Dagblaðið Vísir - DV - 06.01.1996, Blaðsíða 22

Dagblaðið Vísir - DV - 06.01.1996, Blaðsíða 22
22 sakamál LAUGARDAGUR 6. JANÚAR 1996 sérstæð Robin Benedict. Robin Benedict var tvítug, lagleg, lifði af vændi og beitti þeim meðul- um sem henni fannst sér henta þeg- ar peningar voru annars vegar. Þess vegna sat hún dag einn með manni sem hún þekkti vel og varð að horfast í augu við að líf hennar væri að öllum likindum á'enda. Hann tók fram hamar og byrjaði að slá hana í höfuðið. í fyrstu reyndi hún að berj- ast á móti og klóraði hann í framan með löngum nöglunum og svo beit hún hann í handlegginn en hún hafði samt ekki við honum. Og stuttu síðar lá hún andvana á rúm- inu sem hún hafði staðið við. Maðurinn virti hana fyrir sér um stund, tók púlsinn á henni og sann- færðist um að hann hefði komið henni úr þessum heimi. Burt með líkið Morðinginn var hávaxinn, vant- aði aðeins fimm sentímetra upp á tvo metra, nokkuð þrekinn og sterk- vaxinn að sama skapi. Hann gekk út úr svefnherberginu og sótti teppi. Það lagði hann á rúmið en síðan lagði hann líkið á það, vafði teppinu utan um það og bar það síðan út í farangursgeymsluna í bíl stúlkunn- ar sem stóð fyrir utan húsið sem hún bjó í. Þar næst þvoði hann burt með blautum handklæðum blóðblettina í svefnherberginu. Handklæðin, ásamt hamrinum og fötum Robin, setti hann í plastpoka sem hann tók með sér í bílnum. Morðinginn var árvökull og sí- hugsandi þegar hann ók út úr Cam- bridge, bandaríska háskólabænum, þar sem atburðurinn hafði átt sér stað. Hann er eitt úthverfa Boston. Þegar um sex kílómetrar voru að baki tók hann pokann með morð- vopninu, handklæðunum og fotun- um og kastaði honum i ruslagám. Að því búnu ók hann í um tvo tíma þar til hann kom að ruslagámi sem var næstum því fullur en hann vissi að hann yrði tæmdur næsta dag. Þar ruddi hann frá rusli svo hann gæti komið líkinu fyrir. Yfir það rótaði hann síðan uns ekki sást lengur í það. Að þessu loknu ók maðurinn bíl hinnar myrtu aftur til Boston þar sem hann lagði honum í bílastæðis- húsi Penn-járnbrautarstöðvarinnar. Pokinn finnst Á leiðinni heim til sín frá járn- brautarstöðinni hugsaði maðurinn um konu sína og börn. Hann fór yfir atburði síðustu vikna og mánaða í huganum og íhugaði líkurnar á því að hann slyppi við dóm fyrir morð- ið. Niðurstaða hans var sú að lík- urnar á því væru um níutíu og fimm af hundraði. Daginn eftir var ruslagámurinn með líkinu í fluttur til sorp- brennslustöðvar og áður en langt var um liðið var það orðið að ösku. Þar með höfðu líkurnar á því að hinn seki yrði ekki dreginn fyrir dóm nálgast mjög þá spá sem hann hafði gert sér í huganum. Þrem dögum eftir morðið fannst hins vegar pokinn með hamrinum og handklæðunum. Rannsókn leiddi í ljós að blóðið í pokanum var út tví- tugri vændiskonu, Robin Benedict, en dólgur hennar, Clarence J. Ro- gers, hafði þá nýverið tilkynnt hvarf hennar. Rogers leigði út dýrar vændiskonur til manna sem höfðu efni á að greiða mikið fyrir stund- irnar með þeim. Rogers sagði lögreglunni að þegar hann hefði síðast rætt við Robin hefði hún átt von á föstum við- skiptavini, Williams Douglas pró- fessor, sem var þá fjörutíu og tveggja ára. Nancy Douglas. Ný niðurstaða Frekari blóðrannsókn leiddi fáum dögum síðar í ljós að á handklæði í plastpokanum var blóð sem gat ekki verið úr Robin. Við samanburð fékkst úr því skorið að það var úr Douglas. Þótti rannsóknarlögregl- unni það fost vísbending um að hann hefði myrt Robin. En hann neitaði þvi ákveðið. Að vísu játaði hann að hafa átt stundir með gleði- konunni daginn sem hún hvarf en hann sagði skýringuna á því að blóð úr honum hefði komist í handklæð- ið allt aðra en þá að hann hefði gert henni mein. í hita ástarleiksins hefði hún rifið hann með nöglunum en síðan þurrkað blóðið af með handklæði. Douglas sagðist hins vegar ekkert þekkja til hamarsins eða plastpokans og hann sagði Robin hafa verið á lífi og heiia heilsu þegar hann hefði farið frá henni. Rannsóknarlögreglumennirnir trúðu Douglas ekki en þar eð ekkert lík hafði fundist var ekki hægt að sanna að Robin Benedict hefði verið myrt. Þegar rannsókn málsins hafði staðið í tvo mánuði var henni hætt Frægur vísindamaður William Douglas prófessor var einn kunnasti líffræðingur í Banda- ríkjunum og voru genarannsóknir sérgrein hans. Hann var af fátækum foreldrum kominn og hafði orðiö að koma sér áfram af eigin rammleik. Góðar gáfur höfðu reynst honum vel og hann fékk námsstyrki sem skólanámi. Þrítugur varð Douglas yfirmaður frumurannsóknamiðstöðvar í New York riki og árið 1978 var hann gerður að prófessor við Tufts-há- skólann í Boston. Næstu ár þótti hann einn besti og vinsælasti lærifaðir stofnunarinnar. Rann- sóknir hans ruddu leiðina á ýmsum sviðum genarannsókna og deild hans skorti ekki fjárframlög. Douglas kvæntist og fæddi kona hans, Nancy, honum þrjú börn, Billy, Johnny og Pamelu, sem hon- um þótti mjög vænt um. En prófss- orinn átti sér hlið sem enginn vissi um. Með honum blundaði afar sterk hneigð til kvenna og eitt af því sem hann gerði til að fullnægja henni var að safna klámblöðum sem hann geymdi á sérstökum leynistað heima hjá sér. Öðru hverju fór hann i borgarhverfið sem nefnist „The Combat Zone“ eða „Vígvöilurinn". Það er melluhverfið í Boston. Hrifningin Kvöld eitt, um fjórum árum eftir að hann kom til starfa við Tufts-há- skólann, var Douglas að leita sér að stúlku í vændiskvennahverfinu og kynntist þá Robin Benedict. Honum reyndist ekki erfitt að fá hana í rúmið með sér og eftir það varð hann ekki samur maöur. Hann fylltist löngun og þrá til hennar og brátt varð hrifningu hans af henni ekki lýst á annan hátt en þann að hann væri haldinn ákafri þráhyggju. Hann ímyndaði sér að hann elskaði hana og gæti fengið hana til að elska sig. Robin hafði komið til Boston tveimur árum áður til þess að setjast þar að með kærasta sínum en hann var kunnur knattspyrnumaður. Hann sneri hins vegar við henni bakinu. Hún fluttist þá til eins kunningja hans, Clarence J. Rogers dólgs, sem kom henni strax til starfa. Þegar Robin gerði sér ljóst hvaða þráhyggja hafði náð tökum á Willi- am Douglas gerði hún allt sem hún gat til að efla hana og tók að hafa af honum fé á nær hvern þann hátt sem hún gat. Var því síðar lýst þannig að „gjaldmælirinn" hefði gengið hverja þá stund sem hún var með honum. Stórar fjárhæðir Douglas var örlátur við stúlkuna sem hann ætlaði að snúa frá villu síns vegar. Hann varð við nær hverri beiðni hennar um fé en jafn- framt sótti að honum reiði og af- brýðisemi af því að hann vissi að hún var með öðrum mönnum. Eyddi hann stundum tveimur til þremur klukkutímum í að fylgjast með ferðum hennar. Og nokkrum sinnum reyndi hann að snúa henni frá viðskiptavinunum með því að tilkynna siðgæðislögreglunni um at- hafnir hennar. Til þess að reyna að ná sterkari tökum á henni fekk hann hana til að gerast þátttakandi í rannsóknum sem fram fóru á vegum háskólans. Á um hálfu ári tókst honum þannig að hafa jafnvirði um flögurra millj- óna króna af deildinni, en það fé fékk Robin sem „þóknun“ fyrir sinn þátt. Brátt fór að halla undan fæti fyr- ir prófessornum. Ári eftir að hann kynntist Robin varð stjórn deildar- innar að svipta hann stjórn á fjár- málum hennar. Nú var William Douglas á hraðri leið í hundana. Sjálfsvirðing hans var að mestu að engu orðin og ferill hans í stórhættu. Loks fór hann að taka kókaín. Eiginkonan látin vita Um hríð var Willam Douglas með Robin upp á krít. En þegar skuldin var komin upp í jafnvirði þrjú hundruð þúsund króna gerðist hún leið og krafðist uppgjörs. En Dou- glas gat ekki borgað. Þá hringdi Robin i konu hans og sagði frá sam- bandi sínu við hann. Jafnframt hót- aði hún að gera það opinbert og valda hneyksli. Þetta var dropinn sem fyllti mælinn. William Douglas hafði samband við Robin og sagðist myndu koma og greiða skuldina. Hann hafði hins vegar ekkert fé með sér, aðeins hamar. Hálfu ári eftir morðið leit enn út fyrir að Douglas kæmist hjá því að veða dreginn fyrir dóm. En þá fannst bíll Robin í bílageymsluhús- inu við Penn-járnbrautarstöðina þar sem hann hafði staðið allan tím- ann. Og leit tæknimanna leiddi í ljós að lítill hluti heila hennar var á gólfi farangursgeymslunnar. Þannig tókst að sanna að hún væri látin. William Douglas var handtekinn skömmu síðar. í nær heilan mánuð hélt hann við fyrri frásögn sina. Engu að siður var hann ákærður og leiddur fyrir rétt og rétt rúmum tveimur árum eftir að hann kynnt- ist Robin féll hann saman í réttar- salnum og játaði á sig morðið. Hálfum mánuði síðar var hann dæmdur í tuttugu ára fangelsi. Kona hans veitti honum dyggan stuðning meöan réttarhöldin stóðu yfir.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.