Þjóðviljinn - 26.05.1989, Blaðsíða 18

Þjóðviljinn - 26.05.1989, Blaðsíða 18
„Erfiðustu tilvikin eru alltaf þau þegar maður getur ekki leyst vandamál semsjúklingurtrúir manni fyrir." Árni Björnsson yfirlæknir lýtalækningadeildar Landspítalans. Mynd: Jim Smart stækka eða slétta. Umfram allt vil ég leggja áherslu á að fegrunarlækningar svokallaðar eru aðeins hluti af lýtalækning- um, hluti sem ástæðulaust er að skammast sín fyrir, en samt aðeins hluti af lækningum á með- fæddum göllum, áverkum vegna slysa, illkynja æxlum og öðrum meginviðfangsefnum okkar. \ stóru löndunum er hægt að sérhæfa sig miklu meira en hér er hægt. Til dæmis geta menn, ef þeir hafa nógu mikinn andlegan styrk, fengist eingöngu við bruna. Brunaslys eru einhver alvarlegustu læknisfræðilegu vandamál sem gerast. Þú hefur kannski lesið í Morgun- blaðinu um daginn að það var ný- lega sett ræktuð húð á barn á Landakoti, í fyrsta skipti hér á landi. Húðræktun er eitt af því sem menn binda vonir við í sam- bandi við brunameðferð, að hægt sé að taka lítinn bút af heilbrigðri húð, stækka hann með því að setja hann í ræktun og láta hann svo gróa yfir sárin. Þetta er ein af merkilegustu nýjungunum á síðustu árum.“ Ekki þjóð án íslendinga- sagna Hvaða áhugamál stundarðu? Þau eru kannski dálítið mörg. Aðaláhugamál mitt tengt læknis- fræði eru erfðarannsóknir á sjúklingum með klofinn góm og vör, þær hef ég stundað með Alfreð Árnasyni líffræðingi á vegum Iýtalækningadeildarinnar og Blóðbankans. Fyrir nokkrum árum tókst samvinna milli okkar og erfðafræðirannsóknastofu í London (St Mary's Hospital) og árangurinn hefur birst í nokkrum erlendum tímaritum, nú síðast í bandaríska tímaritinu Cleft Palate Journal, sem er alþjóðlegt tímarit um fæðingargalla á höfði.“ Árni og Alfreð hafa tekið saman upplýsingar um nærri þrjú hundruð einstaklinga af sömu ætt og teiknað ættartré til að sýna hvar klofinn gómur og skarð í vör koma fyrir. Af þessu hafa þeir getað dregið ályktanir um hvernig þetta einkenni erfist og hvað ræður því. Ritstjórnar- greinin í bandaríska tímaritinu fjallar líka um rannsóknina sem ritstjóri segir vera þá merkustu sem hann hafi fengið í hendur í ritstjórnartíð sinni. En áhugamálin eru ekki bara frœðileg, eða hvað? „Nei, nei. Eitt af því sem ég hef stundað í mörg ár er hesta- mennska. Ég hef verið með hesta frá því um 1960 og farið í ferðalög á hestum vítt og breitt um landið. Ég ólst upp með hestum og frændur mínir í Fljótshlíðinni voru miklir hestamenn. Ég smitaðist - nema þetta hafi legið í blóðinu. Það fylgir þessu ákveðinn spenningur eins og skurðlækningum. Ég er líka nýfarinn að hafa gaman af að dútla úti í garði, en ég lít á það sem ellimörk. Svo hef ég alltaf haft gaman af bókum. Sem unglingur lá ég í alls konar bókum.“ En eftirað tíminn varð naumari til bóklestrar, hvað valdirðu þá? „Af íslenkum bókum hef ég mest lesið íslendingasögurnar og síðari tíma rithöfunda eins og Laxness og Þórberg. Svo les ég mikið af erlendum skáldverkum. Við stofnuðum nokkrir skóla- bræður úr menntaskóla lesklúbb fyrir mörgum árum sem heitir Skalla-Grímur, venjulega kallaður Skalli. Þegar vetur gengur í garð hittumst við einu sinni í viku og lesum hver fyrir annan, mest úr íslendingasög- unum en einnig mikið af öðru ís- lensku efni, svo sem ævisögum og ferðasögum.“ Finnst þér íslendingasögunum nœgilegur sómi sýndur? „Ég á erfitt með að dæma um það. Um daginn fór ég á ráðstefnuna Skáldskaparmál og mér kom á óvart hvað þar var margt ungt fólk sem hafði áhuga á þessum sögum, og sérstaklega hvað þetta unga fólk sem hélt fyrirlestra hafði skemmtilegar hugmyndir og flutti mál sitt vel. Miðað við það þurfum við ekki að vera hrædd um að þær séu að verða dauður bókstafur. Þegar ég var að alast upp var nánast ekkert sem truflaði. Maður lá í bókum þegar maður var ekki að vinna. Enginn skermur truflaði augað, útvarpsstöðin var bara ein. Þessi ógrynni af afþreyingu sem nú er boðið upp á voru hreinlega ekki til. íslendingasögurnar eru ekki beinlínis aðgengilegt lestrarefni og það þarf ekki að koma á óvart þó að þær séu ekki lesnar af hlutfallslega jafnmörgum og áður. Hins vegar er sannfæring mín að án íslendingasagnanna værum við ekki til sem þjóð.“ Hvað með skáldverk þessarar aldar? „Ég hef fram undir þetta ekki komist almennilega í samband við þessi nýjustu skáld.“ Við hverja áttu þá? „Þá meina ég, hvað eigum við að segja - þá sem koma eftir Thor Vilhjálmsson. Ef við lítum á þessa öld í heild þá er ekki hægt að segja annað en það sé mikil reisn yfir íslenskum skáldskap. Ég treysti mér ekki til að segja hvar toppurinn er, þó held ég að fyrir mig verði hann fyrir miðja öldina. Mér sýnist ekki að við höfum náð aftur sömu hæð og þá, þó að einstakir höfundar séu afskaplega athyglisverðir, til dæmis Guðbergur Bergsson, og þýðingar hans úr spönsku eru alger snilldarverk.“ Ég sá þýðingu á limru eftir þig í Lceknablaðinu - lestu mikið af Ijóðum? „Já það hef ég alltaf gert. Ég ólst upp með ljóðum Þorsteins Erlingssonar - sem bæði er eitthvað fjarskyldur mér og svo var gömul útgáfa af Þyrnum eitt það fyrsta sem ég las og lærði. Síðan hefur hann fylgt mér. Ég hef lesið mikið af ljóðum skáldanna fram yfir Snorra Hjartarson. Ég hef afskaplega gaman af Steini Steinarr, Tómasi reyndar líka og Villa frá Skáholti. Þetta eru allt saman snillingar. Þeir hafa yfir sér ákveðinn blæ, öðruvísi en aðrir. Þeir eru borgarskáld. Það er dálítið skrítið að Reykjavík, þetta sveitaþorp, skyldi geta skapað slík skáld. Reykjavík er meiri borg en maður gerir sér grein fyrir." Hefurðu fengist við skáldskap sjálfur? „Nei - ekki þannig. Þegar við vorum í menntaskóla voru allir að burðast við að yrkja, en mér hefur ekki fundist ég hafa erindi sem erfiði þegar ég hef reynt að berja eitthvað saman. En það er mikið af listunnendum í læknastétt, margir áhugamenn um tónlist og myndlist.“ Hvers vegna einmitt meðal lækna? „Til þess eru margar ástæður. Aðdáun á list fær mann til að gleyma þessu erfiða starfi - það er sjaldnar líkamlega erfitt en þreytir mann andlega. Þá er góð slökun að njóta listar. Læknis- fræðin er sett saman af mörgum þáttum. Við blöndum saman þekkingu, blekkingu og trú, og ef blandan verður trúverðug má kannski kalla hana læknislist! Við eigum líka menn sem hafa lagt sig sérstaklega eftir bókmenntum og kveðskap. Ég nefni til dæmis Þórarin Guðnason, Daníel Daníelsson á Dalvík og Kristin heitinn Björnsson. Þetta eru miklir mállistamenn.“ Pú œtlar ekki að blanda þér í þennan hóp? „Ég hef mestan áhuga á að skrifa það sem á ensku kallast essays. Það gætu verið áhrif frá Borges sem ég hef mikið lesið og sem skrifar stutt og hnitmiðað. Ég hef litla þolinmæði til að skrifa langt, en ég hef gaman af að skrifa stuttar greinar um alveg ákveðið efni, hvort sem það er bensínstöð á Álftanesi eða meðferð sára.“ Neysluþjóð- félagið ber dauðanní sér Pú skrifar um sérhæfð efni þannig að leikmaður á auðvelt með að fylgja þér og vill meira að lesa. Langar þig ekki til að skrifa sögur? „Ég hef aldrei haft löngun til að skrifa skáldsögu eða neitt svoleiðis. En ég hef gaman af að nota Læknablaðið til að setja ofan í við kollega mína og reyni að gera það góðlátlega...“ ...sem tekst ekki alltaf! „Það verður að vera smábroddur í því sem sagt er, annars heldur maður ekki athygli. Greinar sem ég skrifa í ham, þegar ég er reiður út af einhverju, þær læt ég liggja niðri í skúffu." Finnst þér veröldin slœm? „Ég hef áhyggjur af framtíð mannkynsins. Mér líður ekkert illa í þessu samfélagi; þó ber mikið á firringu og yfirborðs- mennsku. Það hlýtur að vera erfitt fyrir unglinga að einbeita sér vegna þess hvað það er margt sem berst að þeim. Ég á bæði börn og barnabörn og ég sé ekki hvernig þau eiga að standa í fæturna í öllu þessu róti. En mér finnst afskaplega gaman að hafa lifað þessa tíma. Það hefur orðið gífurleg bylting í lífsháttum manna. En ég er hræddur um að neysluþjóðfélagið beri dauðann í sér. Við tölum um mengunina, götin á ósonlaginu, við tölum um hættuna af kjarnorku. Við tölum um þetta allt en við gerum ekkert í því. Það er afskaplega óþægilegt að hugsa til þess að það skuli vera til afl í heiminum sem getur tor- tímt okkur á næstum því einu andartaki. Og við skirrumst við að hugsa þá hugsun til enda, samt er þetta staðreynd sem við sitjum uppi með. Svo er spurningin hvort við erum með menguninni að fara sömu leið, bara hægar en með kjarnorkustyrjöld. Við erum að tæma forðabúr jarðarinnar og trufla náttúruna. Það hlýtur að hvarfla að manni að mannkynið sé í verulegri hættu. Verstur er skorturinn á raunsæi. Að reyna ekki að sjá fyrir endann á því sem er að gerast. Ég kom einu sinni í trúboðsstöð niðri í Afríku þar sem trúboðarnir voru meðal annars að reyna að útrýma flugum. Þeir höfðu hengt stórar teikningar af flugum upp á veggi til að sýna íbúunum hvaða tegundir þeir ættu að varast. Þá sögðu þeir: Já, en svona stórar flugur höfum við bara ekki. Þá var hættan engin! Mér finnst stundum að við í hinum svokallaða menntaða heimi höfum ekki náð miklu lengra í rökhugsun en þessir Afríku- búar.“ Af hverju ekki? „Kannski menntum við fólk ekki á réttan hátt. Við mötum það á þekkingu sem hefur þýðingu út af fyrir sig, en í stað þess að gera menn víðsýnni og raunsærri þá þrengir hún hugarheiminn. Læknisfræðin er þar ekki undanskilin. En þú getur breikkað sjóndeildarhringinn ef þú leitast við að komast út fyrir þitt svið, til dæmis með bóklestri og listiðkun. Það eru bara ekki nógu margir sem vilja það. Það er ekkert voðalega þægilegt að sitja uppi með þá hugsun að mannkynið sé að tortíma sjálfu sér. En fyrr en við horfumst í augu við það gerist ekki neitt. Svo er líka spurning hvort Norður-Evrópumaðurinn er ekki að fara sömu leið og allir valdahópar á undan honum, Inkarnir í Perú, Grikkir og Rómverjar. Hættan er bara sú að þessi rasi skilji eftir sig óbyggilega jörð. Þetta er svartsýni, en skorturinn á raunsæi er himinhrópandi, jafnvel hérna hjá okkur. Vestur-Þjóðverjar eru núna að neita að láta land undir kjarnorkuflaugar. Þá færist vígbúnaðarkapphlaupið norður á bóginn og niður í hafið, okkur til mikillar hættu. Ein sprengja eða slys í grennd við landið gæti gert það óbyggilegt, en við horfumst ekki í augu við það. Það á að segja fólki sannleikann, sú skylda hvílir á þeim sem vita hann. Annars eru þeir vísvitandi að blekkja fólk. Það verður þá að ráðast hvort fólk hlustar. Blekkingin er orðin svo stór þáttur í lífi okkar. Stjórnmál virðast ekki orðin neitt annað. Menn eru alltaf að þjóna einhverjum annarlegum sjónar- miðum í stað þess að horfast í augu við veruleikann. Gott dæmi er varaflugvöllurinn. Það er verið að plata íslendinga til að malbika enn einn part af landinu, og það eina fallegustu sveit á íslandi. Ýmsir ráðamenn reyna að selja fólki þennan flugvöll sem allt aðra vöru en hann er. Þeir segja að flugvöllur kostaður af hernaðarbandalagi verði ekki herflugvöllur, sem hann hlýtur þó að verða. Og að ímynda sér að hernaðarflugvöllur með öllu sem honum fylgir, hljóðmengun, loft- mengun og jarðmengun, að hann sé tiltölulega meinlaust fyrirbæri, það er bara lygi og blekking. Það væri allt annað að segja við fólkið fyrir norðan: Við viljum leggja herflugvöll í þessari sveit. Afleiðingarnar af því verða þessar og þessar. Ef þið takið því þá gott og vel. Það væri að ganga beint að hlutunum. Þess í stað er alltaf verið að reyna að fá fólk til að samþykkja eitthvað allt annað en það sem á að vera. Það á að segja fólki satt, ekki óvirða það með því að slá ryki í augun á því. Það gildir bæði um lýtalækningar og stjórnmál.“ 18 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 26. maí 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.