Morgunblaðið - 20.01.2002, Side 22
22 SUNNUDAGUR 20. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
INDRIÐI var afi þeirra Her-steins og Jórunnar og MartaGuðjohnsen, kona hans, ammaþeirra. Tjarnargata 3C varheimili þeirra hjóna.
Hersteinn: Ég held að mínar fyrstu
minningar um afa minn hafi tengst
því þegar hann átti leið fram hjá eld-
húsglugganum því að hann fór alltaf
þá leið annaðhvort að heiman eða
heim. Og þá átti móðir mín til að
segja: „Jæja, þar fer revísorinn,“ eða
„þar fer revísorskarlinn“. Þetta var
sagt með mikilli ástúð í röddinni því
að samband hans við börn sín ein-
kenndist af gagnkvæmri hlýju og
virðingu.
Pétur: En nú var hann alls enginn
karl í útliti. Hann var svo ungur alla
tíð og hélt sér ákaflega vel.
Hersteinn: Já, hann var einhver
snyrtilegasti maður sem maður sá á
ferð, enda sagði Sigurður Nordal um
hann einhvern tíma að hann væri svo
kurteis við sjálfan sig. Og það held ég
að hafi verið rétt.
Pétur: Það er mjög góð lýsing.
Hersteinn: Afi og amma bjuggu í
3C, sem nú er komið upp í Garða-
stræti, en við í 3B og það var stein-
snar á milli. Hann fór því fram hjá
eldhúsglugganum þegar hann var að
koma eða fara, enda kom hann oft til
okkar líka , fékk sér kaffisopa og tal-
aði við pabba og mömmu.
Mönnum var starsýnt á afa á götu
því að hann var reffilegur, eins og
sagt var, og snyrtilegur. Sem dæmi
um það hvað hann var mikið snyrti-
menni má nefna að hann hafði sér-
stakar dósir með smelltu loki í vest-
isvasanum og þegar hann þurfti að
hrækja þá hrækti hann í þær og ekk-
ert annað.
Pétur: Hann spýtti ekki á bak við
mublur, eins og segir í kvæðinu.
Hersteinn: Nei, það er einmitt það.
Það var afskaplega gaman að tala við
afa því að hann hafði svo lifandi áhuga
á öllu milli himins og jarðar. Hann
bar þess merki að hafa lært í Dan-
mörku og danskan var mikið notuð
hér áður fyrr. Afi kom oft með
dönskuslettur og sagði til dæmis , „og
saa videre, og saa videre.“ Og þegar
hann talaði um einhverjar giftar kon-
ur þá var það alltaf maddama þetta.
Annars er það einkennileg tilviljun
að húsið hans gamla er á grunni húss
sem Þórður Thoroddsen, svili hans,
reisti á sínum tíma. Þeir voru miklir
mátar og afi dáðist alltaf að Þórði fyr-
ir að vera snillingur í stærðfræði.
Hann var reikningshaus mikill, enda
var hann um tíma sparisjóðsstjóri í
Keflavík.
Féll aldrei verk úr hendi
Pétur: Margt hefur verið haft eftir
Indriða. Fór það ekkert í taugarnar á
ykkur þegar verið var að herma eftir
honum? Vissir menn voru snillingar í
því og Páll Ísólfsson var til dæmis oft
með hann á dagskrá.
Hersteinn: Ég held að enginn hafi
tekið það nærri sér, þetta var allt í svo
græskulausu gamni.
Pétur: Um Indriða var meðal ann-
ars sagt að hann hafi ekki grátið frá-
fall Tryggva Gunnarsson, þáverandi
bankastjóra Landsbankans. Indriði á
að hafa mætt Jóni Helgasyni biskupi
á götu og sagt við hann: Jæja, þá er
nú Tryggvi Gunnarsson kominn til
helvítis.
Og biskupinn er látinn segja: Eig-
um við ekki að láta Drottin dæma?
Þá er haft eftir Indriða: Ja, hann er
a.m.k. í hreinsunareldinum og verður
lengi þar.
Hersteinn: Annar svili afa sem
hann hafði líka miklar mætur á [líkt
og Þórði] var séra Jens í Görðum.
Hann var prestur á Þingvöllum frá
1879–89 að ég held. Og þegar afi og
amma ákváðu að gifta sig lögðu þau
land undir fót og gengu austur á
Þingvöll og létu hann gefa sig saman
þar. Það varð síðan regla hjá þeim í
nokkur ár að fara austur og vera þar í
nokkra daga. Það tók þau dag að
ganga austur og svo var ákveðið að
dvelja þar fimm daga, hvíla sig, og
ganga svo heim. Það kom oft fyrir að
afi entist ekki til að vera þar nema
kannski þrjá daga, þá vildi hann halda
heim því hann var mikill vinnumaður
og vann gífurlega mikið. Hann var
líka brautryðjandi í sambandi við
landsreikninga og fyrsti hagfræðing-
ur landsins.
Pétur: Kona hans, frú Marta, hún
vann líka við landsreikninga eða ein-
hverjar skriftir.
Hersteinn: Hún var ritari hans og
hann dáði hvað hún var góð í reikn-
ingi. Þar hafði hann góða hjálpar-
hellu.
Þess má geta að hann átti fallegt
skrifborð sem á var brík, beint á móti
sæti hans, þar sem ritað var á latínu:
nulla dies sine linea - engan dag án
línu. Og það var orð að sönnu því að
afi var alltaf að. Hann var hálfníræð-
ur, ef ég man rétt, þegar síðasta leik-
ritið hans var fært upp hjá leikfélag-
inu. Það var Síðasti víkingurinn og
fjallaði um komu Jörundar hunda-
dagakonungs og hans ævintýri hér
1809.
Afi var líka, það sem kallað var,
mikill gleðimaður, og segir frá því í
endurminningum sínum að hann hafi
verið í danssölum Reykjavíkur í ein
70 ár. Hann hafði svo gaman af að
dansa og vera innan um glatt og kátt
fólk. Ég minnist þess að rétt fyrir
stríð var haldið upp á 40 ára afmæli
Leikfélagsins. Þá var farið austur í
Valhöll og slegið upp balli. Þar döns-
uðu allir af hjartans lyst, en afi sat og
horfði á af ekki minni ánægju. Þá var
hann orðinn 86 eða 87 ára gamall.
Söngelskt heimili
Ég minnist líka söngsins í sam-
bandi við heimili þeirra. Þar var það
amma sem var aðalmaðurinn því að
hún var komin af þeim mikla tónlist-
armanni, Pétri Guðjohnsen. Hún spil-
aði á gítar og þegar við krakkarnir,
bæði við systkinin og börn Katrínar
Viðar, Mörtu Kalman og Ingibjargar
Thors, vorum þar um jól og áramót,
spilaði amma undir. Við sem þótt-
umst hafa einhver hljóð – ég var ekki
þeirra á meðal – reyndum svo að láta
heyra í okkur, en hún var aðalmann-
eskjan.
Systurnar sungu náttúrlega líka
því þær höfðu góðar raddir. Auk þess
lærðu þær allar á píanó því það var
mikil tónlist á heimilinu.
Pétur: Þú nefndir Pétur Guðjohn-
sen. Ekki að ég vilji daga úr hlut
hans, en þú mátt til með að vita að
Knudsensfólkið var líka allt ólgandi í
músík, svo þetta kom úr tveimur ætt-
um.
Hersteinn: Jú, jú, en það hefur ekki
komist til mín, því er nú verr.
Pétur: Nei, að hugsa sér! En það
þarf náttúrlega hlustendur líka.
Hersteinn: Auðvitað. Aðalatriðið er
að hafa góða hlustendur, segja sumir.
Pétur: Indriði var ákaflega hrifinn
af Reynistaðarættinni?
Hersteinn: Já, hann var mjög
hreykinn af sinni ætt, sérstaklega
Gísla Konráðssyni og Konráði móð-
urbróður sínum, sem var jú einn
Fjölnismanna og mikill málvísinda-
maður í Kaupmannahöfn.
Pétur: Sagt er að hann hafi samið
fyrstu ljóðlínurnar hjá Jónasi Hall-
grímssyni:
Landið er fagurt og frítt
og fannhvítir jöklanna tindar.
Mig minnir að Nordal haldi því
fram.
Hersteinn: Það má vel vera, ég
man það nú ekki.
Pétur: Og eins á hann að hafa sam-
ið eitt fallegasta kvæðið um Jónas
Hallgrímsson:
Því sem að Ísland ekki meta kunni
er Ísland svipt því skáldið hné og dó,
skáldið sem því af öllu hjarta unni
sem elskaði þess fjöll og dali og sjó
og vakti fornan vætt í hverjum runni.
Þannig að skáldhneigðin hefur nú
verið í ættinni.
Hersteinn: Já, enda var hann ekki
nema tvítugur er hann samdi Nýárs-
nóttina. Hann var, eins og er kallað,
rétt að skríða út úr skóla þegar það
var sýnt á vegum Herranætur.
Pétur: Ertu ekki undrandi á því að
Nýársnóttin skuli ekki vera fastur lið-
ur. Nýársnóttin, Skugga-Sveinn og
þessi leikrit eiga að vera í Þjóðleik-
húsinu á tíu ára fresti.
Hersteinn: Ég er alveg sammála
því, en það er við ramman reip að
draga því þangað koma alltaf nýir
menn með nýjar hugmyndir. Þeir
þykjast hafa fundið upp hjólið og
púðrið og ég veit ekki hvað.
Afi minntist oft á ömmubræður
sína, þá Bjarna og Einar Halldórs-
syni sem urðu úti á Kili árið 1780.
Annar þeirra, tólf eða þrettán ára, fór
nauðugur í ferðina. Þeir höfðu verið
sendir suður til að kaupa á annað
hundrað fjár, en á leiðinni gerði að
þeim krapahríð svo þeir komust aldr-
ei lengra en að hól sem síðan hefur
verið kallaður Mannskaðahóll, Beina-
hóll eða eitthvað álíka.
Pétur: Það er magnað kvæði Hann-
esar Péturssonar: Jón Austmann ríð-
ur frá Reynistaðarbræðrum.
Hersteinn: Já og það voru margir
draumar þessu tengdir, eins og þegar
komið var á glugga einhvers staðar:
Dægur þrjú yfir dauðum ná
dapur sat hann Bjarni.
Sagt var að hann hafi verið klædd-
ur grænum fötum og enn er talað um
það meðal minna ættingja að grænn
sé óheillalitur fyrir okkur – Ég hef nú
átt græn föt og aldrei orðið meint af.
Þar að auki má ekki skíra nafninu
Bjarni, en það hefur líka gerst án
þess að nokkrum hafi hlekkst á.
Pétur: Skagfirðingar voru líka
hrifnir af Indriða.
Hersteinn: Já, hann átti marga
góða vini meðal þeirra, en sá sem ég
held að hann hafi haft hvað mesta
ánægju af að tala við var doktor Alex-
ander Jóhannesson. Hann var mál-
vísindamaður, eins og allir vita, og
hafði ríkt hugmyndaflug. Hann var jú
frumkvöðull að stofnun Flugfélags-
ins. Alexander kom oft til afa og þeir
röbbuðu margt saman.
En það voru fleiri en Skagfirðingar
sem afi hafði gaman af. Jakob Möller
var mikill vinur hans og í þjóðleik-
húsmálinu var Jakob mikill stuðn-
ingsmaður hans og Jónas frá Hriflu
líka. Jakob tók líka mikinn þátt í
starfsemi Leikfélagsins og lék eitt-
hvað, þannig að það var aldrei neinn
hörgull á áhugamönnum sem unnu
við þetta.
Mikill göngugarpur
Pétur: Þú nefndir að Indriði hefði
verið mikill göngugarpur og það má
til sanns vegar færa. Hann
segir frá því í Minningarriti
góðtemplara að hann er
staddur á Eyrarbakka að
vígja Templarahúsið þar
1899, rétt um áramótin,
og fer svo fótgangandi
til Reykjavíkur.
Hersteinn: Hann lét
ekkert aftra sér þó veð-
urútlit væri slæmt eða
færð erfið. Hann var
hraustur og sagði ein-
hvern tíma við mig að
hann væri svona léttur á
fæti því það hefði verið
svona mikill smali eftir í
sér.
Pétur: Hann hefur nátt-
úrlega smalað á æskuárum
sínum í Skagafirði. Söguleg-
an áhuga hafði hann líka mik-
inn og þú gætir örugglega
nefnt ýmis dæmi um það.
Hersteinn: Afi gerði sér til
dæmis ferð til Dyflinnar á Írlandi
árið 1904, er var hann staddur í erind-
um Stórstúkunnar í London. Ferðina
fór hann í þeim tilgangi að koma á
sögustað Brjánsbardaga. Sá staður
heitir Clontorf, en hefur verið kall-
aður Bolavellir á íslensku. Hann er
merkilegur fyrir Íslendinga að því
leiti að sextán brennumenn úr Njáls-
sögu voru hópi óvina Brjáns konungs
í þeim bardaga. Fimmtán þeirra féllu
og einn komst undan. Hann var að
flýja, eða hörfa, eins og hinir en þurfti
við binda skóþveng sinn, líkt og
Skarphéðinn forðum við Markarfljót.
Þá kom að honum Kerþjálfaður fóstri
Brjáns konungs og spurði hví hann
rynni ekki. Því svaraði hann: ég tek
eigi heim í kvöld þar sem ég á heima
úti á Íslandi. Gaf Kerþjálfaður honum
þá grið.
Afi hafði mjög gaman af að lesa
ýmislegt um stórmenni sögunnar og
svona í aðra röndina held ég að hann
hafi verið hálfgerður „militaristi.“
Það kemur fram í því að hann ferðast
langa leið á þessum tíma, þegar að-
eins voru til hægfara lestir, bara til að
skoða þennan eina stað.
Pétur: Ætli það hafi ekki verið vík-
ingslundin og karlmennskan? Honum
hló karlmennskuhugur í brjósti.
Hann hefði áreiðanlega viljað vera í
riddaraliði, heldurðu það ekki?
Hersteinn: Ég er ekki fjarri því.
Pétur: Og hefði sómt sér vel á
hesti. Sástu þú hann nokkurn tíma
fara á hestbak?
Hersteinn: Nei aldrei.
Pétur: En á yngri árum hafði hann
mikla ánægju af því.
Hersteinn: Það var ekki um annað
að ræða. Hann reið jú suður. Reið
jafnvel einn einhvern tíma og þá fóru
menn yfirleitt fleiri saman því vötnin
gátu verið erfið, en hann fór einn.
Pétur: Manstu eftir honum taka
þátt í fjöldasöng á heimilinu?
Hersteinn: Hann söng með. Það
var svo mikið sungið þar. Mjög mikið
af þjóðlegum lögum og um áramótin
þá komu, eins og ég sagði, allir krakk-
arnir saman þar.
Pétur: Var þá ekki gengið um-
hverfis húsið?
Hersteinn: Ja, um áramótin gekk
afi umhverfis húsið. Hann fór út á
miðnætti, gekk þrisvar réttsælis og
þrisvar rangsælis – sumir segja nú
sjö sinnum, ég er ekki alveg klár á
því. En ég man að það var alltaf farið
út í glugga heima þegar komið var
miðnætti til að sjá revísorskarlinn
ganga í kring og bjóða:
Komi þeir sem koma vilja
veri þeir sem vera vilja
farið þeir sem fara vilja
mér og mínum að meinalausu.
Ef þú talar við hana Jórunni þá
held ég að hún hafi þann sið ennþá.
Pétur: Það var skemmtilegt að
heyra, og þá finnst mér eiginlega á
næstu áramótum að þið eigið að koma
hérna upp í Túngötubrekkuna og
ganga réttsælis og rangsælis í kring-
um húsið á nýjum stað.
Hersteinn: Heldurðu að það kæmu
ekki einhverjir og færu að athuga
hvort við værum með réttu ráði?
Pétur: Þeir mættu gjarnan gera
það. Enda fengjuð þið þá bara stað-
festingu á að allt væri í lagi.
Ljósmynd/Óskar Gíslason
Hersteinn Pálsson og Jórunn Viðar í hlutverkum Henriks og Pernillu 1935.
Greinarhöfundur hefir um alllangt skeið reynt að safna heimildum um
reykvísk menningarheimili á liðinni tíð og leitað í því skyni frásagna hjá
ættingjum nafnkunnra borgara er settu með ýmsum hætti svip á samtíð
sína. Pétur Pétursson talaði við frændsystkinin Herstein Pálsson, fyrr-
um ritstjóra, og Jórunni Viðar, píanóleikara og tónskáld, sem eiga marg-
ar minningar frá húsi Indriða Einarssonar, revísors og rithöfundar.
Indriði Einarsson
rithöfundur.
„O Gud han är vacker
i sin vita väst.“ Úr húsi Indriða
Einarssonar