Morgunblaðið - 13.08.2003, Blaðsíða 10
FRÉTTIR
10 MIÐVIKUDAGUR 13. ÁGÚST 2003 MORGUNBLAÐIÐ
RÁÐSTEFNAN Hugur og hönd í
heimi tækninnar, sem haldin er á
vegum norrænu vinnuvistfræði-
félaganna, hefur heppnast mjög
vel en í gær voru veitt tvenn verð-
laun í tengslum við hana. Verð-
launin eru veitt árlega en þetta er
í fyrsta skipti sem þau koma í hlut
íslenskra aðila.
Leikskólar Reykjavíkur hlutu
verðlaun sem eru veitt stofnun
sem hefur unnið ötult vinnuvernd-
arstarf. Að sögn Þórunnar Sveins-
dóttur, formanns VINNÍS áhuga-
félags um vinnuvistfræði, hafa
Leikskólar Reykjavíkurborgar
haft viljann til þess að bæta starfs-
umhverfi sitt og fylgt því mjög vel
eftir.
Ágústa Guðmundsdóttir, meist-
aranemi við Háskóla Íslands, hlaut
námsverðlaun en þau eru veitt ein-
staklingi sem hefur unnið faglega
vinnu við bætt vinnuumhverfi.
Ágústa sá um rannsóknarvinnuna
fyrir Leikskóla Reykjavíkur en í
hennar niðurstöðum kemur fram
að ánægja starfsfólks leikskóla
hefur aukist umtalsvert frá því að
skipulagsvinna við bætt vinnuum-
hverfi hófst.
Fyrsta sinn á Íslandi
Þetta er í 35. sinn sem norrænu
vinnuvistfræðifélögin halda ráð-
stefnu og í fyrsta sinn sem hún er
haldin á Íslandi enda hefur Ísland
aðeins verið í félagsskapnum frá
árinu 1998. Að sögn Þórunnar eru
ráðstefnugestir ótrúlega ánægðir
en ráðstefnunni lýkur í dag.
„Hér eru í kringum 200 manns
frá 16 löndum víðs vegar um
heiminn. Við erum með sex aðal-
fyrirlesara en samtals eru 92 fyr-
irlestrar á ráðstefnunni.“ Fyrir-
lesarar hafa komið inn á ýmsa
þætti vinnuvistfræðinnar, s.s. áhrif
upplýsingatækni á líðan starfs-
manna, áhrif breytinga og hag-
ræðingar á vinnustöðum, streitu
og króníska verki, þátttöku og
fræðslu starfsmanna, hönnun út
frá vistfræðilegu sjónarhorni og
stöðu vinnuverndar.
Þórunn bendir á að Norður-
löndin eru hátt skrifuð á sviði
vinnuvistfræði svo að aðrar þjóðir
sækja hingað þekkingu. „Þetta
virðist vera málefni sem vekur
áhuga og umræðu. Við erum lítið
land og þurfum að nýta okkur
reynslu annarra svo það er mikils
virði fyrir okkur að fá tækifæri til
að halda ráðstefnuna.“
Þórunn segir mikilvægt að
vinnuvistfræði verði tekin meira
inn í hinar ýmsu greinar háskól-
ans og að boðið verði upp á mast-
ersnám. Auk þess sé mikilvægt að
góð fræðsla sé á vinnustöðum.
„Við erum ekki að tala um að gera
alla að sérfræðingum heldur að
fólk hafi ákveðna grunnþekkingu.
T.d. að stjórnendur og þeir sem
hanna vinnustaði þekki það sem
skiptir máli fyrir vinnuumhverfi,
heilsu og vellíðan.“
Norrænu ráðstefnunni um vinnuvistfræði lýkur í dag
Leikskólar Reykja-
víkur verðlaunaðir
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Jan Axelsson og Þórunn Sveinsdóttir, t.h., afhentu Bergi Felixsyni og Ágústu Guðmundsdóttur verðlaunin.
Á STJÓRNARFUNDI Samtaka
sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
(SSH) í fyrradag var ákveðið að
leggja fyrir bæjarstjórráð sveitarfé-
laganna tillögu um að greitt yrði með
tónlistarnemendum á framhalds- og
háskólastigi fram að áramótum. Á
þeim tíma verður reynt að ná sam-
komulagi við ríkisvaldið um að
greiða fyrir þessa kennslu og vísað
til þess að sveitarfélögum beri að
greiða fyrir nám á grunnskólastigi
en ríkinu á framhaldsskólastigi.
Stjórnendur Reykjavíkurborgar
ákváðu einhliða að hætta að greiða
fyrir kennslu nemenda í tónlistar-
námi, sem koma úr öðrum sveitar-
félögum, í haust. Greiðir borgin því
eingöngu fyrir tónlistarnám nem-
enda með lögheimili í Reykjavík
burtséð frá því í hvaða sveitarfélagi
viðkomandi nemandi stundar námið.
Þessi ákvörðun hefur valdið nokk-
urri óánægju meðal forystumanna
annarra sveitarfélaga, sem segja að
byrjað sé á vitlausum enda og nem-
endur séu skildir eftir í óvissu. Fyrst
hefði átt að ná samkomulagi um
skiptingu kostnaðar og hafa samráð
um framkvæmdina við önnur sveit-
arfélög áður en forystumenn
Reykjavíkurborgar tóku þessa
ákvörðun.
Námsmenn settir í klemmu
Jónmundur Guðmarsson, bæjar-
stjóri á Seltjarnarnesi og stjórnar-
maður í SSH, segist ósáttur við það
að námsmenn hafi verið settir í þessa
klemmu. Ákvörðun um að greiða
með tónlistarnemendum fram að
áramótum hafi fyrst og fremst verið
tekin með hagsmuni þeirra að leið-
arljósi. Með því sé ekki fallist á
skyldu sveitarfélaganna til að greiða
fyrir þetta nám.
Sigurður Geirdal, formaður SSH
og bæjarstjóri í Kópavogi, segir mál-
ið flókið og að þetta snúi að öllum
sveitarfélögum á landinu. Mjög mis-
jafnt sé eftir skólum hve dýrt þetta
nám sé og geti munað hundruðum
þúsunda króna. Þetta séu einka-
stofnanir og sveitarfélögin hafi hing-
að til greitt kennslukostnað sama úr
hvaða sveitarfélagi nemendur hafi
komið.
Hann segir að þessi mál hafi ekki
verið stokkuð upp mjög lengi og á
því séu margir fletir sem þurfi að
leysa. Reykjavíkurborg hafi aftur á
móti valið að fara sínar leiðir án þess
að hafa samráð við önnur sveitar-
félög og byrjað sé á öfugum enda
sem bitni nú á nemendum. Þetta eigi
að leysa á vettvangi Sambands
sveitarfélaga þar sem nefnd með
þátttöku menntamálaráðuneytisins
sé nú að störfum.
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu funda um tónlistarnám
Greiða fyrir tónlistar-
nám fram að áramótum
FÉLAGSMÁLARÁÐHERRA
skipaði í gær Ingibjörgu
Broddadóttur tímabundið í stöðu
framkvæmdastjóra Jafnréttis-
stofu. Ingibjörg tekur við af Val-
gerði H. Bjarnadóttur sem hefur
gert samkomulag við félags-
málaráðherra um að láta af
störfum.
Ingibjörg mun sinna starfinu
þar til nýr framkvæmdastjóri
verður ráðinn en embættið er nú
þegar laust til umsóknar. Reikn-
að er með að nýr framkvæmda-
stjóri geti tekið til starfa 1. októ-
ber næstkomandi.
Að því er fram kemur í frétta-
tilkynningu frá félagsmálaráðu-
neytinu er það von ráðuneytisins
að með þessari ákvörðun geti
starfsemi Jafnréttisstofu haldið
áfram með eðlilegum hætti.
Nýr framkvæmda-
stjóri Jafnréttisstofu
RANNSÓKNASTOFA í næringar-
fræði við Landspítala – háskóla-
sjúkrahús og Háskóla Íslands er
einn þátttakenda í evrópska rann-
sóknarverkefninu
„SEAFOODplus“
sem sagt var frá í
Morgunblaðinu á
föstudag. Tveimur
rannsóknum er
stjórnað af Íslend-
ingum, annars vegar
af Guðjóni Þorkels-
syni hjá Rannsókna-
stofnun fiskiðnaðar-
ins, og hins vegar af
Ingu Þórsdóttur,
prófessor hjá Rann-
sóknastofu í næring-
arfræði.
Rannsóknin sem
Inga stýrir tekur til
heilsu ungra evr-
ópskra fjölskyldna
með áherslu á heilsu mæðra og
barna. Sömuleiðis er leitað leiða til
að sporna við ofþyngd og offitu-
vanda meðal yngri fullorðinna.
Áætlaður kostnaður við rannsókn-
ina, sem sótt er um til Evrópusam-
bandsins, er um 200 milljónir
króna, og er um fjórðungur þeirr-
ar upphæðar ætlaður til Rann-
sóknastofu í næringarfræði.
Aðeins þrjár næringar-
fræðirannsóknir
Inga Þórsdóttir prófessor og
Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem er í
doktorsnámi í næringarfræði,
ásamt samstarfsfólki þeirra, skipu-
lögðu sameiginlega næringarfræði-
lega rannsókn í Danmörku, Ír-
landi, Spáni, Portúgal og Íslandi í
samstarfi við þarlenda vísinda-
menn.
Áherslur rammaáætlunar Evr-
ópusambandsins eru
heilsan, hvernig mat-
ur hefur lýðheilsu-
fræðileg áhrif og
hvernig megi með
hollum lífsháttum
minnka tíðni al-
gengra sjúkdóma og
auka vellíðan. Þrátt
fyrir það eru að sögn
Ingu Þórsdóttur að-
eins þrjú rannsókn-
arverkefni innan
„SEAFOODplus“
sem tengjast næring-
arfræðinni. „Rann-
sóknin á næringu og
heilsu ungra evr-
ópskra fjölskyldna,
með áherslu á fisk og
fiskneyslu, var metin sem mjög
mikilvæg og hlaut jákvæða um-
fjöllun hjá Evrópusambandinu,“
sagði Inga í samtali við Morgun-
blaðið.
Að sögn Ingu hafa áherslur op-
inberra rannsóknaráætlana í Evr-
ópu og Bandaríkjunum færst
meira í átt að rannsóknum sem
miða að því að bæta heilsu og að-
stæður fólks. Samstarf milli iðn-
aðarrannsókna og heilbrigðisrann-
sókna færist í vöxt og því er
samstarf Rannsóknastofu í nær-
ingarfræði og Rannsóknarstofnun-
ar fiskiðnaðarins mikilvægt skref í
átt að góðum rannsóknum á hvað
stýrir og stjórnar hollustu og gæð-
um fisks og fiskafurða.
SEAFOODplus rannsóknarverkefnið
Rannsaka heilsu
og næringu ungra
fjölskyldna
Inga Þórsdóttir
ÁLFYRIRTÆKIÐ Alcoa reiknar
með að starfsmenn Fjarðaáls í Reyð-
arfirði geti tekið þátt í sjálfboðaliða-
verkefnum sem fyrirtækið hefur
byrjað með síðastliðin tvö ár. Á síð-
asta ári tóku yfir fimm þúsund
starfsmenn Alcoa þátt í verkefnum
sem þessum í meira en eitt hundrað
samfélögum í ríflega 20 löndum víða
um heim þar sem fyrirtækið starfar.
Fyrir vikið greiddi Alcoa alls nærri
90 milljónir króna til margs konar
góðgerðarmála á þessum stöðum.
Jake Siewert, aðaltalsmaður
Alcoa, sagðist í samtali við Morgun-
blaðið telja fullvíst að þessum verk-
efnum yrði komið á fót hér á landi
eftir að Fjarðaál tæki til starfa árið
2007, líkt og annars staðar þar sem
Alcoa væri til staðar.
Um tvenns konar verkefni er að
ræða, annað nefnist Bravo og hitt
„Alcoans Coming Together In Our
Neighbourhoods“, skammstafað
ACTION. Hið síðarnefnda gengur
út á það að hópur tíu starfsmanna
eða fleiri leggi ýmsum félagasamtök-
um og stofnunum lið í einn dag og
Alcoa reiðir þá fram rúmar 200 þús-
und krónur, eða þrjú þúsund dollara,
til viðkomandi aðila. Verkefnin sem
styrkt voru með þessum hætti í fyrra
voru allt frá því að kenna nemendum
og kennurum brunavarnir í skóla í
smábæ í Brasilíu til gróðursetningar
trjáplantna í Swansea á Bretlands-
eyjum. Alls voru greiddar rúmar 50
milljónir króna í fyrra vegna ACT-
ION.
Bravo-verkefnið miðast við ein-
staka starfsmenn Alcoa þar sem
greiddar eru um 20 þúsund krónur
fyrir hvern þeirra sem vinnur meira
en 50 stundir á ári í þágu einhvers
málefnis. Alls unnu starfsmennirnir í
um 100 þúsund klukkustundir í fyrra
og Alcoa greiddi nálægt 40 milljón-
um króna fyrir verkefni eins og að
gefa heimilislausum heitar máltíðir,
þjálfa hunda fyrir blinda, vernda
vatnsból og leiðbeina unglingum á
glapstigum.
Starfsmenn álvers Alcoa í Reyðarfirði
Gefst kostur á að vinna
sjálfboðaliðastörf