Þjóðviljinn - 14.04.1989, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 14.04.1989, Blaðsíða 10
KLIPPT OG SKORIÐ Síðumúla 6-108 Reykjavík - Sími 681333 Útgefandi: Útgáfufélag Pjóðviljans Ritstjórar: Árni Bergmann, Mörður Árnason, Silja Aðalsteinsdóttir Umsjónarmaður Nýs Helgarblaðs: Sigurður Á. Friðþjófsson Fréttastjóri: Lúðvík Geirsson Útllt: Þröstur Haraldsson Auglýsingastjóri: Olga Clausen Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson Verð: 125 krónur Vinstrablað og vinnudeilur Þjóðviljamenn fá stundum að heyra það, að blað þeirra sé ekki nógu hart og og grimmt og ákveðið í kjaradeilum. Og þetta er, vel á minnst, alls ekki ný kvörtun. Einu sinni var sá tími, að það þótti jafngilda róttækni að taka undir kaupkröfur yfirleitt, hver sem fram bar, hvort heldur flökunarfólk eða flugmenn. Einskonar sjálfvirk kjarahyggja sagði sem svo, að allir sem hétu launamenn ættu rétt á meira kaupi - og þeir sem nú þegar hefðu sæmileg laun væru með sinni baráttu barasta að búa í haginn fyrir aðra. Allir áttu að heita á samstiga gönguferð upp á tind hinna góðu kjara. Það er vitanlega langt síðan menn áttuðu sig á því að þetta dæmi gengur ekki upp. Ekki síst vegna þess að launamunur og kjaramunur hafa haft tilhneigingu til að vaxa, ekki síst nú á hægrisveiflutímum. Og þá kemur upp nýr vandi hjá vinstrisinnum: hvaða kröfur finnast okkur brýnar, hvaða kröfur sanngjarnar og hverjar mega bíða? Við þessu fást aldrei þau svör sem duga í eitt skipti fyrir öll. Bæði vegna þess að allir kjarahópar eru - hvort sem mönnum líkar það betur eða verr- mjög samtengdir: hver passar upp á annan og vill ekki leyfa að aðrir „komist fram úr“ eða að „við drögumst aftur úr“. Einmitt þessi saman- burðarfræði þýða, að vinstriflokkar og blöð þeim tengd eru einatt í mjög erfiðri stöðu: ef tekið er rösklega undir tilteknar kröfur vekur það upp afbrýði hjá öðrum hópum sem segja: hafið þið engan skilning á OKKAR málum ? Það er í rauninni borin von að vinstrablað geti svo vit sé í fellt skýra dóma um kjarakröfur tiltekinna stéttarfélaga. Með öðrum orðum: slíkt blað getur ekki tekið að sér einskonar starfsmat. Það getur ekki metið í kaupstigum röksemdir þær, sem mikið eru notaðar í samningavið- ræðum um mikla ábyrgð þessa hóps, um streitu sem fylgir störfum annars, um mat á menntun til launaflokka. En (Detta þýðir vitanlega ekki, að pólitískt blað á vinstri- armi vísi kjarakröfum samtaka launafólks frá sér sem einhverju óþarfa þrasi. Vitanlega verður það að taka af- stöðu til þeirra - og þá fyrst og fremst frá því sjónarmiði, að þessu tiltölulega ríka samfélagi sé skylt að tryggja öllum þegnum sínum það líf, sem við skulum voga okkur að kalla mannsæmandi - eins þótt það orð sé stór- skaddað orðið af ofnotkun. Hvað er þá nauðsynlegast og hvað er helst að varast? Það ber að varast að láta atvinnurekendur sleppa við að þeirra frammistaða og samkrull á rekstri og einkaneyslu séu tekin á beinið (alltof oft tekst þeim að kasta öllum sínum syndum á bak við ríkisvaldið). Það ber að varast að breyta um áherslur í málflutningi eftir því hvort „okkar menn“ eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á að talsmenn þeirra sem eiga í kjaradeilum fái gott rúm fyrir sín rök, hvort sem menn nú vilja samþykkja allt sem þeir segja eða ekki. Það er, sem fyrr segir, rétt að forðast að flækja sig í starfsmat. En leggja þeim mun meiri áherslur í eigin málflutningi á mikilvægi hvers þess skrefs sem stigið er til jafnari kjara. Og gleyma því aldrei, að kjör eru miklu fleira en í krónutölu felst. Hér skal því ekki haldið fram að Þjóðviljinn hafi í öllum greinum og á öllum tímum fylgt slíkri stefnu hnökralaust og út í æsar. En hvað sem frávikum eða mistökum líður: þetta sem nú var rakið hefur, þegar á heildina er litið, verið meginkjarninn í viðleitni blaðsins í verklýðsmálum og svo mun enn. Selirnir koma! „Um þetta leyti ár hvert ráðast selir hundruðum þúsunda saman inn á hafsvæðið norðan við Lóf- óten. Þeir ógna allri tilveru íbúa Norður-Noregs.“ Þetta er upphaf á grein í In- formatíon á þriðjudaginn sem heitir „Selirnir koma“, og heldur áfram: „Meðan heimurinn æsir sig yfir því að Norðmenn skuli drepa litla „saklausa" selkópa bíða íbúar Norður-Noregs með sárum kvíða árlegrar innrásar selanna. í fyrra voru þeir nærri miljón. Samhang- andi skán af selum þakti hafið frá Vardö í norðri til Lófóten í suðri, á þúsund kílómetra svæði.“ Og greinarhöfundar vitna í nítján ára sjómann frá Balsfirði, Dag Olsen, sem segir: „Það voru selir alls staðar en hvergi fisk að finna. Og selirnir leggja ekki bara veiðarnar í rúst, þeir eyðileggja líka netin fyrir okkur. Við lifum af hafinu. Ef stjórnvöld vilja ekki fækka selum þá neyðast þau til að fækka íbú- um Norður-Noregs.“ Þessi plága hefur staðið í ellefu ár. Þarna er um að ræða Græn- landssel sem ekki hefur lengur síld og loðnu til að lifa á í Barents- hafi og leitar fæðu annars staðar. Á Finnmörku líta menn á selinn sem undirrót alls ills, þeir fæla fiskinn frá og þar með grunninn undan atvinnulífi. Fiskurinn farinn Málið er ekki að selirnir séu of margir heldur eru fiskarnir of fáir, segir sjávarlíffræðingur við háskólann £ Osló: „Jafnvægi í vistkerfi norður- hafa hefur verið raskað. Norsk fiskveiðistefna er hreint út sagt fáránleg. Stjórnvöld hafa leyft mokveiðar á loðnu, en loðnu- stofninn er orðinn svo lítill að eðlileg fæðukeðja hafsins er að slitna. Loðna og síld eru undir- staða lífs í norðurhöfum.“ Lausn vandans felst að hans mati í að stöðva alveg veiðar á síld og loðnu, ekki aðeins í Bar- entshafi eins og gert var 1986, heldur líka við Jan Mayen og ís- land. Þá væri lífinu lokið í Norður- Noregi, segir Dag Olsen. Þegar gamanið kárnar Thor Vilhjálmsson skrifar í Morgunblaðið í gær greinina „Glitsnúrugorgeir" um mál Þóris Stephensens staðarhaldara í Við- ey gegn Halli Magnússyni blaða- manni. Hann rekur aðdraganda málsins, þegar dráttarvél var látin slétta yfir leiði í kirkjugarð- inum í eynni og „allt var fært svo úr lagi að ekki sá á neinu lengur skil“, og segir svo: „Þá gerist það að ungur blaða- maður reis upp í heilagri vandlæt- ingu og sagði hug sinn skorinort um þetta atferli. Það skín í gegn hve mikið blaðamanninum er niðri fyrir, og hann segir hug sinn tæpitungulaust; þó í lokin á grein hans sé að vísu bent á undan- ' komuleið fyrir hina seku til fyrir- gefningar, bæti þeir sitt ráð. Þá leið þáði presturinn ekki, hvað þá að hann rétti hinn vang- ann fram og væri minnugur þess boðskapar sem hann hefur haft framfæri sitt af að boða okkur hinum ... Klerkurinn beitir fyrir sig leigumálpípum úr lögmanna- stétt til að hóta bréflega sam- kvæmt tilteknum lagagreinum ýmist sektum eða varðhaldi... Þessi þula skal ekki rakin nema ég freistast til að skrá hér eina lagagreinina sem var veifað þá og seinna er beitt og er orðuð svo: „Hafi ærumeiðandi aðdróttun verið beitt að manni, sem er eða hefur verið opinber starfsmaður, og aðdróttunin varðar að ein- hverju leyti það starf hans, eða hún myndi baka honum, ef sönn væri (lbr.mín), embættis eða sýslunarmissi, þá skal slíkt brot sæta opinberri ákæru eftir kröfu hans.“... Margir kannast við þessa laga- grein, því hún hefur verið víða fest upp á stofuvegg hjá opinber- um starfsmönnum til að létta gestum í geði með gamanmálum, svo fáránleg þykir flestum greinin og fráleitt að henni yrði beitt að hún er höfð til afþreyingar, í stað þess að skelfast við slík ólög, væri gert ráð fyrir þeim möguleika að þeir menn fyndust svo óvandir að meðulum og vopnum að beita slíku.“ Kennslubókum kastað f nýjasta hefti Nýrra mennta- mála er merkileg frásögn eftir bandarískan kennslufræðing, Tom Fox, um að kenna börnum án kennslubóka. Hann segir þar frá tilraun sem hann gerði með 10 og 11 ára börnum að setja allar bækurnar í geymslu í byrjun skólaársins og nota veturinn til að komast að því hvernig þekking verður til: „Hvers vegna ákvað ég að kenna án skólabóka? Vegna þess, fannst mér, að þegar náms- bækurnar voru horfnar yrði ekki lengur litið á þekkinguna sem einhvern óumbreytanlegan sann- leika. í stað þess yrði kunnátta og skilningur eitthvað sem nemend- urnir sjálfir smíðuðu innra með sér. Og þegar hver og einn varð að færa rök fyrir máli sínu í áheyrn annarra og svara gagnrýni fæddist oft efi og óvissa eins og algengt er þegar menn þurfa að taka ábyrgð á því sem þeir telja sig vita.“ Tom Fox segir frá því hvernig hann kennir einstök fög án kennslubóka og segir að senni- lega hafi best tekist til í móður- máli og ritun. Þar var málið kennt með því að nota það, fyrst til ein- faldra lýsinga, loks til viðamikilla lýsinga og til að yrkja á því. „Þarna urðu til mörg falleg ljóð, kveðskapur sem margir nemend- ur sögðu mér löngu síðar að hefði verið með því besta sem þeir hefðu skrifað um ævina. Ég hlýt að trúa því því sumt var með því besta sem ég hef Iesið.“ „Leiksópur örlaganna“ í þessu hefti tekur Hákon Ósk- arsson kennari í MS saman sögur úr skólastofunni. Þar eru ýmis gullkorn, ekki síst um bók- menntir: „Sagan Svartfugl er lögð séra Eyjólfi til munns,“ segir einn nemandi, og bætir við: „Sr. Eyjólfur var leiksópur örlag- anna.“ Um annað öndvegisrit ís- lenskra bókmennta á vorri öld segir nemandi í ritgerð - og ratast kannski nokkuð satt á munn: „Ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið olli straumhvörfum þar sem fáir skildu um hvað hann fjallaði.“ Svo var efnafræðikennarinn að kanna viðveru nemenda í upphafi timans og heyrði ekkert svar frá Kristínu. „Ertu við, Kristín?" spyr hann. „Nei,“ svarar Kristín, „ég get aldrei verið við. ég er alltaf ein.“ SA 10 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ i Föstudagur 14. apríl 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.