Dagur - 09.12.1989, Blaðsíða 4

Dagur - 09.12.1989, Blaðsíða 4
4 - DAGUR - Laugardagur 9. desember 1989 ÚTGEFANDI: ÚTGÁFUFÉLAG DAGS SKRIFSTOFUR: STRANDGATA 31, PÓSTHÓLF 58, AKUREYRI, SfMI: 96-24222 SÍMFAX: 96-27639 ÁSKRIFT KR. 1000 Á MÁNUÐI • LAUSASÖLUVERÐ 90 KR. GRUNNVERÐ DÁLKSENTIMETRA 660 KR. RITSTJÓRI: BRAGI V. BERGMANN (ÁBM.) FRÉTTASTJÓRI: KRISTJÁN KRISTJÁNSSON. RITSTJ.FULLTRÚI: EGILL H. BRAGASON. UMSJ.MAÐUR HELGARBLAÐS: STEFÁN SÆMUNDSSON. BLAÐAMENN: ANDRÉS PÉTURSSON (íþr.), KARL JÓNSSON (Sauðárkróki vs. 95-35960), INGIBJÖRG MAGNÚSDÓTÍÍR (Húsavík vs. 41585), JÓHANN ÓLAFUR HALLDÓRSSON, ÓSKAR ÞÓR HALLDÓRSSON, STEFÁN SÆMUNDSSON, VILBORG GUNNARSDÓTTIR, LJÓSM.: KRISTJÁN LOGASON. PRÓFARKAL.: SVAVAR OTTESEN ÚTLITSH.: RlKARÐUR B. JÓNASSON. AUGLÝSINGASTJ.: FRlMANN FRlMANNSSON. DREIFINGARSTJ.: HAFDlS FREYJA RÖGNVALDSDÓTTIR, HEIMASlMI 25165 FRAMKVÆMDASTJÓRI: HÖRÐUR BLÖNDAL PRENTUN: DAGSPRENT HF. Fangelsismál í ólestri? Sl. fimmtudag birti Dagur viðtal við Óla G. Jóhannsson, myndlistar- mann á Akureyri, sem nýlega lauk sex mánaða afplánun í fangelsiT Viðtal þetta hefur vakið mikla athygli, ekki síst vegna þess að afar fágætt er, ef ekki einstakt, að maður sem setið hefur í fangelsi sé tilbúinn til að ræða reynslu sína og skoðanir á íslenskum fangelsis- málum opinberlega, án þess að skýla sér bak við nafnleynd. Fyrir bragðið er líka full ástæða til að taka þær fjölmörgu ásakanir alvar- lega, sem hann setur fram í viðtal- inu. Óli fullyrðir að víða sé pottur brotinn í fangelsismálum hér á landi. í fyrsta lagi séu öll fangelsi á íslandi yfirfull. í öðru lagi sé skipu- lagi sérfræðingaþjónustu í fangels- um mjög ábótavant. í þriðja lagi fái afplánunarfangar ekki þá með- höndlun sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt. í fjórða lagi sé aðbún- aður fanga víða mjög bágborinn og sums staðar fyrir neðan allar hellur. Þetta eru alvarlegar ásakanir en Óli nefnir fjölmörg dæmi máli sínu til stuðnings. Hvað aðbúnað fanga í Hegningarhúsinu við Skólavörðu- stíg varðar, kemur t.d. fram að þrír fangar eru um hvern tveggja manna klefa að jafnaði. Fangarnir eru lokaðir inni í klefunum frá miðnætti og fram til morguns, en samverustaðirnir þess á milli eru þröngir fangelsisgangarnir. Tvisv- ar á sólarhring, hálftíma í senn, fá þeir síðan að fara út í fangelsis- garðinn. „Margir eru feimnir við að fara út í garðinn, því yfir honum gnæfa bankahús og íbúðabygging- ar og fólk getur séð hverjir eru þarna. Fangar eiga ekki að vera sýningargripir en í fangelsisgarð- inum eru þeir eins og apar í dýra- garði, “ segir í viðtalinu. Ennfremur kemur fram að vegna þrengsla eru afplánunarfangar látnir dvelja í Hegningarhúsinu við Skólavörðu- stíg á daginn en geymdir eins og einangrunarfangar í Síðumúla- fangelsi yfir nóttina. „Þeir eru síð- an fluttir á milli í handjárnum kvölds og morgna, teymdir út á Skólavörðustíginn, sem er ein fjöl- farnast gata í Reykjavík. Það er óhemju mikil niðurlæging að láta teyma sig í handjárnum frammi fyrir vegfarendum, tvisvar á dag, ekki síst þegar fangarnir hafa rétt á allt annarri meðhöndlun sam- kvæmt lögum. “ Um hreinlætisaðstöðuna á Skóla- vörðustígnum segir Óli m.a.: „Hreinlætisaðstaðan er fyrir neðan allar hellur. Fljótlega þurfti ég að biðja lækninn um pensilín því ég steyptist allur út í bólgum og greftri. Ég vissi ekki hvað þetta var en fangarnir bentu mér á að þetta væru flóabit. Þegar maður kveikir ljós á nóttunni eru veggirnir oft á hreyfingu, því það er svo mikið af silfurskottum þarna." Þá bendir hann á að einungis tvö salerni eru fyrir alla fangana á Skólavörðu- stígnum og skólpleiðslurnar utanáliggjandi úti í fangelsisgarð- inum. Sl. sumar hafi skólp pressast út úr samsetningum á rörinu og lekið út í garðinn og fangarnir hafi síðan gengið í skólpinu frá sjálfum sér. Óli G. Jóhannsson, kemur inn á fjölmargt fleira í viðtalinu, sem verður þó ekki rakið frekar hér. En ljóst er að ef hann bregður þar upp raunsannri mynd af stöðu fangels- ismála í landinu í dag, eru þau í fullkomnum ólestri. Eða eins og hann kemst sjálfur að orði: „Ég held það væri hollt fyrir dómsmála- ráðherra og heilbrigðisráðherra að setjast niður og skoða refsigeirann og fangelsismálin. Þarna er verið að meðhöndla sálir manna, líf manna. Það hlýtur að vera keppi- kefli að gera manninn betri, en eins og staðan er í dag gerir refs- ingin ekkert annað en að dýpka sárin og gera mennina bitrari út í þjóðfélagið." Undir það skal tekið að full ástæða er fyrir dómsmálaráðherra að láta fara fram úttekt á stöðu þessara mála. Ásakanirnar sem fram koma í fyrrnefndu viðtali eru út af fyrir sig ærið tilefni til að slík úttekt verði gerð. BB. ra til umhugsunar Er flugstarfsemin að færast úr landi? Föstudagurinn 27. október hefur nú fengið heitið „Svartur föstu- dagur“ í flugsögu íslands. f>á var 30 mönnum úr stjórnunarstöð- um hjá Flugleiðum sagt fyrirvaralaust upp störfum. Til brott- rekstrarins voru valdir eldri menn sem margir hverjir höfðu helg- að flugstarfsemi, fyrst hjá Flugfélagi íslands eða Loftleiðum og síðar Fiugleiðum, lengstan starfsaldur sinn. Fæstir þeirra voru komnir að eftirlaunaaldri enda ekki farin sú leið sem oft er notuð þegar fækka þarf störfum og endurskipuleggja rekstur að ráða ekki í störf þeirra sem hætta vegna eftirlauna eða leita sjálfviljug- ir til annarra viðfangsefna. í byrjun þessa áratugar áttu Flugleiðir við mikinn vanda að etja vegna aukinnar samkeppni um lágjalda farþega á flugleiðinni yfir Atlantshafið. Viðskiptavinum fækkaði og draga varð saman í rekstri sem sneri að Vesturálfu. Það leiddi meðal annars af sér að ríkið varð að styðja verulega við bakið á Flugleiðum og einnig varð að segja mörgu fólki upp störfum. Þá sagði Sigurður Helga- son, eldri þáverandi forstjóri og núverandi stjórnarformaður Flugleiða, eitthvað á þá leið í krefjandi sjónvarpsviðtali að óskemmtilegt væri að þurfa að beita uppsögnum. Hann líkti ástandinu við erfiðleika er sköpuðust víða á landsbyggðinni þegar síldin hvarf síðla á sjöunda áratugnum. Nú hefur enginn kröfu- harður fréttamður spurst fyrir um þessar uppsagnir Svarta föstu- dagsins. Þjóðfélagsumræðan snýst ekki um flugmálin á sama hátt og þá. Nú gilda aðrar stjórnunaraðferðir og þykir ekki tiltökumál þótt henda verði nokkrum tugum fólks fyrirvaralaust á gaddinn. Bakgrunnurinn Forsögu þessa máls má rekja aftur til tíma „göm!u“ flugfélag- anna. Flugfélag íslands var óskabarn þjóar í landi er varð að taka nýja tækni í þjónustu sína ef hún ætlaði að halda nauðsynlegum samskiptum við meginlöndin. Loftleiðir voru óskabarn duglegra flugáhugamanna sem hösluðu sér völl í farþegaflugi til að nýta áhuga sinn og þekkingu í daglegum störfum. Starfsemi Flugfé- lagsins miðaðist við að sinna þeim þörfum sem landsmenn höfðu til erinda erlendis en Loftleiðamenn sköpuðu sín starfsskilyrði með því að bjóða far á lágum gjöldum yfir Atlantshafið og opn- uðu gluggann til Ameríku ef svo má að orði komast. Eftir að stjórnvöld skikkuðu Flugfélag íslands og Loftleiðir í eina sæng á sínum tíma skapaðist togstreita milli aðstandenda „gömlu“ félaganna þar sem margir þeirra voru ósáttir við þessa breytingu. Eflaust má færa rök fyrir því að þessi óeining hafi ekki alltaf verið félaginu til góðs og þegar grípa hefur orðið til óvin- sælla athafna hafa þessir armar komið upp á yfirborðið. Nýverið lét maður úr hópi yfirmanna Flugleiða hafa eftir sér að þessir brottreknu væru flestir eftirlegukindur frá tímum „gömlu" félag- anna og gaf þannig beinlínis í skyn að best hefði verið að losna við þá. En hvað boða hreinsanirnar sem fram fóru 27. október? Var eingöngu verið að beita nútíma stjórnunaraðferðum til að losna við gamlar eftirlegukindur eða innanhússímynd Flugfélags íslands og Loftleiða af skrifstofum félagsins eða býr eit'.hvað ann- að og meira að baki? Flugflotinn Eftirlegukindur „gömlu“ félaganna eru víðar en í hópi stjórn- enda, skrifstofumanna og flugliða. Flugfloti félagsins á ekki síður rætur í fyrri tíma. Hann hefur staðið saman af tveimur ólíkum gerðum flugvéla. Boeing 727 vélum sem Flugfélag íslands notaði og Douglas DC8 vélum frá Loftleiðum. Flotinn er einnig kominn til ára sinna, einkum „átturnar“, og því orðin knýjandi nauðsyn að endurnýja hann. Hvert mannsbarn getur í sjálfu sér séð hvaða átak er að endurnýja allan millilandaflota Flugleiða svo að segja á einu bretti. Það er ljóst að ekki má mikið útaf bera til að rekstur, sem standa þarf undir slíkum fjárfestingum á skömmum tíma, fari úr skorðum. Stjórnendur Flugleiða gera sér grein fyrir þessum hættum. Því hefur verið unnið að uppbyggingu verkefna fyrir nýju vélarnar sem koma nú til landsins hver af annarri. Ný ímynd Loftleiðir komust á legg á lágjaldamarkaði og unnu alla tíð á þeim vettvangi. Þá buðu fá flugfélög slíka þjónustu á Atlantshafs- leiðinni og margir farþegar sáu sér leik á borði að spara og ferðast með íslenska félaginu þótt það notaði skrúfuvélar eftir að þotur urðu algengar í millilandaflugi. Þessi lággjaldaímynd fylgdi félag- inu eftir sameininguna. Hingað til hefur það unnið á þessum markaði og flutt fólk á Apex og Pex fargjöldum milli heimsálfa. Með tilkomu mikilla fjárfestinga í nýjum og glæsilegum flugflota er það mat stjórnenda að þessi lágu fargjöld dugi ekki til reksturs hinna nýju véla. Það verði að finna annan markað og ti! þess að það takist verði að skapa félaginu nýja ímynd. í nýlegu viðtali við Pétur Eiríksson, forstöðumann markaðs- mála hjá Flugleiðum kom fram að hin nýja ímynd felist í að gera félagið að flugfélagi þeirra farþega sem borga full fargjöld. I því felst að félagið ætlar að skapa sér ímynd og grundvöll meðal far- þega sem ferðast í viðskiptaerindum milli landa. Einn þáttur í þessari nýju mynd er að breyta endastöðvum Ameríkuflugsins og færa hluta þess frá Luxemburg til miðstöðvar Skandinavíu á aust- urströnd Svíþjóðar. Með því telja Flugleiðamenn sig ná betur til þeirra farþega sem félagið ætlar að reiða sig á í framtíðinni. SAS: fyrirmynd - samkeppni - samstarf Þegar horft er til þeirra breytinga sem unnið er að á innviðum og ímynd Flugleiða fer ekki hjá því að hugurinn hvarfli til SAS flugfélagsins síðla á síðasta áratug. Þá tók nýr forstjóri Jan Carl- son við rekstri þess og hófst þegar handa við endurskipulagningu. Hann lagði sig eftir að ná til farþega úr viðskiptalífinu og gerði miklar kröfur um þjónustu og stundvísi. Carlson kom einnig fram með nýja stjórnunarsiði og skrifaði bók um þá sem heitir „Að rífa píramídana“. Hann vildi einfalda tröppukerfi og koma á beinna sambandi milli stjórnenda og starfsfólks. Fyrirmyndir að endur- eftir Þórö Ingimarsson. skipulagningu Flugleiða virðast að nokkru sóttar til SAS. Flug- leiðir eru einnig að hefja aukna samkeppni við norræna risann með tengingu Stokkhólms og Washington. Ef samkeppnin reyn- ist illa má hugsa sér að félagið geti breytt henni í samstarf og tryggt sér þannig stuðning hins stóra félags ef erfiðleikar steðja að. íslenskir farþegar íslenskir flugfarþegar eru að miklum meirihluta lággjalda farþeg- ar. Viðskiptaheimur okkar er ekki það stór að tiltölulega fáir ein- staklingar ferðast héðan og hingað sem telja sér hentugast að greiða hæstu fargjöld. Áróðurs hefur einnig gætt að ríkisstarfs- menn í erindagjörðum hins opinbera eigi ekki að ferðast á hæstu fargjöldum þótt þau bjóði viss þægindi og þjónustu umfram önnur. Flugleiðir verða því að leita á önnur og erlend mið með hina nýju ímynd sína. Þá vaknar sú spurning hvað verði um hina venjulegu íslensku farþega sem fara út fyrir pollinn. Við erum algjörlega háð flugi með samgöngur við önnur lönd. Lágfargjöld hafa gert ferðalög að almenningseign og íslendingar eru ekki til- búnir að leggja þau niður. Á hinn bóginn er Ijóst að stór hluti þeirra hefur ekki getu eða er tilbúinn til að borga full fargjöld. íslenskir flugfarþegar eru að miklum hluta Apex- og leiguflugs- farþegar sem koma ekki til með að notfæra sér þá þjónustu sem Flugleiðir eru að setja á oddinn með nýrri ímynd sinni. Er flugstarfsemin að færast úr landi? íslendingar halda áfram að ferðast. Ef Flugleiðir hætta að sinna lággjalda- og leiguflugsmarkaðinum eða minnka framboð á sæt- um til muna leita landsmenn einfaldlega annað. íslensku ferða- skrifstofurnar, sem eru utan ramma Flugleiða, munu einfaldlega semja við erlend flugfélög um leiguflug frá íslandi til hinna ýmsu staða Evrópu og jafnvel vestur um haf. Helgi Jóhannsson, frarn- kvæmdastjóri Samvinnuferða/Landsýnar, kom að þessum málum í sjónvarpsviðtali fyrir skömmu. Hann sagði meðal annars að þegar Samvinnuferðir þyrftu að leggja allar sínar áætlanir fyrir þann aðila sem ætti aðra stærstu ferðaskrifstofu landsins og væri þar með stærsti samkeppnisaðilinn, kæmi sterklega til álita að leita til annarra flugfélaga um flutning íslendinga til annarra landa. Það er því til umhugsunar hvort þörfin á að endurnýja flugflota Flugleiða leiði beinlínis til þess að félagið verði að sinna verkefn- um í öðrum löndum í framtíðinni en erlend flugfélög komi til með að flytja íslendinga til útlanda í framtíðinni.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.