Morgunblaðið - 11.08.2002, Page 16
16 SUNNUDAGUR 11. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
saman, þar sem hann lék jafnframt
aðalhlutverkið, sem vann þriðju
verðlaun á fyrstu Stuttmyndadög-
um í Reykjavík. Þá fengum við smá
trú á okkur, enda var Hrafn Gunn-
laugsson í dómnefnd. Myndin hét
Gaddavír í gelgjunni. Árni Óli lagði
hana fram með umsókn sinni um
kvikmyndaskóla í Póllandi og
komst inn. Okkur hefur alltaf þótt
mjög gott að vinna saman, sérstak-
lega að kasta á milli okkar hug-
myndum.“
Því raunverulegri,
þeim mun fyndnari
Ákvaðstu að skrifa þetta handrit
með öðrum vegna þess að meira
var í húfi núna en í Íslenska
draumnum.
„Það gæti verið. En almennt
finnst mér betra að vinna handrit
með öðrum. Ég hreinlega fann eng-
an til að skrifa Íslenska drauminn
með. Ég er að skrifa handrit núna
og er ekki einn við það verk. Í sam-
vinnu gengur allt hraðar; hug-
myndirnar njóta þess að tveir eru
að vinna með þær. Grunnhugmynd-
in að Maður eins og ég breyttist
töluvert á ferlinu. Við skrifuðum
handritið þrisvar-fjórum sinnum og
gerðum miklar breytingar í hverri
umferð. Til dæmis er utanlands-
ferðin í fyrstu útgáfunni til Man-
chester og í annarri vorum við
komnir til Flórída með senum í
Disneylandi og þátttöku Franks
Stallone!“
Á endanum er það svo Sylvester
bróðir hans sem fer með hlutverk í
myndinni?
„Einmitt. Þannig fór sagan
gegnum ýmsar kúvendingar.“
Íslenski draumurinn spratt út úr
kunnuglegum íslenskum kringum-
stæðum og hversdagsfólki rétt eins
og Maður eins og ég, en tók þann
raunveruleika lengra en þið gerið í
nýju myndinni. Maður eins og ég
er á vissan hátt ekki eins ýkt; það
eru til dæmis engar búlgarskar
heilsusígarettur í spilinu. Var það
sérstök glíma að halda sögunni inn-
an marka trúverðugleikans?
„Já, við vorum alltaf meðvitaðir
um það. Allt fram undir það síðasta
vorum við að henda út hugmyndum
sem voru úti að aka. Við lögðum
mikla áherslu á að halda okkur á
jörðinni og tónuðum niður brand-
ara í ætt við Heimskur, heimskari.
Í staðinn fyrir búlgarskar heilsu-
sígarettur eru í þessari mynd
heilsuvörur sem eru algengar hér á
markaðnum. Oft þegar maður er að
skrifa handrit snúast áhyggjurnar
um að vera ekki nógu fyndinn. Þá
setur maður kannski inn dverg sem
yfirmann á póstinum eða eitthvert
slíkt grín sem þjónar engum til-
gangi. Niðurstaðan er sú að því
nær raunveruleikanum sem sagan
er þeim mun fyndnari er hún.“
Sagan sem ég hef að segja
Í báðum bíómyndunum þínum
ertu að fjalla um svipað efni,
kreppu íslenskra karlmanna af
yngri kynslóð. Þú heldur áfram að
skoða drauma þeirra og öryggis-
leysi gagnvart umhverfinu, ekki
síst konum, sem þeir reyna að
losna undan eða deyfa með því að
rotta sig saman, fara í golf eða fót-
bolta eða horfa saman á Sylvester
Stallone. Af hverju hvílir þetta efni
svona þungt á þér?
„Þetta er bara sú saga sem ég
hef að segja,“ svarar Róbert bros-
andi. „Ég held að í rauninni hafi
menn ekkert svo margar sögur að
segja, en þeir geta sagt þær með
síbreytilegum hætti. Woody Allen
hefur gert þrjátíu góðar myndir
sem meira eða minna segja svip-
aðar sögur en með ólíkum aðferð-
um og frá ólíkum sjónarhornum.
Meirihluti allra leikstjóra í heim-
inum gerir tvær bíómyndir á ferl-
inum; þeir hafa kannski sagt sínar
tvær sögur en ekki fundið leið til að
endurnýja þær. Ég er ekki hrædd-
ur við að sækja efni í sömu þemu ef
ég get sett það fram á nýjan eða
frumlegri hátt en síðast. Leikstjór-
ar á borð við Mike Leigh og Ken
Loach fiska jafnan á svipuðum mið-
um en beita nýjum veiðiaðferðum
og gera tilraunir með stíl.“
En af hverju þetta efni?
„Mér finnst þetta vera ansi stór
hluti af þjóðlífinu, ekki síst lífi
minnar kynslóðar. Tvisvar sinnum í
viku fer ég að hitta félaga mína til
að spila fótbolta við þá. Við kunn-
um ekkert í fótbolta og samræður
okkar úti á vellinum eru sjálfsagt
enn hálfvitalegri en hjá þremenn-
ingunum í Íslenska draumnum.
Nógu marga aðra þekki ég sem
fara í golf. Ég þekki hins vegar
ekki einn einasta mann sem hefur
verið með sinni konu lengur en í
fimm ár. Svo til allir hafa skilið oft-
ar en einu sinni.“
Hvað um sjálfan þig?
„Ég er ánægður með minni
konu, en við höfum aðeins verið
saman í eitt ár.“
Tilgangsleysi
karlmennskunnar
Í báðum myndunum eru karlarn-
ir frekar veikir og ringlaðir; kon-
urnar eru sterkari, konurnar
stjórna. Er raunveruleikinn þannig
í þínum augum?
„Já, ég held að svo sé. Mín kyn-
slóð af karlmönnum er í smá vanda
með sjálfsmyndina.“
Er það vegna þess að jafnrétt-
isbaráttan hefur borið þann ávöxt
að konurnar eru orðnar sterkari og
karlarnir vita ekki hvernig þeir
eiga að vera?
„Já. Fljótlega verður enginn til-
gangur með karlmönnum. Konur
geta eignast börn án þess að karl-
maður sé nálægt. Og þær eru löngu
búnar að sanna að þær geta unnið
úti og alið upp barn á sama tíma.
Við verðum því að finna okkur nýj-
ar leiðir, nýjan tilgang. Auðvitað er
þessi staða tengd tíðarandanum og
allt getur breyst á ný. En það er
gaman að fjalla um þetta í sögu.“
Myndirðu treysta þér til að segja
sögu sterkrar ungrar konu og
glímu hennar við sjálfa sig og karl-
ana?
„Já, ég held það. Í Íslenska
draumnum eru konurnar meiri
aukapersónur en í Maður eins og
ég, þar sem er a.m.k. ein sterk
kvenpersóna sem Katla Margrét
Þorgeirsdóttir leikur. Að vísu er
kannski ekki mikil dýpt í þeirri
persónu og ekki tími til að segja
hennar sögu í þessari mynd, en hún
er mjög sterk. Núna er eitt af
handritunum sem ég er að vinna að
einmitt með kvenpersónu í miðj-
unni. Ég veit reyndar ekki hvort ég
geti gert eins mikið grín að kven-
persónum og ég geri að karlmönn-
unum; það gæti orðið erfiðara.“
Rasismi og prédikanir
Eitt sem slær mann varðandi
Maður eins og ég er að samband
Júlíusar og kínversku konunnar
mætir ekki verulegri andstöðu um-
hverfisins; þvert á móti samgleðj-
ast flestir. Þú veltir þér þannig
ekki mikið upp úr íslenskum kyn-
þáttafordómum. En þú hefur vænt-
anlega velt þeim fyrir þér?
„Já, en ég kaus að prédika ekki.
Það eru þarna karakterar sem end-
urspegla fordóma og fáfræði og
einn sem er allharður rasisti. En
flestir eru mjög kurteisir. Þeir hafa
fyrirframhugmyndir um konuna og
Kínverja almennt, sem ekki byggj-
ast á þekkingu, en fyrir þá eru
þessar hugmyndir ekki slæmar,
hugmyndir um hvað þetta fólk sé
nægjusamt og krúttaralegt; þetta
er auðvitað ein tegund af fordóm-
um og jaðrar við fyrirlitningu. Við
vorum í handriti með tvær senur,
og önnur þeirra var tekin upp, sem
sýna gallharðan rasisma, en okkur
fannst þegar til kastanna kom að
myndin þyrfti ekki á slíkum senum
að halda. Þjóðarhrokinn og þessi
eyjakúltúr okkar kemst yfir í
litlum athugasemdum frekar en
prédikunum.“
Hong Kong leikkonan Stephanie
Che kom hingað til að leika annað
aðalhlutverkið. Varð hún vör við
rasisma?
„Nei. En hún varð auðvitað vör
við fáfræði, eins og að Japanir og
Kínverjar séu sama fólkið og þess
háttar. Sjálfur heiti ég erlendu
nafni því pabbi minn er Íri; hann
hefur búið hér í þrjátíu ár og ég hef
aldrei litið á hann sem nýbúa eða
útlending. En báðir höfum við orð-
ið varir við hvernig sumir Íslend-
ingar taka mið af slíku í afstöðu
sinni og framkomu, einkum auðvit-
að þó í litlum aukaatriðum, ekki
síst í fyndni. Ég hef til dæmis
heyrt óendanlegt magn af þræla-
bröndurum. Við gerum mikið af
því, Íslendingar, að stimpla fólk og
koma því fyrir í hólfum. Þessi eyja-
kúltúr er víða, til dæmis á Írlandi.“
Tökustíll í átt að
Bráðavaktinni
Hversu kostnaðarmeiri var
framleiðslan á Maður eins og ég
miðað við Íslenska drauminn?
„Kostnaðurinn er helmingi meiri
eða á bilinu 50–60 milljónir króna.
Það var mjög dýrt að fara til Kína
og taka þar og leikkonan þaðan
kostaði sitt. Hún leit þó frekar á
þátttöku sína sem ævintýraferð til
Íslands; hún var ekki svo dýr. Ef
mér byðist að fara til Grænhöfða-
eyja og gera mynd þar hefði æv-
intýrið meira vægi en peningarn-
ir.“
Myndin er, eins og Íslenski
draumurinn, tekin á stafrænt
myndband en þú réðir pólskan
tökumann, Pawel Gula. Hvað kom
til?
„Árni Óli hafði bent mér á hann
og ég séð tvær stuttmyndir sem
hann hafði skotið. Ég hitti hann svo
í Póllandi hálfu ári áður og hann
fékk hin bestu meðmæli, enda
reyndist hann mjög vel. Ég myndi
hiklaust vinna með honum aftur.“
Töku- og klippistíllinn er ekki
eins hrár og í Íslenska draumnum
en samt lífrænn og hreyfanlegur?
„Mér fannst ég geta afsakað hrá-
leikann í Íslenska draumnum með
því að þar voru viðtöl við persón-
urnar og formið var heimildar-
mynd. Með Maður eins og ég lang-
aði mig til að gera fagurfræðilega
betri mynd. Ég vildi samt veita
leikurum sveigjanlegt rými til að
hreyfa sig í, gefa þeim frelsi í
hreyfingum; ef leikara dytti í hug
að standa upp og fara í ísskápinn
þá gæti hann það án þess að við
þyrftum að stilla upp á nýjan leik.
Ég vildi samræma fallegri mynd-
vinnslu og hreyfanleika. Stafræna
formið takmarkar að vísu það fyrr-
nefnda nokkuð en við gátum samt
tekið á löngum fókus og haft stílinn
í frekar þröngum römmum. Stíl-
munur þessara tveggja mynda er
kannski sá að þótt báðar séu tekn-
ar „handheld“ er Íslenski draum-
urinn nálægt dogmamyndunum en
Maður eins og ég í átt að Bráða-
vaktinni.“
Tónlistina gerir Jóhann Jó-
hannsson, sem einnig vann með þér
að Íslenska draumnum. Hvernig
var hún hugsuð?
„Ég var mjög ánægður með það
sem Jóhann gerði fyrir Íslenska
drauminn. En fyrir þessa mynd
lögðum við upp með að tónlistin
keyrði atburðarásina áfram, án
þess að vera truflandi, væri nógu
melódísk til að hjálpa stemmning-
unni; hún átti að auka hraðann í at-
riðunum en einnig dýpka þau og
gefa þeim angurværari áferð. Ég
vildi ekki húmoríska tónlist, frekar
undirstrika sorgina í vissum senum
án þess að þyngja myndina. Þetta
er svona í anda Ennio Morricone.“
Epíkin og húmanisminn
Er þá Maður eins og ég eins og
höfundurinn vildi hafa hana, eins
og hann sá hana fyrir sér?
„Já, hún er mjög nálægt því,“
svarar Róbert og bætir við hlæj-
andi: „Betri ef eitthvað er.“
Þegar þú ferð sjálfur í bíó hvern-
ig viltu hafa myndirnar? Hverjar
eru hæstskrifaðar?
„Þær myndir sem ég fæ mest út
úr að horfa á eiga mjög lítið skylt
við þær myndir sem ég hef gaman
af að búa til, a.m.k. í fljótu bragði.
Þetta eru myndir eins og Arabíu-
Lawrence eftir David Lean, Síðasti
keisarinn eftir Bertolucci og Once
Upon a Time in America eftir
Sergio Leone, epískar stórmyndir,
sem segja samt sögu eins manns og
kjarninn er mjög húmanískur.“
Ýmsir myndu nú tengja þig við
Woody Allen?
„Ég hef mjög gaman af myndum
hans og ekki séð neina slæma. Það
má vissulega sjá eitthvert sam-
hengi milli okkar. En sá leikstjóri
sem er í mestu uppáhaldi hjá mér
núna er Svíinn Lukas Moodysson,
ekki síst önnur myndin hans Till-
sammans. Moodysson skapar sós-
íalrealisma og þjóðfélagsádeilu án
þess að prédika yfir nokkrum
manni og honum tekst að tengja
mikinn húmor, drama og sorg með
yfirlætislausum en áhrifamiklum
hætti. Myndir hans hafa djúpa
undirliggjandi sorg og vonleysi en
búa jafnframt yfir miklum húmor
og lífskrafti. Hann hefur aðdáun-
arvert vald á þessu flókna jafn-
vægi. Ég met myndir hans þannig
að ég yrði ánægður ef ég næði í
mínum myndum helmingnum af því
sem hann nær fram. Og hann er
aðeins nokkrum árum eldri en ég,
rúmlega þrítugur.“
En sjálfur ertu kominn með nýj-
an pirring – ert að vinna að nokkr-
um handritum. Hvað næst?
„Það sem ég átti við með pirr-
ingnum var að maður þarf ekki að
vera reiður til að gera þjóðfélags-
ádeilu; það er nóg að vera pirraður.
En næst geri ég líklegast mynd
eftir handriti annarra höfunda. Mig
hefur lengi langað til að prófa að
leikstýra mynd sem ég skrifa ekki
sjálfur. En ég vil ekki segja meira
fyrr en samningur hefur verið und-
irritaður og allt veltur þetta auðvit-
að á fjármögnun. Ég get þó sagt að
höfundarnir eru í ekki ósvipuðum
pælingum og ég; þess vegna leit-
uðu þeir til mín. Þeir eru jafnhrifn-
ir af Tillsammans og ég.“
Morgunblaðið/Jim Smart
Þegar á bjátar: Júlíus leitar stuðnings hjá pabba (Sigurður Sigurjónsson).
Róbert Douglas: Þjóðfélagsádeila án prédikana …