Morgunblaðið - 16.10.2002, Blaðsíða 25
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 16. OKTÓBER 2002 25
UMSKIPTI urðu í ljósmyndun
þegar hægt var að vinna myndir í
stafrænu formi á heimilistölvu. Staf-
ræn tæknin bauð ljósmyndurum upp
á glænýja möguleika til að virkja
sköpunareiginleika sína. Fyrir
marga hefur ástandið verið líkt og að
ganga að nýjum miðli á byrjunar-
stigi.
Í sýningarsal Íslenskrar grafíkur
sýnir ljósmyndarinn Kristján Loga-
son 40 myndir unnar með stafrænni
tækni. Sýninguna nefnir hann
„Skref“, sem vísar í fyrstu myndina í
seríunni sem er af fótspori í mosa,
einnig má tengja titilinn við vinnuað-
ferðina sem er unnin skref fyrir
skref. Kristján tekur litskyggnur
sem hann skannar inn í tölvu, skeyt-
ir þeim svo saman ofan á hverja aðra
og prentar út á pappír. Aðferðin er í
sjálfu sér ekki ný. Ljósmyndarar
hafa lengi leikið sér með að fram-
kalla tvær eða fleiri filmur saman á
einn pappír, en vegna tölvutækninn-
ar er hægt að ráðskast frekar með
hina endanlegu útprentuðu mynd.
Kristján hleður allt að 10 myndum
yfir hverja aðra og skapar þannig
eina ljósmynd. Útkoman er draum-
kenndar eða surrealískar myndir.
Þær sem helst gætu talist jarð-
bundnar eru blómamyndir sem
minna eilítið á skrautlegar neðan-
sjávarmyndir frá Mið- og Suður-
Ameríku, en þar sem blómin eru
venjuleg íslensk jarðblóm verða
myndirnar nokkuð einkennilegar. Í
blómamyndum er áhersla lögð á lita-
dýrðina. Í öðrum myndum leggur
hann áherslu á ljósið. Hleður hann
saman myndum af sólstöfum og
skapar þannig sérstaka og ýkta
birtu í landslagi. Í flestum ljósmynd-
unum er listamaðurinn að skapa
áferð á myndfletinum, þ.e. að hann
hleður saman myndum af vatni,
skýjum, fjöllum og sandöldum.
Vatns og ölduáferð myndast t.d. á
klettum og verður landslagið því
nokkuð framandi líkt og myndirnar
séu teknar á annarri plánetu eða
öðrum heimi. Búa sumar myndanna
yfir álíka andrúmi og er að finna í
tölvusköpuðum heimi nýlegra rokk-
myndbanda með hljómsveitum á
borð við Linkin Park og Creed.
Hvarflaði einnig að mér hið sígilda
„Psychedelic“ sálarferðalag í lokaat-
riði kvikmyndarinnar „2001: A
Space Odyssey“. Gætu myndirnar
verið teknar í slíku „út-úr-líkama“
ferðalagi ef þessháttar tækni væri til
staðar.
Myndirnar eru 25x38 cm að
stærð, sem er allt of lítið fyrir svo lit-
ríkar og krefjandi myndir. Að öðru
leyti eru þær vel heppnaðar og til-
raunasemi ljósmyndarans skilar sér
prýðilega.
Myndirnar má einnig sjá á netinu
á síðunni http://www.aurora.is.
Stafræn
furðuveröld
MYNDLIST
Sýningarsalur Íslenskrar grafíkur
Sýningin stendur til 20. október og er op-
in á fimmtudögum til sunnudags kl. 14-
18.
LJÓSMYNDIR
KRISTJÁN LOGASON
Jón B.K. Ransu
Skref nr. 44 eftir Kristján Logason.
Í KJALLARA Norræna hússins
hefur verið sett upp sýning níu lista-
manna frá þremur Norðurlandanna,
sex þeirra eru frá Danmörku, tveir
frá Finnlandi og einn frá Noregi.
Sýningin er unnin fyrir tilstuðlan
NIFCA, Nordic Institute for Con-
temporary Art, í samvinnu við Vejle
Kunstmuseum í Danmörku. Sýning-
arstjórar eru einnig frá Danmörku,
þau Stine Höholt og Khaled D. Ram-
adan. Sýningin ber nafnið Clockwise,
og er kynnt sem sýning á norrænni
samtímalist þó hér séu danskir lista-
menn í miklum meirihluta og til
dæmis enginn frá Svíþjóð, Færeyj-
um, Íslandi, eða Grænlandi.
Ýmislegt hefur verið rætt um nor-
ræna list í gegnum tíðina. Sumir
sakna þjóðareinkenna og norrænnar
raddar og finnst samtímalistin bera
of mikinn keim af meginstefnum og
straumum sem ríkjandi eru í Banda-
ríkjunum og Evrópu. Nú þegar sam-
félög norður-Evrópu verða æ fjöl-
þjóðlegri og ríkjandi menning
blandast siðum og viðhorfum að-
fluttra íbúa er ekki furða að leitin að
eigin rödd verði ákafari. Óttinn við að
samfélagið sem við þekkjum líði und-
ir lok og okkur dagi uppi eins og
steintröll í ókunnu landslagi kemur
upp í okkur öllum. En um leið og
mikilvægt er að gamlar hefðir gleym-
ist ekki, mikilvægara nú en nokkru
sinni fyrr, hlýtur líka að vera nauð-
synlegt að halda opnum hug gagn-
vart því sem fram kemur á hverjum
tíma, hvort sem ungir listamenn
sækja í hefð sem byggir á gömlu
handverki eða leita þjóðareinkenna
sinna á öðrum sviðum í samfélaginu.
Hér á landi er samfélag okkar þó enn
svo einsleitt að spurningar um upp-
runa og stöðu einstaklingsins í fjöl-
menningarlegu samfélagi sem vakna
eru ekki enn orðnar áleitnar á áber-
andi hátt.
Aðstandendur Clockwise sýning-
arinnar tala sérstaklega um að lista-
menn hennar einbeiti sér að sam-
félaginu og stöðu einstaklingsins
innan þess, líkja þeim jafnvel við
mannfræðinga. Árið 1975 birti
bandaríski listamaðurinn Joseph
Kosuth ritsmíð sína Listamaðurinn
sem mannfræðingur, samansafn til-
vitnana í heimspekinga og listamenn
auk eigin skrifa. Þar segir hann m.a.
að vandamál mannfræðinga sé að
þeir standi utan við samfélagið sem
þeir rannsaka. Það sem sé áhugavert
við listamanninn sem mannfræðing
sé að listamaðurinn standi ekki fyrir
utan ... heldur kortleggi hann sitt eig-
ið samfélag. Listamanninum sem
mannfræðingi tekst kannski að gera
það sem mannfræðingnum mistekst.
Markmið mannfræði-listar er að
birta á lifandi hátt samsetningu,
grundvöll og byggingu menningar og
lista í samfélaginu segir hann enn-
fremur. Á þeim áratugum sem liðnir
eru frá þessum skrifum Kosuth hefur
þessi mannfræðilega nálgun lista-
manna við samfélagið komið fram í
ótal myndum, hún var til dæmis mjög
sterk á tímum svokallaðs pólitísks
réttrúnaðar sem gekk yfir Bandarík-
in og síðan Evrópu fyrir rúmum ára-
tug þegar minnihlutahópar fengu
aukið vægi innan listheimsins. Í dag
er þessi mannfræðistefna líka afar
vinsæl og birtist helst í heimildar-
myndum og ljósmyndum eins og
greinilegt er á Dokumenta-sýning-
unni í Kassel í Þýskalandi þar sem á
fjögurra ára fresti er sýnt það sem á
að vera efst á baugi í listheiminum.
Listamenn Clockwise vinna flestir
í þessum anda, með ólíku móti leitast
þeir við að birta þætti norræns sam-
félags, velta fyrir sér uppruna sínum
– sem ekki er alltaf norrænn – og
setja síðan niðurstöður síðan fram á
ýmsan hátt. Það má spyrja sig að því
hvort listamaðurinn komist nokkurn
tíma hjá því að standa að einhverju
leyti utan þess samfélags sem hann
rannsakar, hvort sú afstaða hans að
skoða það geri ekki að verkum að
hann verði sér á parti. En þó að lista-
mennirnir sem hér eiga í hlut taki að
sér að vera eins konar spegill sam-
félagsins skortir þá ekki hinn sam-
mannlega þátt í hjarta sér. Það gerir
það að verkum að þeir falla aldrei í þá
gryfju að hampa sér á kostnað lífs-
viðhorfa annarra.
Hið fjölþjóðlega samfélag Dan-
merkur, Noregs og Finnlands er
greinilegt þegar við skoðum nöfn
listamannanna, Jouko Lehtola og
Melek Mazice frá Finnlandi, Tor-
björn Rödland frá Noregi og þau
Colonel (Thierry Geoffroy), Amel
Ibrahimovic, Lilibeth Cuenca Rasm-
ussen, Khaled D. Ramadan, Simone
Aaberg Kærn og Marco Evaristti frá
Danmörku.
Hér gefst því miður ekki færi á að
segja frá verkum allra sem sýna en
ljósmyndir þeirra Jouko Lehtola og
Torbjörn Rödland eru til dæmis slá-
andi, vel hugsaðar og fagurfræðilega
vel unnar. Ímynd hins norræna er
þema sem Rödland hefur einnig unn-
ið með í fyrri verkum. Eins eru verk
Colonel húmorísk og beitt á sama
tíma, þeir sem búsettir hafa verið í
Danmörku á síðustu árum sjá að
hann hittir beint í mark, sérstaklega í
verki sínu I want to look Danish/I
want to look like you. Myndband Lili-
beth Cuence af ömmu sinni á Filipps-
eyjum er heiðarlegt án þess að verða
sjálfhverft og eins vekur myndband
Simone Aaberg Kærn mann til um-
hugsunar.
Samfélag okkar í dag er á margan
hátt flóknara en áður var og aðrar
kröfur gerðar til einstaklinganna
innan þess. Skandinavíu hefur oft
verið lýst sem samfélagi hámarksör-
yggis en nú á dögum virðist ekki vera
hægt að bjóða nýjum kynslóðum ör-
yggi. Atvinnuleysisbætur og gott
heilbrigðiskerfi eru af hinu góða en
uppfylla ekki allar þarfir. Öryggi er
alla vega ekki að hafa í einfaldri og
þekkjanlegri norrænni ímynd, því
hún er ekki til. Það eru engin björg-
unarvesti í boði.
Ragna Sigurðardóttir
Verk Khaled D. Ramadan, Ekkert björgunarvesti undir sætinu.
Ekkert björgunar-
vesti undir sætinu
MYNDLIST
Norræna húsið
Til 20. október. Opið alla daga nema
mánudaga frá kl. 12–17.
CLOCKWISE, BLÖNDUÐ TÆKNI, NÍU
LISTAMENN FRÁ FINNLANDI, NOREGI OG
DANMÖRKU