Morgunblaðið - 30.08.2002, Qupperneq 21
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 30. ÁGÚST 2002 21
ERNA hefur verið á ferð og flugi umalla Evrópu og víðar undanfarin tvöár með danssýninguna My move-ments are alone like Street dogs.
Höfundur sýningarinnar er Jan Fabre, sem er
einn af fremstu dansleikhúshöfundum Evrópu
um þessar mundir.
Erna dansar ein í sýningunni og hefur því
borið hitann og þungann af henni í bókstaflegri
merkingu en samstarf þeirra Fabre hefur vakið
mikla athygli í hinum alþjóðlega dansheimi.
Sýningin hefur vakið mikil viðbrögð enda er
hún óhefðbundin að mörgu leyti, þótt erfitt sé
að lýsa henni með orðum. Þar eru m.a. notaðir
þrír uppstoppaðir hundar og einn lifandi og auk
þess að dansa þá beitir Erna röddinni á ýmsan
hátt sem ekki tíðkast í hefðbundnari danssýn-
ingum. Erna segist ætla að hvíla sig á ein-
leiknum í bili, hún sé búin að fá nóg af einver-
unni á sviðinu, nú langar hana til að taka aftur
þátt í hópstarfi, skapa og dansa með öðrum.
Hún hefur því ákveðið að hætta skipulögðum
sýningarferðum með My movements... á næsta
ári en segir þó alveg koma til greina að sýna það
af og til ef skemmtileg tækifæri gefast.
Erna segir að það sé dálítið erfitt að söðla um
eftir svo langa sambúð með sýningunni My
movements are alone like Streetdogs. „Þetta
var erfið ákvörðun en vonandi rétt, þar sem mig
er farið að klæja í lófana að gera eitthvað nýtt
og skapandi með öðru fólki. Jan bauð mér að
vera með í næstu verkefnum hans en nú langar
mig að gera eitthvað alveg nýtt.“
Klæjar í samstarf við nýtt fólk
Erna er nú stödd hér á landi þar sem hún
dansar eitt hlutverkanna í sýningunni Eva3 sem
Dansleikhús með Ekka frumsýndi á dögunum.
Erna er jafnframt einn höfunda sýning-
arinnar en Ekka hefur jafnan unnið sýningar
sínar í hópstarfi og eru sýningar hópsins orðnar
6 talsins. Rétt er að vekja athygli á því að í
kvöld, föstudagskvöld, verður síðasta sýningin í
Tjarnarbíói á Evu3 en Erna og félagar hennar í
sýningunni eru bundin ýmis konar skuldbind-
ingum í Hollandi og Belgíu þar sem þær eru
flestar búsettar.
„Ég hef verið búsett í Brussel í Belgíu und-
anfarin ár og fyrir nútímadansara er það góður
staður því þar er mikill suðupottur nútímadans-
ins í Evrópu. Ég er reyndar núna að fara að
vinna með Jóhanni Jóhannssyni tónskáldi að
nýju verki, IBM 1401, Notendahandbók, fyrir
danshátíðina Danse-M í Marseille í Frakklandi
og síðan fer ég í stórt verkefni með dansleik-
húshópnum Ballet C de la be sem er staðsettur í
Gent í Belgíu.
Það verður langur vinnuferill þar sem gert er
ráð fyrir 5 mánuðum fram að frumsýningu. Mér
skilst að þegar sé búið að selja sýninguna víða
um Evrópu og Ameríku þannig að ég verð lík-
lega bundin við hana meira og minna næsta ár.
Áhorfendur eins og á fótboltaleik
Eitt af meiri ævintýrum sem Erna lenti í á
þessu ári var í vor er hún sýndi My movements
are alone like Streetdogs í hinu sögufræga
Bolshoi leikhúsi í Moskvu. „Sýningin var til-
nefnd til alþjóðlegu dansverðlaunanna Benois
de la danse og verðlaunaafhendingin fór fram í
Bolshoi leikhúsinu. Sýningin fékk reyndar ekki
verðlaunin, þau hlaut danshöfundurinn William
Forsythe, en sumir sem voru tilnefndir voru
valdir af dómnefndinni til að sýna á verð-
launahátíðinni. Þegar skipuleggjendur hátíð-
arinnar sáu mig á æfingu leist þeim ekkert á
blikuna, höfðu greinilega aldrei séð svona dans-
sýningu áður og vildu hreinlega banna okkur að
sýna. Þetta gekk svo langt að dómnefndin hót-
aði að yfirgefa hátíðina ef við fengjum ekki að
sýna og það réð úrslitum. Við þurftum síðan að
berjast við mjög lítið hjálplegt starfsfólk leik-
hússins um að koma sýningunni á svið en þetta
hafðist allt og ég dansaði þarna á þessu risa-
stóra sviði fyrir nærri því þrjú þúsund áhorf-
endur. Það var erfiðasta reynsla sem ég hef
gengið í gegnum á sviði á ævinni. Áhorfendur
skiptust algjörlega í tvo hópa, með og á móti
mér þarna á sviðinu og hávaðinn og hrópin voru
eins og á fótboltaleik.“ Erna segir að ein af
ástæðunum fyrir uppnáminu var að sýningin
bauð ekki upp nein hefðbundin viðbrögð áhorf-
enda. „Það er víst vaninn at klappa til dæmis
þegar prímaballerínan gerir þrjá piroetta en
þar sem ekkert svoleiðis var að finna í minni
sýningu þá klöppuðu margir áhorfendur bara
stanslaust á meðan aðrir púuðu eða hrópuðu.
Mig langaði mest til að hætta og ganga út af
sviðinu en beit á jaxlinn og barðist hetjulega til
loka. Yfirleitt er baráttan í þessari sýningu við
sjálfa mig en þarna stóð ég ein í stríði við þrjú
þúsund manns úti í sal. Þegar ég kom baksviðs
tók ekki betra við því þá var rússneska sjón-
varpið mætt og rak hljóðnema framan í mig og
spurði hvað mér fyndist um viðbrögð áhorf-
enda. Um leið flykktust allar ballerínur Bolshoi
ballettsins að mér ásamt fleira fólki og vildu fá
eiginhandaráritun. Þarna voru einnig alþjóð-
legir fjölmiðlar og mikið af þekktu fólki úr þess-
um bransa viðstatt sem var forvitið um sýn-
inguna og kom til að þakka mér fyrir og margir
virtust mjög snortnir. Það var mjög skrítið en
jafnframt mikill heiður að tala við þetta fólk sem
fyrir nokkrum árum voru bara nöfn í dans-
sögubókum.
Rússarnir fullyrtu að þetta væru tímamót í
sögu Bolshoi leikhússins, því svona sýning hefði
aldrei fyrr komið á fjalirnar þar. Einnig komu
dómnefndaraðilar til að láta mig vita að þeir
hefðu barist fyrir því að fá að gefa mér sem
dansara sérstök verðlaun fyrir hugrekki og sér-
stæða sýningu en ekki fengið það í gegn vegna
strangrar rússneskrar reglugerðar við þessa
verðlaunaafhendingu. Þetta var alveg ótrúleg
uppákoma og frábært að fá að sprikla þarna á
þessu sögufræga sviði með bestu ballerínum
heims og vera svo skandall kvöldsins en já-
kvæður skandall þó!“ Erna bætir því við að
nokkrum vikum seinna hafi hún farið til Holly-
wood að vinna með Íslendingum sem eru að
gera tónlistarmyndbönd í kvikmyndaborginni.
„Þá var búningadaman þeirra nýkomin frá
Moskvu og hafði séð mig þar í sjónvarpinu.
Svona er nú heimurinn stundum hrikalega lítill.
En þetta var hreint ótrúleg uppákoma sem
verður sífellt skemmtilegri í minningunni þó að
ég vildi ekkert endilega þurfa að endurtaka
hana.“
Erna Ómarsdóttir
Erna Ómarsdóttir dansari hefur farið víða með dans-
sýninguna My Movements are alone like Streetdogs.
Sýningin olli miklu uppnámi í Bolshoi-leikhúsinu og er
talin hafa valdið tímamótum í því sögufræga húsi.
Tímamót
í Bolshoi