Dagur - 31.10.1992, Side 9

Dagur - 31.10.1992, Side 9
Laugardagur 31. október 1992 - DAGUR - 9 Elínborg Jónsdóttir kennari á Skagaströnd - segir við barnaskólann á Eyrarbakka og sótti um og fékk. Pað var margt gott á Eyrarbakka, en ég var ung og óreynd og ég var dálítið lengi að átta mig á ýmsu sem ég er farin að kynnast betur núna í þorpslífinu. Ég kenndi margar námsgreinar. Það kom mér á óvart í hvaða námsgrein fólki þótti ég standa mig best, en það var handavinna. Það hefði mér aldrei dottið í hug. Þetta voru stríðstímarnir og það var erfitt að fá efni og ég held að ég hafi verið viljug að sjá út hvað var hægt að gera úr litlu efni og nota það sem til var. Stelpurnar voru áhugasamar og komu mikið til mín og ég hafði gaman af því.“ Kjarkurinn endurheimtur á Hvammstanga - Þú hefur ákveðið að hætta á Eyrarbakka eftir veturinn? „Já, en ég var óákveðin í hvað gera skyldi. Næsta vetur kenndi ég lítið og var mest heima. En sumarið þar á eftir var kom- ið til mín og ég beðin að kenna unglingum á Hvammstanga. Þar var bara barnaskóli og sérstaklega margar stúlkur sem höfðu nýlokið honum. Mæðurnar langaði að hafa þær heima en láta þær samt læra og ég var beðin að kenna þeim. Þarna voru tíu stúlkur og einn piltur. Skólinn var kostaður af for- eldrunum og til þess að þau þyrftu ekki að borga alltof mikið var ég beðin að kenna líka við barnaskólann. Mér leið vel veturinn á Hvammstanga og endurheimti kjarkinn' sem ég hálfmissti á Eyrarbakka. Um vorið voru aðeins þrjú börn sem tóku fullnaðar- próf og þau voru of fá til að halda áfram með þessa kennslu. Þá fór ég að litast um eftir kennarastöðu og var mest að hugsa um einhvern stað hérna nálægt til þess að geta komist heim á Másstaði. Það var auglýst staða hér á Skagaströnd. Þá byrjaði ég að kenna hér, það var árið 1945, og ég hef ver- ið hér síðan. Ég var ákveðin í að vera ekki alltaf að flytja, ég var þreytt á flakkinu.“ Einhleypur kvenmaður byggir hús - Hvernig leist þér á Skagaströnd? „Mér leist strax vel á mig. Mér fannst Skagaströnd líkari Eyrarbakka en Hvamms- tanga, sem er kannski af því að þetta eru gamlir verslunarstaðir. Á Hvammstanga var fólkið nýkomið úr sveit. Hér hefur margt verið bæði gott og vont, en líklega meira af því góða. Eg er hér enn. Ég flutti hingað á nýsköpunarárunum. Það átti að byggja hér fyrirmyndarbæ og græða á síldinni. Það var verið að byggja síldarverksmiðjuna og mikl- ar vonir um að hér yrðu miklar framfarir og fólksfjölgun.“ - Byggðir þú þetta hús fljótlega eftir að þú komst hingað? „Fjórum árurn seinna. Það var ákaflega erfitt að fá húsnæði og lélegt húsnæði sem við mamma fengum fyrst þegar við vorum hér. Við urðum að bjarga okkur sjálfar og ég gæti sagt þér margar sögur af húsnæðinu sem við vorum í og fólkið bjó í þá. Þau hús eru nú flestöll farin. En fólki fjölgaði mikið á þessum árum og einnig börnum í skólan- um. Húsið mitt var teiknað sem einbýlishús en getur verið tvær íbúðir. Það þótti geysilega einkennilegt hjá einhleypum kvenmanni að ráðast í það að byggja hús. Ég hefði aldrei lagt í þetta hefði ég ekki átt góða að. Frændi minn Yngvi Gestsson teiknaði húsið og var yfirsmiður og Þorsteinn Guðmundsson fóst- urbróðir minn var líka við smíðina allt það sumar. Um haustið gekk okkur mömmu ákaflega illa að fá nokkurs staðar inni, en loks var okkur lofað að vera í húsi sem verk- smiðjan átti. Við stefndum að því að flytja hingað fyrir jól og gerðum það, daginn fyrir Þorláksmessu held ég. Það var allt ómálað og við fluttum daginn eftir að kveikt var upp í miðstöðinrii. Það var heldur kuldalegt. Og við fengum gest, það var Oddný Guð- mundsdóttir sem kenndi út á Skaga, hún gisti hjá okkur. Þá var erfitt og dýrt að fá allt sem til þurfti til bygginga. En þeir frændi minn og fóstur- bróðir sögðu að ég borgaði þeim bara þegar ég gæti. Það var ótrúlega erfitt að fá margt á þessum tíma. Til dæmis var vont að fá ljósa- perur, við áttum tvær. Það var verið að leggja miðstöð hérna og ágætir menn sem unnu við það. Einn þeirra sem ég hafði mjög lítið talað við og þekkti ekkert vék sér að mér og færði mér peru. Þá fékk ég jóla- gjöf sem er ein sú minnisstæðasta sem ég hef fengið.“ Hefði viljað vinna í físki - Hvað með viðhorf til einhleypra kvenna? „Einhleypar konur áttu ekki margra kosta völ, en sumar reyndu þó furðanlega að bjarga sér. Guðrún föðursystir mín sagði við mig að ég skyldi læra, ég skyldi verða saumakona og ljósmóðir og þá gæti ég séð fyrir mér sjálf og svo gæti ég gift mig ef mér dytti það í hug. Ég hugsaði mér að ég gæti nú kannski séð fyrir mér líka ef ég væri kennari og mér datt aldrei í hug að fá mér mann til að sjá fyrir mér þó ég væri ekki mótfallin hjónabandi. En ég varð til dæmis vör við það að þegar fyrst kom hér giftur og barnlaus kennari var verið að tala um að hann þyrfti miklu meira en ég. Ég benti á að ég væri með móður mína heilsulitla og það þótti fólki vera allt annað. Og kvenfólki hér fannst að yfir sumartímann þyrfti ég ekki að vinna fyrir kaupi. Ég hafði mitt kennara- kaup. Eg sá nú dálítið eftir því, ekki af því að mig langaði svo mikið til að vinna í fiski, heldur vegna þess að mér finnst ég ekki hafa kynnst lífinu hérna nógu vel með því að vinna ekki í frystihúsinu eins og aðrar konur. En verkalýðsfélagið og konurnar voru algerlega á móti því og ég gerði ekkert í því. Það eina sem ég gerði var að salta svo- litla síld. En síldin hvarf því miður.“ Kennsluhættir þá og nú - Er ekki margt ólíkt í kennslunni þá og nú? „Jú, allur ytri búnaður er auðvitað ger- ólíkur. En það tel ég nú aldrei aðalatriði þó gott sé að hann hefur mikið batnað. Það var sannast að segja margt frumstætt hér áður. En það sem ég tel mest til framfara er að það er viðurkennt að það eigi að taka tillit til þeirra sem á einhvern hátt standa höllum fæti. Er ég nú að taka of djúpt í árinni? Mér fannst að minnsta kosti að margir annars ágætir kennarar tækju alltof lítið tillit til misjafnrar getu og áhugamála hjá nemend- um. Ég veit að margir kennarar reyndu ýmislegt til bóta og ég reyndi mikið, þó það tækist oft miður en skyldi. Mér var þetta alltaf hugstætt að það þyrfti að gera meira fyrir ýmsa en gert var. Þetta hefur breyst. Sérkennsla hefur aukist mikið, en vissulega er hún vandmeðfarin eins og annað. Ég held að það mætti láta einstaklinginn njóta sín betur inni í bekkjunum. Eins er farið að tala meira um fyrirbrigði eins og einelti sem allt- af hefur verið til í skólum og virtist vera eitt af því sem ekki mátti tala um. Það var að vísu ekki algilt, en mér fannst það vera ríkj- andi viðhorf." Þær fylgdust að - Þið mæðgurnar voruð mjög samrýmdar? „Mamma gat helst aldrei af mér séð og var alltaf með mér nema veturinn sem ég var á Geitaskarði. Hún var líka með mér veturna sem ég var í Reykjavík. Oddný systir mín ráðskona hjá pabba og svo kom- um við heim strax og skólanum lauk. Það var auðvitað misjafnlega litið á þetta. Eftir að pabbi dó 1947 var jörðin leigð. 1955 fór- um við mamma aftur að reyna að búa á Másstöðum að einhverju leyti, vorum alltaf fram frá á sumrin og heyjuðum. Þá sló ég með orfi og ljá. Það voru hjón á jörðinni með sínar skepnur sem hirtu skepnurnar fyrir okkur á veturna. Það voru mest þrjár kýr og ég man ekki hvort kindurnar náðu nokkurn tíma tuttugu. Þetta stóð til 1961.“ Nú á Elínborg Másstaði og er þar á sumrin. Halldóra dó árið 1977 eftir nokk- urra ára veikindi. Hún vildi ekki fara á spítala og Elínborg annaðist hana að mestu sjálf og minnkaði við sig kennsluna vegna þess. Hún sagði að fólki hefði fundist að hún ætti að láta móður sína fara á sjúkra- hús, en hún gat ekki til þess hugsað að senda hana þangað gegn vilja hennar. Ættfræði og annað grúsk Eftir lát móður sinnar fór Elínborg að kenna fulla kennslu á ný, þar til hún sagði upp störfum árið 1985. Það varð þó ekki úr að hún hætti störfum, hún var beðin að starfa við bókasafn skólans og kenna í stundakennslu og hún lét til leiðast. Hún kennir yngri nemendum að nota bókasöfn. Ég hafði heyrt það út undan mér að hún væri á kafi í ýmsum fræðum með starfinu og bað hana að segja mér frá því. „Já, ég hef alltaf haft gaman af að grúska í einhverju. Ég hef alltaf sagt að ég sé eng- inn bókasafnari, hafi aldrei keypt bók sem ég þarf ekki nauðsynlega á að halda. Ég las mikið og kunni mikið af ljóðum og þótti gaman að ýmsum fræðum. Mamma hafði dálítið gaman af ættfræði. Þegar bróðir hennar skrifaði henni frá Ameríku og bað hana um ættartölu setti mamma mig í það. Þá fór ég nú að grúska svolítið og byrjaði þá í ættfræðinni. Það er ekki gott að grúska í ættfræði hér á Skagaströnd, þar er ekkert safn sem gagn er að fyrir ættfræðinga. Ég hef keypt allmikið af ættfræðibókum og fengið talsvert ljósritað. Þegar ég sagði kennarastöðunni lausri 1985 var ég hálfpart- inn að hugsa um að fara aðallega að grúska, en það varð lítið úr því. Ég fór að safna saman um búendur og fjölskyldufólk í Vindhælishreppi hinum forna. Vindhælis- hreppi var skipt í þrjá hreppa og náði yfir það sem nú er Vindhælishreppur, Höfða- hreppur og Skagahreppur. Þetta varð þó aldrei nema drög og þau mjög ófullkomin. En þar er ýmiskonar fróðleikur kominn en ekki nálægt útgáfu eða þessháttar. Þetta er nær því að vera æviskrár en búendatal.“ „Ég tel mig ennþá Vatnsdæling“ - Myndirðu vilja hætta í skólanum og helga þig grúskinu? „Ég veit það ekki. Þetta hefur verið að vega salt hjá mér. Mér þykir gaman að vera með börnum. Ef ég helga mig grúski alger- lega verð ég að fara burt þangað sem er betri aðstaða." - Ertu búin að skjóta rótum á Skaga- strönd? „Þeir segja nú að ég sé ekki orðinn Skag- strendingur enn og það er líklega rétt. Eg tel mig ennþá Vatnsdæling. - Hvað hefurðu grúskað annað en ættar- tölurnar? „Það seinasta sem ég var að fást við var um búendur á eyðibýlum, eða býlum sem voru tiltölulega skamman tíma í byggð. Ég var einu sinni byrjuð að taka saman um ekkjur og börn þeirra sem fórust í sjóslysinu 1887. Það var mikið sjóslys hér og ég var að hugsa um hvað hefði orðið um fólkið sem lifði af. En það er óvíst að ég komi því nokkurn tíma af. Allt mitt grúsk er í skötu- líki.“ Elínborg vill alls ekki varpa fram stöku fyrir mig, en viðurkennir að hafa látið eitt og annað flakka þvíumlíkt. Við höfum drukkið marga kaffibolla og spjallað vítt og breitt. Að lokum sýnir Elínborg mér útsýn- ið í kvöldsólinni og segist hafa haft það í huga þegar hún byggði húsið að þaðan sæist yfir í Vatnsdalinn. Það er eins og hún segir, heimabyggðin á sterk ítök þrátt fyrir ára- tuga dvöl annarsstaðar.

x

Dagur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.