Morgunblaðið - 03.07.2001, Qupperneq 20
NEYTENDUR
20 ÞRIÐJUDAGUR 3. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
NÝVERIÐ var sagt frá því að Sam-
band garðyrkjubænda hefði gefið út
flokkunarreglur fyrir grænmeti þar
sem grænmetinu væri skipt niður í
úrvalsflokk, fyrsta flokk og annan
flokk. Þessar flokkunarreglur eiga að
samræma staðla á öllum stigum, allt
frá grænmetisbóndanum til verslun-
arinnar. Þessi þróun virðist þó ekki
vera komin fram í verslunum og því
var kannað hvort þær væru búnar að
taka flokkunarreglurnar í notkun og
ef ekki, hvers vegna.
Flokkunarreglurnar tryggja að
neytendur geta vitað hvaða gæði þeir
eru að kaupa og hvaða kröfur þeir
geta gert til grænmetisins. Einnig
verður verð gegnsærrasem auðveldar
verðsamanburð. Þó er það galli að
grænmeti eðli málsins samkvæmt
fellur hratt í gæðum. Það sem sett er í
grænmetisborðið sem fyrsti flokkur
getur fallið í gæðum á stuttum tíma
og því í raun verslununum í sjálfsvald
sett hvernig eftirliti með gæðum
grænmetisins er háttað.
Svara kröfum neytenda
Að sögn Guðmundar Marteinsson-
ar, framkvæmdastjóra Bónuss, hafa
Bónusverslanirnar ekki tekið flokk-
unarreglurnar í notkun enn sem kom-
ið er. „Við vorum nú bara að fá þetta í
hendurnar og ég reikna með því að
þetta verði tekið til athugunar í vik-
unni.“ Aðspurður hvort grænmeti
verði merkt eftir flokkum í Bónusi
segir Guðmundur: „Við verðum að
svara þeim kröfum sem til okkar eru
gerðar. Við verðum sennilega ekki
með marga flokka í sölu hverju sinni.
Við stefnum á að vera með fyrsta
flokks grænmeti á besta fáanlega
verði, það er það sem okkar viðskipta-
vinir vilja.“
Ætla einnig að
geta upprunalands
Júlíus Guðmundsson, kaupmaður í
Sparversluninni, segir flokkunarregl-
urnar ekki hafa borist sér enn sem
komið sé en hann eigi von á því að
þessu verði komið á fljótlega. „Það á
eftir að fara eftir grænmetistegund-
um hvaða flokka við bjóðum upp á. Í
sumum tilvikum er kannski í lagi að
bjóða upp á annan flokk, til dæmis
hvað varðar tómata. En sumt þolir
ekki annað en að vera í fyrsta flokki.
Svo hefur staðið til hjá okkur að setja
miða með hverjum hlut sem við erum
með í sölu, erlent eða innlent, þar sem
merkt er hvaðan það kemur og úr
hvaða uppskeru. Nákvæm dagsetn-
ing á því hvenær þetta mun verða
liggur ekki fyrir en lokaútfærslan er
ennþá óviss. Þessar íslensku flokkun-
arreglur ættu að geta verið komnar í
gang fyrr en seinna.“
Áhrif á verð
koma ekki í ljós strax
Árni Ingvarsson í Nýkaupi, segir
þessar reglur komnar í notkun í versl-
uninni. „Í dag á allt íslenskt græn-
meti, sem fellur undir flokkunarregl-
urnar, að vera merkt með þeim flokki
sem það fellur í. Það er ekki svo langt
síðan þetta komst í gagnið en þetta er
að komast í endanlegt horf. Við erum
eingöngu með fyrsta flokk. Við höfum
hugsað okkur að vera með úrvals-
flokk líka. Það er bara svo lítið fram-
boð af honum, en þegar hann fæst
reiknum við með að bjóða upp á
hann.“ Spurður um áhrif nýju flokk-
unarreglnanna á verð segir Árni:
„Það hefur ekki reynt á það. Fyrsti
flokkurinn er það sem verslanir hafa
verið með í sölu undanfarið, en það fer
ekkert að reyna á verðið fyrr en úr-
valsflokkurinn fer að koma í verslan-
ir.“
Ætla ekki að merkja
grænmetið sérstaklega
Gísli Sigurbergsson, verðlagsstjóri
í Fjarðarkaupum, segir þessar reglur
litlu breyta fyrir búðina: „Við höfum
verið með svona kerfi í gangi innan
búðarinnar svo þetta er ekkert nýtt
fyrir okkur. Svo höfum við verið að
tína úr hillunum ef það er eitthvað
sem stenst ekki gæðakröfurnar. Við
höfum sett það sem hægt er að selja
sérpakkað í hillur og selt sem annan
flokk. Við erum alltaf að selja fyrsta
flokks grænmeti í hillunum.“
En verður þá ekki merkt í hillunum
í Fjarðarkaupum í hvaða flokki græn-
metið er?
„Nei, við komum ekki til með að
gera það,“ segir Gísli. „Við erum bara
með fyrsta flokk svo ég sé ekki þörf-
ina fyrir þetta hjá okkur.“
Komið í notkun að hluta til
Hagkaup er farið að nota þessar
flokkunarreglur á íslensku grænmeti
að hluta til að sögn Finns Árnasonar
framkvæmdastjóra. „Við erum búnir
að taka þessar flokkunarreglur í notk-
un, þó ekki að öllu leyti og búnir að
skilgreina staðla í ekki bara grænmeti
heldur ávöxtum líka. Vinna við merk-
ingar er á lokastigi þannig að við-
skiptavinir eiga að sjá þessar breyt-
ingar innan skamms. Við erum með
um og yfir 200 tegundir og því miður
er þetta flóknara mál en svo að það sé
hægt að gera þetta auðveldlega, sér-
staklega vegna þess að við viljum upp-
lýsa neytendur um upprunaland inn-
fluttrar vöru sem breytist hratt.“
En hvað þá um íslenska grænmet-
ið, er ekki hægt að byrja á að merkja
það og vinna svo áfram í hinu?
„Jú, við erum komnir með merk-
ingar að hluta til og sú vinna er á loka-
stigi.“
En hvaða gæðaflokka verður hægt
að kaupa í Hagkaupum? „Markmið
okkar er bjóða eingöngu fyrsta
flokk,“ segir Finnur. „Framboð á
ákveðnum tímum er samt þannig að
það næst ekki alltaf.“
Þessir flokkar grænmetis ættu að
gera verðlag á íslensku grænmeti
gegnsærra að mati Finns. „Verðsam-
anburður milli aðila á markaði ætti
einnig að vera sanngjarnari. Undan-
farið hefur enginn greinarmunur ver-
ið gerður á gæðum í verðkönnunum,
sem er miður.“
Fagna þessu framtaki
Jón Þorsteinn Jónsson, markaðs-
stjóri Nóatúns, segist vera nýbúinn
að fá flokkunarreglurnar í hendur og
þær því ekki komnar í notkun í Nóa-
túnsbúðunum. „Við höfum að sjálf-
sögðu alltaf verið með mikil gæði á
okkar vörum. Í einhverjum tilfellum
verður þó hægt að kaupa annars
flokks grænmeti hjá okkur, hingað til
hefur stundum fengist annar flokkur
af bönunum og annar flokkur af
sveppum. Annars hefur verið lítið
framboð af öðrum flokki, hann fer
mest í matvælavinnslu. Flokkun á ís-
lensku grænmeti hefur verið mjög
ábótavant undanfarin ár svo við fögn-
um þessu framtaki auðvitað.“
Reglurnar seinar að berast
Sigurður Teitsson, framkvæmda-
stjóri 11–11, sagðist ekki tilbúinn að
ræða þetta mál. „Þetta er nú bara
nýbúið að berast til okkar svo við höf-
um ekki fengið ráðrúm til að skoða
þetta. Þetta er sem sagt í vinnslu hjá
okkur,“ segir Sigurður.
Skúli Skúlason, fulltrúi fram-
kvæmdastjóra hjá Samkaupum, tek-
ur í sama streng og segir að þar sé
ekki farið að merkja grænmetið eftir
flokkum: „Við vorum að fá þessar
flokkunarreglur í hendurnar í síðustu
viku og höfum verið að lesa þetta yfir
og skoða málin. Við teljum okkur ein-
göngu selja 1. flokks grænmeti og
fáum það þannig frá okkar birgjum.“
Verður merkt í hillum
eins fljótt og hægt er
Nettóbúðirnar eru ekki búnar að
taka þessar flokkunarreglur í notkun.
Gísli Gíslason, deildarstjóri innkaupa
hjá Matbæ, segir að það muni þó
verða gert. „Ég þori ekki að segja til
um hvenær við verðum búnir að
merkja allt í hillunum en við erum að
vinna í þessum málum núna. Þetta
verður komið í hillur okkar eins fljótt
og hægt er.“
Aðspurður hvaða flokka Nettó
verði með í sölu segir Gísli: „Við mun-
um vera með fyrsta og annan flokk í
sölu í Nettóbúðunum. Annan flokk þá
frekar í ávöxtum, ekki í íslensku
grænmeti. Við höfum smávegis verið
með sérpakkaða annars flokks tóm-
ata, en framboðið er mjög lítið.“
Merkingar ekki við hverja vöru
Helgi Sigurður Haraldsson, mark-
aðsstjóri KÁ-verslana, segir þessa
flokkun í þann mund að komast í
gagnið hjá þeim. „Við munum gera þá
kröfu til okkar birgja að við fáum ein-
göngu það sem best er hverju sinni.
Merkingar í verslununum verða
sennilega ekki við hverja vöru heldur
verður sett upp tilkynning um að við
förum eftir þessu flokkunarkerfi og
seljum alltaf besta flokkinn hverju
sinni.“
Nýjar flokkunarreglur á íslensku grænmeti kynntar nýlega
Morgunblaðið/Golli
Fáar verslanir farnar
að flokka grænmeti
brjann@mbl.is
Nýlegar flokkunarregl-
ur á íslensku grænmeti
eru fagnaðarmál fyrir
neytendur. Brjánn
Jónasson kannaði hvort
verslanir væru farnar
að bjóða upp á flokkað
grænmeti og hverju það
breytti fyrir neytendur.
GERÐARDÓMUR í kjaradeilu sjó-
manna og útvegsmanna var kveðinn
upp sl. laugardag og framlengist
kjarasamningur frá 27. mars 1998
með tilgreindum breytingum til 31.
desember 2002.
Helstu breytingar eru þær að frá
gildistöku úrskurðarins skulu kaup-
trygging og tímakaup hækka um
40%, um 3% 1. janúar 2002 og um 3%
1. janúar 2003.
Aðrir launaliðir en kauptrygging
og tímakaup hækka um 10% frá gild-
istöku úrskurðarins og taka síðan
sömu hækkunum og kauptryggingin
á gildistíma úrskurðarins.
Vegna atriða er varða áhrif sem
breyting á fjölda í áhöfn hefur á
skiptakjör segir í úrskurði að séu
færri menn á skipi en við er miðað í
skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum)
kjarasamninga varðandi þær veiðar
skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á
vantar milli þeirra sem á skipinu eru í
réttu hlutfalli við hluti þeirra.
Geti færri menn sinnt skipsstörfum
en kveðið er á í skiptatöflu í kjara-
samningnum vegna hagræðingar skal
hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar
skiptast að hálfu milli þeirra sem á
skipinu eru í hlutfalli við skiptahlut-
fall þeirra. Hinn helmingurinn skal
ganga óskertur til útgerðarinnar.
Varðandi fiskverð skal miða við það
markmið að meðalverð á tilgreindum
tegundum í beinum viðskiptum nálg-
ist vegið meðaltal markaðar og beinn-
ar sölu þannig að hlutfall verðs í
beinni sölu, af vegnu meðalverði í
beinni sölu og vegnu verði á markaði,
verði ekki lægra á viðmiðunartíman-
um en skilgreind hlutföll. 1. júní 2002
skal vegið meðalverð í beinum við-
skiptum á undangengnu 12 mánaða
tímabili, sem hlutfall af vegnu með-
alverði í beinum viðskiptum og verði á
innlendum fiskmörkuðum að frá-
dregnum 5% sölukostnaði ekki vera
lægra en 92,7% fyrir slægðan þorsk
og 90,8% fyrir óslægðan þorsk. 1. júní
2003 skal verðið ekki vera lægra en
93,5% fyrir slægðan þorsk og 91,8%
fyrir óslægðan. 1. desember 2003 eru
samsvarandi tölur 94,0% og 92,4%.
Í tengslum við slysatryggingar
skal kostnaðarhlutdeild hinna
tryggðu vera 2.100 kr. á mánuði og
hlutfallslega fyrir brot úr mánuði en
fjárhæðin taki sömu breytingum og
kauptrygging tekur á hverjum tíma.
Þegar skipverji leggur til viðbótar-
framlag í séreignarsjóð greiðir út-
gerðarmaður frá 1. júní 2001 1% af
fastri fjárhæð sem skal vera hin sama
og kauptrygging á gildistímanum
gegn 2% framlagi starfsmanns. Frá 1.
júní 2002 skal mótframlag útgerðar
vera 2%.
Í gerðardómi voru Brynjólfur Sig-
urðsson prófessor, Garðar Garðars-
son hrl. og Guðmundur Skaftason,
fyrrverandi hæstaréttardómari, til-
nefndir af Hæstarétti.
Vonbrigði
Sævar Gunnarsson, formaður Sjó-
mannasambands Íslands, segir að úr-
skurðurinn sé vonbrigði en við þessu
hafi mátt búast, því lögin, sem hefðu
verið sett á sjómenn, hefðu verið það
þröngt sniðin. Hann segir að ekkert
hafi verið tekið á fiskverðinu umfram
það sem gert hafi verið í vélstjóra-
samningnum og það sé hann ósátt-
astur við. „Það er allt í ólestri í verð-
myndun á fiski og útgerðin vill
greinilega hafa það þannig áfram,“
segir hann.
Sævar segist líka vera ósáttur við
hvernig tekið sé á mönnunarmálun-
um. „Þar fór í broddi fylkingar for-
ysta Vélstjórafélagsins og samdi um
alla aðra karla en sína. Gerðardómur
yfirfærir það á okkur með lítilfjörleg-
um breytingum.“ Hann segist einnig
vera óánægður með að tilvitnanir
skuli vera í vélstjórasamninginn eins
og hann leggi sig. „Það sem ég sagði í
vor þegar lögin voru sett – að þau hafi
verið gerð að undirlagi LÍÚ við
stjórnvöld ásamt vélstjórunum með
því að gera þennan samning – hefur
allt gengið eftir og það er af hinu
vonda.“
Hann segir reyndar rétt að kaup-
tryggingin hafi hækkað um 10%
meira en í vélstjórasamningnum en
huga þurfi að öðrum launaliðum. Til
dæmis sé til staða aðstoðarmatsveins
á stærri togurum og sá launaliður
hækki aðeins um 10% en ekki eins og
kauptryggingin. Sá sem þurfi að nota
launaliðina sé skilinn eftir. Eins sé al-
varlegt af gerðardómi að skamm-
tímasamningur Vélstjórafélagsins
um vinnslu eins skips í uppsjávarfiski
sé alhæfður yfir öll sambærileg skip
og það ótímabundið. Sjómannasam-
bandið hafi boðið frystitogarasamn-
inginn í þessu sambandi en ekki að
frádregnu 10% frystiálagi eins og
gert hafi verið. „Þrátt fyrir þröngan
stakk gat gerðardómur farið út í
þetta með uppsjávarveiðiskipin en
svo var stakkurinn þröngur á gerð-
ardómsmönnum í sambandi við til
dæmis uppsagnarfrest háseta.“
Flótti
Grétar Mar, formaður Farmanna-
og fiskimannasambands Íslands, seg-
ir slæmt að hafa fengið lögin og gerð-
ardóminn yfir sjómenn. „Þetta er að
stærstum hluta Laxdæla,“ segir hann
og er einkum óánægður með verð-
lags- og mönnunarmálin. „Þetta er
bara kjaraskerðing í báðum tilfell-
um,“ segir hann og bætir við að ekki
sé tekið á mörgum kröfum sjómanna.
Gleymst hafi að ræða um t.d. leng-
ingu á uppsagnarfresti, frí frá löndun
á uppsjávarfiski og hækkun á orlofi
eftir starfsaldri, þegar lögin hafi verið
sett. „Það er bara tekið á nokkrum
málum. Við erum látnir borga 2.100
krónur á mánuði í tryggingar og það
er ýmislegt fleira sem við erum ekki
ánægðir með.“
Grétar Mar Jónsson segir að laun
skipstjóra á nýju nótaskipunum séu
stórlega skert. Þar hafi skipstjórnar-
menn verið með 6,4% af skiptaverði
en fari niður í tvo hásetahluti, um 3,6
til 4%. „Það er einstakt að lækka eina
stétt svona í launum og það verður
örugglega flótti sjómanna af fiski-
skipum,“ segir hann og óttast að
margir góðir sjómenn fari í land.
„Mér sýnist að þessi orrusta sé töpuð
en stríðið er ekki búið,“ segir Grétar
Mar.
Aðlögun
Helgi Laxdal, formaður Vélstjóra-
félags Íslands, segir að gerðardóm-
urinn sé svipaður og samningurinn
sem Vélstjórafélagið hafi gert en í
sumum tilvikum sé útfærslan ekki
eins. Erfitt sé að vera með mörg kerfi
varðandi eina áhöfn og því verði reynt
að samræma þessi atriði með LÍÚ.
Helgi bendir á að samningur Vél-
stjórafélagsins gildi tveimur árum
lengur. „Ég vil bara segja það við vini
mína í Sjómannasambandinu og Far-
mannasambandinu að þarna hafa þeir
tvö ár án þess að við spillum fyrir
þeim árangri. Ég vona að þeir nýti
þessi tvö ár vel og geri þá gott fyrir
sína menn.“
Erfitt verkefni
Friðrik J. Arngrímsson, fram-
kvæmdastjóri Landssambands ís-
lenskra útvegsmanna, segir að vél-
stjórasamningurinn verði aðlagaður
úrskurðinum en samningsrétturinn
hafi verið tekinn af LÍÚ ekki síður en
viðsemjendum og þar með hafi LÍÚ
misst forræðið. Gerðardómur hafi
fengið erfitt verkefni að leysa úr á
skömmum tíma en hann hafi staðið
sig vel. Upp úr standi að viðurkennt
sé að launin hækki ekki við fækkun í
áhöfn. Eins verði hægt að gera nýju
fjölveiðiskipin út vegna samnings vél-
stjóra og úrskurðar gerðardóms, en
það hefði ekki verið hægt miðað við
kröfur Farmanna- og fiskimanna-
sambandsins.
Gerðardómur í kjaradeilu
sjómanna og útvegsmanna
Sjómenn óánægð-
ir með úrskurðinn
ÚR VERINU