Morgunblaðið - 07.01.2001, Page 14
14 B SUNNUDAGUR 7. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Veit duftsins son nokkra dýrðlegri sýn
en drottnanna hásal í rafurloga?
Sjá grundu og vog undir gullhvelfdum boga!
Hver getur nú unað við spil og vín?
Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín,
mókar í haustsins visnu rósum.
Hvert sandkorn í loftsins litum skín,
og lækirnir kyssast í silfurósum.
Við útheimsins skaut er allt eldur og skraut
af iðandi norðurljósum.
Frá sjöunda himni að ránar rönd
stíga röðlarnir dans fyrir opnum tjöldum,
en ljóshafsins öldur, með fjúkandi földum
falla og ólga við skuggaströnd.
Það er eins og leikið sé huldri hönd
hringspil með glitrandi sprotum og baugum.
Nú mænir allt dauðlegt á lífsins lönd
frá lokuðum brautum, frá myrkum haugum,
og hrímklettar stara við hljóðan mar
til himins, með kristalsaugum.
Nú finnst mér það allt svo lítið og lágt,
sem lifað er fyrir og barizt er móti.
Þó kasti þeir grjóti og hati og hóti,
við hverja smásál ég er í sátt.
Því bláloftið hvelfist svo bjart og hátt.
Nú brosir hver stjarna, þótt vonirnar svíki,
og hugurinn lyftist í æðri átt,
nú andar guðs kraftur í duftsins líki.
Vér skynjum vorn þrótt, vér þekkjum í nótt
vorn þegnrétt í ljóssins ríki.
Hve voldugt og djúpt er ei himinsins haf
og hásigldar snekkjur, sem leiðina þreyta.
Að höfninni leita þær, hvort sem þær beita
í horfið – eða þær beygja af.
En aldrei sá neinn þann, sem augað gaf,
– og uppsprettur ljóssins ei fundnar né skýrðar.
Með beygðum knjám og með bænastaf
menn bíða við musteri allrar dýrðar.
En autt er allt sviðið og harðlæst hvert hlið
og hljóður sá andi, sem býr þar.
Einar Benediktsson
NORÐURLJÓS
venjulegum norðurljósum að menn trúa
varla sínum eigin augum þegar þeir sjá þau.
Ég er ekki að segja að þessi norðurljós séu
fallegri en önnur, þau eru bara sérstæð.
Sjálfum finnst mér norðurljósin fegurst ef
þau skarta sem flestum litum: grænum,
rauðum, bláum og fjólubláum. Allir þessir lit-
ir eru til og hægt að mæla nákvæmlega hvar
þeir eru í litrófinu og hvaða efni eiga þátt í að
mynda þau. Eins og við er að búast eru það
fyrst og fremst súrefni og köfnunarefni, enda
eru það efnin sem gufuhvolfið er aðallega
samsett úr. Norðurljósin verða til undir mjög
sérstæðum kringumstæðum, í nánast algjöru
lofttæmi. Þarna eru rafagnir á ofboðslegum
hraða, 50.000 km/sek, sem rekast á frum-
eindir og sameindir andrúmsloftsins og fá
það til að lýsa. Og orkan er líka gífurleg.
Einn norðurljósabogi í háloftunum flytur
meiri orku en allar virkjanir Íslendinga.“
NORÐURLJÓS
SKAMMT FRÁ JÖRÐU
Ýmsir menn, bæði hér á landi og erlendis,
fullyrða að þeir hafi séð norðurljósin koma
alveg niður undir jörðu, og til eru þeir sem
hafa þóst heyra í norðurljósum, þar sem al-
gjör þögn hefur ríkt. Tala þeir um suð, eða
einhvers konar snarkhljóð. Þorsteinn er
spurður hvort þetta gæti verið rétt.
„Eitt af því sem vakti sérstakan áhuga
Tromholts, sem kom hingað 1883, var, að
danskur fræðimaður fullyrti að hann hefði
séð norðurljósin svo lágt að þau hefðu borið í
Esjuna, þ.e.a.s. verið milli sín og hennar.
Þetta fannst Tromholt athyglisvert og vildi
kanna hvort hann gæti staðfest það. En hon-
um tókst það ekki,“ segir Þorsteinn. „Ég fæ
oft lýsingar á loftsteinum sem eiga að hafa
komið niður svo lágt að menn hafi séð þá á
milli sín og næsta fjalls. En það er sjónvilla.
Eins er það með norðurljósin. Þau eru yf-
irleitt nálægt 100 km hæð og hafa aldrei
mælst neðar en í 65 km hæð. Við höfum enga
tilfinningu fyrir því, þegar við sjáum norður-
ljós, hvað þau eru langt í burtu, og höfum
enga möguleika á að meta fjarlægðina.
Spurningunni um hljóðið er auðsvarað. Við
heyrum ekki hljóð beint frá norðurljósunum.
Ef við gætum það, yrði hljóðið ekki í takt við
ljósin; þau eru svo hátt uppi að hljóðið yrði
margar mínútur að berast til jarðar. Loftið
þarna uppi er líka svo þunnt, að hljóð getur
ekki myndast þar. Hitt er svo annað mál, að
það gætu verið rafmagnsfyrirbæri við yf-
irborð jarðar sem tengdust norðurljósum,
eins og t.d. jarðstraumar, sem gætu vakið
upp einhver hljóð sem eyrun geta numið.
Lýsingum manna á þessum norðurljósaþyt
ber býsna vel saman, svo að ekki er ólíklegt
að þarna sé eitthvað raunverulegt á ferðinni,
þótt ekki hafi tekist að staðfesta það ennþá.
Þótt ég hafi sjálfur aldrei heyrt neitt þessu
líkt, vil ég ekki hafna þessari hugmynd um
norðurljósaþytinn.“
AUKIN TÍÐNI HJARTAÁFALLA?
Nú þóttust vísindamenn í Sovétríkjunum
gömlu finna samband á milli bjartra og
sterkra norðurljósa og aukinna hjartaáfalla.
Fær það staðist?
„Ég hef eitthvað séð um þetta á prenti, en
mér finnst það nú ákaflega ólíklegt,“ segir
Þorsteinn. „Það er oft sem menn kanna tölu-
legt samband fyrirbæra og þykjast finna
eitthvað merkilegt, en við nánari athugun
reynist svo ekki vera. Ég held að þetta sé
eitthvað tilviljunarkennt. Vissulega eru ýmis
mælanleg fyrirbæri sem fylgja norðurljós-
unum, s.s. sveiflur í segulsviðinu, en þetta
eru afskaplega veik hrif og þarf góð tæki til
að mæla þau að öllum jafnaði. Segulstormar,
sem fylgja norðurljósum, geta stundum
spanað upp spennur í löngum raflínum og
valdið meiri háttar rafmagnstruflunum. Það
gerðist t.d. fyrir nokkrum árum í Kanada og
Bandaríkjunum, að allt rafmagn fór af
stórum svæðum í margar klukkustundir,
þegar spennar brunnu yfir. En ég á mjög
bágt með að trúa því, að þetta hafi bein líf-
fræðileg áhrif á fólk. Ég get ekki séð hvernig
það mætti verða.“
MYRKUR OG ÓMÆLD ÞOLINMÆÐI
Að lokum er Þorsteinn spurður að því,
hvort fólk ætti að bera sig að á einhvern sér-
stakan hátt við að skoða norðurljósin.
„Ég býst við að nær allir Íslendingar telji
sig þekkja norðurljósin, og að vissu leyti er
það rétt; svo til allir hafa einhvern tíma séð
þau. En til þess að kynnast norðurljósunum
vel, þurfa menn að komast út fyrir byggð-
arkjarnann á hverjum stað, sem lengst frá
öllum ljósum, og gefa sér góðan tíma, helst
bíða klukkutímum saman; þá fyrst sjá menn
norðurljósin eins og þau geta orðið fallegust,
og átta sig á einkennum þeirra. Þá uppgötva
menn að til eru margar tegundir norðurljósa,
sem þeir hafa aldrei séð áður. Þetta uppgötv-
aði ég á skólaárum mínum, þegar ég fór að
eyða tíma í þetta, stundum heilu nóttunum.
Og björtustu norðurljós geta verið ótrúlega
falleg. Í byrjun desember hringdu til mín
tveir menn, sem höfðu verið á ferð norður í
land. Þegar þeir voru nærri Hvammstanga
stöðvuðu þeir bíla sína vegna þess hve norð-
urljósin voru stórkostleg. Mennirnir voru svo
gagnteknir að þá skorti orð til að lýsa því
sem þeir höfðu séð. Þeir sögðust oft hafa séð
norðurljós en aldrei neitt í líkingu við þetta.
Því verður ekki á móti mælt að norðurljósin
eru með því fegursta sem auganu mætir í
náttúrunnar ríki. En fallegustu skrautsýn-
ingarnar standa sjaldan lengur en í örfáar
mínútur og þess vegna missa flestir af þeim,
því miður. Sívaxandi raflýsing í borgum og
sveitum torveldar mönnum líka að fylgjast
með þessu einstæða náttúrufyrirbæri. Von-
andi kemur að því að menn fari að huga að
því máli og stilla lýsingu í hóf.“ Kyrr, geislótt ljós yfir Svínafellsjökli.
Ljósmyndir/Snævarr GuðmundssonNorðurljós séð frá Jökulsárlóni.
Norðurljós yfir Fagradal á Reykjanesi.