Helgarpósturinn - 05.10.1995, Blaðsíða 12

Helgarpósturinn - 05.10.1995, Blaðsíða 12
12 FIMMTUDAGUR 5. OKTÓBER1995 PÖsturmn Útgefandi: Miðill hf. Framkvæmdastjóri: Þorbjörn Tjörvi Stefánsson Ritstjóri: Karl Th. Birgisson Ritstjómarfulitrúar: Guðrún Kristjánsdóttir Stefán Hrafn Hagalín Auglýsingastjóri: Örn ísleifsson Setning og umbrot: Helgarpósturinn Filmuvinnsla og prentun: Prentsmiðjan Oddi hf. Óþefur úr fortíðinni * IHelgarpóstinum í dag er frásögn af nýlegum fundi þar sem formaður samtakanna Norrænt mannkyn, Einar S. Jónsson, lýsir skoðunum sínum á útlendingum og aðfluttum íslendingum. Þær eru, í sem stytztu máli, að vísa eigi þeim úr landi, sem eiga uppruna á fjarlægum slóðum og aðhyllast aðra trú en meirihluti íslendinga, og loka eigi landinu fyrir öðrum en takmörkuðum fjölda kristinna Evrópubúa. Ennfremur að norrænir menn séu öðrum fremri að öllu atgervi. Og svo framvegis. Þetta eru, með öðrum orðum, hugmyndir sama stofns og þær sem leiddu til þrautskipulagðasta þjóðarmorðs sögunnar um miðja þessa öfd — hugmyndir sem eiga engan sinn líka í eyðileggingarmætti og grimmd og byggjast á hreinni heimsku. Það ætti enginn að láta sig dreyma um að Einar S. Jónsson sé einn um þessar skoðanir á íslandi. Hann er einungis einn fárra sem, sökum annaðhvort dómgreind- arleysis eða fífldirfsku, hafa látið þær uppi opinberlega. Það er engin ástæða til að ætla að þær eigi ekki svipað- an hljómgrunn hér og í nágrannalöndunum. Annað væri undrunarefni. Þessar hugmyndir eru svosem ekki nýjar af nálinni hér á landi. Snemma á öldinni stungu þær sér niður hér sem annars staðar og virðast enn lifa góðu lífi, þótt lágt hafi farið síðustu áratugi. Það þarf heldur ekki að koma á óvart. Þessi sami Einar fullyrti í vikunni að nafngreindur al- þingismaður hefði um fimmtán ára skeið verið félagi í Norrænu mannkyni og sótt þar fundi. Þessu neitar þing- maðurinn staðfastlega og ekki er ástæða til að draga þá neitun í efa. Hins vegar verður ekki undan því litið, að ummæli einstakra stjórnmálamanna að undanförnu um málefni flóttamanna, aðfluttra íslendinga og útlendinga sem hér stunda vinnu eru meira en sterkur endurómur af því sem rasistarnir í Norrænu mannkyni hafa látið hafa eftir sér. Það er líka meira en óheppileg tiiviljun að þeir, sem þannig tala, eru sömu mennirnir og hafa bar- izt af hve mestri hörku gegn opnari samskiptum íslend- inga við aðrar þjóðir, til dæmis við gerð viðskiptasamn- inga. Þær raddir heyrast, að ekki eigi að veita Einari S. Jónssyni og skoðanabræðrum hans aðgang að fjölmiðl- um til þess að útbreiða fordóma sína og hatur. Þetta er rangt viðhorf, af tveimur ástæðum. Tjáningarfrelsið, hornsteinn alvörulýðræðis, er ekki til þess ætlað að vernda skoðanir sem allir eru sammála og öllum þykja þægilegar. Þessi helgu mannréttindi eru beinlínis til þess hugsuð að vernda rétt þeirra, sem hafa skoðanir sem ögra ríkjandi viðhorfi og raska ró manna, jafnvel meiða. Þegar því hlutverki er burtu svipt er tján- ingarfrelsið einskis virði og lýðræðið innantómt. Auk þess er það skoðun þessa blaðs, að tilraunir til að kæfa hatursfullar skoðanir í fæðingu virki þveröfugt við tilgang sinn. Þær afla þeim samúðar, sem sízt skyldi, og efla þannig málstað sem ekki á stuðning skilinn. Vondar skoðanir eiga að fá að heyrast; fordómar, hatur og mannvonska munu á endanum tapa fyrir öðrum sjónarmiðum og göfugri á markaðstorgi hugmyndanna. En til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að allir haldi vöku sinni, gæti tungu sinnar og leyfi hatrinu ekki að festa rætur og breiðast út. Helgarpósturinn Vesturgötu 2 101 Reykjavík Sími: 552-2211 Bréfasími: 552-2311 Bein númer: Ritstjórn 552-4666, símbréf 552-2243, auglýsingadeiid 552-4888, símbréf 552-2241, tæknideild 552-4777, dreifing 552-4999, smáauglýsingar 552-5577. Fréttaskotið: 552-1900 Áskrift kostar kr. 800 á mánuði ef greitt er með greiðslukorti, en kr. 900 annars. Sellurnar hans Steingríms „Nú hugsar Steingrímur til Allaballanna sem sitja heima og fylla út kjörseðlana og vonar að hann sigri enn eina konuna. Þá getur hann haldið áfram frœki- legri baráttu sinni fyrir jafnrétti kynjanna. “ Steingrímur J. Sigfússon er að eigin sögn einn af boðberum jafnréttis kynjanna hér á landi. Það vill bara svo til að hann er karl og það væru raknir fordóm- ar að útiloka hann frá embætti formanns Alþýðubandalagsins þess vegna. Hann er kaldur karl sem vill hlut kvenna sem mest- Stjórnmál Sigríður I. Ingadóttir an, svo framarlega sem þær skyggja ekki á hann og koma í veg fyrir aukin völd hans. Stein- grímur veit að karlar eiga ekki að hugsa svona, en það kemur ekki í veg fyrir kosningabaráttu hans gegn Margréti Frímanns- dóttur sem gæti aftrað því að Allaballar taki sig saman í andlit- inu og gefi konu raunveruleg völd. Hann er í flokki sem telur sig mjög jafnréttissinnaðan. Kona hefur að vísu aldrei gegnt emb- ætti ráðherra fyrir hönd flokks- ins og kona hefur aldrei verið formaður. Þær hafa fengið að vera varaformenn, stundum. Það er að segja þegar Steingrím- ur J., kvennabaninn mikli í flokknum, hefur ekki gefið kost á sér. Hann hefur sigrað konur í prófkjörum og framboði til vara- formanns. Nú hugsar hann til Allaballanna sem sitja heima og fylla út kjörseðlana og vonar að hann sigri enn eina konuna. Þá getur hann haldið áfram fræki- legri baráttu sinni fyrir jafnrétti kynjanna. Þrátt fyrir jafnréttisbaráttu Steingríms ákváðu kynsystur Margrétar í Alþýðubandalaginu á síðasta kjörtímabili að stofna kvennahóp sem kallar sig Sell- urnar. Markmið hópsins er að auka hlut kvenna í valdastöðum í jafnréttisflokknum. Þetta er vopn þeirra gegn körlunum í flokknum, en það þarf ekki að taka það fram að þeir eru allir jafnréttissinnar, en líkjast Stein- grími og vilja ekki standa í skugganum. Sellurnar studdu Guðrúnu Ág- ústsdóttur til sigurs í prófkjöri fyrir síðustu borgarstjórnar- kosningar. Nú í sumar hafa þær haft tækifæri til að vinna að því að koma Margréti Frímannsdótt- ur í æðsta embætti flokksins. En eitthvað hefur dofnað yfir Sell- unum. Flokkseigendafélagið vill nefnilega að Steingrímur verði formaður og sumum Sellum finnst flokkshagsmunir æðri kvenfrelsissjónarmiðum og eru nú klofnar í afstöðu sinni til for- mannskjörsins. Þær Sellur sem styðja Margréti boðuðu til fundar und- ir yfirskriftinni „Konur og völd“ og á þeim fundi var áréttað mik- ilvægi þess að koma konum til valda. Hinar Sellurnar, sem vilja stundum koma konum til valda en ekki alltaf, settust aftur á móti við símann og báðu flokks- systkini sín að hundsa fundinn. Steingrími J. var ekki boðið að halda framsöguræðu og hann fór í fýlu. Hann bað væntanlega kjósendur, í útvarpsviðtali, að fara frekar á bíó en á fundinn. Hann mætti auðvitað ekki, en hann gat ekki hugsað sér að sitja hnípinn í skugganum. Dag- inn eftir, á almennum kosninga- fundi hjá jafnréttisflokknum, ræddi hann fjálglega um framlag sitt til jafnréttisbarátturinar. Það er ágætt fyrir Alþýðu- bandalagsfólk, sem nú veltir vöngum yfir kjörseðlinum sín- um, að minnast þess að stærsti flokkur landsins, helsti and- stæðingur Alþýðubandalagsins, valdi Davíð Oddsson til for- mannsembættis fyrir u.þ.b. fimm árum. Það vill svo skemmtilega til að kvennahópur í hans flokki, „Sjálfstæðar kon- ur“, telur hann einmitt tilvalinn til að vinna að jafnrétti kynjanna á íslandi. Ef svo fer, að Stein- grímur nái kjöri, þá eiga flokk- arnir tveir, Alþýðubandalag og Sjálfstæðisflokkur, möguleika á skemmtilegri samvinnu í jafn- réttisbaráttunni í framtíðinni. Ég vil áð lokum nota tækifærið og óska Margréti Frímannsdótt- ur sigurs, því sem femínisti vil ég að konur fái völd. Steingrím- ur hefur samt sem áður tækifæri til að sinna jafnréttismálum. Hvernig er það, vantar ekki Sell- urnar formann? Höfundur er sagnfræðingur. Palladómur Kórdrengurinn Af mér er þungu fargi létt. í liðlangan vetur hefur mér ekki orðið svefns auðið af áhyggjum vegna þess ágætis- pilts, hans Guðna Ágústssonar, þingskörungs, meistarabanka- manns og gæðablóðs. Þannig er, að suðrí Reykjavík gefur Alþýðuflokkurinn út blað sem engir kaupa og fáir lesa, en lánast þó einhvernveginn að koma sínum málum þannig fyrir að heiðarlegu fólki hrýs hugur við tilhugsuninni um að þurfa að lesa það uppá hvern dag. I þessari blaðnefnu hef ég haft fregnir af hinum meinfýsnustu árásum, sem lánlausar lista- mannatuskur og landeyður hlaða utaná vammlaust fólk og heiðvirt. Þannig var það einmitt með fyrrverandi sveitunga minn, hann Guðna litla Ágústs- son. Á haustmánuðum barst hingað í kyrrðina bergmálið af svívirðingum sem hann mátti undirgangast fyrir tilstilli þessa lýðs. Fyrir eyrum okkar glumdu samantvinnuð svigurmæli um krúnurakaða fótboltabullu, pól- itískan heimalning, moldarkofa- pólitíkus og allt þaðanafverra sem Drottinn hefur upp fundið hér á jörð. Við svo bætast síðast aðdróttanir um kynþáttahatur og nationalsozialismus, sem er víst tískuorð þar syðra um það sem í minni sveit var réttnefnt vökult bóndans auga fyrir bú- fénaði af öðrum bæjum í túnfæt- inum. En nú er það hjá liðið og ekki vonum seinna. Guðni hefur loks- ins brotið odd af sínu oflæti og látið þau boð út ganga að hann sé ekki fótboltabulla, ekki pólit- ískur heimalningur, ekki mold- arkofapólitíkus og ekki nation- alsozialist. En framsóknarmaður er hann, ungmennafélagi þótt kominn sé af léttasta skeiði og kirkjurækinn rétt einsog aðrir sunnlenskir bændur. Það fengi enginn, sem til mannsins þekkir, því trúað uppá hann Guðna að hann léti fólk gjalda litarháttar síns, enda er hann öllum litbrigðum lffsins vanur úr fjósinu. Þar eru allar beljur jafnar, rauðar, skjöldóttar og svartar. Hinsvegar lætur Guðni sér ekki til hugar koma að í öllum kúm sé nytin jöfn. Sum- um er betur komið fyrir í slátur- húsinu, aðrar er affarasælast að losna við úr stofninum hið fyrsta. Það var og verður eðli- legur partur af lífi og uppeldi í Simbakoti og á Brúnastöðum, en varla er til þess að ætlast að borgarbörnin beri skynbragð á þau sannindi. Vísast má við því búast, að ekki hríni staðreyndir lífsins á orðsins öskuröpum í Alþýðu- húsinu syðra. Ef það kynni að verða Guðna Ágústssyni til nokkurs gagns legg ég hérmeð mína liðveislu æru hans til björgunar. Vottast það, að kraft- meiri rödd hefur ekki ómað í guðsþjónustum sunnanlands. Fegri hafa þær heyrst, en fráleitt einlægari, ómstríðari og ákafari. Megi hún óma áfram, Guðna til sóma, landsins lýð til framfara og bústofninum til áframhald- andi heilbrigðis og hreinleika. Sveinn „Guðni hefur loksins brotið oddafsínu oflœti og látið þau boð útganga að hann sé ekki fótbolta- bulla, ekki pólitískur heimalningur og ekki mold- arkofapólitíkus. “

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/286

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.