Morgunblaðið - 01.04.2001, Side 58
FÓLK Í FRÉTTUM
58 SUNNUDAGUR 1. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Á
sunnudögum
bjóðum við upp á
matseðil fyrir
sælkera.
Sunnudagar fyrir sælkera
4 rétta fiskmatseðill 2.700.-
5 rétta kjöt- eða fiskimatseðill 3.500.-
Stórglæsilegur a la Carté matseðill
Valin vín og vingjarnlegt umhverfi
MÚSÍKTILRAUNUM Tónabæjar
lauk með bravúr síðastliðið föstu-
dagskvöld, eða réttara sagt aðfara-
nótt laugardags, því bæði var að
hljómsveitir í úrslitunum voru óvenju
margar og svo að gestir hafa líkastil
aldrei verið fleiri og tók því talsverð-
an tíma að telja atkvæði. Svo hefur
Músíktilraunum vaxið fiskur um
hrygg að úrslitin voru haldin í
Íþróttahús Fram og gerði umfang
tilraunanna allt mun glæsilegra fyrir
vikið.
Svo fór að hljómsveitin Andlát
sigraði nokkuð örugglega, Halim var
í öðru sæti og Anonymous því þriðja.
Fyrsta hljómsveit á svið var rokk-
sveitin Héróglymur sem hóf leik sinn
vel þétt og sannfærandi í býsna góðu
lagi. Annað lag sveitarinnar var aftur
á móti ekki eins traustvekjandi,
keyrslan þunglamaleg og hikandi.
Þrátt fyrir ágæta spretti í þriðja lag-
inu var það ekki miklu betra; greini-
legt að þeir félagar þurfa að vinna
meira í lagasmíðum, því þeir eru efni-
legir á öðrum sviðum.
Raftónlistarflokkur eins manns,
sem kallar sig Skam, var næstur á
svið. Hann gerði líkt og Heróglymur;
byrjaði afskaplega vel og fléttaði
saman klingjandi taktsyrpum og
setti svo í fluggír þegar við átti. Ann-
að lagið var einnig mjög gott, en
heldur gamaldags og það þriðja
sömuleiðis.
Do what thou wilt shall be the
whole of the Law skammaðist enn út
í þá sem ekki gátu skrifað nafnið rétt,
kannski ekki nema von þegar þeir
félagar bera það rétt fram sjálfir.
Hvað sem því líður var sveitin langt-
ífrá eins skemmtileg og kvöldið áður.
Fyrsta lagið náði aldrei að lifna og
það annað var stirðbusalegt. Mikið
má þó útaf betra áður en tekst að
klúðra því þriðja; bráðskemmtilegt
lag sem vantar bara strengjasveitina.
Trenikin var eina rappsveitin sem
náði í úrslit og reyndar eina eiginlega
rappsveitin sem tók þátt í tilraunun-
um að þessu sinni þó rapp hafi víða
skotið upp kollinum. Sveitin leikur
frekar mjúkt rapp með mjög
skemmtilegu undirspili og fyrirtaks
plötuskrámi. Annað lagið var gott en
það þriðja sýnu best, ekki síst fyrir
frumlegt undirspil. Í lokin sýndu þeir
félagar svo að þeir gátu rappað á ís-
lensku þegar sá gállinn er á þeim.
Noise-félagar höfðu greinilega
undirbúið sig vel fyrir úrslitin því
þeir voru talsvert þéttari en í undan-
úrslitunum og öruggari; létu ekki
einu sinni tækjabilun í upphafi slá sig
út af laginu. Þegar best var, til að
mynda í fyrsta laginu, sýndi sveitin
að ekki þarf nema þrjú hljóðfæri til
að rokka feitt, en vissulega galli að
lögin séu ekki frumlegri. Mæta vænt-
anlega sterkari til leiks á næsta ári.
Prozac var líka geysiþétt, þó ekki
hefði sú sveit haft eins langan tíma í
undirbúning. Hún státaði og af
fremsta trommuleikara tilraunanna
að þessu sinni, en bassa- og gítarleik-
ur var líka í hæsta rokkgæðaflokki.
Söngurinn er aftur á móti Akkiles-
arhæll sveitarinnar, því raddir
söngvaranna tveggja liggja of hátt og
of nálægt hvor annarri. Sem fyrr
voru bestu lögin þegar ekki var sung-
ið eintóna, heldur farið upp og niður í
styrk og áherslu.
Eftir stutt hlé kom hafnfirska
rokksveitin Halim á svið og byrjaði
með látum. Lög sveitarinnar eru vel
samin með óvæntum lausnum og
frumlegum sönglínum og það þriðja
var sérdeilis gott. Ragnar Sólberg,
gítarleikari sveitarinnar og söngvari,
er mikið efni og þó röddin eigi eftir að
þroskast gerði hann allt rétt og með
miklum sóma. Þeir félagar hans í
sveitinni voru einnig í stuði, sérstak-
lega trymbillinn, bróðir Ragnars.
Rafdúettinn Anonymous var á öðr-
um slóðum en rokkliðið, lék lagvæna
raftónlist skreytta með drum ’n bass
og techno. Fyrsta lag þeirra Pollock-
frændsystkina var gott, en ekki full-
mótað á köflum. Annað lagið fléttaði
vel saman brotakenndum taktsyrp-
um og skemmtilegum laglínum og
líkt í undanúrslitunum var þriðja lag-
ið verulega gott með vel völdum
hljóðum.
Ágætar pælingar voru í gangi hjá
Dice og sérstaklega voru skemmti-
legir sprettir í sönglínum. Þeir félag-
ar þurfa þó að vinna betur í lögunum
og kaflaskilum. Annað lagið var
nokkuð meinlaust stuðlag en það
þriðja best. Textar voru svartagalls-
legir og féllu prýðilega að flutningn-
um.
Bimbó stakk í stúf á tilraunum að
þessu sinni, enda hefur ekki sést svo
eindregin poppsveit í úrslitum í mörg
ár. Andvaka er fyrirtaks popp-
smellur og á án efa eftir að hljóma í
útvarpi áður en langt um líður, en
önnur lög voru ekki beysin, sér-
staklega mæðulagið sem sveitin
byrjaði á, en kannski var það bara
textinn.
Hafi menn verið farnir að þreytast
eftir að hafa setið í fimm klukkutíma
og hlustað á þrjátíu lög hrukku allir
upp við dogg er Andlát hóf leik sinn,
enda sveitin geysiþétt og hörkugóð
rokksveit. Taugar liðsmanna voru
aftur á móti greinilega þandar til
hins ýtrasta og gerði sitt til að sveit-
in sýndi ekki allt sitt besta, en það
kom ekki að sök, því þegar þeim
tókst vel upp skákaði enginn And-
látsfélögum.
Andlát og tilraunirnarnar í heild
sýna að rokkið er sterkara en nokkru
sinni, harðkjarninn tekur á sig ýmsar
myndir og dregur í sig áhrif úr ólík-
um áttum; ungmenni vilja rokk og
það hávært og hrátt. Fyrir þeim er
nútíminn ekki trunta, hann er jarð-
ýta og ýtustjórinn ekki með öllum
mjalla.
Dómnefnd og áheyrendur voru að
mestu sammála, Andlát sigraði
örugglega, Halim traust í öðru sæti
og Anonymous ekki langt undan í
þriðja sæti. Auk hljómsveitaverð-
launa var Ingi Þór Pálsson í Andláti
verðlaunaður sem besti gítarleikar-
inn, Ragnar Sólberg úr Halim fékk
verðlaun sem besti söngvarinn, Jón
Hafliði Sigurjónsson úr Rúfuz þótti
besti bassaleikarinn, Heiðar Brynj-
ólfsson úr Prozac besti trommuleik-
arinn, Þorkell Máni Þorkelsson úr
Berrössuðum þótti besti hljómborðs-
leikarinn og Marlon Lee Úlfur Poll-
ock besti tölvarinn, Hjalti Steinn Sig-
urðsson besti rapparinn. Athyglis-
verðasta hljómsveitin þótti Berrass-
aðir og Input var kjörin bjartasta
vonin.
Borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún
Gísladóttir, afhenti verðlaunin.
Nútíminn er
jarðýta
Tvíburarnir í Noise.
Hjalti Steinn Sigurðsson, rappari í Trenik-
in, fékk verðlaun fyrir spuna.
Hljómsveitin með langa nafnið,
eða bara Gerðu það sem þú vilt.
Eins manns hljómsveitin
Skam.
Heróglymur var fyrst á svið.
Bimbó stakk í stúf með lagið
Andvaka.
Söngvari Dice var bölsýnn en
gerði margt vel.
Andlátsfélagar voru að vonum brattir í lokin. Morgunblaðið/Björg Sveinsd.
Ragnar Sólberg fór heim með tvenn verðlaun, besti söngvarinn og var í
næstbestu sveitinni, Halim.
Söngfélagar í Prozac voru líf-
legir í framlínunni.
TÓNLIST
M ú s í k t i l r a u n i r
Úrslit Músíktilrauna Tónabæjar.
Þátt tóku Heróglymur, Skam, Do
what thou wilt shall be the whole of
the Law, Trenikin, Noise, Prozac,
Halim, Anonymous, Dice, Bimbó og
Andlát. haldið í íþróttahúsi Fram
föstudaginn 30. mars. Áhorfendur
á sjöunda hundrað.
TÓNABÆR
Árni Matthíasson
Frændsystkinin í Anonymous hrepptu þriðja sætið.