Morgunblaðið - 08.09.2003, Blaðsíða 36
MORGUNBLAÐIÐ, KRINGLUNNI 1, 103 REYKJAVÍK, SÍMI 569 1100, SÍMBRÉF 569 1181, PÓSTHÓLF 3040,
ÁSKRIFT-AFGREIÐSLA 569 1122, NETFANG: RITSTJ@MBL.IS, AKUREYRI: KAUPVANGSSTRÆTI 1 MÁNUDAGUR 8. SEPTEMBER 2003 VERÐ Í LAUSASÖLU 190 KR. MEÐ VSK.
Lágmúla og Smáratorgi
opið kl. 8-24
alla daga
Halldór Ásgrímsson
Einkafram-
kvæmd flýtir
Sundabraut
„ÉG tel það vera eðlilegast að skipuleggja þetta
mannvirki sem einkaframkvæmd og ég sé að fjár-
málaráðherra er jafnframt þeirrar skoðunar,“ seg-
ir Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra um lagn-
ingu Sundabrautar.
Halldór telur að rétt sé að fara að undirbúa mál-
ið svo hægt sé að fara að skipuleggja það með
hvaða hætti þetta mannvirki verði byggt.
Halldór segir að tiltölulega lítið fjármagn sé til
þessara framkvæmda á langtímaáætlun í vega-
gerð og einkaframkvæmd flýti því aðgerðum. Hún
greiði líka fyrir því að meira fjármagn verði til
staðar í aðrar framkvæmdir eins og hafi gerst þeg-
ar ráðist hafi verið í Hvalfjarðargöngin. Hann
bendir jafnframt á að nú sé stefnan að draga úr
öðrum framkvæmdum en virkjanaframkvæmdum
og sjá þurfi fyrir endann á þeim áður en ráðist
verði í nýjar stórframkvæmdir. „Framkvæmdum
eins og Siglufjarðargöngunum var frestað af þeirri
ástæðu og það verður að vera samkvæmni í því,“
segir utanríkisráðherra.
Fræuppskera
með lakara móti
FRÆUPPSKERA Landgræðslu ríkisins er
nú hafin, en þó fræþroski sé fyrr á ferðinni en
í meðalári er uppskeran með lakara móti, sér-
staklega hjá lúpínu og beringspunti.
Uppskeran veldur að vissu leyti vonbrigð-
um án þess þó að vera miklu lakari en í fyrra,
segir Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri,
en hjá Landgræðslunni höfðu menn vonast
eftir góðri uppskeru eftir gott gróðursumar.
„Af hverju uppskeran á Suðurlandi er léleg
af lúpínu og beringspunti vitum við ekki,
hugsanlega vilja þessar tegundir meira harð-
ræði í veðurfari,“ segir Sveinn. Fræþroski er
um tveimur vikum fyrr í ár en í meðalári.
MARGT var um manninn í Hraunsrétt í Aðaldal í gær og sumir höfðu við orð að fleira fólk
væri en fé. Hraunsréttardagurinn er hátíðisdagur í augum margra og réttin er orðin 170
ára, svo þar liggja margra spor.
Á myndinni má sjá Böðvar Baldursson bónda í Ystahvammi með son sinn, Arnþór Mána,
sem var að fara í sínar fyrstu réttir. Bæði ungir og gamlir voru duglegir að draga féð og
ekki er að sjá annað en að sá litli skemmti sér vel.
Morgunblaðið/Atli Vigfússon
Í fyrsta sinn í réttunum
HAFIN er vinnsla á beitukóngi í Grundarfirði.
Það er útgerðarmaðurinn Ásgeir Valdimarsson
sem hefur í sumar verið að koma upp aðstöðu til
vinnslu á beitukóngi. Vélarnar til vinnslu á
beitukóngnum fékk Ásgeir frá Bretlandi þar
sem þær höfðu verið í notkun. Beitukóngurinn
er veiddur í gildrur sem egndar hafa verið fyrir
hann víðsvegar um Breiðafjörð og agnið er
hakkaður karfi. Að sögn Ásgeirs er hann með
um 2000 gildrur í sjó og um fjórðungur þeirra
dreginn í einu.
„Við erum að vinna þetta 2 – 3 tonn á dag,“
sagði Ásgeir „og miðum við að vinnslu sé lokið
fyrir hádegi.“ Það eru 8 manns sem starfa við
beitukóngsvinnsluna, 5 í landi og 3 á sjó en Ás-
geir gerir út bátinn Garp til beitukóngsveið-
anna. Skelfiskurinn er lausfrystur og síðan er
honum pakkað í öskjur og seldur til Kóreu. Þar
fæst, að sögn Ásgeirs, alveg þokkalegt verð fyr-
ir fiskinn. „En gengið hefur reyndar ekki verið
okkur nógu hagstætt,“ segir Ásgeir að lokum.
Gert er ráð fyrir að vinnslu verði haldið úti fram
í nóvember en hefjist síðan aftur næsta vor.
Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
Konurnar við bandið fylgjast með að fiskurinn sé
hreinn og heill áður en hann fer í frystinguna.
Veiðir
beitukóng í
Breiðafirði
Grundarfirði. Morgunblaðið.
DRAUMUR Kjartans Jakobs
Haukssonar um að róa í kringum
landið varð að engu í bili í gærdag
þegar bát hans hvolfdi yfir hann
og rak upp í brimgarðinn með
þeim afleiðingum að hann er
gjörónýtur. Kjartan slapp frá
óhappinu með skrámur og mar.
Atvikið varð þegar bátur Kjart-
ans lá við akkeri við Rekavík á
norðanverðum Vestfjörðum á
milli klukkan 15 og 16 í gær. „Ég
var að hvíla mig þegar ég sleit
akkerið og þá rak mig á fleygiferð
upp í brimgarðinn. Við átökin við
að reyna að komast þar út braut
ég árarnar. Þá var nú fátt eftir og
ég lenti í brimskafli sem hvolfdi
bátnum yfir mig. Svo skolaði okk-
ur bara í brimið,“ sagði Kjartan í
samtali við Morgunblaðið eftir að
hann kom til Bolungarvíkur í gær.
Kjartan er óslasaður en er
lemstraður og marinn eftir óhapp-
ið. „Ég er með verki í baki og hálsi
og einhverjar skrámur.“
Bátur Kjartans er brotinn og
gjörónýtur eftir að hafa velkst í
briminu. „Ég var í marga klukku-
tíma í dag að reyna að bjarga hon-
um úr briminu en honum hvolfdi
alltaf yfir mig aftur.“
„Ég er rosalega svekktur,
draumurinn er á enda í bili. En ég
er ekki búinn að gefast upp og fer
beint í að smíða annan bát,“ segir
Kjartan, sem segist staðráðinn í
að láta þetta ekki buga sig.
Kjartan lagði af stað í hringferð
sína frá Reykjavík 21. ágúst og
reiknaði með að verða sex vikur á
leiðinni. Hann var búinn að und-
irbúa ferðina í þrjú ár og æfa sig
fyrir hana í tvö ár, en ferð Kjart-
ans var tileinkuð hreyfihömluðum
og ferðalögum þeirra og farin til
styrktar Sjálfsbjörgu.
„Fyrst og fremst er ég fegin að
hann er í lagi,“ segir Björk Árna-
dóttir, kynningar- og félagsmála-
fulltrúi Sjálfsbjargar. „En nú er
ekkert fyrir höndum annað en að
undirbúa næstu ferð.“
Hraðbjörgunarbátur björgun-
arsveitarinnar Ernis frá Bolung-
arvík, Gísli Hjalti, hóf leit í gær
þegar Tilkynningaskyldan hafði
ekki heyrt frá Kjartani á tilskild-
um tíma. Björgunarsveitarmenn
fundu bátinn um kl. 19 í gær.
Morgunblaðið/Þorsteinn J. Tómasson
Kjartan J. Hauksson lagði af stað frá Bolungarvík í fyrradag.
Komst skrámaður í land eftir
að hafa brotið báðar árarnar
Bát Kjartans Haukssonar hvolfdi og rak upp í brimgarðinn
Yfir 4000 manns
í fjarnámi
FJÖLDI þeirra sem stunda fjarnám hefur
fimmfaldast á síðustu fjórum árum. Þetta kom
fram í máli Tómasar Inga Olrich, menntamála-
ráðherra, sem setti viku símenntunar í gær.
Þema viku símenntunar í ár er fjarnám.
Nú stunda alls 4.070 nemendur fjarnám í
landinu og skiptist sá fjöldi jafnt á milli fram-
haldsskóla- og háskólastigsins. Menntamála-
ráðherra sagði þetta vera gífurlegan vöxt.
Stöðugar framfarir í upplýsingatækni yrðu til
þess að fjarnám mundi aukast enn frekar á
næstu árum, ekki síst sem tækifæri fyrir fólk á
landsbyggðinni til að stunda nám í heima-
byggð.
Árleg vika símenntunar stendur yfir frá 7. til
13. september um allt land, en hún er nú haldin
í fjórða sinn.
Flosa var
sleppt í gær
FLOSA Arnórssyni stýrimanni, sem sætti
gæsluvarðhaldi og farbanni í Sameinuðu arab-
ísku furstadæmunum fyrir ólöglegan vopna-
burð 24. apríl, var sleppt úr haldi í gær. Var
hann kominn út á flugvöll í Dubai í gærkvöldi
og beið eftir flugvél til Istanbúl, sem fara átti í
loftið kl 23:30. Frá Istanbúl flýgur Flosi til
Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands.
♦ ♦ ♦
♦ ♦ ♦