alveg fram í eldhúsið.
Allt í einu sá ég hvar maður stóð
frammi í eldhúsinu. Hann var í
mórauðri peysu og móleitum bux-
um. Hann hélt á einhverju, sem
hann brá upp í ljósgeislann, eins og
til að sjá það betur. Ekki sá ég
framan í hann, en taldi víst að þetta
væri faðir minn, þangað kominn úr
fjósinu, einhverra hluta vegna. Ég
var því ekkert hrædd.
En þegar foreldrar mínir komu
úr fjósi, spurði ég föður minn hvort
hann hefði farið inn í eldhús, en
hann sagðist ekki hafa komið
þangað fyrr en nú. Sagði ég for-
eldrum mínum þá frá manninum,
sem ég hafði séð, en þau sögðu
ekkert. Ég minntist ekki meira á
manninn við þau.
Sumarið eftir var ég einu sinni
úti stödd, sem oftar og var eitthvað
að hoppa og leika mér. Þannig
háttaði til, að ofan við túnið var
stórt hesthús og við hliðina á því
var fjárrétt. Mér varð litið upp að
réttinni og sá þá, að þar stóð maður
upp við réttarvegginn. Ég sá hann
greinilega, enda var bjart og sól-
skin. Hann var í móleitum fötum.
Ekki mun ég hafa virt hann lengi
fyrir mér, því ég var leika mér með
eitthvert dót.
Þegar ég kom inn spurði ég
móður mína, hvað frændi (föður-
bróðir) væri að gera upp við rétt.
Mamma sagði, að hann væri ekki
þar því hann hefði farið í kaupstað
snemma í morgun og um aðra gat
ekki verið að ræða, því faðir minn
og vinnumaðurinn voru heldur
ekki heima.
Ég mun hafa verið fimm eða sex
ára þegar ég sá þessar fyrstu sýnir.
Öskrið í þokunni
Það var þoka og hún var dimm eins
og veggur og þá var okkur Guðnýju
sagt að sækja hrossin. Við Guðný
löbbuðum af stað en fundum ekki
hrossin og fórum fram Lágar. Þok-
an var ekkert lamb að leika sé við,
fannst okkur, því maður sá næstum
ekkert frá sér. Hrossin sáust hvergi,
slæmt skyggni, eins og sagt er nú til
dags.
Við vildum ekki gefast upp og
héldum því áfram, lengra upp
brekkurnar, gengum síðan suður
yfir Taglið, sem liggur frá brekku-
brúninni niður að Hádegisholtinu.
Við vorum búnar að ganga ansi
langt, að okkur fannst og fundum
ekki hrossin. Okkur datt þá í hug,
að kannski hefði þau farið suður í
Fífulág og væru þá sennilega kom-
in saman við stóðið og ræddum við
um þetta fram og aftur.
Ætluðum við nú að hvíla okkur
litla stund og settumst á þúfur. En
þá, allt í einu, var sem þokan
sveiflaðist frá og við sáum á sama
andartaki langt frá okkur. En við
sáum ekki hrossin, því þau voru
ekki í sjónmáli.
En við sáum annað. í barði
skammt frá okkur sáum við ein-
hverja skepnu, nautgrip, sýndist
okkur einna helst. Þó fannst okkur
ekki líklegt, að nautgripur væri þar
einn og ekki fóru heimakýmar á
þennan stað, svona langt upp í
brekkuna.
Við gláptum á þetta ofurlitla
stund og skildum ekki neitt I neinu.
En þá heyrðum við þetta ógurlega
öskur, sem nísti merg og bein. Þá
biðum við ekki boðanna en hlup-
um heim í einum spretti. Sögðum
við farir okkar ekki sléttar þegar
heim kom. Móðir mín tók sig þegar
upp og fór sjálf til að forvitnast um
þessa skepnu og hrossin, en sá
hvorugt og var þó öll þoka á bak og
burt.
Þegar mamma var rétt komin úr
leiðangri sínum, án þess að verða
nokkurs vísari, kom gestur einn
heim, sem sagt var að Þorgeirsboli
fylgdi.
Oft hef ég umgengist naut og til
þeirra heyrt og þau láta oft til sín
heyra svo um munar, en aldrei hef
ég heyrt annað eins nautsöskur og
að framan er frá sagt og við syst-
urnar heyrðum sunnan og ofan við
Kambakot fyrir 55 árum síðan.
Ópið
Dag einn var veðrið svo gott og
kyrrt, að ekki bærðist hár á höfði og
Guðný systir mín kallaði á mig og
sagði mér að koma út í þetta góða
veður. Hún sagði mér, að það ætti
að binda votaband utan úr mýrun-
um daginn eftir og að hún ætti að fá
að fara með og ríða á Grána. Hún
var ákaflega glöð yfir því að fá að
takast þetta trúnaðarstarf á hendur,
og svo yfir því að fá reiðhestinn
hans pabba.
Sunnan við engjarnar sem fylgja
Kambakoti er stór spilda, sem til-
heyrir Ytri-Ey. En Ytri-Ey stendur
neðan við núpinn, sem er vestan
við Kambakot. Síðustu viku hafði
fólkið frá Ytri-Ey verið við heyskap
á sínum engjateig. Búið var að setja
mestallt heyið upp í sæti, en síðan
átti að flytja það heim.
í dag var sunnudagur og enginn
víð heyskap. Við systur stóðum á
hlaðinu og vorum víst að ræða um
landsins gagn og nauðsynjar. En þá
barst okkur til eyrna hræðilegt óp.
Hafði ég aldrei heyrt neitt líkt
þessu áður, og enn hef ég aldrei
annað eins óp heyrt og er þó orðin
aldin að árum. Mig vantarorð til að
lýsa þessu, en það var sem blóðið
storknaði á æðum mér.
Ég þóttist alveg viss um, hver
væri að hljóða. Ég heyrði ekki bet-
ur en stúlka, sem þá átti heima á
Ytri-Ey væri að hljóða svona
voðalega. Ég hljóp inn til mömmu
og pabba og sagði þeim frá þessu,
sem við systur heyrðum báðar.
Fimm árum síðar lenti þessi
sama stúlka I hræðilegum lífs-
háska. Þykir mér líklegt, að við þær
aðstæður hafi hún hljóðað, en
annað er það, hvort eða hvernig
tengja á saman þetta tvennt.
Hljómleikar
„Komið þið út“, kallaði mamma
eitt sinn til okkar systra og ömmu.
Komið þið og hlustið, sagði hún,
það er verið að spila á hljóðfæri
niður á Núp. Við flýttum okkur út
til mömmu og 'úA heyrðum, að
leikið var á fleiri ealpitt hljóðfæri.
Tónarnir voru mjúki&og mér virt-
ust þeir helst stíga ogjtjúga í takt
við blæinn, sem strauk mjúkt um
vanga okkar. Ekki man ég til þess
að ég greindi neitt lag, sem verið
var að leika, en man aðeins hve
tónamir voru mjúkir og fagrir.
„Þetta er auðvitað Hanni“, sagði
mamma þegar við vorum búnar að
hlusta góða stund. En hann átti
heima á Ytri-Ey og átti litla
harmonikku.
Daginn eftir fór mamma niður
að Ytri-Ey og spurði þá hvort
Hanni hefði verið á ferð daginn
áður. Hún fékk það svar, að hann
hefði nú annað að gera en þvælast
með harmonikkuna upp á Núp og
var það móðir Hanna, sem varð
fyrir svörum og neitaði því alger-
lega, að hann hefði verið á ferð
með hljóðfæri sitt daginn áður.
Mér er sagt, að ég sé ekki
músíkölsk, en ég hef þó yndi af
þeirri hljómlist, sem mér finnst ég
skilja eitthvað í. Mér finnst, að sú
hljómlist sem við heyrðum og hér
var sagt frá, hafi ekki verið leikin á
venjuleg hljóðfæri og við heyrðum
á Kambakotshlaðinu. Og raunar
veit ég það nú, að önnur og
voldugri öfl en við þekkjum, voru
að verki þegar við heyrðum hljóm-
listina. Én dásamlegt er að hafa
orðið þess aðnjótandi, að heyra það
stutta stund sem svo óvenjulegt er
að fegurð.
Huldukindur
Það var komið langt fram á haust
og flestar kindur hafðar heima við
bæ. Ég man, að við mamma og
amma vorum að ganga frá slátur-
mat í tunnum. Ég man líka að
pabbi kbm til okkar og sagði, að
þeir piltar ætluðu að ganga niður á
Núp, því þar væru nokkrar kindur
og þyrfti að athuga hvaðan þær
væru. Að því búnu fór hann.
Neðan við túnið eru melar, sem
enda við Núpinn. Á melunum eru
eða voru þrír stórir steinar, líkir
húsum í lögun.
Eftir nokkum tíma komu piltar
heim og höfðu ekki átt erindi sem
erfiði.
Þeim sagðist svo frá, að er þeir
nálguðust kindurnar, sem hefðu
verið óeðlilega hvítar, hefðu þær
þotið af stað og allar farið að einum
steininum og horfið þar, svo
mennirnir komust aldrei nærri
þeim.
Um hæðir eða hóla á þessum
slóðum var ekki að ræða, og því var
líkast, að jörðin hefði gleypt féð,
eða sá steinn, sem það hljóp í átt til,
er mennirnir nálguðust.
Steinarnir munu standa þarna
enn og mér fannst það dálítið
skrýtið þá og mér finnst það skrýtið
enn, á hvem hátt kindurnar hurfu
inn í steininn, sem var, eftir því sem
ég best'veit, grjót í gegn.
Fólkið heima efaðist ekki um, að
þama hefði huldukindur verið.
Hvítklædda konan
Það mun hafa verið árið 1925, sem
eftirfarandi gerðist á Sæunnarstöð-
um í Hallárdal, en sú jörð er nú í
eyði, en þá voru foreldrar mínir
þar, þau Jón Klemensson og Guð-
rún Sigurðardóttir.
Faðir minn bað mig að skreppa
einhverra erinda niður á Árbakka.
Tók ég tvö rauð hross, sem heima
voru og hélt af stað niður að ánni.
Þegar ég kom niður á Taglið,
sem er fyrir neðan Vakurstaði og sá
yfir ströndina og Húnaflóa, logn-
sléttan og baðaðan sól, fannst mér
sem ég sæi inn í aðra veröld.
Mér leið framúrskarandi vel.
Hryssan, sem ég sat á, var viljug,
rauði folinn léttur í taumi og fugl-
amir sungu. Allt var bjart og fagurt
og það komst ekkert annað að í
mínum huga en að njóta stundar-
innar sem lengst og best.
Þegar ég kom niður á götuna á
milli Vindhælis og Árbakka lét ég
þá rauðu greikka sporið og var
brátt komin svo nærri Árbakka, að
ég sá vel heim og það sem gerðist
þar.
Ég sá hvar hvítklædd kona kom
heiman frá bænum og gekk hægt
niður syðri traðarbrúnina. Horfði
ég á hana og var að hugsa um, hvað
hún væri í drifhvítum búningi.
Þannig hagaði þá til sunnan við
tröðina, neðarlega á túninu, að þar
var hesthús og þurfti að fara fram
hjá því til að komast í hliðið.
Konan fór á bak við húsið, frá
mér séð, en hún kom ekki í augsýn
aftur. En eftir dálitla stund kom
unglingsstúlka heiman frá bænum
og gekk nákvæmlega sömu leið og
hvítklædda konan hafði gengið
stuttri stund áður. Ég horfði á
stúlkuna, en hún kom í ljós aftur,
eftir að hafa gengið bak við hest-
húsið, svo sem eðlilegt var og fór
síðan í gegn um hliðið. Hún var að
fara í kaupstað og hélt áfram sem
leið liggur.
Ég fór heim í Árbakka og rak það
erindi, sem mér var falið og hélt
heim að því loknu. Ekki man ég til
að ég ræddi þetta atvik við neinn
heima. Ég var þá búin að átta mig á
því, hver þessi hvítklædda kona
var, en það var móðir ungu stúlk-
unnar, sem var að fara í kaupstað-
inn og hafði móðirin andast vetur-
inn áður. Og það var dóttirin, sem
gekk í spor móðurinnar á traðar-
barminum þennan dag.
Litli, rauði boli
Hann var snemmborinn, fæddist
hálfan mánuð af vetri, rauður
bolakálfur með svartar granir. Það
var strax ákveðið að láta kálfinn
lifa, enda mjólkaði móðir hans 20
merkur í mál og þá var nú ekki
gefinn fóðurbætir.
Litli boli var settur í stíu og það
fór vel um hann þar og ekkert
sparað við hann, enda fór honum
vel fram og hann var ljómandi fal-
leg skepna, glansandi á belginn og
mesta augnayndi.
Þessi kálfur átti að verða kyn-
bótanaut, en það fer ekki allt sem
ætlað er og svo fór hér.
Móðir mín sagði einn daginn
þegar hún kom úr fjósi, að kálfur-
inn væri veikur og ekki hægt að sjá
hvað að honum væri, enda gæti
haim ekki staðið upp. Ég man þetta
eins og það hefði skeð fyrir
skömmu, þótt síðan séu liðnir ára-
tugir.
Ég fór fram í fjós og þar lá sá
rauði i stíunni sinni og stundi sáran.
Þegar skepnur stynja, eru þær langt
leiddar.
Það var ráðslagað fram og aftur
og niðurstaðan varð sú, að kálfur-
inn væri svo illa farinn, að ekki
væri um annað að gera en að lóga
honum og það var gert.
Þá kom í ljos, að hann var
hryggbrotinn og lærhnúturnar voru
brotnar og allur var kálfurinn mar-
inn að aftan. Mikið var um þetta
talað, sem von var, en skýring
fékkst aldrei á þessum atburði, og
var þó af fremsta megni leitað or-
saka og hugsanlegra orsaka.
Hann gekk afturábak
Þegar við hjónin fluttum til Akur-
eyrar, bjuggum við fyrst hjá mág-
konu minni, Sigrúnu, í Helga-
magrastræti 5 í lítilli íbúð. Það var
gengið úr eldhúsi fram í stofuna.
Við hjónin sváfum í stofunni.
Víglundur, maðurinn minn, fór
snemma á fætur og vann við sútun
norður á Gleráreyrum, í verk-
smiðjum Sambandsins. Hann
skildi ævinlega eftir ljós í eldhúsinu
þegar hann fór á morgnana og það
var opið inn í stofuna.
Nú bar það við eitt sinn þegar
Víglundur var farinn í vinnuna og
ég ekki komin á fætur, að ég sá
mann standa í eldhúsdyrunum.
Mér varð svo mikið um, að ég
stirðnaði af hræðslu. Maðurinn var
mjög greinilegur og ég þekkti hann
þegar í stað, þótt hann sneri í mig
baki. Breiðu herðarnar og rauða
hárið leyndi sér ekki.
Á meðan ég lá þarna, máttlaus af
hræðslu, gekk hann afturábak í
áttina til mín, inn stofugólfið, hægt
og ógnvekjandi. Hann kom nær og
nær og ég horfði á hann með
ólýsanlegri skelfingu, svo mikilli,
að ég hefði gengið af vitinu, ef ég
hefði horft framan í hann.
Eitthvert erindi átti hann, en ég
vissi ekki hvað það var. Þegar hann
kom að'rúmi mínu, henti hann sér
yfir fætur mér og hvarf í sama bili.
Um leið fór af mér máttleysið svo
mikið, að ég komst fram úr rúminu,
en ætlaði þó að hníga niður og varð
að styðja mig við.
Ég var lengi að ná mér eftir
þennan atburð. í fjögur ár hafði ég
verið þessum manni samtíða, áður
en hann lést, drukknaði 1932. En
sýnina sá ég 1958.
Á meðan okkar leiðir lágu sam-
an, hafði ég grun um að honum
litist vel á mig, en ég tók það ekki
alvarlega og mun jafnvel hafa gert
gaman eða grín að þessu. Afsökun
mín er ekki önnur en sú, hve ung ég
var.
Hvort hann var að hefna sín
svona mörgum árum síðar, veit ég
ekki, en hefnd hans var þá talsvert
hörð því ég tók atburð þennan
nærri mér og bað af öllu hjarta fyrir
sál hans.
28 . DAGUR