Þjóðviljinn - 30.03.1990, Blaðsíða 4
Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri á beininu
Nítján sjóslys
frá áramótum
Sjaldan eða aldrei hafa orðið jaf n mörg sjóslys hér við
land og það sem af er þessu ári, sem er mikið áhyggju-
efni meðal sjómanna sem og þeirra sem vinna að örygg-
ismálum á sjó. Þá hefur sjálfvirkur sleppibúnaður björg-
unarbáta ekki virkað þegar á hefur reynt og dæmi eru
um að bátarnir hafi ekki heldur blásið upp. Spurningum
um þessi mál og fjölmörg önnur er snerta öryggismál
sjómanna og starfsemi Siglingamálastofnunar svarar
Magnús Jóhannesson siglingamálastjóri á beininu í dag
Hvað hafa orðið mörg sjóslys
hér við land frá áramótum?
- Þær upplýsingar sem við höf-
um gefa til kynna að það hafi orð-
ið 19 slys. Þau eru að vísu mis-
munandi alvarleg en í sex tilfell-
um hafa skip farist. Satt best að
segja man ég ekki eftir annarri
eins sjóslysaöldu frá því ég tók
hér við embætti og er ég nú að
byrja mitt sjötta ár sem siglinga-
málastjóri.
Hvaða skýringar hefurðu á
þessu?
- Ja, það hefur náttúrlega ver-
ið mjög slæm tíð til sjósóknar svo
til alveg frá áramótum. Þá er því
heldur ekki að leyna að það hefur
verið vaxandi sókn hjá smábátum
á þessum árstíma sem er þróun
sem við höfum orðið varir við á
undanförnum árum. Af þessum
sex bátum sem hafa farist eru þrír
bátar undir 10 tonnum og flokk-
ast því sem smábátar. Einn af
þessum sex bátum er
hafnsögubáturinn á Höfn í
Hornafírði en hinir tveir eru fiski-
bátar. Annar þeirra er 14 tonn að
stærð og hinn tæplega 90 tonn.
Það er alveg sama hvaða tölur við
skoðum; sjósókn á litlum bátum
hefur stóraukist. Að mínum
dómi er það mjög alvarleg þróun.
Ekki þó svo að skilja að margir af
þessum nýju bátum eru vel
byggðir og vel útbúnir, en þeir
eru litlir og hafa þess vegna alls
ekki sömu möguleika og stærri
skip til sjósóknar.
Hafa menn þá verið að ofbjóða
þessum litlum bátum?
- Já, ég held það og dæmi þess
efnis hafa komið alveg ótvírætt
fram. í þessu sambandi höfum
við einnig dæmi um það að menn
hafa hlaðið þessa báta meira
heldur en þeir eru viðurkenndir
fyrir. En með hverjum opnum
báti gefum við út hver hans há-
markshleðsla skuli vera. Þess eru
einnig dæmi, þar sem slys hafa
orðið, að farið hefur verið yfir
þessi hleðslumörk. Öll mál sem
tengjast að einhverju leyti brot-
um á reglum og reglugerðum eru
send til ríkissaksóknara sem á-
kveður síðan framhald þeirra.
Sjálfvirkur sleppibúnaður hef-
ur verið að klikka og bjögunar-
bátar hafa ekki blásið upp þegar á
hefur reynt. Hvað er að?
- Það er alveg rétt að núna
fyrir skömmu blés björgunarbát-
urinn ekki upp þegar skip fórst en
við vitum ekki nákvæmilega hvað
þarna hefur gerst. Þess vegna
höfum við lagt áherslu á það að
ná þessum báti upp til að ganga úr
skugga um það hvað hafi farið
úrskeiðis. Þetta var bátur sem
hafði verið skoðaður af
skoðunarmanni gúmmibjörgun-
arbáta í október og þó að aldrei
sé hægt að útiloka neitt, lítum við
þetta mál mjög alvarlegum
augum og munum gera allt sem í
okkar valdi stendur til að upplýsa
hvað þarna hefur gerst. Jafn-
framt munum við gera nauðsyn-
legar ráðstafanir til að fyrirbyg-
gja að svona lagað komi fyrir aft-
ur.
Er kannski ástæða til að ætla
að eftirlit með björgunarbátum
sé ekki sem skyldi?
- Nú er þetta svo að það eru
tiltöluiega fáir aðilar sem annast
eftirlit og pökkun gúmmíbjörg-
unarbáta. Við höfum lagt áherslu
á að þessir aðilar fari reglulega í
þjálfun og eins hafa komið hing-
að erlendir framleiðendur bát-
anna og haldið námskeið fyrir þá.
En almennt má segja að gúmmí-
björgunarbátar séu 99% örugg
björgunartæki.
En hvað með sjálfvirka björg-
unarbúnaðinn?
- Vissulega er það rétt að sá
búnaður hefur ekki í öllum tilvik-
um uppfylit björtustu vonir
manna. Núna að undanförnu
höfum við verið að vinna að at-
hugun á þessum búnaði, en það
verður að segjast eins og er að
hann var lögleiddur áður en nægi-
legar rannsóknir höfðu farið fram
á virkni hans. Það er hins vegar
alveg ótvírætt að búnaðurinn hef-
ur verulega bætt öryggi gúmmí-
björgunarbáta, þótt hann hafi
ekki virkað í öllum tilvikum eins
og menn höfðu búist við. Á sín-
um tíma, þegar hann var lög-
leiddur, voru ekki settar ná-
kvæmar kröfur um það hvenær
hann ætti að virka og hvenær
ekki. Heldur var þetta fyrst og
fremst hugsað sem búnaður til að
auka á öruggi gúmmíbjörgunar-
báta. Menn settu þá ekki ákveðn-
ar kröfur sem sögðu að búnaður-
inn ætti að virka við þessi og þessi
skilyrði.
Telurðu kannski að löggjafinn
hafí hlaupið á sig?
- Ja, ég held að það sé ákaflega
óheppilegt þegar reglur um ör-
yggisatriði af þessu tagi eru settar
áður en menn eru búnir að þróa
búnaðinn og prófa hann nægi-
lega. Það er vegna þess að menn
setja ákveðna fmynd á viður-
kenndan öryggisútbúnað skipa
og ganga út frá honum sem slík-
um. Á þeim tíma held ég að eng-
inn hafi getað svarað því ná-
kvæmlega hvað þessi búnaður
raunverulega gat. Það sem við
höfum lagt höfuðáherslu á núna
er að hinar æskilegu kröfur, sem
til þessa búnaðar eru gerðar,
verði skoðaðar þannig að hann
virki sem best við allar aðstæður
þegar skip farast. Jafnframt að
reyna að gera sér grein fyrir því
hvernig þessar aðstæður eru,
líkja eftir þeim og prófa búnað-
inn við þessar aðstæður í landi.
Það sem hefur gerst núna er að í
samvinnu við Iðntæknistofnun
hefur verið þróuð ákveðin próf-
unaraðferð fyrir þennan búnað
og það er nú þegar búið að prófa
hluta af þeim búnaði sem er hér á
markaði með þessari aðferð. Við
höfum samþykkt hana sem
fullnægjandi til þess að ganga úr
skugga um að þessi búnaður upp-
fylli kröfur reglugerðar og það
sem á vantar til að prófa þetta til
enda er fjármagn.
Hefur eitthvað komið fram í
þessum prófunum sem skýrir af-
hverju hann á það til að klikka?
- Það er nú kannski ekki hægt
að segja það beinlínis út frá þess-
um prófunum hvað það er sem
þarf að lagfæra. Hins vegar eru
komnar fram mun betri upplýs-
ingar um það hvernig þessi
sleppibúnaður kastar gúmmí-
björgunarbátnum, hvernig hann
flytur hann frá skipi þegar það er
neðansjávar og svo framvegis.
Þannig að við vitum miklu meira
um það núna hvernig gúmmí-
björgunarbátarnir fara frá skipi í
þessum búnaði, sem við vissum
ekki áður.
Hvað hefur skort á í öryggis-
málum fiskiskipa í þeim skyndi-
könnunum sem starfsmenn Sigl-
ingamálastofnunar framkvæmdu
á síðasta ári?
- Þau atriði sem flestar athuga-
semdir voru gerðar við voru þau
sem lúta að eldvörnum skipanna.
Til dæmis var það algengt að lok-
un á loftrásum frá vélarrúmi var í
ólagi og ekki hægt að loka þeim. í
allnokkrum tilvikum kom í Ijós
að eldvarnarviðvörunarkerfi
virkuðu ekki og svo einnig þau
atriði sem snúa að vatnsþéttri
lokun hurða og fleira í þeim dúr.
En eins og flestir eiga að vita er
það mjög mikilvægt að lokunar-
búnaður skipa sé í sem allra bestu
lagi á hverjum tíma.
Hefur þessum málum verið
fylgt eftir?
- Já. Við skyndiskoðun skipa
eru öll þau atriði sem koma í ljós
skrifuð niður og þau tilkynnt við-
komandi skipstjóra. Við næstu
skoðun skipsins er síðan gengið
úr skugga um að þau atriði sem
gerð hafði verið athugasemd við í
fyrri skoðun hafi verið lagfærð.
Er þetta nægilegur fjöldi skipa
sem er skyndiskoðaður eða þarf
úrtakið að vera meira?
- Að okkar dómi er það allt of
lítið. Við teljum að úrtakið þurfi
að ná til um 25% flotans og árið
1988 vorum við nálægt því eða
um 20%. En niðurskurður á fjár-
veitingum til stofnunarinnar í
fyrra bitnaði á þessari starf semi.
Hefur þessi niðurskurður á
Qárveitingum til ykkar komið
niður á annarri starfsemi en
skyndiskoðun fiskiskipa?
- Já. Það er Ijóst að við höfum
orðið að draga úr vinnu sem hef-
ur átt að framkvæma við endur-
skoðun á reglugerðum og fleiru í
þeim dúr. Hins vegar höfum við
orðið að framfylgja lögskipuðum
verkefnum ss. að skoða skip.
Þannig að niðurskurðurinn hefur
auðvitað komið niður á starfsemi
okkar. Annað mjög mikilvægt
verkefni sem við höfum verið að
vinna að, er athugun á stöðug-
leika fiskiskipa. Við höfðum gert
um það áætlun til fjögurra ára að
endurreikna stöðugleika allra
. þeirra fiskiskipa sem smíðuð
voru fyrir 1975, það er áður en
núgildandi reglugerð um stöðug-
leika skipa tók gildi. Til þess að
að geta klárað þetta dæmi á fjór-
um árum fórum við fram á auka-
fjárveitingu í haust en fengum að-
eins tæplega helming þess sem
við báðum um. Þannig að með
sama hraða mun þetta verk taka
mun lengri tíma en við höfðum
áætlað.
Má ekki einmitt rekja sjóslysið
sem varð nýlega í Jökulfjörðum
þegar skelfískbát hvolfdi, til ó-
stöðugleika hans þegar skelfísk-
plógurinn reyndist of þungur þeg-
ar hann var hífður um borð?
- Það mál finnst mér vera afar
dapurlegt. Það er að segja að
menn skuli ekki hafa verið búnir
að grípa til aðgerða. Það kom
nefnilega fram við sjópróf að
skipstjóri skipsins hafi ítrekað
þurft að keyra skipið upp þegar
veiðarfæri voru tekin inn. Mér
finnst afar leitt að heyra það að
menn skuli ekki hafa gripið til
viðeigandi ráðstafana eftir að
svona lagað hafði einni sinni
gerst. Og ekki áttað sig á þvt að
eitthvað var ekki eins og það átti
að vera.
Eru menn kannski að spara
eyrinn þegar öryggisatriði eiga í
hlut?
- Ég vil ekki trúa því. Ég vil
heldur halda því fram að þarna sé
að sumu leyti um ófullnægjandi
þekkingu að ræða. Ég held nefni-
lega að menn geri sér kannski
ekki alltaf grein fyrir því sjálfir
hverjar aðstæðurnar eru. Ég vil
ekki trúa því að þarna séu menn
aðspara peninga. Afþeimsökum
leggjum við mikla áherslu á
fræðslustarfsemina og útgáfu
sérrita okkar. Því miður höfum
við orðið varir við að bæklingar
okkar, sumir hverjir, hafa ekki
skilað sér til sjómanna heldur
hafa þeir orðið eftir á skrifborð-
um útgerðarinnar. En það er ekki
nóg að þessir bæklingar fari um
borð í skipin, heldur þurfa sjó-
menn einnig að lesa þá. Boðorðin
þrjú í dag eru menntun, fræðsla
og þjálfun.
Flotgallar hafa ítrekað sannað
gildi sitt að undanförnu. Af-
hverju hafa þeir ekki verið lög-
leiddir?
- Það er að sumu leyti erfitt að
lögleiða flotgalla vegna þess að
þeir eru vinnugallar. Það eru svo
fjölmargar spurningar sem þarf
að svara áður en farið verður út í
það að lögleiða þá. í fyrsta lagi:
Hverjir eiga að vera í þessum
göllum? í annan stað: Hverjir
eiga að meta það hvort lögskip-
aður búningur sé í lagi eða ekki?
Öryggisbúnað sem er aðeins not-
aður í neyð nægir að okkar dómi
að skoða einu sinni á ári. Með.
vinnuflotbúninga er augljóst að
þeir munu missa þetta öryggis-
gildi sitt og verða fyrir skemm-
dum með daglegri notkun yfir allt
árið. Þannig að það er ákveðinn
eðlismunur á þessum búnaði,
sem ég ítreka að er mjög góður
öryggisbúnaður fyrir þá sem
vinna á opnu þilfari. Það eru því
ákveðnir tæknilegir örðugleikar á
að lögleiða þá með sama hætti og
annan öryggis- og björgunarbún-
að.
Hvenær má þá ætla að þetta
mál verði komið á hreint?
- Ég lít svo á að þetta sé ekki
öryggismál, heldur fyrst og
fremst fjármál. Málið snýst aðal-
lega um það hver á að greiða flot-
gallann. Það eru allir sammála
um gildi þessara búninga og frá
mínum bæjardyrum séð munum
við halda áfram að hvetja sjó-
menn til þess að nota þessa bún-
inga. f því sambandi höfum við
gefið út reglur um vinnuflotbún-
inga, þeas. um kröfur til þeirra.
Á grundvelli þeirra krafna höfum
við viðurkennt nokkra þeirra og
sagt að þessir búningar fullnægi
lágmarkskröfum um flot og um
einangrunargildi sem eru aðalatr-
iði þeirra.
4 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 30. mars 1990