Morgunblaðið - 10.03.2003, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 10.03.2003, Blaðsíða 14
LISTIR 14 MÁNUDAGUR 10. MARS 2003 MORGUNBLAÐIÐ DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra opnaði sýninguna Að mínu skapi í Galleríi Fold við Rauðarárstíg á laug- ardaginn. Á sýningunni eru verk sem Davíð hefur valið eftir fjölbreyttan hóp samtímamálara, þau Braga Ás- geirsson, Daða Guðbjörnsson, Erró, Jónas Braga Jón- asson, Karólínu Lárusdóttur, Kjartan Guðjónsson, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Pétur Gaut Svavarsson, Sig- rúnu Eldjárn og Steinunni Marteinsdóttur. Morgunblaðið/Jim Smart Davíð Oddsson á tali við Thor Vilhjálmsson við opnun sýningarinnar. Í bakgrunni má sjá verk eftir Erró. Að mínu skapi RITHÖFUNDURINN Kazuo Ishiguro ætti að vera lesendum vel kunnur því meðal verka hans sem áður hafa komið út á íslensku má nefna Dreggjar dagsins, sem sam- nefnd kvikmynd var gerð eftir, og Óhuggandi. Í nýjustu bók sinni, hér í glæsilegri þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur, er hann enn að fást við atburði sem hann staðsetur um og í kringum síðari heimsstyrjöld- ina. Sagan segir frá Christopher Banks sem býr ásamt foreldrum sínum í Shanghai í Kína, en þegar hann er einungis tíu ára gamall hverfa foreldrar hans með dularfull- um hætti og hann er sendur til frænku sinnar í Englandi þar sem hann elst upp. Framan af bókinni fylgjumst við með lífi Christophers í Lundúnum að loknu háskólanámi, hvernig hann reynir annars vegar að laga sig að skemmtanalífi yfir- stéttarinnar og hins vegar að öðlast frama fyrir lausnir sínar á flóknum sakamálum. Frá unga aldri hefur hann dreymt um að verða frægur leynilögreglumaður og eftir því sem á söguna líður fer lesandanum að skiljast að sú löngun hans á sér djúpar rætur í fortíð hans, því markmið hans í lífinu er að snúa aft- ur á æskuslóðir til að rannsaka hvarf foreldra sinna. Hann er sann- færður um að þeim hafi verið rænt, mögulega vegna baráttu móður hans gegn ópíuminnflutningi Vest- urlanda, og telur öruggt að honum muni takast að finna þau á lífi. Auk þess langar hann að hafa uppi á æskuvini sínum, hinum japanska Akira. Frá því Christopher kom til Eng- lands hefur hann ekki rætt fortíð sína við nokkurn mann, en þegar hann eldist fer áhugi hans á eigin minningum að glæðast, einkum og sér í lagi þar sem minningarnar verða sífellt óskýrari með tímanum og hann finnur sér til mikillar skelf- ingar að hann er farinn að rugla saman endurminningum. Hann rek- ur sig líka á að minningar hans passa ekki við lýsingar annarra á fortíðinni eins og hann man hana. Það kemur til dæmis fram í samtali hans við skipstjórann sem sá um að koma honum heim til Englands, því á meðan skipstjórinn rekur endur- minningar sínar um sjóferðina verð- ur Christopher gramur þar sem „smám saman var að verða til að baki gamansagnanna hans mynd af sjálfum mér á þessari ferð sem ég kunni ekki að meta“ (bls. 30). Þann- ig teflir höfundur fram afar athygl- isverðum hugmyndum um minnið og hlutverk þess, hverju við veljum að gleyma eða muna og hvernig end- urminningar okkar breytast með tímanum í ljósi síðari reynslu. Þegar Christopher loks fer til Shanghai, tæpum tveimur áratugum frá því hann fór þaðan sem barn, fer margt öðruvísi en hann hafði ímynd- að sér. Shanghai er orðin að hættu- legri borg sökum þess að Kínverjar og Japanir eru að berjast um yfirráð yfir henni og mikil spilling er ríkjandi á æðstu stöðum. Leit hans einkennnist því af miklu kapphlaupi við tímann. Þótt Veröld okkar vandalausra sé ekki leynilögreglu- saga í venjulegum skilningi sækir hún ýmislegt í hefð leynilögreglu- sagna bæði í viðfangi sínu, þar sem hún býr yfir glæp sem aðalsöguhetj- an eyðir megninu af ævi sinni í að leysa, og efnistökum. Ishiguro er meistari í að lokka lesendur sína í lestrinum, honum tekst stöðugt að lauma inn vísbendingum um hvernig muni fara án þess þó að segja of mikið. Persónur hans eru flestar fremur lokaðar eða bældar og gefa lítið uppi um tilfinningar sínar en áhrifin verða þeim mun meiri fyrir vikið. Bókin er afar vel uppbyggð og nær ótrúlega sterkum áhrifum í lokakaflanum þegar Christopher áttar sig í raun á því að fyrir honum, líkt og svo mörgum öðrum, „er eng- in önnur leið en sú að reyna að hlýða kölluninni, sinna sínu ætlunarverki allt til enda eins vel og við getum, því að okkur verður ekki unnað neinnar hvíldar fyrr en við gerum það“ (bls. 304), jafnvel þótt það sé ef til vill á kostnað alls annars í lífinu. Þetta er saga um töfraheim bernskunnar sem marga dreymir um að endist að eilífu, heim barnsins þar sem engin illska er til vegna þess að heimurinn er algóður. En þetta er heimur sem hlýtur að splundrast þar sem hluti af því að komast til manns er að horfast í augu við illsku heimsins sem við stöndum alltof oft máttvana gegn. Leit að skuggum horfinna foreldra BÆKUR Skáldsaga Eftir Kazuo Ishiguro. Elísa Björg Þor- steinsdóttir þýddi. Bjartur 2002, 304 bls. VERÖLD OKKAR VANDALAUSRA Silja Björk Huldudóttir ÞREK og tár vekja upp spurninguna hvers vegna verkið hafi notið þeirra fádæma vin- sælda sem raun ber vitni. Lík- lega af sömu ástæðu og Land míns föður og Djöfleyjan voru líklega mest sóttu sýningar Leikfélags Reykjavíkur á 9. ára- tugnum. Í öllum verkunum þremur er rifjuð upp saga reyk- vískrar alþýðu eftirstríðsáranna, með ljúfsárum trega, hugljúfri tónlist og ívafið persónusögum um ástir og afbrýði, í léttúðugri fléttu við stéttaátök og alltum- lykjandi nærveru ameríska draumsins. Allt leggst þetta á eitt um að gæða mótunar- og átakatímabil hins unga lýðveldis yfirbragði nostalgíunnar, sann- færa okkur sem nú erum uppi um að þrátt fyrir allt hafi öll dýrin í skóginum verið vinir, því þegar öllu er á botninn hvolft gekk þeim jafn gott til, voru bestu skinn inn við beinið og vildu bara skapa betra líf fyrir sig og börnin sín. Persónusköpunin í Þreki og tárum er einföld og skýr, marg- ar sögur sagðar í einu, tvær, þrjár eða fleiri fjölskyldur flétt- ast saman í starfi og leik og að sjálfsögðu eru það ástir unga fólksins sem eru í forgrunni, þeirra er framtíðin því þau munu erfa landið og allt það. Leikdeild Skalla-Gríms rennir sér fótskriðu í gegnum þetta leikverk, þar er sungið og leikið af hjartans lyst, öllum til gleði og ánægju og greinilega í mikið lagt til að allt verði sem best heppnað. Birna Þorsteinsdóttir og Ólafur Gunnarsson fóru fremst í söngnum, auk þess að standa vel undir nafni í stórum hlutverkum og voru vel studd af leikhópnum sem er skemmtilega blandaður af ungum félögum og eldri; Guðjón Viggósson og Jó- hann Pálsson fóru báðir á góðum kostum. Með þennan stóra leikhóp og líflega efnivið í höndunum hefði leikstjórinn að ósekju mátt leggja sig meira fram við svið- setningu hóp- og söngatriða. Mörg þeirra virtust fremur til- viljunarkennd og óöryggi ein- kenndi frammistöðu sumra leik- enda. Frumsýningarskrekkur átti þó líklega sinn þátt í því. Hobbiti eða munnbiti Leikfélag Mosfellsbæjar lætur skammt stórra högga á milli. Það var með talsverðri eftir- væntingu sem sest var niður á frumsýningu á Hobbitanum á föstudagskvöld. Í öllum skilningi erfið saga til að segja á leiksviði, útheimtir bæði hugkvæmni og dirfsku svo helstu lyndiseinkenni aðalpersónunnar hobbitans Bilb- ós Baggasonar séu tekin til við- miðunar. Skemmst er frá því að segja að sýningin er sannarlega kvöldsins virði og á þar ekki hvað sístan þátt framúrskarandi vinna Helgu Rúnar Pálsdóttur sem hefur unnið frábært starf við gerð búninga, gríma og gerva á ótrúlega fjölbreyttan hóp dverga, álfa, drísla, úlfa og trölla að ógleymdum drekanum Smák sjálfum. Reyndar er greinilega farið í smiðju útlits- höfunda kvikmyndanna um Hringadróttinssögu en þar er ekki auðvelt undan að víkjast og kannski ekki ástæða til. Leikstjórnin er fumlaus og á köflum einstaklega hugkvæm; einfaldar lausnir duga vel til að fleyta sögunni áfram, sviðsetn- ingin er jafneinföld og hún er þénanleg með fallegri og hug- vitssamlegri ljósahönnun; sagan verður bæði spennandi og fyndin í þessari útfærslu. Leikhópurinn stendur sig með miklum ágætum, með Sigstein Sigurbergsson í fararbroddi í hlutverki Bilbós. Dóra Wild sýndi skemmtilega takta í hlut- verki Gollurs, sló hvergi af í radd- og líkamsbeitingu. Dverg- arnir nutu sín vel og var gaman að sjá alúðina sem lögð er í per- sónueinkenni hvers og eins. Tröllaatriðið var kapítuli útaf fyrir sig, einfaldlega drepfyndið. Ástæða er til að hrósa hópnum í heild fyrir skýra textameðferð en dríslarnir áttu þó í dálitlum erfiðleikum með að láta heyra til sín í gegnum ófrýnilegar grím- urnar. Ævintýrið endar þó vel þó sagan um Hobbitann sé ein- ungis upphafið að þeim mikla bálki um Hringadrottinssögu sem á eftir fylgir. Fortíðarþrá og barátta góðs og ills LEIKLIST Leikdeild Umf. Skalla-Gríms Eftir Ólaf Hauk Símonarson. Leik- stjóri: Skúli Gautason. 28. febrúar 2003. ÞREK OG TÁR Hávar Sigurjónsson Morgunblaðið/Jim Smart Leikfélag Mosfellssveitar Eftir J.R. Tolkien í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar, Úlfs Ragnarssonar og Þorsteins Thorarensen. Leikgerð og leikstjórn: Oddur Bjarni Þor- kelsson. Leikmynd og búningar Helga Rún Pálsdóttir, lýsing Alfreð Sturla Böðvarsson. Bæjarleikhúsið 7. mars 2003. HOBBITINN Dóra Wild í hlutverki Gollurs í Hobbitanum í Mosfellsbæ. UNDIRBÚNINGUR er hafinn að sýningu til minningar um Ragnar Kjartansson myndhöggvara og leir- kerasmið, sem verður haldin í Lista- safni ASÍ í ágúst nk. í tilefni af því að 17. ágúst hefði Ragnar orðið áttræð- ur. Sérstök áhersla verður lögð á það tímabil á starfsferli hans sem helgað er leirmunagerð. Að sögn Ingu Ragnarsdóttur er þegar búið að skrá og ljósmynda hluta verka hans, þótt enn vanti vitn- eskju um mörg þeirra, hvar þau eru niðurkomin og hverjir eru eigendur þeirra. „Hér er fyrst og fremst um að ræða vasa, skálar og annað sem sérhannað var í Funa og Glit á ár- unum 1956–1966, en vitneskja um önnur listaverk hans sem enn eru ekki komin á skrá er kærkomin,“ segir Inga. „Á þessum árum unnu margir af okkar þekktustu myndlistarmönn- um með Ragnari og oft eru hlutirnir merktir þeim, s.s. Dieter Roth (merkt d ), Hringur Jóhannesson (merkt Hringur), Sigurjón Jóhanns- son(merkt S.J.), Steinunn Marteins- dóttir (S.M) og fleiri; en Ragnar merkti sína hluti (R.K.). Það má því segja að þessi sýning muni ekki ein- göngu fjalla um verk Ragnars, held- ur einnig þá samvinnu sem hann átti við aðra listamenn,“ segir Inga Ragnarsdóttir. Eigendur verka sem þarna gætu átt við, eru beðnir um að hafa sam- band við Sólveigu Aðalsteinsdóttur, myndlistarkonu, í síma: 551-1949 eða á netfang: soladal@isl.is eða Ragnhildi Stefánsdóttur, mynd- höggvara, í síma: 562-4013 eða á net- fang: raggafow@mi.is. Leita leirmuna eftir Ragnar Kjartansson Vasi eftir Ragnar Kjartansson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.