Morgunblaðið - 24.04.2001, Síða 28
ERLENT
28 ÞRIÐJUDAGUR 24. APRÍL 2001 MORGUNBLAÐIÐ
FLOKKAR sjálfstæðissinna í Svart-
fjallalandi fengu nauman meirihluta á
þingi landsins í kosningum á sunnu-
dag en kjörfylgi þeirra var ekki eins
mikið og þeir höfðu vænst. Stjórn-
málaskýrendur sögðu að sjálfstæðis-
sinnarnir hefðu ekki fengið skýrt um-
boð frá kjósendum til að knýja fram
aðskilnað og spáðu því að niðurstaða
kosninganna myndi valda umróti í
landinu.
Þótt flokkar aðskilnaðarsinna hafi
fengið meirihluta á þinginu var hann
ekki eins stór og Milo Djukanovic for-
seti hafði vonast eftir. „Niðurstaðan
leiðir í ljós djúpstæðan og hættulegan
klofning innan Svartfjallalands,“
sagði stjórnmálaskýrandinn Bratisl-
av Grubacic. Hann bætti við að hætta
væri á átökum, jafnvel stríði, ef Djuk-
anovic hætti ekki við áform sín um að
efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um
sjálfstæði í sumar.
Stjórnarflokkarnir tveir, Lýðræð-
isflokkur sósíalista og Jafnaðar-
mannaflokkurinn, voru með 42% fylgi
þegar tæp 99 % atkvæðanna höfðu
verið talin, að sögn yfirkjörstjórnar
landsins í gær. Bandalag stjórnar-
andstæðinga, sem eru andvígir sjálf-
stæði, fékk 40,7% greiddra atkvæða.
Aðeins munaði tæpum 5.000 atkvæð-
um á þessum tveimur fylkingum, en
alls voru 450.000 manns á kjörskrá.
Svartfellsk eftirlitsstofnun spáði
því að stjórnarflokkarnir tveir fengju
35 þingsæti af 77 og andstæðingar
sjálfstæðis 33.
Hyggst mynda nýja sam-
steypustjórn
„Við höfum sigrað,“ sagði Djuk-
anovic þegar hann ávarpaði stuðn-
ingsmenn sína í gærmorgun. „Við
höfum tekið gríðarstórt skref í átt að
sjálfstæði Svartfjallalands.“
Talsmaður forsetans, Miodrag
Vukovic, sagði að Djukanovic hygðist
mynda nýja samsteypustjórn með
Frjálslynda bandalaginu, sem aðhyll-
ist einnig sjálfstæði, en það fékk 9%
greiddra atkvæða og sex þingsæti.
Nýja stjórnin myndi efna til þjóðarat-
kvæðagreiðslu um sjálfstæði í sumar,
ef til vill í júní.
Flokkar albanskra íbúa Svart-
fjallalands, sem eru hlynntir aðskiln-
aði, fengu þrjú þingsæti samkvæmt
síðustu kjörtölum. Sjálfstæðissinnum
var spáð alls 44 þingsætum af 77.
Þar sem Djukanovic þarf nú að
mynda samsteypustjórn með öðrum
flokkum, sem aðhyllast sjálfstæði
Svartfjallalands, verður erfitt fyrir
hann að hætta við þjóðaratkvæða-
greiðsluna þótt hann komist að þeirri
niðurstöðu að hún kunni að reynast
hættuleg. „Eftir þessi úrslit er sam-
steypustjórn óhjákvæmileg. Engin
stjórn verður mynduð án okkar,“
sagði Miroslav Vickovic, formaður
Frjálslynda bandalagsins. „Skilyrði
okkar fyrir aðild að stjórninni eru
skýr: að efnt verði til þjóðaratkvæða-
greiðslu um sjálfstæði.“
Andstæðingar
sjálfstæðis fagna sigri
Andstæðingar sjálfstæðis voru
ánægðir með úrslitin og töldu sig
hafa unnið sigur með því að koma í
veg fyrir að sjálfstæðissinnar fengju
tvo þriðju þingsætanna sem hefði
auðveldað þeim mjög að knýja fram
aðskilnað. Bandalag stjórnarand-
stöðunnar, „Saman fyrir Júgóslavíu“,
kvaðst ætla að hindra frekari tilraun-
ir til aðskilnaðar.
„Úrslitin tryggja að við verðum
áfram í Júgóslavíu,“ sagði Vuksan
Simonovic, einn af leiðtogum banda-
lagsins, þegar hann ávarpað stuðn-
ingsmenn sína sem fögnuðu niður-
stöðunni ákaft í miðborg Podgorica.
Embættismenn sögðu að kjörsókn-
in hefði verið 80,8% og meiri en
nokkru sinni fyrr. Lokatölurnar
verða birtar í dag.
Deilt um laustengt ríkja-
samband
Djukanovic vill að Svartfellingar
segi sig úr júgóslavneska sam-
bandsríkinu og stofni síðan laustengt
ríkjasamband með Serbíu. Frjáls-
lynda bandalagið er hins vegar and-
vígt hvers konar sambandi við Serb-
íu.
Vojislav Kostunica, forseti Júgó-
slavíu, og stuðningsmenn hans í DOS,
bandalagi átján flokka í Serbíu, hafa
hafnað tillögunni um laustengt ríkja-
samband en boðist til að semja um
umbætur á sambandsríkinu.
Cedomir Jovanovic, formaður
þingflokks DOS, sagði í gær að úrslit
kosninganna í Svartfjallalandi sýndu
að sjálfstæðissinnar gætu ekki reitt
sig á sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu
um aðskilnað. „Ég tel því víst að þeir
reyni allt til að komast hjá þjóðarat-
kvæðagreiðslu,“ sagði hann. „Ljóst
er að stefna núverandi valdhafa
Svartfjallalands nýtur ekki þess
stuðnings meðal íbúanna sem þarf til
að lýsa yfir sjálfstæði.“
Andstæðingar sjálfstæðis Svart-
fjallalands segja að landið hafi ekki
efnahagslega burði til að vera sjálf-
stætt ríki og leggja áherslu á náin
fjölskyldu-, viðskipta- og menningar-
tengsl Svartfjallalands og Serbíu.
Djukanovic og stuðningsmenn hans
segja hins vegar að Svartfjallalandi
myndi vegna betur efnahagslega sem
sjálfstæðu ríki með beinan aðgang að
alþjóðlegum lánastofnunum.
Serbía og Svartfjallaland eru nú
einu löndin í júgóslavneska sam-
bandsríkinu eftir aðskilnað Slóveníu,
Króatíu, Makedóníu og Bosníu 1991–
92. Upplausn gömlu Júgóslavíu leiddi
til stríðsátaka í þremur þessara
landa.
Viðhorfskannanir hafa bent til þess
að meirihluti Svartfellinga sé hlynnt-
ur sjálfstæði. Mikil andstaða er þó við
aðskilnað, einkum í norðurhluta
landsins, við landamærin að Serbíu.
Íbúar Svartfjallalands eru um
650.000 og margir þeirra líta á sig
sem Serba. Talið er að nær milljón
Svartfellinga búi í Serbíu sem er með
níu milljónir íbúa.
Ráðamenn á Vesturlöndum óttast
að lýsi Svartfellingar yfir sjálfstæði
kyndi það undir kröfum Kosovo-
Albana um að fá að stofna sjálfstætt
ríki og verði einnig til þess að alb-
anskir aðskilnaðarsinnar í Makedón-
íu sæki í sig veðrið.
Anna Lindh, utanríkisráðherra
Svíþjóðar, varaði við því á sunnudag
að hætta gæti skapast á frekari blóðs-
úthellingum á Balkanskaga eftir
kosningarnar í Svartfjallalandi. „Íbú-
ar Svartfjallalands eru klofnir í af-
stöðunni til sjálfstæðis og klofningur
júgóslavneska sambandsríkisins get-
ur haft alvarlegar afleiðingar á Balk-
anskaga. Hver verða skilaboðin til
Kosovo-Albana? Hvað gerist í Make-
dóníu og Bosníu?“ skrifaði Lindh í
Dagens Nyheter.
Sjálfstæðissinnar fá nauman þingmeirihluta í kosningum í Svartfjallalandi
Úrslitin vekja efa-
semdir um sjálfstæði
AP
Stuðningsmenn Sósíalíska þjóðarflokksins, sem er andvígur aðskilnaði
Svartfjallalands frá Júgóslavíu, fagna úrslitum þingkosninganna á
sunnudag. Einn þeirra heldur á mynd af Slobodan Milosevic, fyrrver-
andi forseta Júgóslavíu.
AP
Milo Djukanovic, forseti Svart-
fjallalands.
Podgorica. Reuters, AP.
DÓMARI í Bandaríkjunum úr-
skurðaði fyrir helgi, að nægar
sannanir væru fyrir hendi til að
höfða mál á hendur Michael Skakel,
sem er tengdur hinni frægu Kenn-
edy-ætt, fyrir morð á nágranna sín-
um, Mörthu Moxley, fyrir 25 árum.
Þá voru þau bæði 15 ára gömul.
Morðið á Moxley er eitt hið um-
talaðasta í Bandaríkjunum, ekki
síst fyrir það, að maður tengdur
Kennedy-ættinni skuli flæktur í það
og einnig vegna þess hve langan
tíma málið hefur verið á döfinni.
Í úrskurði sínum sagði John Kav-
anewsky dómari, að sannað væri,
að golfkylfan, sem notuð hefði verið
til að drepa Moxley, hefði komið úr
golfsetti í eigu Skakel-fjölskyld-
unnar og hann benti einnig á, að
þau Skakel og Moxley hefðu þekkst
er þau bjuggu bæði í Greenwich í
Connecticut en í bænum býr mikið
af auðugu fólki. Sagði hann, að Ska-
kel kynni að hafa haft kynferð-
islegan áhuga á Moxley og auk þess
hefði hann viðurkennt það fyrir
öðrum að hafa orðið henni að bana
árið 1975.
„Ég er saklaus,“ var það eina,
sem Skakel sagði um niðurstöðu
dómarans en lögfræðingur hans
kvaðst hafa búist við henni.
Skakel, sem nú er fertugur að
aldri, er frændi Ethel Skakel Kenn-
edy, ekkju Roberts heitins Kenn-
edys. Verði hann fundinn sekur á
hann yfir höfði sér fangelsi í 60 ár.
Sagður hafa
lýst morðinu
Eitt helsta vitni saksóknaranna,
Gregory Coleman, fyrrverandi
bekkjarfélagi Skakels, kvaðst hafa
heyrt Skakel játa á sig morðið á
Moxley. Sagði hann Skakel hafa
lýst því er hann „braut höfuðkúpu
Moxley með golfkylfu“ og síðan
bætt við: „Ég kemst upp með morð,
ég er Kennedy“. Þetta var fyrir 20
árum, fimm árum eftir morðið, og
Coleman hefur viðurkennt, að hann
hafi þá verið undir áhrifum fíkni-
efna. Þá segist hann einnig hafa
verið búinn að neyta heróíns er
hann bar fyrst vitni fyrir dómara en
á grundvelli þess vitnisburðar fékk
lögreglan heimild til að handtaka
Skakel.
Lögfræðingur Skakels reyndi að
gera lítið úr vitnisburði Colemans
vegna eiturlyfjaneyslunnar en
Coleman breytti í engu framburði
sínum.
Annar fyrrverandi bekkjarfélagi
Skakels, John Higgins, sagði, að
Skakel hefði einu sinni sagt við sig:
„Ég veit ekki hvort ég gerði það
(drap Mörthu). Ég kann að hafa
gert það, ég gæti hafa gert það, ég
gerði það.“ Skakel segir sjálfur, að
hann hafi verið með Mörthu og öðr-
um kvöldið, sem hún dó, en sofnað
út af vegna áfengisneyslu áður en
nokkuð hafi gerst.
Ólíkur framburður
endurvakti málið
Fyrst eftir morðið á Mörthu
Moxley beindist grunurinn að
Thomas Skakel, eldri bróður
Michaels, en svo virtist sem hann
hefði verið síðastur til að sjá Moxley
á lífi. Ekkert sannaðist þó á hann og
í 20 ár eða til 1995 virtist sem málið
myndi aldrei upplýsast. Þá tóku
þeir, sem fóru með það, eftir áber-
andi mun á framburði Michaels
Skakels hjá lögreglunni á sínum
tíma og hjá einkalögreglumönnum,
sem faðir hans fékk til þess 1992 að
hreinsa nafn fjölskyldunnar. Eftir
það var aftur farið að vinna að mál-
inu af fullum krafti. Í fyrstu var tal-
ið, að Skakel yrði ekki ákærður
nema sem unglingur, hann var að-
eins 15 ára er morðið var framið, en
dómari úrskurðaði, að hann mætti
ákæra sem fullorðinn mann.
Vitnisburður bekkjarfélaga Kennedy-mágsins Skakels sem er ákærður fyrir morð fyrir 25 árum
„Ég kemst upp með
morð, ég er Kennedy“
AP
Michael Skakel, til vinstri, er hann kom til réttarhaldanna í síðustu viku
ásamt lögfræðingum sínum.
ZUMA Press
Skólamynd af Mörthu Moxley.
Stamford. Reuters.