Morgunblaðið - 20.02.2002, Qupperneq 12
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
12 MIÐVIKUDAGUR 20. FEBRÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
VERIÐ er að innleiða svokall-
að vigtunarkerfi í sorptæm-
ingu í þremur sveitarfélögum
á höfuðborgarsvæðinu um
þessar mundir. Sveitarfélögin
eru Mosfellsbær, Seltjarnar-
nes og Garðabær og gengur
kerfið út á að allt sorp sem
kemur frá íbúum er vigtað um
leið og það er tæmt.
Að sögn Tryggva Jónsson-
ar, bæjarverkfræðings í Mos-
fellsbæ, hefur sorp verið hirt
á tíu daga fresti í bænum frá
árinu 1998 og verður því hald-
ið áfram eftir að nýja kerfið
verður að fullu komið í notk-
un. Þegar er búið að setja
strikamerki og tölvukubba á
allar sorptunnur í bænum og
er sorpbíllinn útbúinn þannig
að hann geti lesið á merkin og
vigtað sorpið. „Það er verið að
útbúa tengingar milli fast-
eignaskrár, sorphirðuskrár-
innar hjá okkur og þessa
vigtunarbúnaðar þannig að
þetta er að komast á,“ segir
Tryggvi.
Óákveðið hvort sorpgjald
ráðist af sorpmagni
Hann segir ekki endanlega
búið að ákveða hvort fólk
muni greiða í samræmi við
þyngd þess sorps sem það
lætur frá sér. „Væntanlega
munu menn íhuga að taka það
upp í framhaldinu þegar séð
verður að kerfið virki eðlilega
og að það sé einhver grund-
völlur fyrir því.“
Garðabær og Seltjarnarnes
eru einnig að taka upp sams-
konar kerfi en að sögn
Tryggva stóðu þessi þrjú
sveitarfélög sameiginlega að
útboði á sorphirðu fyrir fjór-
um árum. „Þó að samningur
hafi síðan verið gerður við
hvert einstakt sveitarfélag þá
ákváðu menn að vera með
sameiginlega sorptunnuhirð-
ingu,“ segir Tryggvi en það er
Gámaþjónustan sem sér um
sorphirðuna. Samkvæmt upp-
lýsingum frá Seltjarnarnesi
og Garðabæ er sorp í þessum
sveitarfélögum sömuleiðis
hirt á tíu daga fresti og hefur
ekki verið tekin ákvörðun um
hvort sorpgjald verði látið
ráðast af sorpmagninu sem
íbúar láta frá sér.
Morgunblaðið greindi ný-
lega frá því að svokallað rúm-
málskerfi verði innleitt í sorp-
hirðu í Reykjavík á þessu ári
en það gengur út á að íbúar
láti vita vilji þeir fá sorptæm-
ingu og greiða svo í samræmi
við fjölda losana. Hvað varðar
önnur sveitarfélög á höfuð-
borgarsvæðinu þá fengust
þær upplýsingar hjá Kópa-
vogsbæ að ekki séu fyrirhug-
aðar breytingar á sorphirðu-
kerfi bæjarins þar sem sorp
er hirt vikulega. Í Hafnarfirði
hafa sömuleiðis ekki verið
teknar neinar ákvarðanir um
breytingu á sorphirðu en þar
er sorp hirt á 7-10 daga fresti.
Í Bessastaðahreppi hefur
hreppsráð ákveðið að gera
ekki breytingar á sorphirðu-
kerfi sveitarinnar þar sem
sorp er hirt á tíu daga fresti.
Breytingar á sorphirðu í farvatninu hjá nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu
Vigtunarkerfi
tekið upp á
þremur stöðum
Morgunblaðið/Þorkell
Ekki hefur verið ákveðið hvort íbúar í Mosfellsbæ, Garðabæ og á Seltjarnarnesi muni
greiða sorphirðugjald í samræmi við þyngd þess sorps sem þeir láta frá sér.
Mosfellsbær
SJÖ Garðbæingum úr hópi
eldri borgara var nýlega
veitt viðurkenning fyrir
framlag til menningarmála
bæjarins. Var viðurkenn-
ingin, skúlptúrinn Serenaða
eftir listamanninn Helga
Gíslason, veitt á lokahófi af-
mælisárs bæjarins.
Þeir sem hlutu við-
urkenningu eiga allir það
sameiginlegt að hafa helgað
líf sitt menningarmálum og
átt þátt í að auðga og glæða
menningarlíf í Garðabæ og
á landinu öllu að því er seg-
ir í fréttatilkynningu frá
bænum. Það var Laufey
Jóhannsdóttir, forseti bæj-
arstjórnar, sem stjórnaði
athöfninni og afhenti heið-
ursgestunum verðlaunin.
Þeir sem voru heiðraðir
eru Jón Jónsson jarðfræð-
ingur, Bragi Hlíðberg
harmonikkuleikari, Árni
Jónsson óperusöngvari,
Pétur Friðrik Sigurðsson
listmálari, Gísli Sigurðsson
blaðamaður og listmálari,
Sieglinde Kahmann Björns-
son söngkona og Ragnheið-
ur Jónsdóttir, myndlist-
arkona.
Viðurkenningarhafar frá vinstri, Ragnheiður Jónsdóttir, Sieglinde Kahmann Björnsson, Gísli Sigurðsson, Árni Jónsson,
Bragi Hlíðberg og Jón Jónsson. Á myndina vantar Pétur Friðrik Sigurðsson sem einnig var heiðraður.
Heiðruð fyrir
menningarmál
Garðabær
TÍU tilboð bárust í jarðvinnu
fyrir göngubrú yfir Hafnar-
fjarðarveg en tilboð voru ný-
lega opnuð hjá Vegagerðinni.
Lægsta tilboðið átti Ásberg
ehf. í Mosfellsbæ og hljóðaði
það upp á rúmar 22 milljónir
króna sem eru 93 prósent af
kostnaðaráætlun verksins.
Hæsta tilboðið kom frá Loft-
orku ehf. í Garðabæ en þeirra
tilboð hljóðaði upp á rúmar 28
milljónir.
Að sögn Eiríks Bjarnason-
ar, bæjarverkfræðings í
Garðabæ, voru tilboð í stál-
vinnu við brúna opnuð fyrir
hálfum mánuði og reyndust
þau hagstæð. Er því búist við
að kostnaðaráætlun fyrir verk-
ið í heild sinni, um 60 milljónir
króna, muni standast.
Framkvæmdin er á vegum
Vegagerðarinnar og Garða-
bæjar. Stefnt er að því að
framkvæmdum við brúna
verði lokið í ágúst á þessu ári
eða fyrir næsta skólaár.
Tilboð í
göngubrú
opnuð
Garðabær
ÍBÚASAMTÖK Kjalarness
verða stofnuð í kvöld. Gert
er ráð fyrir að Kjalarnes
verði sérstakt hverfi í nýrri
hverfaskiptingu borgarinn-
ar en þótt um fámennasta
hverfið verði að ræða er það
stærst að flatarmáli.
Segir í fréttatilkynningu
frá undirbúningsnefnd að
stofnun íbúasamtakanna að
tilgangur þeirra verði að
vinna að framfara- og hags-
munamálum svæðisins og
stuðla að samhug og sam-
starfi íbúanna. Meðal
stærstu hagsmunamálanna
eru umferðaröryggismál, al-
menningssamgöngur, gerð
Sundabrautar, félagsmið-
stöð unglinga og efling úti-
vistarmöguleika á svæðinu
svo eitthvað sé nefnt.
„Öllum Kjalnesingum er
ljóst hve mikilvægt það er
fyrir okkur að vera samtaka
um að gera okkar góðu
byggð enn betri. Með stofn-
un íbúasamtaka verður til
vettvangur sem getur haft
forystu um að hvetja íbúa
til dáða til góðra verka í
okkar heimabyggð um leið
og staðinn er vörður um
hagsmuni okkar og gerðar
kröfur til borgaryfirvalda
um að standa við gefin lof-
orð,“ segir í fréttatilkynn-
ingunni.
Stofnfundurinn verður
haldinn í Fólkvangi kl.
20.00.
Stofnfundur nýrra íbúasamtaka haldinn í Fólkvangi í kvöld
Fámennasta en stærsta hverfið
Kjalarnes
ÁTTA kvartanir vegna lausa-
göngu hrossa í Mosfellsdal
bárust Áhaldahúsi bæjarins í
fyrra. Er það sami fjöldi
kvartana og árið áður.
Minnisblað Dýraeftirlits
Mosfellsbæjar um málið var
nýlega lagt fram í bæjarráði
en kvartanirnar sem borist
hafa eru vegna lausagöngu
frá bæjarmörkum við Stardal
að Þingvallavegamótum.
Gerð var könnun á merk-
ingum hrossa í þremur hest-
húsum. Voru 115 hross skoð-
uð og kom í ljós að 94 þeirra
eða 81,74% voru merkt en 21
hross ómerkt.
Segir að öllum ábúendum
Mosfellsdals hafi haustið 2000
verið sent bréf þar sem bent
var á alvöru þess að girðingar
séu í lagi vegna þeirrar slysa-
hættu sem af lausum hesti
getur hlotist.
Kvartanir
vegna lausra
hrossa
Mosfellsbær
FRUMDRÖG að deiliskipu-
lagi fyrir Hraun í Hafnar-
firði verður kynnt fyrir íbú-
um svæðisins og öðrum
hagsmunaaðilum en skipu-
lags- og umferðarnefnd bæj-
arins samþykkti það á fundi
sínum í síðustu viku.
Umrætt svæði afmarkast
af Arnarhrauni, Flata-
hrauni, Reykjanesbraut og
Reykjavíkurvegi. Að sögn
Hafdísar Hafliðadóttur
skipulagsstjóra í Hafnarfirði
er ekki til deiliskipulag fyrir
byggðina sem þarna er.
Hins vegar kveði skipulags-
lög frá árinu 1997 á um að
allt land skuli vera skipulagt
og því sé verið að vinna lög-
formlegt deiliskipulag fyrir
þennan reit.
Hafdís á ekki von á að
miklar breytingar verði
gerðar á skipulagi svæðis-
ins. Helst sé að vænta
breytinga á svokölluðum
Hvalsreit. Nú eigi að kynna
frumdrög að deiliskipulagi
fyrir íbúum og hagsmuna-
aðilum svæðisins og þegar
búið sé að fá viðbrögð frá
þeim verði formleg tillaga að
deiliskipulaginu lögð fyrir
skipulagsnefnd.
Við afgreiðslu nefndarinn-
ar í vikunni sátu fulltrúar
minnihlutans hjá. Í bókun
þeirra segir að ekki hafi ver-
ið færð rök fyrir því að sá
byggingarmassi og íbúa-
fjöldi sem settur er fram á
Hvalslóðinni hæfi umhverf-
inu og öðrum forsendum
sem skipti máli við slíkt
skipulag. Þá sé ekki ljóst
hvort lóðarhafi á Hvalslóð-
inni sé upplýstur um fyrir-
hugaðar breytingar. Hins
vegar sé kynningarfundur á
forstigi nauðsynlegur fyrir
íbúa gagnvart fyrirhuguðum
breytingum á reitnum.
Unnið
að deili-
skipu-
lagi
Hrauns
Hafnarfjörður
♦ ♦ ♦