Morgunblaðið - 29.09.2001, Qupperneq 16
FRÉTTIR
16 LAUGARDAGUR 29. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TUNGUMÁLANÁMSKEIÐ fyrir
grunnskólabörn á aldrinum 8-11 ára
verða haldin á 14 stöðum á landinu
á tímabilinu 29. september til 10.
nóvember í tilefni 90 ára afmælis
Háskóla Íslands. Er þetta framtak
nokkurs konar framhald af tungu-
málakennslu sem börnum á höfuð-
borgarsvæðinu var boðin í tengslum
við verkefnið „Opinn Háskóli“ í
fyrra.
Þá var tilefnið það, að Reykjavík
var menningarborg Evrópu, en nú
þótti Háskólayfirvöldum við hæfi,
að bjóða börnum á landsbyggðinni
upp á sams konar námskeið í tilefni
af því, að kennsla hófst í Háskóla
Íslands í byrjun október fyrir 90 ár-
um, sem og þess, að árið 2001 er
evrópskt tungumálaár, að sögn Páls
Skúlasonar, rektors.
Kennd verða byrjendanámskeið
fyrir börn í grunnskólum í dönsku,
ensku, frönsku, spænsku og þýsku.
Með námskeiðahaldinu vill Háskól-
inn undirstrika að hann sé háskóli
allra landsmanna og gefa börnunum
tækifæri til að hefja nám í tungu-
málum áður en námsskrá grunn-
skóla segir til um og kveikja þannig
forvitnisneista í brjósti þeirra óháð-
an því hvort skylda sé að læra
tungumálin.
Vigdís Finnbogadóttir heiðruð
Jafnframt mun Stofnun í erlend-
um tungumálum fá nýtt heiti frá og
með 1. október nk. í tilefni af afmæli
Háskólans og tungumálaárinu. Mun
hún nefnast Stofnun Vigdísar Finn-
bogadóttur í erlendum tungumálum
og vill Háskólinn þannig heiðra
störf Vigdísar í þágu tungumála.
Vigdís segir námskeiðahaldið
vera „aðdáunarverða framsýni“ hjá
Háskólayfirvöldum. Það sé afar
mikilvægt að lögð sé áhersla á
tungumálakennslu í þessu verkefni,
því að tungumálakunnátta auðgi
þekkingu fólks og það gefi því innri
styrk að skilja og geta tjáð sig á er-
lendu máli. Vigdís mun ljá verkefn-
inu lið og kenna fyrstu tímana í
frönskunámskeiði sem fara mun
fram í Reykjanesbæ.
Mikilvægt að Háskólinn
teygi sig út á land
Samstarfsaðilar Háskólans á
landsbyggðinni verða Kvasis, sam-
tök símenntunarstöðva á lands-
byggðinni og grunnskólar og
fræðsluyfirvöld á hverjum stað.
Skúli Thoroddsen, formaður Kvasis,
telur afar mikilvægt að Háskólinn
teygi anga sína út á land með nám-
skeiðahaldi sem þessu. Segir hann
þetta samstarf vera tímanna tákn
en Kvasis og Háskólinn hafa unnið
saman að fjarkennslu. Kvaðst hann
vona, að þessi tilraun yrði til þess
að vekja áhuga fólks og skilning á
mikilvægi þess að læra tungumál.
Sagði hann, að símenntunarstöðv-
arnar kynnu jafnvel að fylgja nám-
skeiðunum eftir með einhverjum
hætti.
Nýta skal forvitni og
námfýsi barna
Tungumálanámskeiðin nutu mik-
illa vinsælda í fyrra og komust
færri að en vildu. Tilgangurinn var,
að efla áhuga ungra barna á vís-
indum og fræðastarfi og hvetja for-
eldra til að hafa áhrif á tungumála-
nám barna sinna og líta á tungumál
sem tækifæri til að víkka út sjón-
deildarhring barna og ekki síst sem
fjárfestingu til framtíðar.
Að sögn Margrétar Jónsdóttur,
lektors í spænsku, eru tungumál
fyrst nú að fá uppreisn æru sem vís-
indagrein innan Háskólans. Hún
leggur áherslu á mikilvægi þess að
nýta eðlilega forvitni og námsfýsi
barna en því yngri sem þau séu
þegar þau byrji að læra erlend
tungumál þeim mun betri tökum nái
þau á viðkomandi tungumáli. Þó
verði að fara með mjög mikilli gát í
þessum efnum til að raska ekki mál-
töku barnanna.
Hún bendir á, að það, að alast
upp við tvö tungumál, virðist örva
mjög andlega hæfni barna. „Það er
til dæmis talið, að börn sem alast
upp tvítyngd, sem verður sífellt al-
gengara, séu kannski ívið lengur en
önnur börn að ná góðum tökum á
móðurmálinu og föðurmálinu, ef við
orðum það þannig, en það er eins og
þau fái sjötta skilningarvitið. Það er
vitað, að þau verða miklu næmari
fyrir tungumálinu sem slíku og á
margan hátt fá einhverja auka-
greind við það, að kunna tvö tungu-
mál.“
Áherslan á
munnlega kennslu
Hins vegar horfir málið öðruvísi
við þegar um það er að ræða, að
læra tungumál sem hvorki er
tungumál föður eða móður né er tal-
að í landinu þar sem barnið býr, að
sögn Margrétar.
„Þá eru mjög margir sem eru
hræddir við, að svona tungumál
abbist upp á máltökuna og lestr-
arkennsluna og það er alveg full
ástæða til að hafa áhyggjur af því,“
segir Margrét og bætir við að henni
finnist að tungumál barna eigi að
vera munnleg hefð, þ.e.a.s. það eigi
ekki að láta þau skrifa mikið, þau
geti notað þá orku í móðurmál-
snáminu. „Vegna þess að þeirra
minni er ekki, eins og okkar, sjón-
minni, heldur eru þau svampar, þau
drekka allt í sig.“
Margrét segir, að kennarinn
þurfi að vera gífurlega vel mennt-
aður til þess að geta kennt börnum
tungumál. „Þú verður að hafa
barnamenningu þess lands alveg á
valdi þínu. Þú verður að kunna leiki
og söngva á tungumálinu. Þannig að
mér finnst langsamlega mikilvæg-
ast, að höfða til þeirra, fara niður á
munnlega stigið, þ.e.a.s. að segja
sögur og fara í leiki.“
Margrét segir að ung börn hafi
það t.d. fram yfir eldri börn og full-
orðna að þau séu gjörsamlega laus
við spéhræðslu. „Þau vaða út í hvað
sem er og þau líta ekki „intellektú-
ellt“ á máltökuna heldur heyra þau
eitthvert orð og endurtaka það al-
veg eins og þau heyrðu það. Þau
spá ekkert í, að það er ekki sam-
hengi á milli þess, hvernig orðið er
skrifað og hvernig það er sagt. Það
finnst mér svo spennandi og við
verðum að nýta þetta.“
Framburðarkennsla
í Ríkisútvarpinu
Samhliða námskeiðunum mun
verða boðið upp á kennslu í fram-
burði erlendra tungumála í Vitan-
um, barnatíma fyrir börn á aldr-
inum 8-12 ára á Rás eitt
Ríkisútvarpsins. Einnig er ráðgert
að tengja heimasíðu Vitans við
heimasíðu viðkomandi tungumála í
samráði við kennara námskeiðanna,
taka upp og kynna sönglög frá
heimalöndum tungumálanna og
hafa þemaþætti um sögu og menn-
ingu hvers lands í samstarfi við
börnin og kennarana.
Námskeiðahaldið hefst í dag,
laugardag, 29. september, með því
að Vigdís Finnbogadóttir kennir 11
ára börnum frönsku í Reykjanesbæ.
Tungumálanámskeið fyrir börn á landsbyggðinni í tilefni 90 ára afmælis HÍ
Fjárfesting
til framtíðar
Morgunblaðið/Þorkell
Skúli Thoroddsen, Vigdís Finnbogadóttir og Páll Skúlason við kynn-
ingu á verkefninu „Opinn Háskóli um allt land“.
ALÞINGI Íslendinga verður sett á
mánudaginn kemur, 1. október, og
hefst athöfnin með messu í dóm-
kirkjunni klukkan 13.30.
Halldór Blöndal, forseti Alþingis,
sagði í samtali við Morgunblaðið að
sér litist vel á þetta þing sem nú
væri að hefjast. Það væru mörg
stór mál sem biðu afgreiðslu eins og
oft endranær fyrir utan fjárlög og
önnur reglubundin viðfangsefni.
Hæst bæri viðbrögð vegna hins al-
varlega ástands sem upp hefði kom-
ið vegna hryðjuverkanna í New
York, en hann ætti einnig von á því
að umræður um sjávarútvegsmál
og stóriðju- og orkumál myndu
setja svip sinn á þetta þing eins og
undanfarið. Þá væru atvinnumálin
alltaf fyrirferðarmikil á Alþingi og
samgöngumálin væru angi af þeim
og öll þessi mál yrðu ofarlega á
baugi.
Halldór sagði að stefnt væri að
því að hafa þingið styttra en ella
vegna sveitarstjórnarkosninganna
næsta vor og einnig vegna þess að
reynt væri að koma fastara skipu-
lagi á þingstörfin en áður hefði
verið. Það hefði einnig komið í ljós
á síðustu árum að meiri annir hlæð-
ust á þingmenn en áður, bæði
vegna vaxandi umsvifa á erlendum
vettvangi og einnig vegna þess að
starf í kjördæmunum væri tíma-
frekara en áður hefði verið, einkum
hjá þingmönnum utan af landi.
Gjörbreyting hefði orðið í þeim efn-
um á þeim tíma sem hann hefði setið
á Alþingi.
Nýr upplýsingavefur Alþingis var
kynntur á fimmtudaginn var. Hall-
dór sagði að Alþingi hefði sett sér
það markmið, eins og raunar Ís-
lendingar yfirleitt, að standa
fremstir meðal þjóða á sviði fjar-
skipta- og upplýsingamála og þetta
væri einn liður í því. Alþingi vildi
ekki vera eftirbátur annarra í þjóð-
félaginu hvað það snerti.
Alþingi verður sett á mánudaginn kemur, 1. október
Sjávarútvegs- og stór-
iðjumál ofarlega á baugi
Morgunblaðið/RAX
Halldór Blöndal, forseti Alþingis, við nýjan upplýsingavef Alþingis.
ÁLYKTUN þar sem hryðjuverk í
flugi eru fordæmd og aðgerðir boð-
aðar til að koma í veg fyrir slík
hryðjuverk var samþykkt á allsherj-
arþingi Alþjóðaflugmálastofnunar-
innar í Montreal á fimmtudag. Sturla
Böðvarsson samgönguráðherra er á
þinginu og sagði í samtali við Morg-
unblaðið að fram hefði komið á
þinginu að atburðirnir 11. september
sl. væru mesta ógn við almennt flug
sem menn hefðu nokkurn tíma staðið
frammi fyrir.
Hann segir að í ályktuninni sé lögð
sérstök áhersla á að í fyrsta skipti
hafi flugvélar í almennu flugi verið
notaðar sem vopn, sem eigi sér enga
hliðstæðu í samfélagi nútímans, og
að beita verði öllum ráðum til að
koma í veg fyrir slíka verknaði.
Að sögn Sturlu var meginvið-
fangsefni þingsins að finna leiðir til
að eyða þessari nýju vá og endur-
vekja traust almennings á fluginu.
Til þess að finna ráð til að sporna
gegn hryðjuverkum í almennu flugi
er í ályktun þingsins, sem Assad
Kotaite forseti ICAO lagði fram,
gert ráð fyrir því að haldin verði sér-
stök ráðstefna á vegum ICAO, eins
fljótt og kostur er, til að fjalla um
varnir gegn hryðjuverkum í al-
mennu flugi. Ráðherra segir að gert
sé ráð fyrir því að ráðherrar og
fulltrúar aðildarríkjanna verði boð-
aðir á ráðstefnuna. Sturla segir öll
Evrópuríkin og Alþjóðasamtök flug-
félaga, IATA, ásamt mörgum öðrum
aðildarríkjum hafa lýst yfir fullum
stuðningi við tillöguna og markmið
hennar, en aðildarríki ICAO eru 185
að tölu.
Þá segir Sturla að á þinginu hafi
verið fjallað um úttekt ICAO á flug-
öryggismálum í aðildarríkjunum.
„Þessar úttektir eru taldar eitt allra
mikilvægasta frumkvæði stofnunar-
innar frá upphafi og það er mikill
áhugi á að styrkja þessa starfsemi
stofnunarinnar og útvíkka hana
þannig að hún nái einnig til flugvalla
og flugumferðarþjónustu, sem er
mjög mikilvægt. Við Íslendingar
þekkjum þessa úttekt vegna þess að
það var gerð sérstök úttekt hjá okk-
ur sem fjallað var um ekki alls fyrir
löngu.“
Ráðstafanir til að taka
á flugdólgum ræddar
Sturla segir markmið þessarar
áætlunar varðandi flugöryggismál
að tryggja á sjálfstæðan og hlutlæg-
an hátt að farið sé að reglum ICAO,
sem allt snúist um að koma í veg fyr-
ir flugslys. Úttektaráætlunin tengist
síðan annarri áætlun ICAO sem
beinist að því að finna orsakavalda
flugslysa og draga úr þeim.
Auk atriða eins og flugöryggis-
mála í þróunarlöndunum og ráðstaf-
ana til að draga úr umhverfisáhrif-
um flugvéla þótti ástæða til að ræða
á þinginu ítarlega um svokallaða
flugdólga, að sögn Sturlu. Hann seg-
ir að farið hafi verið yfir ráðstafanir
til að koma í veg fyrir að slíkir aðilar
valdi hættu og óþægindum í flugi.
„Það er auðvitað sem betur fer ekki
mikið um þetta, en þó það mikið að
ástæða var talin til að fjalla sérstak-
lega um þetta hér á þingi ICAO, og
menn leita leiða til að sporna gegn
slíku framferði í flugvélum,“ segir
Sturla.
Ráðstefna fyrirhug-
uð um varnir gegn
hryðjuverkum
Samgönguráðherra á allsherjarþingi
Alþjóðaflugmálastofnunarinnar
ÞJÓÐMINJASAFN Íslands er aðili
að nýju þverfaglegu rannsóknar-
verkefni. Leverhulme Trust í Eng-
landi hefur veitt styrk sem nemur
tæplega 1,25 milljónum sterlings-
punda eða um 175 milljónum ís-
lenskra króna og dr. Guðrún Svein-
bjarnardóttir, verkefnisstjóri hjá
Þjóðminjasafni Íslands, á aðild að
umsókninni, segir í fréttatilkynn-
ingu.
Styrkurinn er veittur til þess að
rannsaka vistfræðilegar afleiðingar
landnáms á Norður-Atlantshafs-
svæðinu, nánar tiltekið í Færeyjum,
á Íslandi og Grænlandi. Guðrún seg-
ir að styrkurinn veiti tækifæri til
þess að rannsaka hvað gerist þegar
fólk sest að á landi þar sem ekki hef-
ur verið búið áður. Með því að nota
steingerðar leifar sem varðveist hafa
í náttúrulegum lögum og í mannvist-
arlögum og túlka þær með aðstoð
ritheimilda, er mögulegt að rann-
saka langtímaáhrif búsetu á land-
svæði þar sem vistkerfið er við-
kvæmt.
Leverhulme verkefnið hefst á
næsta ári og mun standa í fimm ár.
Þjóðminjasafn
tengist stórri
styrkumsókn
♦ ♦ ♦