Þjóðviljinn - 02.12.1988, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 02.12.1988, Blaðsíða 8
Sovétríkin Ný og umdeild stjórnskipunarlög Æösta ráð Sovétríkjanna samþykkti í gær umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni, nýmæli sem Míkhafl Gorbatsjov segir aö séu lífsnauðsynleg fyrir nýsköpunina eystra, glasnost og perestrojku. Það vakti athygli fréttamanna að 5 af 1.500 þingfulltrúum greiddu atkvæði gegn ákvæðum sem sætt hafa gagnrýni frá íbúum Eystrasalts- ríkja og Grúsfu. 27 voru fjarri. Eru umræddar greinar sagðar skerða sjálfstæði lýðvelda og færa aukið vald til Moskvu. Fréttamenn höfðu hraðan á og grófu það upp að mótatkvæðin voru lettnesk en fjarvistirn- ar eistneskar og litáeskar. Áður en þingheimur gekk til atkvæða í gær kvaddi Gorbatsjov sér hljóðs og eggjaði menn lögeggjan að greiða götu stjórnarbótanna. „Þær munu leiða okkur inní nýtt skeið sögu vorrar, tímabil lýðræðis og alþýðuvalda. Allir geta verið fullvissir um að þeir munu njóta virðingar og leitast verður við að leysa hvers manns vanda í sátt og samlyndi þegnanna." Pakistan Benazír hefst til valda Eftir ellefu ára krossför og sjálfsafneitun rættust draumar Benazírs Bhuttos í gær þegar forseti Pakistans, Ghulam Ishaq Khan, útnefndi hana forsætisráðherra landsins. Þetta er fyrsta sinni að kona verður höfðingi þjóðar sem trúir á Allah og tignar Múhameð, spámann hans. Gífurleg fagnaðarlæti brustu á í og við höfuðstöðvar Pakistanska alþýðuflokksins (PPP) þegar félögum barst gleðifréttin til eyrna; for- inginn hafði hreppt hnossið. Flugeldum var skotið á loft og stiginn léttur dans. Benazír sver embættiseið í dag en heldur því aðeins velli að löggjaf- arsamkunda landsins fallist á skipun hennar innan tveggja mánaða. PPP hefur á að skipa fjölda þingsæta en skortir nokkur í meirihluta. Fullvíst er talið að ýmsir smáflokka vilji ólmir veita Benazír brautar- gengi og getur hún því horft vondjörfum augum fram á veg. Og það þótt helsti fjandi hennar, leiðtogi fslamska lýðræðisbandalagsins, Nawaz Sharif að nafni, hyggist reyna að bregða fæti fyrir hana. Júgóslavía Óglatt sjötugsafmæli Júgóslavar minntust þess í gær að sjötíu ár eru liðin frá stofnun ríkisins. íslenskt fullveldi og júgóslavneskt eru sem sagt jafnaldra. Eftir seinni heimsstyrjöld var dagur þessi Iöngum lítt í hávegum hafður af ráðamönnum, kommúnistanum Tító og arftökum hans. Var haft á orði að 1. des. hefði markað upphaf „rotins borgararíkis" og „sannkailaðrar dýflissu alþýðunnar." En nú er annar uppi þótt sumum finnist nokkuð seint um rassinn gripið að halda uppá ríkisstofnun þegar ríkissundrung blasir við. En hvað um það, tímamótanna var minnst með ýmsum hætti, fundarhöld- um, blaðagreinum og sjónvarpsþáttum. Það voru þó engin ærsl á mannskapnum. Verðbólga er 236 prósent í Júgóslavíu, atvinnuleysi landlægt sem og ókyrrð á vinnumarkaði. Og allir sem fylgjast með fréttum vita að miklar væringar eru með Serbum og Albönum, svo miklar að við liggur að allt fari í bál og brand. JOLABASAR Jafnframt sölusýningu okkar höldum við jólabasar, nú um helgina, á glerblástursverkstœðinu. Þar verða seldir lítið útlitsgallaðir glermunir (II. sortering) á niðursettu verði. Verkstœðið er opið frá kl. 10—18, laugardag og sunnudag. Verið velkomin Sigrún & Sören ÍBERGVlK Bergvik 2, Kjalamesi 270 Varmá, sítnar 666038 og 667067. _______AÐ UTAN_________ Hvað verður um UNUA-Jónas? UNITA neitarað viðurkenna friðarsamning annarra stríðsaðila ísuðvestanverðriAfríku í hartnær þrjá áratugi hafa geisað stríð í Afríku suðvestan- verðri. Namibísk sjálfstæðis- hreyfing, SWAPO, hefur að minnsta kosti annað veifíð háð skæruhernað gegn Suður- Afríkustjórn og haft til þess grið- land og bækistöðvar í Angólu. I Angólu stóð lengi grimm styrjöld milii Portúgals og angólskra sjálfstæðishreyfínga, en ekki var henni fyrr lokið en sjálfstæðis- hreyfíngarnar tóku að berjast innbyrðis og hefur svo gengið allt fram á þennan dag. Portúgalar áttu um langt árabil í þremur nýlendustríðum sam- tímis, í Angólu, Mósambik og portúgölsku Gíneu, sem nú heitir Gínea-Bissá. Um síðir tók þeim að leiðast þófið, svo að þeirgerðu sína blómabyltingu og kvöddu herinn heim frá nýlendunum, sem þá urðu sjálfstæð ríki. En í Angólu tók ekki betra við fyrir það. Angólumenn eru að sjálf- sögðu ekki „þjóð“ f evrópskum skilningi orðsins, fremur en íbúar flestra annarra Afríkuríkja. Þeir skiptast í marga þjóðflokka og ættbálka, sem sumir eru að vísu það fjölmennir að með nokkrum rétti mætti kalla þá „þjóðir“ á evrópska vísu. Það á líka við víðar í Afríku. í Angólu sem víðar í álfunni hafði þessi skipting í marga þjóðflokka og ættbálka í för með sér sundrungu, sem óvíða varð landsmönnum svo skaðvænleg sem í Angólu. Ólíkar sjálfstæðishreyfíngar Sjálfstæðishreyfingarnar þrjár, sem barist höfðu gegn Portúg- ölum, voru Alþýðuhreyfingin til frelsunar Angólu, Þjóðfylkingin til frelsunar Angólu og Þjóðar- samband algers sjálfstæðis Ang- ólu, betur þekktar sem MPLA, FNLA og UNITA, sem eru skammstafanir heita þeirra á portúgölsku. FNLA nauteinkum fylgis fólks af Bakongóþjóð- flokknum, sem fjölmennur er í norðurhluta landsins, en einnig í Vestur-Zaire og Suður-Kongó. Bakongómenn eru stoltir nokkuð af sjálfum sér og sögu sinni, því að um 1500 höfðu þeir all- myndarlegt konungsríki er náði yfir stór svæði báðumegin ósa Kongófljóts. Það ríki leið undir lok er það komst í klemmu milli Portúgala, sem komu sjóleiðina, og annarra Bantúþjóðflokka er sóttu að innan úr landi. FNLA- menn voru fyrst og fremst bak- ongóskir þjóðernissinnar, hald- nir kynþáttahatri gegn hvítum mönnum og fjandsamlegir öllu portúgölsku, þar á meðal ka- þólskri trú. í MPLA, eða að minnsta kosti í upphaflegum kjarna þeirrar hreyfingar, var hinsvegar margt kynblendinga hvítra manna og svartra og blökkumanna, sem orðnir voru portúgalskir að máli og menningu og að miklu leyti lausir við ættbálkatengsl. Þar sem hreyfingin var þannig ekki á áberandi hátt tengd nokkrum þjóðflokki öðrum fremur, átti hún auðveldara en hinar með að höfða til landsmanna almennt, meðan baráttan gegn Portúg- ölum gekk fyrir þjóðflokkarígn- um. Foringi með Guevarahúfu Gagnstætt þessum hreyfingum tveimur var UNITA í upphafi fyrst og fremst einkafyrirtæki for- ingja síns, Jonasar Savimbi. Hann er maður metnaðargjarn og þegar honum hafði mistekist að komast til forustu f hinum hreyfingunum, ákvað hann að byrja sjálfstætt. I stríðinu við Portúgala var lítið um afrek af hálfu UNITA og meira að segja kváðu liðsmenn hennar stundum hafa barist með þeim gegn MPLA. Sú hreyfing efldist þeim mun meir að áhrifum á kostnað hinna sem Iengur leið á sjálfstæð- isstríðið og að sögn Portúgala voru liðsmenn hennar miklu bet- ur agaðir og harðari bardaga- menn en FNLA-liðar, sem voru fremur hryðjuverkamenn en her- menn. Fáleikar voru alla tíð milli sjálfstæðishreyfinganna þriggja, og ekki var portúgalski herinn fyrr farinn 1975 en upp úr sauð á milli þeirra. MPLA var þá öfl- ugust og hafði stærsta hluta landsins, þar á meðal höfuðborg- ina Luanda, á sínu valdi. FNLA hafði örugga fótfestu aðeins í norðri, á landi Bakongóþjóðflokksins. Og nú fyrst færðist UNITA verulega í aukana. Jonas Savimbi var dug- legur að koma sér á framfæri per- sónulega, tók Castro sér til fyrir- myndar um skeggvöxt og gekk með samskonar húfu og Che Gu- evara. Honum kom nú að góðu haldi að hann er af Ovimbundu- þjóðflokknum, sem býr í miðju landi og er fjölmennastur þjóð- flokka landsins. Tókst Jónasi þessum út á það að ná talsverðu fylgi. Þar sem MPLA telst vera marxísk, höfðu Vesturlönd á henni illan bifur og brugðu Bandaríkin og Suður-Afríka við títt til stuðnings hinum hreyfing- unum, einkum UNITA, þar sem þeim leist gæfulega á Jónas og auk þess áttu Suður-Afríkumenn auðveldara með að veita honum stuðning, þar eð Namibía liggur að Angólu í suðri. Suður-Afríkumenn og Kúbanir koma Sovétmenn voru á hinn bóginn hlynntir MPLA og sendu henni í skyndingu mikið magn nýtísku þungavopna. Bandaríkjamenn og Suður-Afríkumenn ákváðu þá að freista þess að slá MPLA niður með það sama, áður en henni gæfist tóm til að treysta varnir sínar. Gerðu Suður-Afríkumenn umbúðalaust innrás í Angólu að sunnan, en Bandaríkjamenn lögðu til vopn og borguðu brús- ann að miklu leyti. Af hálfu MPLA varð lítið um varnir, enda voru skæruliðar hennar óvanir reglulegum vígvallahernaði og kunnu lítt á sovésku vígtólin. Þegar hér var komið skárust Kúbanir í leikinn og tókst þeim furðufljótt að flytja allmikið lið loftleiðis til Luanda. Þeir höfðu góðan her, enda skipti skjótt um við komu þeirra. Þeir snerust fyrst gegn FNLA, sem sótti að Luanda úr norðri, gersigruðu lið þeirrar hreyfingar í skjótri svipan og snerust síðan gegn Suður- Afríkuher og UNITA í suðri. Þar varð viðureignin harðari, en Suður-Afríkumenn hættu fljótt sókninni og drógu sig til baka, sumpart vegna harðrar viðstöðu Kúbana, en öðrum þræði vegna þess að Bandaríkjamenn, sem svo skömmu eftir Víetnamstríðið voru frábitnir því að flækjast í nýjar styrjaldir, snögghættu stuðningi við sókn bandamanna sinna. Stríð og kampavínsfriður Stjóm MPLA í Luanda hlaut nú almenna viðurkenningu sem stjórn sjálfstæðrar Angólu, en friður komst ekki á fyrirþví. Her- Jonas Savimbi - jafnt vinir sem óvinir vilja losna við hann. sveitum Angólustjórnar og Kú- bana tókst ekki að uppræta skær- ulið Jónasar, sem naut fylgis síns meðal Ovimbundu, auk þess sem Bandaríkin og Suður-Afríka slepptu aldrei af honum hend- inni. Frá þeim fékk hann vopn og aðra hjálp og Suður-Afríkuher veitti honum þar að auki meiri eða minni beinan stuðning. Gerðu suðurafrískar hersveitir hvað eftir annað árásir langt inn í Angólu og höfðu stundum lang- tímum saman bækistöðvar í landinu sunnanvert. Þannig gekk það hvorki né rak í stórum dráttum þangað til fyrir allskömmu, að Bandaríkin, Ang- ólustjórn, Kúba og Suður- Afríkustjórn komust að þeirri niðurstöðu sameiginlega, að þetta borgaði sig ekki lengur og settust að samningaborði. Eftir mikið þjark í Genf varð að samkomulagi að Suður-Afríka skyldi sleppa yfirráðum sínum í Namibíu gegn því að Kúba kall- aði her sinn heim frá Angólu. Allir aðilar virðast jafnhressir yfir samkomulagi þessu, að minnsta kosti kunnu samnings- nefndirnar sér ekki læti fyrir fögnuði, þegar það hafði náðst, og héldu upp á árangurinn með kampavínsdrykkju. Þar skáluðu hver við annan í dýrum veigum og af fyllsta bróðurkærleik ang- ólskir og kúbanskir marxistar og kommúnistar og suðurafrískir apartheidsinnar. Fýluför til Pretóríu Einn ófriðaraðila var þó fjarri þessu góða gamni og sá enga á- stæðu til fagnaðar, en sá var UNITA-Jónas. Bandamenn hans höfðu haldið honum fyrir utan viðræðurnar, að öllum líkindum sökum þess, að hann vill ekki sætta sig við neitt minna en drjúga hlutdeild í völdum í Ang- ólu, en vitað var að Angólustjórn var ekki til viðræðu um svoleiðis nokkuð. Jónas kom til Pretóríu, annarrar höfuðborgar Suður- Afríku, í þann mund og Suður- Afríkustjórn staðfesti samkomu- lagið frá Genf fyrir sitt leyti. Sennilega hefur erindi UNITA- foringjans verið að reyna að herja áframhaldandi stuðning út úr bandamönnum sínum, hvað sem öllum samningum liði. En hann fór frá Pretóríu án þess að tala við fréttamenn, og er það ólíkt honum. Þykir það benda til þess að hann hafi ekki haft erindi sem erfiði. Annað bendir líka til þess að bandarískum og suðurafrískum ráðamönnum sé full alvara með það að gefa Jónas upp á bátinn. í heimsfréttum er því nú haldið fram, að Hassan annár, Marokk- ókonungur, hafi boðið UNITA- leiðtoganum að gerast pólitískur flóttamaður hjá sér. Kóngur þessi hefur lengi haft góð sam- bönd við Bandaríkjamenn, og er því ekki ólíklegt að tilboð þetta sé undan þeirra rifjum runnið. En ekki er víst að þeim og Angólu- stjórn takist að losna svo billega við Jónas, því að enn sem komið er lætur hann engan bilbug á sér finna. Segist hann hafa samkomulagið frá Genf að engu og sendir fréttastofum daglega frásagnir af frægðarverkum, sem hann kveður skæruliða sína vinna í hemaðinum gegn her Angólu- stjórnar. Sú stjórn hefur fyrir sitt leyti boðið öllum þorra UNITA- liða full grið, gegn því að þeir láti af vígaferlum, en ekki mun það tilboð ná til Jónasar. Dagur Þorleifsson 8 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 2. desember 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.