Morgunblaðið - 26.10.2002, Blaðsíða 14
SJÓTÆM nefnist röð spunaverka
sem nemendur í leiklist 103 í Fjöl-
brautaskóla Suðurnesja sýndu á sal
skólans í gærmorgun. Hefð hefur
skapast í skólanum fyrir því að leik-
listarnemendur setji upp eina til
tvær sýningar á önninni og fái þann-
ig æfingu í að tjá sig frjálst og
óþvingað frammi fyrir hóp af fólki.
Sýningin var vel sótt og kunnu sam-
nemendur krakkanna greinilega vel
að meta spunaverkin.
Spunaverkin Handsnúinn, Ban-
anasjeikspír, Í skugga Sjeikspírs,
Nötts og Gæran voru öll unnin af
nemendum og sóttu þau fyrirmynd-
irnar einkum í eigin reynsluheim,
sem greinilega er mikið undir áhrif-
um fjölmiðlanna. Þarna mátti sjá
þeirra túlkun á sjónvarpsþættinum
Leiðarljósi, Heilsubælinu í Gerva-
hverfi og heyra slagara úr hinum
ýmsu auglýsingum. Þá var sjálft
fjölmiðlafólkið tekið fyrir og vonar
blaðakona Morgunblaðsins svo
sannarlega að blaðakonan í Gær-
unni sé ekki sú mynd sem ungling-
arnir hafi á starfstéttinni.
Eins og tíðkast með spunaverk
eru engin handrit höfð til hliðsjónar
og í ljósi þess að leiklist 103 er
grunnáfangi í leiklist lék blaðakonu
forvitni á að vita hvort ekki væri erf-
itt að byrja „ferilinn“ á þennan hátt.
„Jú, spuni er alltaf erfiður, en líka
mjög skemmtilegur. Við höfum æft
þetta vel þannig að við kunnum
þetta orðið utanað. Við fórum ekki
út í það að spinna þetta jafnóðum á
sýningunni núna,“ sögðu leiklist-
arnemarnir í viðtali að sýningu lok-
inni. Það leyndi sér ekki að þau voru
ánægð með sýninguna og stolt af
verkum sínum og Marta Eiríks-
dóttir, leiklistarkennari, ekki síður
af nemendum sínum. „Þetta er líka
ofsalega skemmtilegur áfangi,“
sögðu krakkarnir.
„Í vetur höfum við verið að læra
að koma fram og spinna eins og
núna, opna okkur og læra á líkam-
ann og á næstu vikum munum við fá
þjálfun í að segja sögu, lesa upp,
kynnast látbragðsleik og fara nánar
í spunavinnu. Við höfum líka farið í
heimsókn í Leiklistarskólann og það
var toppurinn,“ sögðu nemendurnir
að lokum og ljóst að einhverjir
þeirra ætla að spreyta sig á leiklist í
framtíðinni, a.m.k. reyna, eins og
ein stúlkan í hópnum sagði.
Blaðakona (Gæran) tekur viðtal við
stórstjörnuna Kaltasar Bormák og
aðdáun hennar leynir sér ekki.
Sýna spunaverk úr
reynsluheimi unglinga
Keflavík
Áhrifin frá Heilsubælinu í Gervahverfi komu berlega í ljós í spunaverkinu Í
skugga Sjeikspírs. Mörg verkin vísa til kunnuglegra atriða úr fjölmiðlum.
Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
SUÐURNES
14 LAUGARDAGUR 26. OKTÓBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
STJÓRN Heilbrigðisstofnunar Suð-
urnesja (HSS) stefnir að því að öldr-
unardeildin á 2. hæð D-álmu sjúkra
hússins í Keflavík verði komin í fullan
rekstur fyrir lok ársins.
Þegar byggingu D-álmunnar lauk á
síðasta ári og fyrsta hæð hennar var
tekin í notkun kom fram að stefnt
væri að því að opnuð yrði öldrunar-
deild á 2. hæðinni á miðju þessu ári.
Húsnæðið er tilbúið og að mestu búið
húsgögnum en deildin hefur þó ekki
verið tekin í notkun. Fram hefur kom-
ið hjá heilbrigðisráðuneytinu að
vegna hallareksturs Heilbrigðisstofn-
unarinnar hefði ekki verið hægt að
auka þjónustuna. Hallgrímur Boga-
son, formaður stjórnar HSS, segir að
erfitt hafi verið að manna deildina og
fleiri vandamál komið upp.
Hann segir að stjórnin hafi nú falið
starfandi framkvæmdastjóra að
vinna að því að hefja starfrækslu öldr-
unardeildarinnar og vildi stjórnin
stefna að því að hún væri komin í full-
an rekstur fyrir lok ársins.
Málþing um öldrunarmál
Stjórn HSS hefur einnig skorað á
Samband sveitarfélaga á Suðurnesj-
um að standa fyrir málþingi um mál-
efni sjúkra aldraðra. Fram kemur í
samþykkt stjórnarinnar að mælst er
til þess að á málþinginu verði unnið að
heildarskipulagi á þessu málefni.
Hallgrímur Bogason segir að ekki
sé búið að ákveða hvernig eigi að nýta
3. hæð í D-álmu sjúkrahússins í
Keflavík, hvort þörf væri á henni fyrir
öldrunardeild eða hvort nýta ætti
hana fyrir aðra starfsemi sjúkrahúss-
ins. Taka þurfi ákvörðun um það sem
fyrst og vonast hann til að málþingið
geti orðið liður í undirbúningi þess.
Hafinn verði rekstur í
öldrunardeild D-álmu
Keflavík
MARKAÐS- og atvinnumálaskrif-
stofa Reykjanesbæjar verður lögð
niður og verkefni hennar færð til
annarra sviða bæjarins, samkvæmt
tillögum Árna Sigfússonar að
breyttu stjórnskipulagi sem nú eru
til umræðu í bæjarráði. Þá verður
fækkað um þrjár fastanefndir með
því að markaðs- og atvinnumálasvið
og framkvæmda- og tæknisvið
verða lögð niður og menningar- og
safnaráð sameinað tómstunda- og
íþróttaráði.
Unnið hefur verið að undirbún-
ingi breytinga á stjórnskipulagi
Reykjanesbæjar á undanförnum
vikum. Árni Sigfússon kynnti til-
lögur sínar á fundi bæjarráðs í vik-
unni. Tillögurnar verða ræddar á
næsta fundi bæjarráðs og síðan
verða þær afgreiddar í bæjarstjórn
eftir tvær umræður á þeim vett-
vangi. Árni segir stefnt að því að
breytingarnar taki gildi 1. desem-
ber næstkomandi.
Dregið úr kostnaði
Árni leggur áherslu á nokkur at-
riði þegar hann kynnir tillögur sín-
ar. Í fyrsta lagi nefnir hann að
fækkun sviða, æðstu stjórnenda og
nefnda hafi það markmið að sam-
þætta betur skyld verkefni og draga
úr stjórnunar- og nefndakostnaði.
Starfsmannaþjónusta verði styrkt
svo og fjármálastýring og áætlana-
gerð bæjarfélagsins. Almenn fjár-
hagsleg hagræðing aukist. Nefnt er
að beinn sparnaður vegna lækkunar
launakostnaðar nemi 20 milljónum á
kjörtímabilinu og að auki er vænst
hagræðingar af nýjum áherslum í
starfsmanna- og fjármálastjórnun.
Að síðustu nefnir bæjarstjóri að
stjórnkerfið verði verkefnamiðaðra,
skapaðir möguleikar á verkefnis-
stjórnunarkerfi þegar á þarf að
halda. Þannig verði unnt að kalla
tímabundið til verkefnisstjóra til að
stýra málum sem snerta fleiri en
eitt svið í stjórnkerfinu.
Eins og fram hefur komið fækkar
sviðum og nefndum. Tvær nefndir,
menningar- og safnaráð, renna sam-
an í eina sem nefnast mun menning-
ar-, íþrótta- og tómstundaráð. Eftir
að nágrannasveitarfélögin sögðu sig
úr Hafnasamlagi Suðurnesja er
Reykjanesbær einn aðili að því og
raunverulegt samlag ekki lengur til.
Verður hafnarstjórn og atvinnuhluti
markaðs- og atvinnuráðs sameinað-
ur í atvinnu- og hafnaráð. Markaðs-
og atvinnuráðið hafði einnig með að
gera markaðsmál og einhver sam-
starfsverkefni sveitarfélaga. Lagt
er til að markaðsmálin fari í verk-
efnakaup, það er að segja þjónusta
við þau verði keypt að, og að Sam-
tök sveitarfélaga á Suðurnesjum
sjái alfarið um samstarfsverkefni
sveitarfélaganna. Loks er lagt til að
framkvæmda- og tækniráð verði
lagt af og verkefni þess flutt til bæj-
arráðs enda séu flest verkefni þess
nú þegar á borði bæjarráðs.
Þessar breytingar á sviðum þýða
að Pétur Jóhannsson hafnarstjóri
kemur inn í stjórnskipulagið með
formlegum hætti sem forstöðumað-
ur atvinnu- og hafnasviðs. Hins veg-
ar verður lögð niður staða fram-
kvæmdastjóra markaðs- og at-
vinnumálaskrifstofunnar sem Ólaf-
ur Kjartansson gegnir. Þau rök eru
færð fyrir þeirri breytingu að sam-
eina hafnsækna atvinnustarfsemi
við önnur atvinnutengd verkefni
undir atvinnu- og hafnaráði náist
betri nýting fjármuna og markviss-
ari vinna við atvinnuþróun. Sérstak-
lega er nefnd uppbygging og mark-
aðssetning atvinnusvæðisins við
Helguvík. Stefán Bjarkason er for-
stöðumaður tómstunda- og íþrótta-
ráðs en menningarmálin bætast nú
við það svið. Stefnt er að opna upp-
lýsingamiðstöð fyrir almenning á
vegum þess sviðs. Hugmyndin er að
miðstöðin verði í bókasafni Reykja-
nesbæjar.
Manngildissviðin
saman
Þegar hefur verið ákveðið að
flytja svokallaðan „félagsmála-
gang“, það er að segja starfsemi
fjölskyldu- og félagsmálasviðs af
skrifstofum Reykjanesbæjar við
Tjarnargötu í skrifstofur bæjarins í
Kjarna um næstu mánaðamót. Þar
er fyrir starfsemi fræðslusviðs og
menningar-, íþrótta- og tómstunda-
sviðs. Árni Sigfússon nefnir þau
einu nafni manngildissviðin enda
varði þau öll það verkefni að efla
mannrækt og manngildi í bæjar-
félaginu. Lögð verður áhersla á
samstarf sviðanna á faglegum
grunni. Á móti fer ýmis starfsemi
sem verið hefur á vegum MOA í
bæjarskrifstofurnar við Tjarnar-
götu.
Árni Sigfússon bæjarstjóri leggur fram til umræðu tillögur að breytingum á stjórnkerfi bæjarins
Fækkað um þrjár
nefndir og MOA
verður lögð niður
Reykjanesbær
VÍKURFRÉTTIR ehf. eru að hefja
útgáfu á nýju frétta- og auglýsinga-
blaði í Hafnarfirði og nágrenni. Blað-
ið mun heita VF sem stendur fyrir
Vikulega í Firðinum.
„Ég hef gengið með þennan
draum í maganum í nokkur ár,“ seg-
ir Páll Ketilsson, eigandi og ritstjóri
Víkurfrétta. Hann hefur gefið út
Víkurfréttir í tæp 20 ár. „Okkur hef-
ur gengið vel með Víkurfréttir á Suð-
urnesjum. Erum með litskrúðugt og
fjölbreytt efnisval í blaðinu og langar
til að gefa út blað í þeim stíl í Hafn-
arfirði,“ segir Páll.
45 þúsund manna markaður
Fyrsta blaðið í Hafnarfirði kemur
út næstkomandi fimmtudag. Það
verður 24 síður á stærð, að sögn
Páls, með fjölbreyttu efni úr mann-
lífi svæðisins. Blaðinu verður dreift
án endurgjalds inn á öll heimili í
Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi
og í öll fyrirtæki á þessu svæði.
Á starfssvæði Vikulega í Firðinum
búa hátt í 30 þúsund manns og segir
Páll að með þessari viðbót sé fyr-
irtækið að gefa út vikuleg fréttablöð
fyrir 45 þúsund manna markað.
Opnuð hefur verið skrifstofa fyrir
nýja blaðið í Bæjarhrauni 22 í Hafn-
arfirði. Þar starfa auglýsingastjóri
og fréttastjóri. Páll verður ritstjóri
VF í Hafnarfirði fyrst um sinn og
hefur aðsetur á ritstjórnarskrifstof-
um Víkurfrétta í Njarðvík og í Hafn-
arfirði.
Víkurfréttir munu útvíkka frétta-
vef sinn, www.vf.is, með því að bæta
við daglegum fréttum úr Hafnarfirði
og nágrenni. Verður hann opnaður á
fimmtudag um leið og útkomu fyrsta
blaðsins verður fagnað.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta,
í hönnunarsal fyrirtækisins.
VF færir út kvíarn-
ar til Hafnarfjarðar
Njarðvík
LEIÐBEINENDUR eru fleiri en
kennarar við Holtaskóla. Í öðrum
grunnskólum Reykjanesbæjar eru
kennarar með full réttindi í meiri-
hluta þeirra sem starfa við kennslu.
150 starfa alls við kennslu í fjórum
grunnskólum Reykjanesbæjar. Þar
af er 81 kennari, eða rúmlega helm-
ingur, og leiðbeinendur 50, eða þriðj-
ungur. Að auki starfa 19 kennarar
sem deildarstjórar, námsráðgjafar
og við stjórnun. Kemur þetta fram í
skýrslu skólaskrifstofu Reykjanes-
bæjar sem lögð hefur verið fram í
skóla- og fræðsluráði og sagt er frá á
heimasíðu Reykjanesbæjar.
Lægst er hlutfall réttindakennara
í Holtaskóla í Keflavík. Þar eru 19
leiðbeinendur á móti 15 kennurum. Í
Heiðarskóla í Keflavík starfa 22
kennarar og 14 leiðbeinendur og í
Njarðvíkurskóla starfa 20 kennarar
og 10 leiðbeinendur. Hæst er hlut-
fallið í Myllubakkaskóla í Keflavík,
þar eru 23 kennarar, 68% þeirra sem
starfa við kennslu, og 7 leiðbeinend-
ur. Þeir kennarar sem starfa við
námsráðgjöf, deildarstjórn og
stjórnun eru ekki í þessum tölum.
Þess má geta að í skýrslunni kem-
ur fram að sextán þeirra fimmtíu
leiðbeinenda sem starfa við kennslu í
Reykjanesbæ eru með háskóla-
menntun og 11 að auki hafa hafið
nám við Kennaraháskóla Íslands. Í
þessum hópi eru fjórir leikskóla-
kennarar, fimm þroskaþjálfar og
einn hefur lokið tónmenntaprófi.
Þrettán leiðbeinendur sem starfa við
kennslu hafa stúdentspróf.
Leiðbeinendur eru þriðjungur
þeirra sem starfa við kennslu
Reykjanesbær