Þjóðviljinn - 02.03.1990, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 02.03.1990, Blaðsíða 6
Helgi Hálfdanarson skrifar Uppreisn við Skjálfanda Lagt hefur veriö aö mér aö greina frá atburöum sem urðu norður í landi fyrir þriðjungi aldar, og sé ég ekki ástæðu til annars en að bregðast vel við því. Árið 1956 gerðust þau tíðindi, sem ýmsum komu á óvart, að sovézkur her réðst inn í Ung- verjaland og kæfði með blóðugri hörku þá viðleitni til nýrra stjórnarhátta, sem þar hafði vaknað. Mikinn óhug setti að mörgum þeim, sem á sínum tíma höfðu gert sér vonir um að rússneska byltingin 1917, sem binda skyldi enda á einhverja smánarlegustu kúgun sem sögur fara af, gæti þrátt fyrir allar ógnir sínar leitt til göfugra mannlífs, og að sú þróun, sem þar væri hafin, yrði ekki hrakin afvega af ófyrir- leitnum valdhöfum. Veraldarsagan leynir því ekki, að örlög mikilla byltinga eru hvorki fljótráðin né auðráðin. Ef unnt er að réttlæta byltingu, sem einungis er hugsanleg með vopn- aðri baráttu, þá hygg ég að flest- um þyki sem franska byltingin 1789 hafi verið réttmæt, svo sem frönsku þjóðfélagi var þá háttað. Hins vegar spratt af henni ógnar- stjórn Robespierres, þegar fall- öxin hafði vart undan að hreinsa til mánuð eftir mánuð og þeirri Ijótu sögu lauk með því, að annað eins hundspott og Napoleon kom því í verk að kaffæra mikinn hluta Evrópu í blóði. Eigi að síður gerist það árið 1989, að hin virðulega lýðræðis- og menningarþjóð, Frakkar, heldur hátíðlegt afmæli þessarar byltingar með fáheyrðri viðhöfn. Enda mun það skoðun flestra, að þrátt fyrir hin skelfilegu að- fara-umbrot hafi franska bylting- in leitt til ómetanlegra framfara í stjórnarháttum víðs vegar um álf- una. Og hver veit hve langt verður þess að bíða, að ekki verði ein- ungis litið á rússnesku byltinguna sem grimmilega aðför að forrétt- indastéttinni þar í landi, sem lauk með því níðingsverki að lífláta alla keisarafjölskylduna og leiddi síðan til ógnarstjómar líkt og sú franska, heldur verði hún einnig metin sem undanfari flestra meiri háttar umbóta á kjörum alþýðu víðs vegar um Vestur-Evrópu, einnig á íslandi. Óbeinna áhrifa rússnesku bylt- ingarinnar gætti hér á landi bæði fyrir og eftir stofnun Kommún- istaflokks íslands, sem sumir telja að verið hafi sögulegt slys, en aðrir kalla að óhjákvæmilega hafi hlotið að spretta upp úr hörmulegri neyð íslenzkrar al- þýðu á kreppuárunum, og að til harðsnúinnar baráttu þess flokks megi bæði beint og óbeint rekja drjúgan þátt þeirra félagslegu framfara sem síðan hafa orðið. Sú fómfúsa og fómfreka barátta verður hvorki þökkuð Ólafi Ragnari Grímssyni né Steingrími J. Sigfússyni fremur en harðvítug andstaða gegn hvers konar smá- vegis kjarabótum alþýðunnar á þeim árum verður kennd Þor- steini Pálssyni eða Davíð Odds- syni. Enginn þessara manna veit, að þá var kjarabarátta sveltandi alþýðu barátta upp á líf og dauða. Og þeim fækkar óðum sem það muna. En allt hefur sinn tíma. Og þar kom, góðu heilli, að baráttuað- ferðir kreppu-kommanna, með hótanir um ofbeldi í bak og fyrir, áttu ekki lengur við, þótt enn væri mörgu ábótavant. Komm- únistaflokkurinn var lagður nið- ur, og hægra megin við hann reis upp nýr flokkur, sem kenndi sig við lýðræði og sósíalisma, og var þó lengst til vinstri í íslenzkum stjórnmálum. Flokkur þessi átti sér deildir út um allt land, meðal annars á Húsavík. Um það leyti sem atburðir þeir gerðust, erum getur hér í upp- hafi, var á Húsavík búsettur mað- ur, sem í æsku hafði fylgzt með kjarabaráttu kreppuáranna og aldrei þótzt geta skipað samúð sinni of langt til vinstri. Kannski áttu einhverjar leifar þeirrar vinstri-vímu sinn þátt í því, að hann gekk ekki í þennan nýja flokk. En þar kom eigi að síður, að hann sótti um inngöngu í flokksdeildina á Húsavík, og á fjölmennum fundi hennar 25. nóvember 1956 var hann tekinn í félagið. Naumast var þeirri athöfn formlega lokið, þegar hinn ný- bakaði félagsmaður kvaddi sér hljóðs og tók til að ræða um alþjóðamál og ýmiss konar við- horf til þeirra á íslandi. Lauk hann máli sínu með því að bera fram svo hljóðandi tillögu til ályktunar: „Flokksdeild Sameiningar- flokks alþýðu, Sósíalistaflokks- ins, á Húsavík telur nauðsynlegt að marka skýrt og afdráttarlaust afstöðu sína til þeirra heimssögu- legu stórviðburða, sem nú eiga sér stað. Flokksdeildin vottar ungversku þjóðinni djúpa samúð í hörmung- um þeim sem yfir hana hafa dun- ið, og lýsir yfir aðdáun á baráttu hennar fyrir frelsi sínu og óskor- uðum rétti til að ákveða sjálf sitt eigið stjórnarfar, en fordœmir harðlega hina fólskulegu hernaðarárás rússneskra stjórnar- valda á alþýðu Ungverjalands, og afneitar eindregið því ein- rœðis-stjórnarfari sem sviptir frið- saman almenning allri aðstöðu til að taka í taumana þegarslík ókjör ber að höndum. Flokksdeildin telur aðfarirnar í Ungverjalandi þeim mun fyrirlitlegri sem að þeim standa öðrum fremur menn sem í orði kveðnu hafa gengið í þjónustu göfugra hugsjóna mann- úðar og bræðralags á grundvelli sameignar og samvinnu, og þótzt vinna að eflingu friðar og sáttfýsi í samskiptum þjóða. Enn fremur fordœmir flokks- deildin harðlega ofbeldisárás Breta og Frakka á Egiptaland, svo og hinar langvinnu kúgunar- styrjaldir sem þessi og önnur nýlenduveldi hafa háð og heyja enn gegn vanmáttugum þjóðum sem þeim hefur haldizt uppi að brjóta undir áþján sína. Hins veg- ar lýsir flokksdeildin yfir vel- þóknun á þeirri baráttu sem Verkamannaflokkurinn brezki hefur tekið uppfyrir heiðri þjóðar sinnar og drengilegu velsœmi á al- þjóðavettvangi, og vottar traust og hollustu þvílýðræði sem veitir slíkri baráttu svigrúm. Flokksdeildin hyllir Sam- einuðu þjóðirnar sem björtustu friðarvon mannkynsins, og telur eflingu þeirra brýnni nauðsyn nú en nokkru sinni. Hins vegar telur hún hvers konar hernaðarsam- tök, sem óháð eru Sameinuðu þjóðunum, svo sem Atlantshafs- bandalagið og önnur slík, hinn mesta háska fyrir friðinn, og þyk- ir fullreynt, að þau verði umfram allt til þess að herða á kapphlaupi stórveldanna um vígbúnað, her- stöðvar og hvers konar aðstöðu til sóknar og varnar í nýrri heims- styrjöld. Flokksdeildin telur, að erlend herseta sé hverri þjóð háskaleg og ósæmileg, enda fái engin frjálshuga þjóð unað slíkri vanvirðu. Flokksdeildin heitir á alla al- þýðu manna á íslandi að efla sam- starf vinstri flokka, jafnt á alþingi og í ríkisstjórn sem í allri annarri baráttu fyrir bættum hag almenn- ings og til verndar sjálfstœði, lýð- rœði og menningu íslenzkrar þjóðar. Enda þótt flokksdeildin telji fráleitt, að íslendingar sýni nokk- urri þjóð fjandskap eða ókurteisi, telur hún sjálfsagt, að hvers konar ofbeldi sé fordœmt hispurslaust, hver sem á í hlut, og telur álykt- anir og og yfirlýsingar, sem sýna linkind einhverju ofbeldisríki, verri en þögn, og þau blaðaskrif til óþurftar, sem láta skína í afsak- anir einhverjum árásaraðila í vil, hvort heldur reynt er að gera sem minnst úr ofbeldi Breta og Frakka gegn Egiptum, eða loka augum fyrir viðbjóði nýlendukúgunar- innar, ellegar að rœtt er um at- burðina í Ungverjalandi sem ein- hvers konar stjórnmála-slys, og talað um mistök, þegar framinn er af blindu ofstæki einn hinn sví- virðilegasti grimmdarglæpur sem nútíma-stórveldi hefur á sam- vizkunni. Flokksdeildinni þykir brýna nauðsyn til bera, að túlkun stjórn- málaflokka á hinum válegu at- burðum í umheimi sé alls kostar ótvíræð, og umfram allt, að af- staða þeirra til lýðræðis og ein- ræðis í stjórnarháttum og tilþjóð- frelsis og valdbeitingar í sam- skiptum þjóða sé með öllu vafa- laus. Nú telur flokksdeildin, að íslenzkum stjórnmálaflokkum sé allmjög áfátt í þessu efni, og þá einnig og ekki sízt Sósíalista- flokknum. Flokksdeildin lítursvo á, að nú sem tíðum fyrr sé afstaða Sósíalistaflokksins til þessara meginmála svo ótraust og reikul, að hið sanna viðhorf flokksins sé vandséð. Flokksdeildin harmar það sárt, að tvískinnungur um þessi mikilvægu mál skuli sífellt deyfa' eggjar þess skæða vopns sem Sósíalistaflokkurinn gæti annars verið í hagsmunaátökum og stjórnmálabaráttu íslenzkrar alþýðu. Flokksdeildin lítur svo á, að eftir síðustu stórviðburði í heimsmálum sé jafnvel enn örð- ugra en nokkru sinni að sjá án tvímæla, hvert viðhorf flokksins til þessara mála er í raun og veru, einmitt þegar hvað mest ríður á, að ekki verði á neinn hátt um það villzt. Petta samþykkir flokksdeildin áfundi sínum þann 25. nóvember 1956." Frá því er skemmst að segja, að tiHaga þessi var samþykkt ein- róma. En nú þótti brýnt, að ályktun þessari væri fylgt eftir svo fast, að mark yrði á tekið. Og áður fundi lýkur, ber sá hinn sami nýliði fram aðra tillögu, sem svo hljóðar: „Flokksdeild Sameiningar- flokks alþýðu, Sósíalistaflokks- ins, á Húsavík telur, að viðbrögð flokksins við síðustu stórtíðindum í heimsmálum séu með þeim hætti, að ekki verði við unað, enda sé brýn nauðsyn að taka af skarið um afstöðu flokksins til lýðræðis og einræðis í stjórnar- háttum og til þjóðfrelsis og vald- beitingar í samskiptum þjóða. Samkvæmt ályktun þeirri, sem flokksdeildin hefur gert um þetta efni fyrr á þessum fundi, sér hún sér ekki annaðfœrt en að segja nú þegar slitið öllum félagsböndum við Sameiningarflokk alþýðu, Sósíalistaflokkinn. Deildin skal framvegis heita Sósíalistafélag Húsavíkur og er, að svo komnu máli, óháð öllum stjórnmála- flokkum. Þetta samþykkirflokks- deildin á fundi sínum þann 25. nóvember 1956. “ Og svo fór, að þessi tillaga var einnig samþykkt einróma. Fregnir af fundi þessum þóttu nokkur tíðindi, og var svo talið, að úrsögn félagsins úr flokknum væri hótun, sem yrði tekin aftur, þegar línur flokksins yrðu nægi- lega skýrar. Sú mun og hafa verið ætlun flestra fundarmanna. Á því varð hins vegar bið. Aftur á móti gerðist það skömmu síðar, að for- usta flokksins kom því til leiðar, að haldinn var fundur í sama fé- lagi, þar sem úrsögnin úr flokkn- um var tekin aftur, svo allt féll að nýju í ljúfa löð. Ekki fylgdist áður nefndur ný- liði með því sem fram fór á þeim fundi, því þangað var hann ekki boðaður. En hvað sem olli, sendi hann úrsögn sína úr félaginu og hefur síðan verið utan flokka. Ástæðan til þess, að félagið tók aftur úrsögn úr flokknum, án þess að flokkurinn gerði grein fyrir afstöðu sinni, svo sem kraf- izt hafði verið, var talin sú, að vonlaust hafi þótt um þann ár- angur, þegar til kom, og þá talið illt að veikja þann flokkinn sem þrátt fyrir allt væri sá skásti sem hagsmunabarátta alþýðu ætti völ á. En hvað flokknum gekk til með linkind sinni í málum Ung- verja, skal ósagt látið, nema svo hafi verið kallað, að Sovétríkin, sem þóttu hafa frelsað veröldina frá nazismanum, mættu fyrir eng- an mun veikja þá varnarlínu, sem leppríkin áttu að mynda gegn stórveldunum í vestri, sem allt frá byltingunni höfðu hvað eftir ann- að ráðizt að þeim með hernaði og endað með því að leggja þar allt í auðn. Afsakanir af þvf tagi verð- ur hver að meta að eigin geð- þótta. Frakkar gerðu byltinguna sína undir kjörorðinu „Frelsi! jafnrétti! bræðralag!“ Kannski sást þeim yfir það, blessuðum, að frelsi og jafnrétti eru andstæður sem illa kemur saman. Rússar ætluðu sér þá dul að koma á jafnrétti. Og kannski komust þeir furðu langt í því efni um skeið. En það kom fljótt í ljós, að ofætl- un um jafnrétti hlaut að kosta frelsi að sama skapi. Og frelsi verður ekki takmarkað að ráði nema með miklu valdi. En miklu valdi fylgir sú hætta að það lendi í höndum purkunarlausra sérhags- munamanna, sem eru vísir til að snúa þeim jafnréttis-hugsjónum, sem þeim er trúað fyrir, upp í andhverfu sína, þegar því er að skipta, svo að eftir stendur hvorki frelsi né jafnrétti. Hins vegar er bent á Banda- ríkin sem dæmigert frelsis-þjóð- félag. Og þykir þá ýmsum frelsis-hugsjóninni hagrætt all- glæfralega þar í sveit, svo að langt um of sé á kostnað jafnréttis, enda sé eymd hinna verst settu svo sár, og ójöfnuður þegnanna svo blygðunarlaus, að furðu sæti. Frelsi sem fær of lausan tauminn hlýtur einnig að snúast í sína andhverfu, þar sem hvorki ríkir frelsi né jafnrétti, heldur hnefa- réttur peninganna. Stundum er sagt, að hver mað- ur eigi að njóta þess frelsis, sem ekki skaði neinn annan. En hver á að meta það, hvenær mitt frelsi er öðrum skaðlaust? Þar vandast málið. Samt trúum við því, að til sé sá meðalvegur, þar sem hvorki frelsi né jafnrétti verði rýrt úr hófi, hvernig sem gengur að rata þann veg. Þá skipan mála köllum við velferðarþjóðfélag; og það afl, sem tryggja skal viðgang þess, heitir lýðræði. Ekki það sýndar-lýðræði, þar sem valkostir eru nánast engir sem máli skipta, og vald peninga ræður ferðinni í raun; heldur það sanna lýðræði, sem við íslendingar erum að leitast við að rækta, og gerum okkur vonir um að fari síbatn- andi. Sviptivindar íslenzkra stjórn- mála réðu því, að Sósíalista- flokkurinn var lagður niður, eða réttara sagt sameinaðist hann brotum úr öðrum flokkum um stofnun Alþýðubandalagsins. Sá flokkur kennir sig einnig við lýð- ræði og sósíalisma. Skyldi nokkurt orð, að undan skildu orðinu „frelsi", hafa lent í j afn-litskrúðugum ævintýrum og orðið „sósíalismi“? Naumast er til það ríki veraldar, þar sem ekki eru stjórnmálaflokkar kenndir við sósíalisma, jafnvel margir í sama þjóðfélaginu, og mætti æra óstöðugan að henda reiður á því sem þeim er sameiginlegt og hvað þeim ber á milli. Sumir kenna sinn sósíalisma við Marx, aðrir við Lenín, eða Trotskí, eða Stal- ín, eða guð má vita hvað. Harð- stjórar Austur-Evrópu kváðust taka stefnuna á sósíalisma; og Gorbasjoff segist ætla að bjarga sósíalismanum. Meira að segja Hitler kenndi sig við sósíalisma, það er nú líkast til,„Die natio- nal-sozialistische Deutsche Arbeiterpartei" hét flokkur hans. Og forsætisráðherrar Norðurlanda, þar sem með nokkrum rétti er talað um vel- ferðarþjóðfélög, kalla sig hver af öðrum sósíalista og kenna stefnu flokka sinna við sósíalisma. Því kann ýmsum að þykja við hæfi, að Alþýðubandalagið birti afdráttarlausa skilgreiningu á því hugtaki, sem orðið „sósíalismi" táknar þar í flokki. Sumum kynni þá að ganga betur að átta sig á stefnu þess flokks, þar sem virðist vera hver höndin upp á móti ann- arri. Trúlega færi það öllum bezt. Uppreisnin í Ungverjalandi 1956- 6 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 2. mars 1990

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.