Þjóðviljinn - 30.03.1990, Blaðsíða 21

Þjóðviljinn - 30.03.1990, Blaðsíða 21
HELGARPISTILL^gi^M, BERGMANN Hvað sjá ménn á ferðalögum? ■ . Hver var þaö sem lét þessa ágætu setningu frá sér fara?: „Það er leiðinlegt hvað menn eru farnir að ferðast mikið. Þeir verða svo þröngsýnir á því“. Ekki man ég það. En þetta er nokkuð vel sagt. Auðvitað er þetta sleggjudómur, en þarfur slegggjudómur til mótvægis við annan sem er á þá leið, að menn víkki svo mjög sinn sjóndeildar- hring við að ferðast til framandi landa. Það gera menn vitanlega. En til þess þurfa þeir að vera opnir og forvitnir og lífsreyndir nokk- uð. Því í rauninni er ekkert auðveldara en að fara til fjarlægs lands og sjá það eitt sem gestgjaf- ar vilja að maður sjái eða blátt áfram það sem manni finnst sjálf- um þægilegast að horfa á. í sendinefnd Af þessu eru ótal dæmi. Oft er þá vitnað til sendi- nefndasósíalismans svonefnda. En hann er fólginn í því að menn eru boðnir í reisu að kynna sér ástandið í byltingarríki, og þeim er sýnt fólk og mannvirki sem sanna það að allt sé nú að breytast til batnaðar með skjó- tum og öruggum hætti. Og ef gesturinn hefur tilhneigingu til að trúa því sem hann sér þá mun hann gera það. Það getur líka verið, að hann verði svo yfirkom- inn af þeim galdri sem kallast VlP-meðferð (þá er látið við ge- stinn eins og hann sé þrisvar til þrjátíu sinnum merkari persóna en hann hefur dreymt um sjálfan að hann væri) - að hann dáleiðist og finnist hann vera staddur í nýrri og góðri veröld. Sendinefn- dasósíalismi af þessu tagi bar ein- hvern sinn síðasta og skrautleg- asta ávöxt þegar blaðakona af Tímanum og síðar atkvæðamikil á Morgunblaðinu fór fil Norður- Kóreu að heimsækja hinn ástkæra leiðtoga, Kim Il-súng, sem lengi mun í minnum haft. Heimslystar- menn á flakki Oftar eru svo heimsóknir, sem menn freistast til að lýsa í ræðu og riti, lausar við pólitíska yfirtóna. Menn eru barasta á flakki, heimsreisumenn og heimslystar- menn. Og þeir horfa á fagurt land og glæsilegt fólk og komast á loft yfir góðri þjónustu við vægu verði. í stuttu máli: þeir eru túr- istar. En þótt til þeirra ferðalaga sé stofnað með allt öðrum hætti en til sendinefndanna sem fyrr voru nefndar, þá svipar sendi- nefndarmönnum og túristum í raun og veru meira saman en þeir síðarnefndu gjarna vildu. Rósir í Río Þetta skaust nú upp í hugann þegar ég var á dögunum að lesa greinar sem Ingólfur Guðbrands- son, þekktur maður úr tónlistar- lífi og ferðamálum, skrifaði í Morgunblaðið um upplifanir sínar í Río de Janeiro. Þetta eru gleðipistlar með ljóðrænu ívafi: við blasir heillandi borg og íbú- arnir hafa „fegurstu strendur heimsins" við húsdyrnar hjá sér, þar spranga súkkulaðibrúnar stúlkur sem eru „í næstum engu“, og lífsstíll fólksins er samfellt karnival. Eða eins og þar segir: „Víst lætur veröldin blítt, flest- ir brosa af einskærri lífsgleði, án sérstaks tilefnis að séð verður, það er gott að vera til“. Það er líka gott að vera til sem erlendur ferðalangur með sæmi- leg fjárráð: „Hér kostar Rossini- nautasteikin hjá Maxíms 200 krónur og kúvertinn var innifa- linn með gæsalifursneið, vel- kryddaðri, lostætri saltfiskbollu, ristuðu brauði og bestu olífum sem ég hefi smakkað“. Hvað gera þarf í landinu Þetta er heimur ferðalangsins sem kominn er í frí og skemmtir sér, og það er vitanlega ekkert við það að athuga. Og þessi skrif- finnur hér segir: svo sannarlega hefði hann ekki farið að líkja ís- lenskum ferðamálagarpi við „sendinefndarsósíalista" hefði hann í greininni ekki farið að tala við Brasilíumann ítalskan og leggja honum heilræði nokkur. Brasilíumaðurinn lofaði mjög auðlegð lands síns og möguleika, hann var líka hrifinn af því að „þótt við Brasilíumenn skuldum mikið í erlendum bönkum, þá erum við samt ríkir". íslending- urinn tekur vel undir þetta og eftirfarandi spjall á sér stað: „Þið eigið bæði hráefnin og orkuna og auk þess ódýrt vinnu- afl_Heldurðu að Brasilíumenn geti samt nokkurn tíma keppt við stóriðnaðarríkin, Japan og Bandaríkin?“ spyr ég. „Auðvitað getum við það, svarar Carlo, það er spurning um hagræðingu, skipulag og rétta stjórnun. Náttúruauðæfi eigum við, meiri en nokkur annar.“ „Fyrst verðið þið að ná tökum á verðbólgunni. I þessum mánuði einum stefnir hún í 75 % Svo verðið þið að mennta þjóðina og hætta að safna erlendum skuldum. Þá verður Brasilía paradís á jörð, því fallegra land og fjölbreyttara þekki ég ekki“, svara ég. Sá grimmi veruleiki Æjá. Úr því farið var út í þessa sálma, þá er eins gott að taka það fram, að mikið er svona tal langt frá þeim veruleika sem Brasilía er í öðrum og gagnrýnni skrifum. Enginn efar það að landið er ríkt. Og að það þarf mikið átak að gera til að mennta þjóðina. En allt annað skýst út úr því sam- hengi, að í fáum löndum er eins mikið djúp staðfest milli ríkra og fátækra og í Brasilíu. Fáar borgir eru eins þrúgaðar af eymd og of- beldi og brasílskar stórborgir. Og það ofbeldi og sú grimmd eru ekki síst tengd hlutskipti mikils fjölda allsleysingja og munaðar- lausra barna, sem úti ganga. Það er einmitt í Sao Paulo, þaðan sem viðmælandi íslendingsins kemur, að ríkt fólk er farið að reisa sér einskonar virkisborgir utan um villur sínar, sem gætt er af vopn- uðum vörðum sem engum hleypa inn í sælunnar og öryggisins reiti nema hann hafi búsetuskilríki. Helvíti fátæktarinnar er lokað úti og þeir ríku inni. Það vantar í dæmið, að fáir sólunda nú af meiri ofstopa nátttúruauðlindum sínum en einmitt Brasilíumenn. Og þegar rætt er um verðbólgu og skuldasöfnun, þá er það hvergi nærri þessu dæmi, að það eru „margir ríkustu menn“, brasílskir þegnar, sem bera verulegan hluta ábyrgðar á því ástandi. Þeir geyma miljarði dollara í er- lendum bönkum og spila með þá á víxl í fjárfestingum í ríka heiminum eða með verðbólgu- hvetjandi okurvöxtum heima fyrir. Og svo mætti lengi áfram telja. í vernduðu umhverfi Haldi menn ekki að með slík- um og þvílíkum athugasemdum sé verið að heimta að íslenskur ferðalangur gerist þjóðfélags- gagnrýnandi hvar sem hann fer. En sem fyrr segir: það er ekkert að því að menn geri sér grein fyrir því, að þegar menn leggja lönd undir fót, þá eru þeir oftar en ekki í vernduðu umhverfi sem hlífir þeim við flestum þeim vanda sem á landsins börnum brennur. Og hér má við bæta, að þótt þeir kannski sjái ýmislegt annað í sviphendingu, þá hafa þeir fyrirfram tilhneigingu til að ýta því sem óþægilegt er til hliðar, hugsandi sem svo: maður getur ekki verið að gera sér rellu út af hlutum sem maður hefur engin áhrif á. Eða þá að menn gera fá- tækt og betl og annað sem fyrir augu kann að bera í huga sér að einhverskonar þjóðareinkenn- um, einhverjum parti af annar- legu lífi sem hefur alltaf verið svona og er enn. En menn ættu að stilla sig um ráðleggingar: Hættið að safna er- lendum skuldum! Farið þið nú að læra á bók! Takið niður verðbólg- una! Viljinn til að sjá Nú skal hér við bæta, að menn eru ekki aðeins glámskyggnir á ferðum sínum í öðrum löndum, í öðruvísi þjóðfélögum. Ekkert er algengara en að menn viti fátt um hlutskipti sinna eigin landa: þetta á ekki síst við í þeim löndum þar sem búseta manna fer mjög eftir efnahag. Michael Harrington hét ágætur maður, bandarískur sósíalisti, sem nú er nýlátinn. Hann þekkti þennan vanda mjög vel. Árið 1962 gaf hann út bók sem fræg varð og hét “The Other Amer- ica“ - Hin Ameríkan, og fjallaði um fátækt í þessu ríkasta landi heims. Harrington „kortlagði“ fátækt í Bandaríkjunum með þeim hætti sem menn áður höfðu lítt reynt og var hvergi smeykur við að kalla hana „ægilegt dæmi um óþarfa þjáningar í þróaðasta þjóðfélagi heims“. Og hann vakti líka sérstaka athygli á því, hve erfitt þeir sem betur eru settir eiga með að sjá vandann: „Þær miljónir sem búa við fátækt í Bandaríkjunum verða æ ósýni- legri. Hér er um mikinn fjölda fólks að ræða, en skynsemin og viljinn verða að taka sig á til að sjá þetta fólk“. Nú er það af Michael Harring- ton að segja, að hann fékk með sínum vilja og sinni skynsemi aðra menn til að viðurkenna þetta feimnismál, bandaríska fá- tækt. Það er meira að segja haft fyrir satt, að Harrington, sem var valdalaus maður og hafði engan flokk á bak við sig, hafi haft tölu- verð áhrif á að vissar félagslegar ráðstafanir, einkum til aðstoðar við fátæk gamalmenni, sem voru gerðar í stjórnartíð Kennedys og Johnsons. Og þótt fátækt og slömmlíf sé sem fyrr mikið vandamál í landi Michaels Harr- ingtons þá minnir hans fordæmi, sem nýlega var upp rifjað í minn- ingargreinum, á það, að skrifandi og hugsandi ferðalangur ber tölu- verða ábyrgð, hvar sem hann fer. Heima eða erlendis. Hann getur vakið upp „vilja og skynsemi“ að einhverju marki, hann getur líka lagt sitt til þess að þau systkinin sofi áfram þeim svefni afskipta- leysis sem þægilegastur er. Föstudagur 30. mars 1990 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 21

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.