Morgunblaðið - 29.11.2002, Síða 40
UMRÆÐAN
40 FÖSTUDAGUR 29. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
PRÓFKJÖR Sjálfstæðisflokksins
í Reykjavík er nú afstaðið og lauk
með sigri ungra flokksmanna. Þrír
karlkyns nýliðar á aldrinum 29–34
ára komust í „örugg“ sæti á kostnað
þingkvenna á aldrinum 45–56 ára
sem fluttust aftar í röðina. Það er álit
margra að í þessu prófkjöri megi
einnig finna annan sigurvegara með-
al sitjandi þingmanna en það er Pét-
ur H. Blöndal, 58 ára trygginga-
stærðfræðingur, sem sóttist eftir
3.–5. sæti. Hann fékk um 77%
greiddra atkvæða og lenti í 4. sæti
eftir Davíð, Geir og Birni Bjarna-
syni. Sólveig dóms- og kirkjumála-
ráðherra sóttist eftir 3. sæti en lenti í
5. sæti með um 59% atkvæða.
Afstaða flokksforystunnar gagn-
vart árangri Péturs er óljós. Sagt er
að sterk staða Björns í 3. sæti og
sókn tveggja þingkvenna í 4. sætið
hafi styrkt stöðu hans gagnvart Sól-
veigu. Í Kastljósi Sjónvarps 24. nóv-
ember lét forsætisráðherra jafn-
framt eftirfarandi orð falla í svari við
spurningu hvort þessi árangur Pét-
urs tryggði honum ráðherrastól:
„Það leikur enginn einleik í ríkis-
stjórn.“ Þessi orð hafa vakið athygli
og spurt er hvernig túlka eigi þessi
orð formannsins?
Sjálfstæður þingmaður
Framganga Péturs á undanförn-
um árum hefur vakið athygli þeirra
er fyljast með þjóðfélagsmálum. Það
fer ekki á milli mála að hann virðist
undirbúa og fylgja vel eftir þeim
málum sem hann tekur upp á sína
arma hvort heldur er inni á þingi eða
utan þess. Hann hefur góða þekk-
ingu á íslensku mannlífi, er ekki orð-
aður við ákveðna sérhagsmunahópa
en hefur á stundum skoðun sem
gengur þvert á stefnu flokksins.
Þetta sjálfstæði virðist falla Íslend-
ingum vel í geð þar sem þeir eru van-
ir að berjast fyrir sínum málum. Það
getur þó verið að slíkt sjálfstæði geti
gengið út í öfgar og geri að menn
verði ekki gjaldgengir í samstarfi við
aðra. Getur það verið að Pétur til-
heyri slíkum flokki manna?
Nýstárleg
kosningabarátta
Í nýafstaðinni prófkjörsbaráttu
vakti það athygli margra að Pétur,
einn frambjóðenda, bauð upp á röð
fimm fyrirlestra í Odda. Fyrirlestrar
þessir fjölluðu um skattakerfið, Evr-
ópusambandið, jafnréttið, velferðar-
kerfið og verðmæti heiðarleikans.
Þetta eru áhugaverð mál og hér
gafst kjósendum gott tækifæri til að
vega og meta afstöðu þessa „um-
deilda“ frambjóðanda. Fyrirlestrar
Péturs fóru allir fram með svipuðu
sniði, sérvalinn fundarstjóri, 30 mín-
útna framsaga Péturs sem síðan var
fylgt eftir með eins til tveggja tíma
fyrirspurnum, umræðum og kaffi-
hléi. Pétur ávarpaði fyrirspyrjendur
með nafni, kom sínum sjónarmiðum
á framfæri með rökstuðningi og gat
þess að þótt skoðanir hans og þeirra
færu ekki ávallt saman merkti það
ekki að hann virti ekki skoðanir
þeirra og hann gerði ráð fyrir að þeir
virtu hans skoðanir. Hvergi kom
fram að hann hallaði máli gagnvart
flokksbræðrum eða stjórnarand-
stæðingum.
Einn fundarstjóra gat þess að Pét-
ur hefði með þessari nýstárlegu fyr-
irlestraröð sigrað hvað baráttuað-
ferðir varðar. Það er enginn vafi á að
þetta návígi við kjósendur um mörg
þau atriði sem mestu máli skipta í
okkar þjóðfélagi höfðu áhrif á af-
stöðu margra þeirra sem ekki voru
sammála Pétri í öllum hans skoðun-
um og ályktunum. Hérna fór maður
sem óhræddur hélt sínum skoðunum
á lofti, ræddi og rökstuddi þær og
sýndi ekki af sér þann þokka að hann
myndi rekast illa í samstarfi manna
með mismunandi viðhorf.
Lokaorð
Prófkjör er lýðræðislegt fyrir-
komulag á ákvörðun um uppstillingu
á lista en er vandmeðfarið eins og ný-
leg dæmi sanna. Árangur og mark-
tækni niðurstaðna byggist jöfnum
höndum á skipulagningu og þeim
áhuga sem frambjóðendum tekst að
skapa. Aðferð Péturs til að ná til
kjósenda er athyglisverð og umhugs-
unarverð fyrir aðra frambjóðendur.
Túlkun flokksforystunnar á niður-
stöðu prófkjörsins er þó engu síður
athyglisverð. Tilraunir til að útskýra
og tóna niður vissar „óþægilegar“
niðurstöður eru íhugunarverðar. Það
er óneitanlega staðreynd að óbreytt-
ur þingmaður getur veitt sér meira
svigrúm til skoðana á opinberum
vettvangi en ráðherra í ríkisstjórn.
Dæmin hafa þó sannað að sjálfstætt
þenkjandi þingmenn geta staðið
undir þeirri ábyrgð að gegna ráð-
herraembætti. Það er því von manna
að forsætisráðherra hafi ekki verið
að láta í ljós þá skoðun að ráðherra-
embætti sé eingöngu þeim þing-
mönnum ætlað sem fylgja flokkslín-
unni í einu og öllu. Ef svo er þá er illa
komið fyrir íslenskri pólitík.
Prófkjörsþankar
Eftir Kristján
Sigurðsson
„Tilraunir til
að útskýra
og tóna nið-
ur vissar
„óþægileg-
ar“ niðurstöður eru
íhugunarverðar.“
Höfundur er læknir.
ÚTREIÐ kvenna í prófkjöri
Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
hefur hlotið verðskuldaða athygli al-
mennings og fjölmiðla. Í fyrstu tíu
sætum Sjálfstæðisflokksins í höfuð-
borginni, sem teljast örugg sæti,
verða tvær konur. Aðrar sjálfstæð-
iskonur í borginni mega verma
varamannabekkinn á næsta kjör-
tímabili. Skilaboð sjálfstæðisfólks til
kjósenda eru skýr: Horfið er marga
áratugi aftur í tímann, til fortíðar
þar sem konur voru uppfyllingarefni
á framboðslistum og þátttaka þeirra
í stjórnmálum ekki tekin jafn alvar-
lega og þátttaka karla. Sú niður-
staða að konur skipi 20% öruggra
sæta stærsta stjórnmálaflokks
landsins í höfuðborgarkjördæmun-
um tveimur er mikill álitshnekkir
fyrir Sjálfstæðisflokkinn og segir
meira en þúsund orð um raunveru-
lega stöðu kvenna þar á bæ.
En kannski þarf þetta í raun ekki
að koma svo mjög á óvart þegar öllu
er á botninn hvolft. Þetta er öðru
fremur staðfesting á því sem ýmsir
hafa haldið fram að allt tal á bæ
Davíðs um sterka stöðu kvenna inn-
an flokksins sé orðin tóm. Og að
sjálfsögðu er þessi niðurstaða alger-
lega á skjön við þá þróun sem til að
mynda hefur átt sér stað innan ann-
arra stjórnmálaflokka, ekki síst
Samfylkingarinnar.
Framúrskarandi karl-
frambjóðendur?
Í áratugi hafa konur barist fyrir
sínum hlut í stjórnmálum og bent á
að raunverulegt lýðræði felist í því
að karlar og konur skipi til jafns
framboðslista flokkanna. Sérstakt
átak hefur m.a. verið í gangi af hálfu
ríkisstjórnarinnar til að vekja at-
hygli á þessum sjálfsagða hlut. Kon-
ur hafa á þessu kjörtímabili verið
um 35% þingmanna. Í sveitarstjórn-
arkosningunum sl. vor jókst hlutur
kvenna í sveitarstjórnum ekkert.
Ýmislegt bendir til þess að hlutfallið
verði óbreytt á Alþingi eftir kosn-
ingarnar í vor. Og nú stefnir í að
þingkonum Sjálfstæðisflokksins
fækki úr níu í sex til sjö.
Það hlýtur því að vera áfall fyrir
margar konur innan Sjálfstæðis-
flokksins að sjá það nú svart á hvítu,
að það er sama hversu vel þær
vinna og hversu vel þær standa sig,
það dugir hreinlega ekki til. Ungir
karlar, miðaldra karlar, eldri karlar,
allir fá þeir meiri framgang. Og
skyldi það nú eingöngu vera vegna
framúrskarandi hæfileika, ræðu-
snilldar og almenns sjarma? Svari
nú hver fyrir sig.
Gegnum glerþakið
Í haust færði Kvenréttindafélag
Íslands alþingismönnum að gjöf
bókina Gegnum glerþakið – valda-
handbók fyrir konur. Bókin kom
fyrst út í Svíþjóð árið 1998 og var
þýdd á íslensku ári síðar. Óhætt er
að segja að efni hennar eigi brýnt
erindi við konur og karla í stjórn-
málum, ekki síst þegar stærsti
stjórnmálaflokkur landsins hefur
lækkað glerþakið og úthýst góðum
og gegnum stjórnmálakonum á öll-
um aldri úr framvarðasveit sinni.
Hitt er svo annað mál hvort leiðtog-
arnir í Valhöll hafa kynnt sér efni
bókarinnar. Líklega ekki. Önnur
vísbending um það er að á þessari
stundu bendir flest til þess að karlar
leiði alla lista Sjálfstæðisflokksins í
nýju kjördæmunum sex í vor. Kon-
ur eiga greinilega ekki upp á pall-
borðið hjá flokksforystunni í Val-
höll.
Sjálfstæðisflokkurinn
lækkar glerþakið
Eftir Steinunni Valdísi
Óskarsdóttur og Þór-
unni Sveinbjarnardóttur
„Flest bendir til þess
að karlar leiði alla lista
Sjálfstæðisflokksins
í vor.“
Þórunn er alþingiskona og Steinunn
Valdís borgarfulltrúi. Þær eru báðar
í Samfylkingunni.
Steinunn Valdís
Óskarsdóttir
Þórunn Svein-
bjarnardóttir
ÞAU tíðindi hafa borist, að Al-
þýðusamband Íslands hefur sagt sig
úr Landvernd. Það hafa Kaup-
mannasamtökin gert fyrir nokkra.
Það hefur Landsvirkjun einnig gert.
Mig setti hljóðan við þessa frétt.
Hugur launafólks og almennings í
landinu er í raun verulega upptekn-
ari af smákrimmum sem fremja
smáglæpi og setja tímabundið
svarta bletti á heimili og þjóðfélag,
heldur en hinum stóru, sem setja
skjótfenginn gróða ofar hverri
kröfu.
Fyrir nokkru var ég á ferð á Maj-
orku sem er lítil eyja í Miðjarð-
arhafi, enn minni en Ísland. Þessi
eyja var fögur og er veðursæl, þótt
snillingurinn Chopin semdi þar sum
af sínum dapurlegustu verkum.
Eyjabúar voru fyrrum frægir sjó-
ræningjar, sem áttu skjól í af-
skekktum leynivogum. Þessi ey var
nánast aldingarður, þar sem flest
þreifst og gréri og íbúarnir báru
höfuðið hátt. Í dag háttar öðruvísi
til. Landið er ferðamannaparadís.
Hver einasta vík, hver vogur, er
kominn í eigu erlendra ferðaskrif-
stofa og hótelkeðja eða einstaka
innlendra auðmanna, Bátar róa ekki
til fiskjar. Land er varla ræktað
lengur vegna vatnsskorts, nema af
stórfyrirtækjum. Íbúarnir eru skap-
stirðir þrælar, sem flestir vinna
fjórtán tíma á sólarhring fyrir
smánarlaun og eina stolt þeirra er
fótboltaliðið.
Hvert stefnum við Íslendingar?
Sjórinn hefur löngum tengt okk-
ur Íslendinga við lífið. Þar eru okk-
ur engin réttindi áskilin lengur.
Það var í kringum 1830, sem
byggðarmenn koma í fyrsta sinn í
Dyngjufjöll og þá vopnaðir vel. Ís-
lensk öræfi vora almennt ekki smöl-
uð fyrr en á 19. öld. Hálendið var í
raun og veru eign trölla og fjalla-
þjófa. Hefðarrétturinn er ekki
lengri en svo. Nú ber svo við að
óbyggðanefnd er í önnum við að úr-
skurða bændum eignarlönd allt
fram til jökla. Landnámsmenn
höfðu sem kunnugt er skynsamleg-
ar aðferðir við að helga sér land.
Aðferðir okkar eru pólitískar og
heimskulegar.
Enn finnst okkur Íslendingum
samt Ísland vera okkar. Sú rík-
isstjórn sem situr, vill selja landið
úr höndum íbúanna. Þegar fasteign-
irnar hafa verið seldar, bankar,
fjarskiptafyrirtæki, verður enn
meiri fjárþörf. Þá verða orkufyr-
irtækin seld og hið óbeislaða afl
sem eftir verður í ám og jarðhita.
Þegar allar þessar framsýnu fyr-
irætlanir verða orðnar að veruleika,
mun fögur ásýnd Fjallkonunnar
hafa fölnað verulega, en fótboltinn
mun bera manndómi okkar vitni
sem aldrei fyrr.
Sem ungur maður var ég stoltur
af verkalýðsfélaginu mínu, Hinu ís-
lenska prentarafélagi, og enn vil ég
gjarnan vera stoltur af verkalýðs-
hreyfingunni og þannig er um fleiri.
Ef hinsvegar þessi hreyfing ætlar
að rýna skammsýn ofaní budduna
og vill ekki berjast fyrir lifandi
land, til handa frjóu og vel lifandi
fólki, – ja – þá er hún aumingi.
Er ASÍ aumingi?
Eftir Jóhannes
Eiríksson
Höfundur er prentari.
„Þegar fast-
eignirnar
hafa verið
seldar,
bankar, fjar-
skiptafyrirtæki, verður
enn meiri fjárþörf.“
NÚ stendur yfir árleg eldvarnar-
vika í grunnskólum landsins sem
Landssamband slökkviliðs- og
sjúkraflutningamanna stendur fyrir.
Forvarnir á þessu sviði hafa fyrir
löngu sannað gildi sitt enda má
benda á ótal dæmi s.s. þegar
,,sprinkler“-kerfi í Rammahúsinu í
Reykjanesbæ, kom í veg fyrir að
húsið brynni. Á síðasta ári varð tjón
af völdum bruna fyrir 1,4 milljarða
króna. Með bættum brunavörnum
má því spara stórfé í samfélaginu.
Það er mjög mikilvægt að bæði
heimili og fyrirtæki taki þátt í þessu
átaki. Við ættum því hvert og eitt að
skoða hvað má betur fara í eldvörn-
um hjá okkur. Það er varla til jafn
ódýrt tæki og reykskynjari sem
sinnir jafn mikilvægu hlutverki. Eru
rafhlöður í reykskynjurum í lagi?
Eru reykskynjarar rétt staðsettir og
nægilega margir? Eru slökkvitæki
rétt staðsett? Er þörf á að skoða raf-
tæki eða bæta umgengni um þau.
Tölur sýna að á síðasta ári urðu 45
brunar vegna rafmagnstækja (Lög-
gildingarstofa) og þar af voru 62%
vegna rangrar notkunar eldavéla. Af
því sést að með bættri umgengni má
draga verulega úr brunahættu.
Nú fer í hönd sá tími er við sjáum
eldsvoða vegna kerta. Okkur hættir
til að gleyma því að eldur getur á
andartaki breytt stofunni okkar í
eldhaf. Við heyrðum í fréttum nýlega
um þann stutta tíma sem fólk, sem
áður bjó við Laugaveg, hafði til að
forða sér. Eldur getur ferðast mjög
hratt og eyðing af hans völdum er
ótrúleg. Það var guðsmildi að enginn
fórst þar, þótt það sé mikið áfall að
missa allar persónulegar eigur sínar.
Undanfarið hafa orðið miklar
skemmdir vegna elds og því ástæða
til að við skoðum í kringum okkur
hvað við getum gert. Slökkviliðs-
menn reka forvarnardeild þar sem
veitt er ráðgjöf en það gera einnig
slökkviliðin í landinu. Þá eru rekin
nokkuð mörg fyrirtæki sem taka að
sér að yfirfara eldvarnir bæði heima
sem á vinnustöðum. Eigendur bera
ábyrgð á að húsnæði uppfylli kröfur
um brunavarnir. En það dugar ekki
ef við umgöngumst ekki eldhættur
með varúð. Um hver áramót slasast
fólk, einkum drengir 10–14 ára,
vegna blysa og flugelda. Það er því
einnig mikilvægt að kenna börnum
að forðast slíkar hættur.
Að bjarga mannslífum –
Brunavarnaáætlun
Fyrsta hlutverk slökkviliðsmanna
á brunastað er að bjarga mannslíf-
um, um það eru allir sammála. En til
að slökkviliðsmenn geti sinnt sínu
hlutverki er mikilvægt að þeir fái
menntun og þjálfun, ásamt tækjum
og búnaði við hæfi. Öll sveitarfélög
landsins eiga samkvæmt lögum frá
árinu 2000 að setja fram brunavarn-
aráætlun sem er nýmæli. Í áætlun-
inni eiga að koma fram upplýsingar
um hvernig staðið er að brunavörn-
um og helstu hættur á svæðinu.
Þessa dagana eru sveitarfélögin að
skila inn slíkum áætlunum. Það get-
ur verið gagnlegt að kynna sér slíkar
áætlanir um næsta nágrenni sitt.
Að lokum hvet ég landsmenn til að
huga að eldhættum og bæta varnir
heima fyrir.
Eldfljótur er orðið
Eftir Drífu
Sigfúsdóttur
„Eldur getur
á andartaki
breytt stof-
unni okkar í
eldhaf.“
Höfundur er formaður bruna-
málaráðs og varaþingmaður.
Góðir skór
Skóbúðin
Miðbæ Háaleitisbraut 58-60 Sími 553 2300
Ráðgjöf á fimmtud. kl. 15-18 og laugard. kl. 11-15.