Morgunblaðið - 01.02.2004, Síða 12
12 SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
T
ony Blair, forsætisráðherra
Bretlands, er sporléttur
þessa dagana, eftir að þingið
samþykkti naumlega áætlun
ríkisstjórnarinnar um hærri
námsgjöld í háskóla og eftir
að í ljós kom að Hutton-
skýrslan nánast hvítþvoði ríkisstjórnina í
Kelly-málinu, sem snerist um aðdraganda
sjálfsmorðs vopnasérfræðingsins Davids
Kellys. Fréttaskýrendur segja þó að for-
sætisráðherrann sé fjarri því að vera laus úr
öllum vanda. Tök hans á Verkamannaflokkn-
um séu greinilega ekki nógu traust, því í
stað þess að geta stólað á 161 sætis stjórn-
armeirihluta á þinginu hafi námsgjaldamálið
náð fram að ganga með aðeins fimm at-
kvæða mun. Í skoðanakönnun dagblaðsins
Evening Standard á fimmtudag kom í ljós,
að aðeins 36% aðspurðra voru því sammála
að ríkisstjórnin hefði ekki brotið af sér
gagnvart vopnasérfræðingnum David Kelly,
en helmingur var á því máli að svo hefði ver-
ið. Og heil 70% vilja að nú verði rannsakað
sérstaklega hvort ríkisstjórnin lagði í hern-
aðinn gegn Írak á fölskum forsendum.
Fréttaskýrendur segja að nú verði forsætis-
ráðherrann að fara að sýna þjóðinni að hann
sé fús til að einbeita sér að innanríkismálum,
eftir mikla áherslu á alþjóðamál allt frá
hryðjuverkaárásinni á Bandaríkin 11. sept-
ember 2001. Þrátt fyrir sigra vikunnar er
því aðeins stund milli stríða hjá Tony Blair.
Heppinn forsætisráðherra
Hæfileiki Blairs til að sleppa úr erfiðum
aðstæðum er vart mannlegur, að mati Boris
Johnsons, ritstjóra íhaldsblaðsins Spectator,
sem bætti því við að tilraunir til að „negla“
forsætisráðherrann væru eins og reyna að
festa hlaup á vegg með prjóni. Tony Trav-
ers, deildarstjóri stjórnmáladeildar London
School of Economics, segir atburði vikunnar
sýna að forsætisráðherrann búi yfir því sem
öllum stjórnmálamönnum sé mikilvægast:
Heppni. „Það leikur enginn vafi á að Blair er
heppinn og heppnin skýtur upp kollinum
þegar þörf krefur,“ sagði Travers þegar nið-
urstöður atkvæðagreiðslunnar og Hutton-
skýrslunnar lágu fyrir. Þá var einnig haft
eftir honum, að þrátt fyrir sigra vikunnar
yrðu eftirmálin forsætisráðherranum erfið.
Annáluð heppnin eltir Blair ekki á röndum
innan Verkamannaflokksins. Hann leiddi
flokkinn til stórsigurs í kosningunum 1997
og 2001 og flokkurinn hefur stærri meiri-
hluta á breska þinginu en dæmi eru um áð-
ur. Samt skríða mál í gegnum þingið með
naumum meirihluta, eftir að ríkisstjórnin
hefur beitt öllum sínum brögðum til að
hemja liðsmenn sína. Forsætisráðherrann,
sem kom flokknum til valda eftir fjölmörg
mögur ár, þarf sífellt að búa við að ýmsir
þingmenn reyni að grafa undan honum á all-
an hátt og víli ekki fyrir sér að grafa svo
undan trúverðugleika hans að ríkisstjórninni
stafi hætta af.
Andrew Rawnsley, stjórnmálaskrifari
dagblaðsins Guardian og höfundur bókarinn-
ar Servants of the people þar sem fyrsta
kjörtímabil ríkisstjórnar Blairs er rakið, rit-
aði grein í blað sitt sl. sunnudag þar sem
hann veltir fyrir sér hvernig Blair glutraði
niður meirihlutanum. Rawnsley segir að
sumir þingmanna Verkamannaflokksins geti
ekki fyrirgefið Blair hernaðinn í Írak, aðrir
hafi horn í síðu hans þar sem þeir hafi ekki
fengið ráðherrastól og svo séu þeir sem sjái
ofsjónum yfir stórsigrum hans í kosningum.
Hann sé því í raun fórnarlamb eigin vel-
gengni. Tony Travers hjá London School of
Economics bætir um betur og segir suma
þingmenn aldrei geta fyrirgefið forsætisráð-
herranum breyttan kúrs Verkamannaflokks-
ins á undanförnum árum.
Í grein sinni bendir Rawnsley á, að þrátt
fyrir að þingmenn hafi ótal sinnum svikist
undan merkjum og kosið gegn málum sem
ríkisstjórnin hefur viljað koma í gegnum
þingið hafi þeir aldrei þurft að axla ábyrgð á
þeirri hegðan sinni og jafnframt hafi hún
aldrei skaðað ríkisstjórnina og því í raun
engu máli skipt. Margir hafi því alls ekki
áttað sig á því hversu óstýrilátur hópur
þingmenn Verkamannaflokksins sé, því rík-
isstjórnin hafi ávallt haft sitt fram í skjóli
þessa mikla meirihluta. Nokkrir uppreisn-
armenn í hverju máli hafi aldrei breytt
heildarútkomunni.
Á fyrsta kjörtímabili ríkisstjórnarinnar
riðluðust fylkingar þingmanna hennar oftar
en dæmi voru um hjá öðrum meirihluta frá
stríðslokum. Og á öðru kjörtímabili hefur
staðan versnað og næstum 200 af 408 þing-
mönnum Verkamannaflokksins hafa ein-
hvern tímann kosið gegn vilja stjórnarinnar.
Rawnsley segir að nú sé stemmningin slík í
hópi þingmanna að það teljist kostur fremur
en löstur að hafa gengið gegn vilja stjórn-
arinnar. Hann nefnir dæmi af Gwyneth Dun-
woody, formanni samgöngunefndar og fræg-
um uppreisnarsegg, sem taldi sér til tekna á
framboðsfundum fyrir síðustu kosningar að
hafa 27 sinnum kosið andstætt vilja stjórn-
arinnar. Samstarfsmenn hennar í kjördæm-
inu höfðu þær athugasemdir einar fram að
færa, að hún væri ekki nógu uppreisnar-
gjörn.
100 dragbítar í hverju máli
Staðan er auðvitað ekki góð fyrir rík-
isstjórnina, þegar 60 til 70 þingmenn virðast
staðráðnir í að vinna gegn henni í hverju
máli, eins og verið hefur raunin. Þegar þar
við bætast svo kannski 30 þingmenn, sem
eru í raun og sann andvígir því máli sem til
umfjöllunar er, þá er ljóst að ríkisstjórnin
byrjar hvert mál með 100 djöfla að draga.
Andrew Rawnsley segir að vinir forsætis-
ráðherrans reyni að ráða honum heilt og
benda honum á að hann verði að sinna þing-
mönnunum betur. Hann verði að leita álits
þeirra og hlusta á skoðanir þeirra í öllum
málum, ekki eingöngu þegar hann þarf að
knýja mál í gegn með naumum meirihluta.
Þetta rímar ágætlega við það sem aðrir
stjórnmálaskýrendur segja, þ.e. að þing-
menn séu óánægðir með að stefna í öllum
málum sé mótuð af forsætisráðherranum
sjálfum og nánustu samstarfsmönnum hans
og þingmönnum sé svo ætlað að gleypa mál-
in hrá og afgreiða þau. Á þessum nótum rit-
aði m.a. Sunder Katwala, aðalritari Fabian
Society, umræðuvettvangs og hugmynda-
banka með sterk tengsl við Verkamanna-
flokkinn.
Ekki munu allir hugsa svo hlýlega til upp-
reisnarmanna í hópi þingmanna að þeir
mælist eingöngu til að forsætisráðherrann
sýni þeim og skoðunum þeirra meiri virð-
ingu. Rawnsley vísar í ónefndan, fyrrverandi
ráðherra, sem segir að huga verði að keyr-
inu. Það hafi sjaldan verið hafið á loft og
enginn hafi þurft að líða fyrir upphlaup gegn
flokknum.
Innanríkismál hafa setið á hakanum
Í fyrrnefndri grein Sunder Katwala, að-
alritara Fabian Society, í dagblaðinu Guard-
ian á mánudag, veltir hann framtíð forsætis-
ráðherrans fyrir sér. Hann bendir á, að
þegar stórmál þessarar viku séu að baki
hljóti menn að horfa til næstu þingkosninga
að ári. Katwala segir alþjóðleg málefni hafa
ríkt ofar öllu á yfirstandandi kjörtímabili og
nú sé stuðningsmönnum Blairs efst í huga
það sem setið hefur á hakanum. Forsætis-
ráðherrann muni nú vilja taka upp þráðinn
þar sem frá var horfið í umbótastefnu sinni
heima fyrir. Sumir mestu stuðningsmanna
hans, sem hafa áhyggjur af því að varfærin
sameiningarstefna gæti valdið því að kjós-
endur litu svo á að ríkisstjórnin hefði misst
dampinn, telja líka hættu á að klofningur í
röðum þingmanna gæti stöðvað umbótatil-
lögur stjórnarinnar.
Katwala bendir einnig á, að í næstu kosn-
ingum muni Verkamannaflokkurinn að venju
kljást við höfuðandstæðing sinn, Íhalds-
flokkinn, sem muni sem fyrr halda á lofti
stefnu sinni um minni ríkisafskipti. Verka-
mannaflokkurinn verði að geta, á skýran
hátt, sett fram hugmyndir sínar um jákvætt
og hvetjandi hlutverk ríkisins, sem sé und-
irstaða umbótaáætlunar stjórnarinnar. Sex
árum eftir að Verkamannaflokkurinn komst
til valda hafi ríkisstjórninni ekki enn tekist
að koma til skila þeirri ímynd bresks sam-
félags sem hún ætli sér að móta.
Þarf að taka á Íraksmáli
Við vangaveltur um framtíð forsætisráð-
herrans er ekki hægt að horfa framhjá því,
að Íraksstríðið vofir enn yfir honum og virð-
ist lítið lát á deilum um þátttöku Breta í því.
Þrátt fyrir að Hutton lávarður hafi komist
að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að breska
ríkisstjórnin hafi ekki ýkt hættuna af vopn-
um Íraka af ásettu ráði fyrir innrásina í Írak
í mars síðastliðnum stendur eftir, að enn
hafa engin efna- og sýklavopn fundist þar. Í
leiðara dagblaðsins Guardian á mánudag er
bent á, að Blair hafi viðurkennt að hann hafi
trúað þeim upplýsingum sem hann fékk um
slíka vopnaeign Íraka á sínum tíma. Hann
hafi einnig staðfest að engin vopn hafi fund-
ist. Hins vegar hafi hann ekki tengt þessi
tvö atriði og viðurkennt, að upplýsingarnar
hafi verið rangar eða að meira hafi búið að
baki Íraksstríðinu en ætluð efna- og sýkla-
vopnaeign Íraka. Forsætisráðherrann gæti
ekki slegið því á frest öllu lengur.
Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, stendur keikur eftir vikuna
Stund milli stríða
Þrátt fyrir að Tony Blair geti hrósað
sigri í átakamálum vikunnar hefur
hann ærið verk að vinna. Í grein
Ragnhildar Sverrisdóttur kemur
fram að samherjar hans í Verka-
mannaflokknum gætu reynst
honum skeinuhættari en pólitískir
andstæðingar.
AP
Síðasta vika var vika átaka og sigra fyrir Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands. Hutton-skýrslan hvítþvoði ríkisstjórnina í Kelly-málinu og Blair hafði
sigur í atkvæðagreiðslu um námsgjöld í háskóla, en stúdentar mótmæltu fyrir utan þinghúsið og báru grímur með mynd forsætisráðherrans.
AP
Tony Blair ber höfuðið hátt eftir vikuna en þarf
að takast á við ærin verkefni á næstunni.
rsv@mbl.is