Morgunblaðið - 30.08.2002, Side 20
LISTIR
20 FÖSTUDAGUR 30. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
...í bústaðinn
N
O
N
N
I
O
G
M
A
N
N
I
I
Y
D
D
A
/
sia
.is
/
N
M
0
6
8
2
1
Í GALLERÍ@hlemmur.is heldur
Jón Sæmundur Auðarson sína
þriðju einkasýningu. Nefnist hún
„Holan mín“. Gæti það átt við um
kjallaraherbergi, botnlausan brunn
tilfinninga eða endaþarmsop, sbr.
það að losa sig við tilfinningalegan
skít.
Sýningin eða verkið er í tveimur
hlutum. Í fremra rými gallerísins
er myndband sem sýnir Jón Sæ-
mund sitja í herbergi og horfa á
samfarasenu í kvikmyndinni „Betty
Blue“. Skyndilega tekur hann að
grýtasjónvarpið með hlutum sem
síðan leiðir til reiðikasts þar sem
ekkert húsgagn er óhult fyrir
hamagangi listamannsins.
Myndbandið er tekið með áhrifa-
ríkri heimildamyndatækni sem
Steven Spielberg innleiddi í Holly-
wood í ógleymanlegri 20 mínútna
orustusenu í upphafi kvikmyndar-
innar „Saving Private Ryan“ árið
1998. Virkar hún eins og ljósmyndir
hafi verið teknar á yfirhraða og svo
sýndar sem myndræma til að skapa
slitróttar hreyfingar. Notaði leik-
stjórinn Ridley Scott samskonar
tækni til að ná auknum „splatter“-
áhrifum í kvikmyndinni Gladiator
árið 2000 og hefur tæknin síðan
gengið undir nafninu „Gladiator-
effektinn“.
Ekki er fjarri lagi að líkja mynd-
bandinu við rokkvídeó án tónlistar,
enda hefur slíkur berserksgangur
viðgengist á rokktónleikum síðan
Pete Townshend, gítarleikari
hljómsveitarinnar The Who, tók
upp þann sið á sjöunda áratugnum
að brjóta hljóðfæri sitt í lok hverra
tónleika. Í myndbandi Jóns er ekki
ólík stígandi í tilfinningalosuninni
og hefur verið í mörgum vinsælum
rokklögum þessa og síðasta árs hjá
hljómsveitum eins og Bush, Puddle
of Mud og System of a Down. Er
það kraftmikið rokk sem sígur í ró
um stund og byrjar svo aftur af
fullum ákafa. Vakti það athygli
mína hve svalur Jón er meðan út-
rásin á sér stað. Sígaretta danglar í
munnvikinu þannig að tilfinning-
arnar sjást einungis í athöfninni en
ekki í svipbrigðum eða reiðiöskr-
um.
Slík tilfinningalosun er „þerap-
ísk“ og er m.a. hluti af Gestalt-
meðferðarfræðum og frumóps-
meðferð (Primal scream therapy)
sem miðast við að gera upp fortíð-
ina. Með athöfninni eða gerningn-
um í Galleríi Hlemmi er listamað-
urinn að gera upp margt í eigin
fortíð. Í aðalsýningarrými gallerís-
ins liggur afrakstur ofsakastsins í
brotum á gólfinu. Er það hlutgerð
fortíð listamannsins í eigum og
eldri listaverkum sem hann hefur
skapað og sýnt.
Sýninguna má tengja við margt
innan listasögunnar, þótt ekki þurfi
að fara út fyrir landsteinana, allt
frá gerningi Rúríar á áttunda ára-
tugnum, þegar hún braut niður
glæsivagn af gerðinni Mercedes
Benz, til duftskúlptúra Ingu Svölu
Þórsdóttur. Býr verkið að mínu
mati yfir fagurfræðilegum eigin-
leikum frekar en hugmyndalegum,
en viss fegurð fylgir því þegar
manneskja losar pirring og bældar
tilfinningar með ofsa og ástríðu út í
andrúmið og engin meiðsl hljótast
af.
Listrænt
skapofsakast
Brotin fortíð Jóns Sæmundar
Auðarsonar í Gallerí Hlemmi.
MYNDLIST
galleri@ hlemmur.is
Galleríið er opið fimmtudaga til sunnu-
daga frá 14–18. Sýningu lýkur 15. sept-
ember.
BLÖNDUÐ TÆKNI
JÓN SÆMUNDUR AUÐARSON
Jón B.K. Ransu
Útskriftar-
verk í
Galleríi Rifi
HIN árlega sýning Vaxtarbrodda
verður opnuð í Galleríi Rifi í kjallara
Sölvhólsgötu 11 í dag kl. 18. Að sýn-
ingunni standa ungir arkitektar sem
sýna útskriftarverkefni sín og smíða-
vellir ÍTR sem sýna afrakstur sum-
arsins. Þátttakendur eru Freyr
Frostason, Friðrik O. Friðriksson,
Guja Dögg Hauksdóttir, Gunnar Atli
Hafsteinsson, Halldór Eiríksson, Jó-
hann Sigurðsson, Olga Sigfúsdóttir,
Sigrún Guðjónsdóttir og Ulrike
Malsch.
Sýningin stendur til 8. september
og er opin virka daga 16–19 og um
helgar 12–18, aðgangur er ókeypis.
MORGUNBLAÐIÐ hafði samband
við Kjartan Guðjónsson listmálara, er
skrifaði opið bréf til borgarstjórnar
Reykjavíkur sem birtist í blaðinu sl.
þriðjudag, og spurðist fyrir um skoð-
un hans á viðbrögðum forsvarsmanna
menningarstofnana í Reykjavík, sem
birtust í blaðinu á miðvikudag.
„Þetta er ömur-
legasta yfirklór sem
ég hef nokkurn tíma
séð á prenti. Ef ég
færi að munnhöggv-
ast við þá út af þessu
væri ég kominn í
hóp kverúlantanna.
Það er einmitt það
sem þeir eru, og
vilja, en ég hef ekkert um það að
segja annað en að þetta eru bara
aumir kettir að reyna að klóra yfir
hlandið úr sér,“ sagði Kjartan. „Ég er
ekkert að tala um Listasafn Íslands.
Það hefur aldrei komið til mála að ég
sýndi þar, ég er í þvílíkri ónáð þar. En
ég var að tala um að salina eigum við,
Reykvíkingar. Ég er enginn viðvan-
ingur í myndlist og hef ekki mikið
þurft á þeim að halda, en þegar ég
þarf það er mér hafnað bókstaflega.
Þeir gera það á þann hátt að þeir eru
búnir að búa til sínar eigin reglur,
sem mér skilst að sé hvergi nokkurs
staðar neinn fótur fyrir. Þeir búa þær
til sjálfir. En ég gef ekki höggstað á
mér að vera að bítast við þessa menn.
Það er fyrir neðan mína virðingu“
– Hvað finnst þér um svar Stefáns
Jóns Hafstein?
„Það er einhver von með hann.“
Ömurlegt
yfirklór
Kjartan
Guðjónsson
Kjartan Guðjónsson
SÝNINGAR á gamanleiknum Með
vífið í lúkunum eftir Ray Cooney
hefjast á nýjan leik á laugardag í
Borgarleikhúsinu. Leikritið hefur
verið sýnt frá því í maí 2001.
Leikritið segir frá leigubílstjór-
anum seinheppna Jóni Jónssyni
(Steinn Ármann Magnússon), sem
er ósköp venjulegur meðal-Jón.
Eiginkonur hans tvær (Helga Braga
og Ólafía Hrönn) hafa enga hug-
mynd hvor um aðra, þar til snurða
hleypur á þráðinn og sannleikurinn
er nálægt því að líta dagsins ljós.
Leikstjóri er Þór Túlíníus og leik-
myndahönnuður er Stígur Stein-
þórsson.
Morgunblaðið/Þorkell
Steinn Ármann og Ólafía Hrönn
í leikritinu Með vífið í lúkunum.
Enn og aft-
ur Með vífið
í lúkunum
FYRSTA íslenska tölvugerða
teiknimyndin var frumsýnd í Smára-
bíói í gær að viðstöddum háum sem
lágum. Þessi metnaðarfulla tilraun
hefur getið af sér litla og viðkvæma
veru, stóreygða lirfu með brothætta
sjálfsmynd og skjálfandi bros. Lirfan
sú er aðalpersónan í hinni 26 mínútna
löngu teiknimynd Litla lirfan ljóta,
sem teljast verður vel heppnað frum-
skref inn í áður ónumda grein kvik-
myndagerðar hér á landi, og verðugt
lóð á vogarskálar sköpunar á vönduðu
kvikmyndaefni fyrir börn.
Að verkinu stendur hópur manna
sem mun hafa lagt hart að sér við að
koma því í heiminn, og er sú mynd
sem nú kemur fyrir sjónir íslenskra
áhorfenda ekki síst kynnt sem nokk-
urs konar upphafsverk eða „pilot“ að
lengri sjónvarpsþáttaröð um ævin-
týraheim lirfunnar. Það eru þeir
Gunnar Karlsson, myndlistarmaður,
höfundur myndar og aðalteiknari
hennar; Friðrik Erlingsson, rithöf-
undur og söguhöfundur Lirfunnar; og
Hilmar Sigurðsson, framleiðandi hjá
hönnunarfyrirtækinu Caoz, sem
standa að verkinu, auk fleiri fag- og
listamanna.
Myndin er tæpur hálftími á lengd
og er þar sögð sígild saga sem dregin
er skýrum og sterkum dráttum.
Myndinni er þannig markaður sterk-
ur stíll frá upphafi, sem mótast ekki
síst af hinni allt að því „esópsku“
dæmisögu sem saga Friðriks óneit-
anlega er. Áhorfendur kynnast ofur-
lítilli lirfu, sem býr í grónum garði
umhverfis lítið timburhús. Lirfan er í
upphafi saklaus og sæl með heiminn, í
skjóli trésins sem hún hefur búið í frá
því að hún man eftir sér. Það er ekki
fyrr en hún verður fyrir utanaðkom-
andi áhrifum að heimssýn lirfunnar
breytist, og stafa þau umskipti fyrst
og fremst af sjálfsefasemdum sem
sækja að henni eftir samskipti við
snobbaða maríuhænu og neikvæða
randaflugu. Í kjölfarið berst lirfan frá
öruggu heimili sínu í litla trénu út í
óvissu garðsins, þar sem hjálparmenn
og óvinir verða á vegi hennar. En leið
lirfunnar í gegnum sálarkreppu og
hættur heimsins er líka leið hennar til
þroska og í lokin rís hún upp sem fal-
legt fiðrildi. Góðráð ánamaðksins
jarðbundna eru henni jafnframt hug-
föst. „Það sem skiptir öllu máli er að
þykja vænt um sjálfan sig og vera
góður.“ Þessar heimspekilegu for-
sendur sögunnar halda henni saman,
og skapa atburðarásinni sterka heild
sem rennur ljúflega og ævintýralega
áfram. Dálítill hnykkur kemur þó á
þessa framvindu í viðureign lirfunnar
við köngulóna illskeyttu, þar sem um-
skiptin yfir í eitthvað myrkt og hættu-
legt eru aðeins of snögg og stirð.
Hinni þungu tónlist sem notuð er til
að auka á skelfingaráhrifin er að
minnsta kosti ofaukið í því atriði.
„Flippið“ með rómantísku þrestina er
hins vegar skemmtilegur útúrdúr
sem krakkar ná vonandi að njóta jafn-
vel og fullorðnir sem skemmta sér yf-
ir ofurvæmninni í atriðinu.
Persónur sögunnar eru sterkar og
munu eflaust standa vel undir frekari
sjónvarpsþáttum. Aðalpersónan er
viðkvæm og elskuleg, ekki síst vegna
þess hversu fljót hún er að efast um
sjálfa sig og hefur sérstaklega lifandi
bros, sem tjáir alla þá innri baráttu
sem hún glímir við. Ánamaðkurinn
jarðbundni er einnig frábær persóna,
alíslenskur alþýðuormur með brjóst-
vitið að leiðarljósi. Randaflugan, mar-
íuhænan, köngulóin og þrestirnir eru
litríkar og flottar teiknimyndaper-
sónur, þó svo að þær séu ekki eins
frumlegar og lindýrin, en sístir eru
maurarnir vöðvastæltu sem eru ein-
hvern veginn í allt öðrum stíl en hinar
persónurnar, minna reyndar á stíl-
færða maurana í Antz.
Myndlistin í þessari kvikmynd er
mjög vönduð og getur af sér ævin-
týralegan heim með dálítið íslenskum
skírskotunum, sem gefur myndinni
sérstöðu. Sem hreyfimynd er Litla
lirfan ljóta hins vegar dálítið þvinguð
og í þessu liggur helsti galli hennar.
Takturinn er reyndar hægur og allt
að því draumkenndur, og gefur sú
hrynjandi myndinni ekki síst sinn
sérstaka stíl. Þess má geta í því sam-
bandi að umhverfissköpunin er unnin
út frá nokkurs konar þrívíddarmynd-
versforsendum, sjónarhornið hreyfist
um myndsviðið og skerpan breytist
líkt og um kvikmyndaupptöku væri
að ræða. En þegar kemur að tjáningu
og hreyfingum persónanna vantar
herslumuninn upp á að þær séu nógu
lifandi og „spontant“. Inn á milli
koma svipbrigði á persónurnar, ekki
síst lirfuna, sem eru óborganleg, en
þau þyrftu að vera fleiri, varirnar
þyrftu að hreyfast hraðar og meiri
snerpu vantar í „líkamshreyfingarn-
ar“. Má vera að erfitt sé að ná fram
slíkum áhrifum þegar um tölvuunnar
teikningar er að ræða, en hérna er að
minnsta kosti kominn sá þáttur sem
aðstandendur myndarinnar þurfa að
tækla fyrir framhaldið.
Tal- og hljóðsetning þessarar
myndar hefur heppnast sérstaklega
vel, sögumaður umvefur söguheiminn
með sinni djúpu og ævintýralegu
rödd og leikraddir eru eðlilegar og
skemmtilegar. Ber þar einkum að
nefna skemmtilegan leiklestur Stef-
áns Karls Stefánssonar í hlutverki
ánamaðksins og vel hefur tekist til
með leiklestur hinnar barnungu Ír-
isar Gunnarsdóttur sem túlkar lirf-
una, en það er Jakob Þór Einarsson
sem annaðist leikstjórn talsetningar.
Tónlistin er sömuleiðis einkar vönduð
í þessari kvikmynd.
En jæja, fyrsta íslenska tölvuunna
hreyfimyndin er sem sagt orðin að
fiðrildi, sem hefur alla burði til þess
að fljúga út fyrir garðinn litla sem
hún fæddist í.
Hin viðkvæma
sjálfsmynd
KVIKMYNDIR
Smárabíó
Höfundur og aðalteiknari: Gunnar Karls-
son. Söguhöfundur: Friðrik Erlingsson.
Stjórn leikradda: Jakob Þór Einarsson.
Leikraddir: Íris Gunnarsdóttir, Benedikt
Erlingsson, Þórhallur Sigurðsson, Stefán
Karl Stefánsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir,
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Björgvin
Halldórsson, Svala Björgvinsdóttir. Teg-
und myndar: Teiknimynd. Sýningartími:
26 mín. Framleidd af CAOZ hf. Ísland,
2002.
LITLA LIRFAN LJÓTA „Fyrsta íslenska tölvuunna
hreyfimyndin er orðin að fiðrildi
og hefur alla burði til að fljúga
út fyrir garðinn litla sem hún
fæddist í,“ segir í dómnum.
Heiða Jóhannsdóttir