Morgunblaðið - 26.01.2002, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 26.01.2002, Blaðsíða 10
FRÉTTIR 10 LAUGARDAGUR 26. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÞÁ eru annir hafnar að nýju á Al- þingi og fulltrúarnir sextíu og þrír á löggjafarsamkundunni teknir að ræða af rökfimi og þrótti um lífsins gagn og nauðsynjar. Sex vikna jóla- leyfi hlýtur að hafa gert þeim gott – fjárlagaumræðan er að baki, þótt enn hafi menn áhyggjur af efna- hagsmálunum. Þau firn urðu við umræðu utan dagskrár á fyrsta þingfundi á nýju ári að greina mátti sameiginlegan snertiflöt ekki einu sinni heldur tvívegis í máli Davíð Oddssonar forsætisráðherra og Öss- urar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar. Báðir gátu þeir verið sammála um að betur horfði í efnahagsmálum en áður og ástæða væri jafnvel til nokkurrar bjartsýni. Aukinheldur mátti heyra á þeim að stærð ákveðinna aðila í versl- unarrekstri hér á landi væri ef til vill ein og sér orðin áhyggjuefni og vakti mikla athygli yfirlýsing for- sætisráðherrans um að til greina komi að skipta upp slíkum eignum, séu þær misnotaðar. Formaður Samfylkingarinnar hafði einnig uppi stór orð um slíka verslunarrisa; sagði þá hafa „hreðjatak“ á mark- aðnum sem kallað hefði fáheyrða dýrtíð yfir neytendur. Þingfréttamanni sýndist ofan af svölum þingsalar liggja vel á fulltrú- unum og hefur hann styrkst í þeirri skoðun sinni af samtölum við þá fyrstu dagana nú á vorþingi. Spenna og skemmtileg eftirvænting liggur í loftinu, mörgum spurningum er ósvarað. Vitaskuld spilar hér margt inn í – t.d. borgarmálin. Í dag verður sá merki viðburður að Björn Bjarnason menntamálaráðherra mun formlega gefa yfirlýsingu um hvort hann gefur kost á sér sem leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosning- unum nú í vor. Umræðan um borg- arpólitíkina hefur verið æði áber- andi í þinghúsinu síðustu dægrin, rétt eins og víðar í þjóðfélaginu, og sýnist plottað í hverju horni. Sjálf- stæðismenn fara með himinskautum og segja að nú eigi sko að vinna borgina aftur, en aðrir í hópi þing- manna glotta út í annað og segjast spyrja að leikslokum. Aðalpersónan í leikritinu, sjálfur mennta- málaráðherrann, hefur verið æði áberandi í umræðum á þingi og bregst ekki að í hvert sinn gauka andstæðingar að honum „pillum“ um málefni borgarinnar, rétt eins og kom svo eftirminnilega í ljós í um- ræðum um HM í knattspyrnu og þjónustu Ríkisútvarpsins á fimmtu- dag. Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins og fyrrv. menntamálaráðherra, sagði í þeirri umræðu að Ríkisútvarpið og sjón- varpið væru í pólitískum herfjötrum ríkisstjórnarinnar og minnti á að menntamálaráðherra væri ekki að- eins æðsti yfirmaður ríkisfjölmiðl- anna. Hann væri nefnilega líka æðsti yfirmaður íþróttamála í land- inu og fróðlegt yrði af þeim sökum að fylgjast með því á vordögum, færi svo fram um framboðsmál í borginni sem horfði, að heyra hvern- ig hann svari um málið íþróttafólki í Reykjavík. Fleiri þingmenn drógu borgarpólitíkina inn í svo óskylt mál sem útsendingar frá heimsmeist- arakeppninni í knattspyrnu. Þannig sá varaþingmaðurinn Mörður Árna- son ástæðu til þess að geta þess að ráðherrans yrði ekki saknað er hann kveddi embætti sitt, hvorki af áhorf- endum, hlustendum né starfs- mönnum Ríkisútvarpsins. Flokks- bróðir hans Guðmundur Árni Stefánsson hjó í sama knérunn og lýsti því yfir að HM-laust sjónvarp næsta sumar yrði „merkilegur bautasteinn“ fyrir ráðherrann til þess að taka með sér úr þessum sal yfir í minnihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. „Ég óska honum til hamingju með það,“ bætti Guð- mundur Árni við. Lokaorðin í umræðunni átti svo auðvitað Björn Bjarnason sjálfur sem velti fyrir sér ummælum síns gamla flokksbróður, Sverris Her- mannssonar, og taldi þau sýna hvað umræðan gæti farið út um víðan völl. „En ég held að sú keppni sem ég er að fara í verði örugglega sýnd í sjónvarpinu áfram hvað sem orðum Sverris Hermannssonar líður,“ bætti hann svo við og uppskar mikil hlátrasköll þingmanna sem töldu þarna komna fyrstu yfirlýsingu ráð- herrans um framboð. Engum blöðum er um það að fletta að glósur þingmanna í garð Björns Bjarnasonar eru öðrum þræði blendnar kvíða, enda dylst engum að þar fer firna öflugur stjórnmálamaður. Eftir að hann gerir ákvörðun opinbera síðar í dag verður allri óvissu væntanlega eytt og við taka önnur úrlausnarefni. Um þau er ekki síður skrafað í þingsöl- um, t.d. hvort losni stóll mennta- málaráðherra í kjölfarið. Það verður forvitnilegt að vita.      Af borgarmálum og fleiri góðum málum EFTIR BJÖRN INGA HRAFNSSON ÞINGFRÉTTAMANN bingi@mbl.is ÍSLENSKIR ökukennarar ráðgera að kynna í vor nýja hugsun í akstri sem nefnd hefur verið grænt akst- urslag, ecodriving á ensku, sem Finnar hafa haft frumkvæði að. Runólfur Ólafsson, framkvæmda- stjóri Félags ísl. bifreiðaeigenda, gat um þetta á ráðstefnunni Bíll og borg sem haldin var í gær og sagði hann þetta aksturslag miða að því að aka jafnan sem hagkvæmast í því skyni að draga úr eldsneytisnotkun og mengandi útblæstri. Guðbrandur Bogason, formaður Ökukennarafélags Íslands, segir ökukennara hafa kynnst þessari hugmyndafræði í gegnum norrænt samstarf ökukennara. Koma finnsk- ir ökukennarar hingað til lands í apríl til að kynna starfsbræðrum sínum kennslu á þessu sviði. Er ætl- unin að taka þetta upp í almennt ökunám hér og helst að taka þessi atriði upp í námskrá ökukennslu en einnig bjóða sérstök námskeið fyrir ákveðna hópa, t.d. ökumenn stórra bíla og bílstjóra fyrirtækja með stóra bílaflota. Einnig er ráðgert að bjóða hinum almenna ökumanni einkatíma. Dregur úr mengandi útblæstri „Það hefur komið fram að hægt er að minnka eldsneytisnotkun um 10 til 20% með ákveðnu aksturslagi og losun mengandi efna um svipað hlut- fall og það er skoðun okkar að sú breytta hegðun sem þetta krefst hafi líka í för með sér aukið umferðarör- yggi,“ segir Guðbrandur. Hann seg- ir unnt að mæla ávinning við breytt aksturslag með smátölvu sem öku- kennarar munu kaupa. Getur hún mælt eyðslu við ákveðið aksturlag og síðan aftur þegar ekið er á annan hátt. Þá verði hægt að sjá muninn á því að aka hranalega og aka þannig að skipt sé fljótt upp og inngjöfin höfð létt. „Þannig sjá menn strax hverju munar og hversu breytt akst- urslag getur skipt miklu máli,“ segir Guðbrandur ennfremur. Runólfur Ólafsson fjallaði á ráð- stefnunni um hvernig hver og einn ökumaður gæti hugað að eldsneyt- issparnaði og umhverfinu við akstur. Hann sagði FÍB hafa áhuga á sam- starfi við ökukennara um grænt aksturslag og væri fyrsta skrefið að þjálfa þá. Fyrir utan Finna hafa Norðmenn og Svíar tekið upp þessa kennslu. Runólfur sagði að með grænu aksturslagi væri ekki aðeins hugað að meðferð bílsins, þ.e. að skipta sem fyrst upp í hæsta mögu- lega gír, forðast mikinn snúning vél- arinnar og stíga létt á inngjöf heldur skipti einnig máli að velja greiðar akstursleiðir og forðast annatíma. Þá sagði hann skipta miklu máli að aka ekki um með óþarfa hluti í bíln- um, ekki hafa farangursgrind eða hólf á þakinu dags daglega, huga yrði að loftþrýstingi í hjólbörðum tvisvar í mánuði og síðan gæti hreyf- ilhitari sparað mikið eldsneyti. Allt þetta sagði hann geta sparað nokkur hundruð lítra árlega við meðalnotk- un fólksbíls og það gæti skipt tugum þúsunda í eldsneytiskostnaði. Skynsamlegur akstur og minni streita Framkvæmdastjóri FÍB sagði allt þetta þýða skynsamlegan akstur og fyrir utan að hafa sparnað og minni mengun í för með sér og að auka um- ferðaröryggi mætti minna á að þetta ákveðna aksturslag þýddi einnig minni streitu og meiri vellíðan við aksturinn. Finninn Jouko Parviainen gerði einnig hreyfilhitara að umtalsefni og sagði þá einkum spara orku þar sem vélar væru þá ávallt ræstar heitar. Sagði hann kaldræsingu auka mjög eyðsluna. Setti hann fram tölur út frá reynslu Finna og Svía að bens- ínbíll gæti sparað allt að 300 lítra ár- lega með notkun hreyfilhitara bæði við heimili og vinnustað. Lék hann sér með þær tölur að 120 þúsund bensínbíla-floti landsmanna gæti sparað sér allt að 36 milljónir bens- ínlítra sem þýddi hátt í þrjá millj- arða króna og minnkað koltvísýr- ingsmengun um 85 þúsund tonn. Morgunblaðið/Árni Sæberg Eldsneytisnotkun bíla getur verulega ráðist af hegðun ökumanna undir stýri. Getur sparað elds- neyti og aukið öryggi Finnskir ökukennarar kynna íslensk- um starfsbræðrum „grænt“ aksturslag RAGNAR Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, segir tillögur sjó- manna og útvegsmanna um að tak- marka framsal á aflamarki draga úr hagkvæmni fiskveiða. Þórólfur Matthíasson, dósent við HÍ, dregur í efa að tillögurnar breyti langtíma- kaupþróun sjómanna. Sjómenn og útvegsmenn kynntu á fimmtudag tillögur sem miða að því að takmarka framsal aflamarks til og frá skipum. Ragnar segir tillögurnar fela í sér bæði kosti og galla. Hann er hinsvegar ekki viss um að kostirnir vegi upp gallana. Hann segir að í raun feli tillögurnar í sér viðbrögð aðilanna við tilteknum vanda sem komið hafi upp í samstarfi sjómanna og útgerð- armanna, einkum sem lýtur að meintri þátttöku sjómanna í kvóta- leigu. „Þessi kvótaleiga hefur einkum átt sér stað hjá kvótalitlum skipum en þau hafa leigt til sín mikinn hluta þess afla sem þau hafa veitt. Jafnframt hefur mönnum orðið starsýnt á að brottkast fiskafla virðist einkum hafa verið stundað af skipum sem hafa leigt til sín kvóta. Ég hygg að þessi takmörkun á tækifærum til þess að stunda útgerð á grundvelli leigu- kvóta, verði sennilega til að draga út hvoru tveggja. Hinsvegar er á það að líta að þessar takmarkanir fela einnig það í sér að færri munu stunda sjó og þess vegna mun óhjákvæmilega glat- ast viss hagkvæmni í útgerð sem tengist því þegar menn leigja sér kvóta og grípa þau tækifæri sem gef- ast. Að mínu mati er hér bæði um kosti og galla að ræða. Það er hins- vegar óljóst í mínum huga hvort kost- irnir vega upp gallana. Takmarkanir á framsali leigukvóta eru, eins og all- ar aðrar takmarkanir á efnahags- starfsemi og viðskiptum, til þess falln- ar að draga úr hagkvæmni og þrengja þann hóp sem getur tekið þátt. Þær fela óhjákvæmilega og nánast alltaf í sér skerðingu á hagkvæmni. Til þeirra ætti því ekki að grípa nema í síðustu lög,“ segir Ragnar. Dregur úr leiguviðskiptum Þórólfur Matthíasson, dósent í hag- fræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, segir að líklega tak- ist með þessum tillögum að draga úr þátttöku sjómanna í kvótakaupum. „Þetta dregur væntanlega úr leigu- viðskiptum og útgerðir kvótalítilla skipa verða úti í kuldanum. Einnig getur samkomulagið ýtt undir sam- einingu útgerðarfyrirtækja þar sem auðveldara verður að möndla með kvóta ef fyrirtækin eiga mörg skip. Þá ætti kvótaverð að fara heldur lækkandi gangi þetta eftir að komið verði í veg fyrir þátttöku sjómanna í kvótaleigu. Útgerðarmennirnir munu hafa minna úr að spila ef þeir geta ekki látið sjómennina taka þátt í þessu.“ Þórólfur telur jafnframt að til skamms tíma muni meðallaun sjó- manna hækka en einnig sé ljóst að fækka muni í hópnum. Hann er hins vegar ekki jafnviss um hvort þetta muni breyta langtímakaupþróun sjó- manna enda séu allar líkur á að hér sé ekki um jafnvægisstöðu að ræða. „Út- gerðarmenn munu sjálfsagt finna aðrar aðferðir til að fara í kringum kjarasamninga sjómanna, hluta- skiptakerfið og það allt saman. Það tekur tíma, jafnvel allmörg ár. Sjómenn og útgerðarmenn taka þarna á deilu sem hefur staðið á milli þeirra undanfarin 10 ár með því að setja ákveðinn hóp af sjómönnum til hliðar, skipta hópnum upp. Hins veg- ar er rétt að undirstrika að í sam- komulaginu er ekkert talað um hvernig útgerðin á að greiða fyrir að- ganginn að sjávarauðlindinni, þessari sameign íslensku þjóðarinnar. Með samkomulaginu eru línurnar þó orðn- ar skýrari og færri atriði sem bland- ast inn í þá deilu sem hefur staðið í 10–15 ár um það hvernig þjóðin eigi að fá tekjur af þessari eign sinni,“ segir Þórólfur Matthíasson. Takmörkun á framsali aflamarks Dregur úr hagkvæmni SKIPSTJÓRI Bervíkur SH-143 sem staðinn var að dragnótarveiðum án veiðileyfis í mynni Arnarfjarðar á miðvikudag gekkst í gær undir dómssátt fyrir Héraðsdómi Vest- fjarða. Féllst hann á að greiða 1,2 milljónir í sekt en auk þess voru afli og veiðarfæri gerð upptæk. Kristján Kristjánsson, fram- kvæmdastjóri Bervíkur ehf., segir verðmæti afla og veiðarfæra skipsins hafi numið um 2,5 milljónum króna. Kristján segir að skipstjórinn hafi ekki borið ábyrgð á því að skipið hafi verið á veiðum án veiðiheimilda. Út- gerðin hafi talið sig hafa aflað nægi- legra veiðiheimilda og veiðileyfis. „Það sem gerist er að það var ekki leigt alveg nóg,“ segir Kristján. „Þetta voru dýr mistök.“ Undirgekkst dómssátt ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.