Morgunblaðið - 01.04.2001, Side 26
26 SUNNUDAGUR 1. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
og reynt að hafa áhrif á aðila. Ég get
staðfest það. Það hefur þó dregið úr
þessu á seinustu árum og þetta nýja
umhverfi sem við erum komin inn í
skiptir miklu máli í því sambandi. Al-
þjóðaflugmálastofnunin leggur ríka
áherslu á sjálfstæði þeirra stofnana
sem fara með flugöryggismál í aðild
arlöndunum,“ segir Þorgeir.
Alltaf verið að
endurbæta kerfin
Sú mikla umræða og gagnrýni
sem höfð hefur verið í frammi að
undanförnu hefur m.a. beint sjónum
að því hvers konar hlutverki Flug
málastjórn raunverulega gegnir í
flugöryggismálum.
„Hlutverkið er að sjá til þess að
allir þeir sem standa í flugrekstri
haldi uppi öryggiskerfi í samræmi
við lög og reglugerðir og að þetta
kerfi sé virkt. Það er alltaf verið að
endurskoða og endurbæta öryggis-
kerfin. Á undanförnum áratug hafa
verið búin til ný og betri öryggiskerfi
sem felast ekki hvað síst í nýjum
reglugerðum frá Flugöryggissam-
tökum Evrópu, sem kallast JAR
(Joint Aviation Requirements). Þær
skapa í raun og veru alveg nýtt
rekstrarumhverfi fyrir allan íslensk-
an flugrekstur sem og flugrekstur
annars staðar í Evrópu. Við erum í
flokki þeirra sem fremst ganga í því
að innleiða þessar nýju reglugerðir
og höfum verið það frá upphafi. Við
höfum innleitt allar þessar reglu-
gerðir samkvæmt þeirri tímaáætlun
sem Flugöryggisstofnun Evrópu
hefur sett sér en svo hefur ekki verið
í öllum ríkjum. Sum lönd í Mið- og
Suður-Evrópu hafa dregist illa aftur
úr og hafa til að mynda ekki innleitt
JAR-OPS 1-flugrekstrarreglugerð-
ina fyrir neinn af sínum flugrekend-
um.
Við skipum okkur í flokk með
Norðurlöndunum í þessum málum
eins og öðrum flugmálum, enda eru
Norðurlöndin þekkt fyrir að vera
fremst í flokki. Flugöryggi er hvergi
meira í heiminum en á Norðurlönd-
unum,“ segir Þorgeir.
– Gildistöku þessara JAR-OPS 1-
reglna hefur tvívegis verið frestað
hér gagnvart minni flugrekendum.
Rannsóknarnefnd flugslysa telur
að gildistaka þeirra myndi taka á
flestum þeim atriðum, sem fram
komu við rannsókn flugslyssins í
Skerjafirði að hefði verið áfátt.
Mörgum þykir furðu sæta að gild-
istöku þessara reglna skuli hafa ver-
ið frestað. Hefur Flugmálastjórn
þrýst á um að reglurnar öðlist gildi
hér?
„Við höfum þrýst á um að við gæt-
um staðið við allar tímasetningar
Flugöryggissamtaka Evrópu um
gildistöku þessarar reglugerðar en
það voru Flugöryggissamtökin sjálf
sem sáu sér ekki fært að láta þessa
reglugerð taka gildi fyrir smærri
flugrekendur í Evrópu. Við erum því
á þessu sviði eins og öðrum algerlega
í takt við ákvarðanir Flugöryggis-
samtakanna,“ segir hann.
Þorgeir bendir einnig á að ákveðn-
ir kaflar þessarar reglugerðar (svo
nefndir J- og Q-kaflar) um flugtíma
og vakttíma flugmanna og reglur um
útreikning massa og jafnvægis flug-
véla hafi verið innleiddir hér á landi
1998 gagnvart öllum flugrekendum,
smáum sem stórum. „Vakt- og flug
tímareglurnar eru hvergi í gildi í
þessari mynd nema hér á landi og í
Lúxemborg,“ segir hann.
– Eitt er að setja reglur og annað
að framfylgja þeim. Fram hefur
komið að flugmaður vélarinnar sem
fórst í Skerjafirði hafi verið á flug-
vakt í meira en 13 klst. samfleytt en
skv. gildandi reglum er hámarks-
flugvakt 10 klst. við þessar aðstæð-
ur.
„Það er alveg rétt. Reglugerðirnar
eru auðvitað gagnslausar nema þeim
sé fylgt eftir á grundvelli gæða-
stjórnunar í flugrekstri og að það sé
virkt. Þegar gerðar eru úttektir á
flugrekstri er þetta eitt af þeim at-
riðum sem farið er yfir, því allir hlut-
ir þurfa skráningar við í fluginu.
Þessar nýju reglur gera mjög stíf-
ar kröfur um það. Mikilvægur hluti
þessa nýja reglugerðarumhverfis
Flugöryggissamtakanna er að allir
hutir verða formlegri og það er gerð
mjög rík krafa um skráningu á öllum
hlutum, sem er auðvitað grundvöllur
þess að hægt sé að endurskoða eða
taka út rekstur flugrekenda.
Það má líka benda á í þessu sam-
bandi að ef umrætt flugslys hefði átt
sér stað 1997 þá hefði þessi flugmað-
ur verið innan allra vinnutímamarka
sem þá giltu. Þá voru 15 tíma vaktir
heimilaðar. Þetta er ljóst dæmi um
þá miklu breytingu sem hefur orðið.“
– Einhverjar ástæður hljóta þó að
vera fyrir því að menn hafa hert
þessar reglur?
„Já, það er rétt, en sú sérkenni-
lega staða er þó uppi að hugsanlega
þurfum við aftur að gera þær sveigj-
anlegri. Evrópusambandið mót-
mælti þessum kafla um vinnutíma á
sínum tíma en ESB þarf að gefa út
þessar reglur fyrir Evrópusam-
bandslöndin. Það hefur verið karpað
í Brussel um þennan kafla í þrjú ár
og nú eru komnar fram nýjar reglur
sem mér er sagt að séu sveigjanlegri
og gefi flugrekendum og flugmönn-
um rýmri möguleika en þær reglur
sem við höfum tekið upp.
Gildistaka þessara reglna í Evr-
ópusambandinu gerir að verkum að
við verðum að taka þær upp hér
vegna aðildar okkar að Evrópska
efnahagssvæðinu, og þá gætum við
þurft að slaka á kröfum um vinnu-
tíma flugmanna.“
– Nýjum reglum fylgja meiri kröf-
ur um skráningu. Er eftirlit Flug-
málastjórnar með flugrekendum
kannski fyrst og síðast eins konar
pappírseftirlit fremur en virkt lög-
gæslueftirlit með tilheyrandi stikk-
prufum og beinum afskiptum?
„Það er alveg ljóst að við erum
ekki með lögreglueftirlit. Það eru 11
manns sem sinna öllu því eftirliti sem
fram fer á vegum Flugmálastjórnar.
Fimm starfsmenn sjá til dæmis um
mál sem varða lofthæfi allra ís-
lenskra flugvéla. Við erum því ekki
með flokk manna sem fara út og
stunda eins konar lögreglueftirlit og
það er raunar hvergi gert. Ef við ætl-
uðum að taka slíkt upp þá værum við
að búa til alveg nýtt öryggiskerfi.
Mönnum finnst það kannski sér-
kennilegt en við leggjum áherslu á að
flugöryggi verður ekki tryggt nema
allir séu samtaka og það sé ríkjandi
traust. Skv. gildandi reglum er Flug-
málastjórn með trúnaðarmenn hjá
flugrekendum, sem eru starfsmenn
félaganna, flugrekstrarstjóra og
tæknistjóra, sem við verðum að geta
treyst. Þær úttektir og skoðanir sem
við gerum byggjast ekki eingöngu á
pappírum, þótt pappírinn skipti gríð-
arlegu máli og okkar starfsmenn
verji miklum tíma í að fara yfir papp-
íra félaganna. Því miður þurfum við
líka að verja miklum tíma í að kenna
sumum að ganga frá þessari papp-
írsvinnu, sérstaklega litlu félögun-
um, sem hafa þurft á verulegri hand-
leiðslu Flugmálastjórnar að halda
við þennan frágang.
Þurfum meira fé
– Skortir Flugmálastjórn fé til að
vera í stakk búin að halda uppi eðli-
legu og nauðsynlegu öryggiseftirliti
með flugstarfsemi hér á landi?
„Það er alveg ljóst að við þurfum
meira fé. Þessi málaflokkur hefur
verið efst á lista fjárlagabeiðna
stofnunarinnar um árabil. Ég vænti
þess að ríkisvaldið muni veita meiri
fjármunum til þessa málaflokks. Við
höfum sem betur fer talsverðar
tekjur af skráningu flugvéla og eft-
irlitsgjöldum, en þær standa ekki
undir öllum þessum þáttum, eins og
okkar gjaldskrám er háttað.
Ekki er hægt að ætlast til þess að
þessi starfsemi beri sig af eigin
tekjum, nema menn séu reiðubúnir
að hækka gjöldin verulega,“ segir
Þorgeir.
– Rannsóknarnefnd flugslysa
leggur m.a. til í skýrslu sinni að kom-
ið verði á gæðakerfi fyrir starfsemi
flugöryggissviðs stofnunarinnar. Nú
hefur komið fram að Pétur Maack,
framkvæmdastjóri flugöryggissviðs
Flugmálastjórnar, átti frá upphafi
ráðningar í það starf 1997 að sinna
uppbyggingu gæðakerfa hjá flugör-
yggissviðinu. Hefur ekkert verið
gert í þessa veru?
„Jú, það hefur verið mikið unnið
að þessu. Pétur, sem er sérfræðing-
ur í gæðastjórn, var raunar byrjaður
á þessu verki áður en hann var feng-
inn hingað til að vera framkvæmda-
stjóri flugöryggissviðs. Sá maður
sem hefur lengst af gegnt þessu
starfi, Grétar H. Óskarsson, er núna
á okkar vegum í Montreal í Kanada
hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni og
situr þar sem fulltrúi okkar í tækni-
nefnd. Það varð að ráði að fá Pétur til
að taka við framkvæmdastjórninni,
svo hann hefði sem besta aðstöðu við
að koma á þessu gæðakerfi. Við er-
um með verkfræðing að störfum,
sem hefur það að aðalviðfangsefni að
vinna að uppbyggingu þessa gæða-
kerfis og það hefur þegar náðst mik-
ill árangur. Það var talið hentugt að
byrja á því að einbeita sér að skír-
teinamálum en það er verið að út-
víkka þetta.“
– Af lestri skýrslu RNF verður
vart dregin önnur ályktun en að
Flugmálastjórn hafi ekki náð sem
skyldi tökum á eftirliti með því að
flugrekendur fari að settum reglum.
RNF beinir m.a. til flugmálastjórnar
að endurskoða verklagsreglur flug-
öryggissviðs um skráningu notaðra
loftfara til atvinnuflugs og að áætlun
verði gerð um formlegar úttektir á
flugrekendum o.fl. Er þetta réttmæt
gagnrýni að þínu mati?
„Ég tel að þessi mynd sem þarna
er máluð gefi ekki rétta mynd af
þeirri starfsemi sem hér er í gangi.
Umræða í fjölmiðlum um skráningu
þessarar flugvélar hefur hins vegar
farið svo út um víðan völl að með
ólíkindum er. Það gilda mjög skýrar
og fastmótaðar verklagsreglur um
það hvernig flugvélar fá ný skrán-
ingar- og lofthæfiskírteini á Íslandi.
Við höfum sagt allt frá upphafi þess-
arar umræðu að það voru öll nauð-
synleg gögn lögð fram til þess að
skrá þessa vél. Hluti þeirra gagna
kom frá Bandaríkjunum, þar sem
vélin var keypt. Í þau rúmu 50 ár,
sem fluttar hafa verið hingað flug-
vélar frá Bandaríkjunum, höfum við
ekki þurft að vefengja gögn sem
fylgja þessum vélum og eru frá við-
urkenndum aðilum í bandaríska
flugumhverfinu, sem er undir eftir-
liti bandarísku flugmálastjórnarinn-
ar.
Við munum auðvitað fara yfir
þessi atriði og hugsanlega breyta
okkar verklagsreglum og gera ítar-
legri kröfur en verið hefur. En menn
verða að hafa í huga að það var ekki
um að ræða neina bilun í þessari
flugvél samkvæmt niðurstöðum
rannsóknarnefndarinnar. Það hafði
ekkert komið fram þann tíma sem
henni var flogið hér á landi sem benti
til þess að það væri neitt athugavert
við ástand og flughæfni þessarar
flugvélar,“ segir Þorgeir.
Farmflutningar í fortíð hafa
ekkert með lofthæfi að gera
– Aðstandendur fórnarlamba flug-
slyssins hafa dregið fram í dagsljósið
að flugvélin sem fórst í Skerjafirði
átti sér vafasama fortíð í Bandaríkj-
unum. Gaf hún ekkert tilefni til sér-
stakrar varúðar í skráningarferlinu?
„Eftirlitsmenn Flugmálastjórnar
reiða sig ekki eingöngu á þau gögn,
sem lögð eru fram við skráningu. Til
dæmis fletta okkar eftirlitsmenn
gjarnan upp í ýmsum gagnagrunn-
um um þessar vélar sem þeir hafa
aðgang að. Þar má sérstaklega nefna
gagnabanka bandarísku Flugmála-
stjórnarinnar, sem hægt er að fara
inn á á Vefnum. Þar fyrir utan höfum
við mjög góðan aðgang að okkar koll-
egum, t.a.m. í Bandaríkjunum, varð-
andi upplýsingar.
Hvað fortíð vélarinnar varðar, hef-
ur það ekkert með lofthæfi flugvélar
að gera hvaða farm hún kann að hafa
flutt eða hvaða einstaklinga hún
kann að hafa flutt í fortíðinni.
Það er líka rétt að benda á að flug-
vélar sem eru t.d. orðnar 20–30 ára
gamlar geta engu að síður verið í
fullkomnu ástandi,“ segir Þorgeir.
– Voru það eðlileg vinnubrögð við
rannsókn á flaki flugvélarinnar að
láta hreyfilinn frá sér fjórum dögum
eftir flugslysið?
„Við hjá Flugmálastjórn drögum
ekki í efa að sú niðurstaða rannsókn-
arnefndar flugslysa sé rétt að það
hafi ekkert verið að þessum hreyfli.
Hins vegar má segja að það hefði
verið varúðarráðstöfun að láta hann
ekki frá sér fyrr en öllum rannsókn-
um var lokið. Við höfum hins vegar
ekkert með rannsóknina sjálfa að
gera. Það voru engar ákvarðanir
varðandi þessa rannsókn teknar af
Flugmálastjórn en við afhentum
auðvitað nauðsynleg gögn vegna
hennar.“
Tillögur RNF voru
framkvæmdar
Fyrir tveimur árum gaf rannsókn-
arnefndin út skýrslu um flugslys
sem varð á Bakkaflugvelli í septem-
ber 1998, þar sem fram komu nokkur
atriði sem bentu til svipaðra hnökra í
flugrekstrinum og komu fram í þess-
ari rannsókn, eins og segir í skýrslu
RNF um slysið í Skerjafirði. Í
skýrslunni um slysið 1998 gerði
nefndin tillögur um úrbætur í örygg-
ismálum en segir í skýrslu sinni um
flugslysið í Skerjafirði að markmið
þeirra tillagna hafi ekki skilað sér
með þeim hætti sem til var ætlast.
Þorgeir var spurður hvers vegna
ekki var brugðist við þessu með þeim
hætti sem rannsóknarnefndin mælt-
ist til. Hann segir að brugðist hafi
verið við skýrum tillögum RNF um
úrbætur í öryggismálum vegna
þessa slyss. Þar hafi verið lagt til að
viðkomandi flugrekstri yrði veitt
nægilegt aðhald, sem dugi til þess að
fylgt sé gildandi reglum og settar
verði skýrar reglur um veitingu
heimilda til þess að nota afkastalitlar
flugvélar í atvinnuflugrekstri. Fjöldi
úttekta hafi verið gerður á flugrek-
andanum og bent á að með tilkomu
JAR OPS 1-reglnanna yrði tekið á
þessum þætti. Þetta hafi allt verið
framkvæmt eins og fram komi með
skýrum hætti í ársskýrslu rannsókn-
arnefndar flugslysa.
„Reyndar er það svo, að Flug-
málastjórn hefur oft verið sökuð um
að fara offari í að koma reglum JAA
á hér á landi,“ bætir hann við.
Hert eftirlit á þjóðhátíð
Á þjóðhátíðinni í fyrra voru sjö
viðbótarstarfsmenn á vegum Flug-
málastjórnar í Vestmannaeyjum og
var meginhlutverk þeirra að stjórna
umferð fólks á flughlaði og í flugstöð
og líta eftir því að flugmenn án rétt-
inda til flutningaflugs væru ekki að
fljúga með fólk gegn gjaldi, að sögn
Þorgeirs.
Aðspurður af hverju þessir menn
hafi ekki fylgst með störfum flugrek-
endanna á meðan þessir flutningar
stóðu yfir, segir Þorgeir að Flug-
málastjórn hafi yfirleitt getað treyst
því að flugrekendur fari eftir fagleg-
um reglum.
„Við höfum ekki haft ástæðu til að
vantreysta flugrekendum í venju-
bundnu flugi. Það þýðir þó ekki að
við gerum ekki skoðanir og úttektir
þegar ástæða þykir til. En í ljósi þess
sem fram hefur komið um ástandið í
Eyjum á síðustu þjóðhátíð, munum
við herða þetta eftirlit, þ.á m.
með flugrekendum til að tryggja
að slíkt ástand komi ekki upp aftur,“
segir hann.
– Fram kemur í rannsókn rann-
sóknarnefndar flugslysa að farþega-
listi var ekki gerður fyrir flugtak
umræddrar flugvélar frá Vest-
mannaeyjum samkvæmt ákvæðum
loftferðalaga. Flugrekandinn lagði
fram skrá með skírnarnöfnum 300
farþega, sem fluttir voru frá Eyjum
þennan umrædda dag. Föðurnafna
var þar getið í 37 tilvikum, en engar
frekari upplýsingar voru til um far-
þegana, ekki var getið hvenær hver
farþegi fór frá Vestmannaeyjum,
með hvaða flugvél eða hvert. Er
ástæða til að ætla að reglur séu þver-
brotnar með þessum hætti í fleiri til-
vikum þegar svona miklir fólksflutn-
ingar eiga sér stað?
„Ég held að enginn vafi leiki á því
að þarna hafi verið um sérstakt
ástand að ræða. Þegar við gerðum
skoðun strax í kjölfar slyssins kom í
ljós að t.d. farþegalistar fyrir al-
mennt reglubundið flug þessa flug-
félags voru í góðu lagi. Þetta end-
urspeglaði ekki almennan rekstur
félagsins,“ segir Þorgeir.
– Lögreglan hefur til rannsóknar,
að kröfu Flugmálastjórnar, annað
atvik þar sem því hefur verið haldið
fram að að morgni þessa sama dags,
7. ágúst, hafi flugvél frá sama flug-
rekanda verið flogið með tveimur
farþegum fleiri en sæti voru fyrir í
vélinni.
„Ég lýsi furðu minni á því að okk-
ur var ekki sagt frá þessu fyrr en
raun er á, og að það hafi komið fyrst í
ljós nú, sjö mánuðum síðar, að þetta
kunni að hafa gerst. Við gerðum
strax ráðstafanir til að afla upplýs-
inga og gagna um þetta atvik og fór-
um fram á lögreglurannsókn á því,
sem enn er ekki lokið.“
Tilgangurinn ekki að
hvítþvo stofnunina
Þorgeir segir um þá hörðu gagn-
rýni sem fram hefur komið á eftirlit
flugmálayfirvalda að tilgangurinn
með greinargerð og andsvörum
Flugmálastjórnar sé ekki sá að
hvítþvo stofnunina. „Hún ber sína
ábyrgð og er alls ekki að skjóta sér
undan henni. Við tökum undir þær
tillögur sem gerðar eru um úrbætur í
skýrslu rannsóknarnefndar flug-
slysa. Við fögnum því að fá þann
stuðning sem felst í tillögunum í
þeim tilgangi að geta enn frekar eflt
okkar starsfsemi á þessu sviði. Það
má auk þess benda á að Flugörygg-
issamtök Evrópu og Alþjóðaflug-
málastofnunin gera hér reglulegar
úttektir og fulltrúar þeirra hafa bent
á að við þyrftum að fjölga eftirlits-
mönnum, en það er ekkert einsdæmi
hér á landi. Nákvæmlega sams kon-
ar ábendingar og tilmæli hafa t.d.
verið settar fram í úttektum sem
gerðar hafa verið á finnsku flugmála-
stjórninni,“ segir hann að lokum.
Morgunblaðið/Ásdís
Þorgeir Pálsson flugmálastjóri segir að stöðugt sé unnið að endurbótum á flug-
öryggiskerfum og Flugmálastjórn haldi uppi margháttuðu eftirliti með flugi, m.a.
með úttektum og skoðunum.
„Flugmálastjórn getur
að sjálfsögðu svipt
flugrekanda flug-
rekstrarleyfi ef hún
hefur til þess gildar
öryggisástæður, sem
hún getur stutt rök-
um. Hins vegar mundi
slíkri ákvörðun að
sjálfsögðu vera beint
þegar í stað til dóm-
stóla.“