Þjóðviljinn - 17.08.1990, Blaðsíða 4
M'txjt Jim Smart
Ögmundur Jónasson formaður BSRB er á beininu:
Þjóðarsáttin
er krafa um
breytingar
Lagasetning á BHMR hefur verið mjög til umræðu upp á síðkast-
ið sem og aðdragandi hennar. Ögmundur Jónasson formaður BSRB
hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að hann sé andvígur lagasetning-
unni en einnig sagt að hefði BHMR fengið 4,5% hækkun hefði
BSRB sótt sömu hækkun. Ögmundur er á beininu í dag um BHMR-
deiluna og þjóðarsáttina og við spyrjum hann fyrst hvort ekki gæti
ákveðins tvískinnungs í fyrrnefndum yfirlýsingum hans.
„Það hefði átt að vera hægt að
leysa málin með samkomulagi.
Og þegar haft er í huga hve mikil-
væg grundvallaratriði voru í húfi
bar mönnum að leysa málið með
samkomulagi. Við vildum jafn-
framt láta standa við okkar kjara-
samninga. Það er ljóst að það
voru gerðir samningar sem sam-
an gengu ekki upp, þ.e. kjara-
samningar á almennum vinnu-
markaði og samningar BHMR.
Þessir samningar höfðu báðir að
geyma víxlverkunarákvæði. Þeg-
ar þau kæmu til framkvæmda
væri kaupmáttartryggingin sem
fólst í okkar kjarasamningi brost-
in. Við vildum ekki láta hrófla við
þessari tryggingu. Með öðrum
orðum: Þessi mál voru öll komin í
hnút. Við vildum láta leysa hann
með samkomulagi, ekki með
lagaboði. í því felst hvorki tví-
skinnungur né mótsögn."
Var ekki orðið Ijóst að það tæk-
ist ekki?
„Nei. Það hefði verið hægt að
leysa þetta mál með samkomu-
lagi en auðvitað þurftu menn að
hafa vilja til þess.
Talan 4,5% er refsiókvæði sem
átti að koma til framkvæmda þeg-
ar endurskoðunarnefnd hafði
ekki lokið störfum þann 1. júlí.
BHMR-leiðréttingin hefði þess
vegna getað orðið mun lægri, allt
eftir útreikningum nefndarinnar.
Voru BSRB og ASÍ að gera úlf-
alda úr mýflugu með harkalegum
viðbrögðum sfnum?
„Hver voru þessi harkalegu
viðbrögð BSRB? Eru það harka-
leg viðbrögð að við vildum láta
standa við okkar kjarasamninga?
BSRB lýsti því alltaf yfir að sam-
tökin myndu standa við sína
samninga. Við áttum ekki rétt á
endurskoðun þeirra fyrr en í nóv-
ember. Við sögðum að hver svo
sem launaþróunin yrði hjá öðrum
myndum við standa við okkar
samninga. Við bentum jafnframt
á að siðferðilega séð þá væri eðli-
legt að þær hækkanir sem gengu
yfir allan launamarkaðinn gengju
jafnframt til okkar. Og ef þú ætl-
ar að setja þessar kröfur BHMR
upp á einhverja mannréttinda-
vísu gagnvart okkur þá vil ég
benda á að í kjarasamningum
þeirra, sem gilda til 5 ára, er gert
ráð fyrir að þeir fái allar þær
hækkanir sem við kunnum að
semja um á þeim tíma, auk
leiðréttinga þeim til handa.“
BHMR samdi um leiðréttingu
vegna mismunar á launum hjá
ríki og á almennum markaði.
Hvaða rök hafa aðrir fyrir því að
fá sömu leiðréttingu?
„Allir sem eru á almennum
taxtalaunum þurfa leiðréttingu.
Spurningin er hvernig hægt er að
leiðrétta alla, ekki bara lítinn
hóp. Staðreyndin er líka sú að
ASÍ hafði farið fram á sams kon-
ar hækkun og BHMR til allra fé-
lagsmanna sinna og Vinuveit-
endasambandið hafði fallist á
þetta. BHMR átti þá samkvæmt
sínum samningi rétt á samsvar-
andi launahækkun aftur og lýsti
því yfir að sú hækkun yrði sótt.
Þannig var komin í gang víxlverk-
un sem byggði ekki á kaupmátt-
artryggingu því það var eitt af
skilyrðum VSÍ fyrir 4,5% hækk-
uninni til ASÍ.
Þegar ég les það sem kemur frá
mönnum á borð við þingmanninn
Hjörleif Guttormsson, sem er að
skilgreina þessa hluti, get ég ekki
séð að hann beri hag verkalýðs-
hreyfingarinnar mjög fyrir brjósti
eins og hann kveðst gera. Það er
hvimleitt þegar stjórnmálamenn
eru orðnir svo ákafir og upp-
numdir af formi að þeir komast
aldrei að bví að skoða inntakið.
Ef menn ætla að skilgreina vand-
ann út úr heiminum eru þeir ekki
að vinna verkalýðshreyfingunni
neitt gagn.“
Þú kveðst andvígur því að þessi
vandi væri leystur með lagasetn-
ingu. Er ekki von á fordæmingu á
henni frá BSRB?
„Hún kom. Við lýstum yfir
fullri ábyrgð á hendur ríkisstjórn-
inni strax eftir að þessi lagasetn-
ing var gerð.
Hins vegar vil ég minna á það,
þegar vcrið er að setja menn á
hálfgerðan sakamannabekk, að
um kjarasamninga ASÍ og BSRB
var meiri samstaða en dæmi eru
um í áratugi meðal íslenskra
launamanna. Við höfum náð ár-
angri og sá áfanginn er þegar
kominn fram; það hefur tekist að
stöðva kaupmáttarhrapið. Nú
erum við að sigla inn í þann tíma
að byggja kaupmáttinn upp.“
Nú er að sjá sem samtök
launþega séu uppteknari af því að
berjast innbyrðis en við andstæð-
ingana, atvinnurekendur. Er
þetta ekki óskastaða atvinnurek-
enda?
„Þegar launamenn taka hönd-
um saman með þeim hætti sem
gert hefur verið er það gert á
þeirri forsendu að láta sér-
hagsmuni víkja fyrir heildarhags-
munum. Ágreiningur verður til
þegar einhverjir hópar vilja ekki
taka þátt í þessu sameiginlega
átaki. Það sem mér finnst að
launafólk þurfi að gera núna er
að sameinast enn frekar í því að
sækja þá fjármuni sem raunveru-
lega tilheyra okkur og vinna að
breyttri tekjuskiptingu í þjóðfé-
laginu. Ég spyr sjálfan mig, t.d.
þegar maður skoðar yfirlýsingar
frá Sjómannafélagi Reykjavíkur
sem er að beina spjótum að
BSRB fyrir vinnubrögð í þessu
máli skýringalaust, hvað vakir
fyrir mönnum sem ekki vilja
kynna sér málin betur en þetta?
Hver er þeirra barátta? Hvar
voru þeir þegar margfræg þjóðar-
gjöf var færð útgerðarmönnum í
tormi kvótans, nú fyrir ekki alls
löngu? Reyndar má spyrja þess-
arar spurningar um launamanna-
hreyfinguna alla. Hvað er að ger-
ast hér með aðalverktaka þessa
lands sem hafa safnað miljörðum
í sjóði? Bankakerfið, fjármagn-
skerfið hefur fitnað meir á síð-
ustu árum en dæmi eru um og
stórfyrirtækin hafa þanist út og
eru að fjárfesta um víðan völl en
segjast ekki geta borgað fólki
betra kaup. Það er þarna sem ís-
lensk launamannahreyfing á að
sameinast og koma á raunveru-
legum breytingum í þjóðfélaginu
en elta ekki sífellt skottið á sjálfri
sér.
Það var þetta sem gerðist.
Kjarasamningarnir í vetur eru í
raun vantraustsyfirlýsing á hag-
kerfið eins og það er og nú þurfi
að gera eitthvað stærra og róttæk-
ara. Við erum búin að horfa upp
á algjört varnarleysi gagnvart
duttlungum stjórnvalda. Kaup-
mættinum er steypt niður svo
tugum prósenta skiptir ef
stjórnvöldum býður svo við að
horfa með gengisfellingum og
öðrum hætti. Af þessum ástæð-
um kom fólk saman og ákvað að
gera eitthvað í málinu. Að stöðva
þessa þróun og það gerum við
með því að sameinast um
kaupmáttartryggingar. Síðan
byggjum við upp kaupmátt taxta-
launa, ekki bara hjá litlum hópi
heldur hjá öllum. Um þetta er
dúndrandi samstaða í þjófé-
laginu.
Síðan kemur lagasetning á
BHMR sem er mjög alvarlegt
mál frá öllum hliðum séð fyrir
alla viðkomandi og við eigum að
sjá til að gerist ekki. En við verð-
um að sjá í hverju vandinn er
fólginn í stað þess að dengja okk-
ur ofan í skilgreiningar og form.
Þeir sem það gera og hafast ekk-
ert annað að eru ekki að vinna
launamannahreyfingunum neitt
gagn.“
Þjóðarsáttarþrenningin, þ.e.
ríkisvald-atvinnurekend-
ur-verkalýðshreyfing, er orðin
nokkuð föst í sessi. Dregur það
ekki vígtennurnar úr verkalýðs-
hreyfingunni að öll barátta fer
fram í nánu samstarfi innan
þrenningarinnar, jafnvel nánara
en við fólkið í hreyfingunni?
„Af hverju segirðu þetta?
Samningarnir byggja í raun á
þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikill
meirihluti félagsmanna BSRB
tók þátt í atkvæðagreiðslu um
samningana og samþykkti þá.
Hver segir að barátta geti ekki
verið skynsamleg? Hver segir að í
baráttu sé ekki hægt að læra af
reynslunni? Hver er að segja að
það að taka á fjármagnskerfinu
og miljörðunum sem hent er hér
á milli í þjóðfélaginu byggist ekki
á baráttu? Er það meiri barátta
að vilja 5% hærri laun sem stolið
er daginn eftir og þú veist það? Er
einhver meiri baráttuvilji á bak
við það en að reyna að upphugsa
nýjar leiðir til að sækja fjármun-
ina og byggja hér upp lífvænlegt
taxtavinnukaup fyrir 8 stunda
vinnudag?
Er ekki árangur þjóðarsáttar-
innar fyrst og fremst sá að tekist
hefur að ná niður verðbólgu með
fórnum launafólks?
„Ég er ekki sammála því að
launafólk hafi fórnað einhverju
með þessum samningum. Launa-
fólk hefur einfaldlega gert það
sem það taldi skynsamlegast. Það
hefur hins vegar gert sitt til að ná
verðbólgu niður og það var ekki
gert af fórnarlund heldur af því
að það taldi það vera skynsam-
legt. Það sem er nú búið að gera
er að stilla ljósin á þá sem stjórna
verðlagi á vöru og þjónustu. Þá
sem fara með völdin í þjóðfé-
laginu. Nú stendur krafan á þá að
grípa til ráðstafana til að auka
kaupmáttinn. Og ég spyr: Hvers
vegna geta ekki stórfyrirtæki, t.d.
flutningafyrirtækin sem hafa
dafnað sem aldrei fyrr, lækkað
farmgjöld? Hvað með bankak-
erfið sem hefur rakað saman
miljörðum, af hverju lækka ekki
vextir og fjármagnskostnaður
meir en raun ber vitni? Nú stend-
ur krafan á þennan mannskap.
Við vitum að stjórnmálamenn og
atvinnurekendur hafa takmark-
aða hugmyndauðgi til að grípa á
þessum vanda og það er launafól-
ksins að þrýsta á þá þannig að svo
verði gert.“
Litlar eða engar launahækkan-
ir; eru forsvarsmenn verkalýðs-
hreyfingarinnar ekki búnir að
gangast inn á þau meginrök at-
vinnurckcnda að launahækkanir
séu aðalverðbólguvaldurinn?
„Nei. Hvers vegna í ósköpun-
um ímynda menn sér það? Við
höfum alltaf haldið því fram að
launin séu ekki verðbólguvaldur.
Við viljum hins vegar byggja upp
launin með því að vera viss um að
þar sé innihald, traust kauptrygg-
ing, þar á bak við en ekki inni-
haldslausar tölur. Það er til lítils
að vera með miljón á mánuði ef
smjörstykkið kostar 500.000.
Hefði mönnum liðið betur ef
samningarnir í fyrravetur hefðu
byggst á tugprósenta kauphækk-
unum en ekkert hefði verið
minnst á gengi og verðlag? Ýms-
um hefði kannski þótt það stór-
mannlegra, en eins og við höfum
metið það, þá lögðum við allt
kapp á að það sem við næðum
það héldi og yrði ekki tekið burt
með gengisfellingum. Ég held að
fólk sé farið að spyrja sig að
þessu: Hvernig lögum við hlutina
best?
Þú ert að segja að meiri hækk-
anir sé ekki hægt að sækja með
kaupmáttartryggingum. Hafa
forsvarsmenn verkalýðshreyfing-
arinnar þá gefist upp á að ná fram
raunverulegum launahækkunum
fyrir sitt fólk, og sé svo, hvaða
leiðir eru þá eftir til að jafna kjör-
in?
„Hver er að segja að ekki eigi
að hækka launin meira? í fyrsta
lagi er talað um endurskoðun
samninganna í haust og í öðru
lagi á eftir að gera samninga eftir
þennan dag. Við eigum eftir að
hækka launin og við eigum eftir
að bæta kaupmáttinn. Ef þú ætlar
ekki að láta sitja við það eitt að
hækka launin í krónum og vilt
líka að það sé hægt að kaupa
meira fyrir þessar krónur þá
þarftu að gera margt í senn. Það
þarf að taka á mörgum þáttum í
þjóðfélaginu í senn svo öllu sé
ekki stolið af þér í vasa þeirra sem
þegar hafa þá úttroðna.
Það þarf að skoða með hvaða
hætti er hægt að lækka útgjöld
heimilanna og þjóðfélagsins alls
og færa fjármuni frá þeim sem
hafa sölsað óeðlilega mikið til
sín. Þetta þarf að gera í gegnum
skattakerfi, velferðarkerfi og
launakerfi. Við höfum reynt að
finna skynsamlegustu leiðina til
að hækka launin. Þarna hefðu
menn þurft að vera samstiga en
það eru ólíkar áherslur uppi í
hreyfingunni líka. Það er auðvit-
að ástæða fyrir því að við og
BHMR vorum ekki samstiga í
fyrravor. Þá settum við fram
kröfu um jafna krónutöluhækk-
un en þeir kröfðust hins vegar
markaðslauna.
Við erum árum saman búin að
horfa upp á óþolandi misskipt-
ingu og launamun í þjóðfélaginu.
Er ekki kominn tími til að við
reynum nýjar leiðir til að breyta
þessu í raun? Ég lít svo á að þjóð-
arsátt sé krafa um breytingar.
Þú talar um launamun. I Press-
unni er birt yfirlit yfir laun þjóð-
arsáttarmanna og sé þar rétt með
farið hafa forsvarsmenn launa-
mannahreyfinganna mun hærri
laun en félagsmenn svo skiptir
hundruðum þúsunda. Er ekki
hætt við trúnaðarbresti milli fé-
laga og forystu þegar slíkt kemur í
Uós?
„Ég vil ekki vera settur á sama
bás og þeir sem eru efstir á þess-
um lista, enda munar mjög miklu
á mér og öðrum þarna. Ég tek
laun samkvæmt taxtalaunum
BSRB en jafnframt er þak á
heildarlaunum mínum þannig að
hversu mikil sem yfir- og nætur-
vinna er fara þau ekki yfir
141.565 kr.
Ég svara spurningunni þannig
að ég held að það eigi ekki að
vera bil á milli forystumanna í
verkalýðshreyfingunni og þeirra
sem þeir eru að semja fyrir. Það
skiptir meira að segja miklu máli.
-vd.
4 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 17. ágúst 1990