Þjóðviljinn - 06.07.1990, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 06.07.1990, Blaðsíða 8
HÝTT Utgefandl: Útgáfufélag Þjóðviljans Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson Ritstjórar: Ámi Bergmann, Ólafur H. Torfason Umsjónarmaður Helgarblaös: Ragnar Karlsson Fréttastjóri: Sigurður A. Fnðþjofeson ÚUIt: Þröstur Haraldsson Afgreiðsla: * 68 13 33 Auglýsingadeíld:» 681310 - 6813 31 Símfax: 68 19 35 Verð: 150 knónur í lausasölu Setnlng og umbrot: Prentsmiðja Þjóðvlljans Irf. Prentun: Oddl hf. Aðsetur: Síðumúla 37,108 Reykjavlk Málgagn sósíalisma, verkalýðshreyfingar og þjóðfrelsis Óttinn við hrun Sovétríkjanna Þegar stjórn Litháens lét undan þeim þrýst- ingi, sem efnahagslegar refsiaðgerðir af hálfu Moskvustjórnarinnar höfðu skápað í landinu, og tók aftur tímabundið sjálfstæðisyfirlýsingu landsins, þá voru viðbrögð umheimsins mjög hógvær. Lítið um að menn vildu fordæma það að smáþjóð hefði verið þvinguð til afsláttar af sínum sjálfstæðiskröfum. Öðru nær: í höfuð- borgum vestrænna ríkja mátti greina talsverðan létti: kannski tekst að semja um þessi mál friðsamlega og án þess að Gorbatsjov verði steypt. Eins og stundum hefur verið getið um áður hér í blaðinu, er samúð með sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna málum blandin á Vestur- löndum. Menn taka undir hana í orði kveðnu - en síðan ekki söguna meir. Hér ber tvennt til: Vesturlönd eru að missa trúna á þjóðríkið og hafa tilhneigingu til að líta á endurreisn þjóðríkj- anna við Eystrasalt ekki sem jákvætt skref til langframa heldur sem stutt millispil á því að einnig þau gangi inn í nýja risablökk - Evrópu. Og í annan stað kemur það fram í þessu máli að Vesturlönd eru ekkert sérstaklega hrifin af því að Sovétríkin liðist í sundur. Fyrir skömmu var haldin málstefna í höfuð- stöðvum Nató í Bruxelles um efnið „munu So- vétríkin lifa af aldamótin?“. Þar var mikil áhersla lögð á það, að höfuðástæðan fyrir því að perest- rojkan hefur ekki skilað neinum jákvæðum efnahagslegum árangri sé sú, að „samvirkni þj'óða" í Sovétríkjunum sé hrunin. Og var þá vísað til stríðs milli Armena og Azera, aðskilnað- arhreyfinga í Eystrasaltsríkjum, mikilla átaka í Moldavíu og Grúsíu, ýfinga milli Úzbeka og Tadsjika í Mið-Asíu og fleiri dæma. Fundar- menn (meðal þeirra voru sovéskir gestir) voru ekki sammála um líklega eða æskilega fram- vindu. En flestir viðruðu þær skoðanir að Vest- urlönd þyrftu á stöðugleika í Sovétríkjunum að halda, og þar með að „balkanisering" þessa mikla ríkis (með skiptingu í 15-20 sjálfstæð þjóðríki) væri óæskileg. Ekki síst ef menn vildu við frið búa. Sovéskur fulltrúi á málstefnunni, llja Gerol, segir í grein í Novoje vrémja, að fram hafi komið mjög greinilegur ótti Vesturlandabúa við það, að ef Sovétríkin leysast upp, þá aukist mjög líkur á að hálffasísk, andvestræn rússnesk þjóðrembuöfl (sem sér stað í samtökunum Pamjat og reyndar víðar) komist til valda í Rúss- landi sjálfu, og mundi það ekkert gott boða. Fyrir nú utan þann nýja vanda sem kæmi upp ef sjálfstætt Azerbædsjan réðist á sjálfstæða Armeníu svo stórt dæmi sé tekið: hvað mundi sjálfstætt Rússland þá gera, hvenig brygðist íran við , þar sem við völd eru trúbræður Azera, hvað gerðu Bandaríkin þar sem býr stórt og áhrifaríkt armenskt samfélag? Hvernig á að leysa sambúðarvanda sjálfstæðs Úzbekistans og sjálfstæðs Tadsjikistans þegar sagan hefur gert Tadsjika að stórum hluta íbúanna í úzbek- skum borgum eins og Samarkand og Búkhara? Og þar fram eftir götum. Með öðrum orðum: Vesturlönd eru, ekki síður en stjórnin í Moskvu, hrædd við hið ófyrirséða og háskalega í sam- búðarvanda þjóða, sem margar eiga sér ekki nein skýr landamæri eftir búsetu. Svör við þeim vanda sem hér um ræðir eru ekki auðfundin. Margir binda vonir við þann sambandssamning um Sovétríkin sem banda- lag fullvalda ríkja, sem hefur verið að fikra sig áfram eftir göngum valdsins í Moskvu - en þar væri m.a. hægt að gera ráð fyrir mismunandi tengslum einstakra þjóða við „samveldið" (stundum er reyndar vitnað til breska samveld- isins sem fyrirmyndar um samskiptaform). Aðrir telja að hugmyndir um slíkan samning séu of seint á ferð: einn af talsmönnum Þjóðfylkingar- innar lettnesku hefur nýlega komist svo að orði að „fyrir þrem árum hefðum við tekið við fullveldi innan ríkjabandalags - en nú er það of seint, fólkið er orðið of reitt, æ fleiri vilja allt eða ekkert“. Allt eða ekkert - í þeirri formúlu býr ófriðar- háski sem með sérstæðum hætti sameinar Gorbatsjov og ráðamenn Vesturlanda nú um stundir ÁB ¥ ¥ 8 SfÐA — NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 6. julí 1990

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.