Morgunblaðið - 01.02.2004, Page 36

Morgunblaðið - 01.02.2004, Page 36
36 SUNNUDAGUR 1. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ Þ egar hægt verður að fela allan tíma í einu augnabliki, verður rými ónauðsynlegt,“ er haft eftir arkitektinum Martin Pawley í bókinni „Unsettling Cities“ eða „Breytilegar borgir“, sem ritstýrt er af þeim John Allen, Doreen Massey og Michael Pryke, en hún er þróuð sem hluti af kennsluefni í landafræði við „The Open University“ (Opna háskólann) í Bretlandi. Pawley er að sjálfsögðu að vísa til framtíðarinnar í þessum orðum, framtíðar þar sem sumir hafa gert sér í hugarlund að sýndarveruleiki gæti gert alla hreyf- ingu á milli staða ónauðsynlega því borgararnir muni færa það umhverfi sem þeir vilja eða þurfa að nota til sín, í stað þess að færa sig sjálfir úr stað. Í eyrum flestra hljóma slíkar hugmyndir fyrst og fremst eins og vísindaskáldskapur, en samt sem áður eru þær vísbending um hversu víðtækt svið borgarfræði nútímans spanna. Á tímum viðamikilla alþjóðlegra tengsla, ótrú- legra fólksflutninga og hraðvaxandi millilanda- samgangna, eru borgir auðvitað, eins og segir í fyrrnefndri bók, „í síauknum mæli brennipunktur hreyfingar og breytinga. Á margan hátt eru borg- ir suðupottur hins nýja, þar sem menningar- heimar, fólk og umhverfi blandast saman í ýmsum fastmótuðum eða oft á tíðum ómótuðum ferlum“. Hefðinni samkvæmt eru borgir almennt álitnar fremur varanleg fyrirbrigði í umhverfi fólks; ein- ingar sem þróast á mjög löngum tíma, eru til- tölulega stöðugar og fela í sér sögu tiltekins svæð- is. Mikið er til af rannsóknum og heimildum um ris og hnig borga, örlög þeirra í aldanna rás. Einnig hafa verið framkvæmdar rannsóknir á tiltölulega afmörkuðum þáttum í sögu þeirra – nefna má sögu víkinganna í York á Englandi sem dæmi – eða rannsóknir er beinast að einstökum þáttum, svo sem vatnsveitum, samgöngum eða þróun versl- unar. Opnir, síkvikir og blandaðir staðir Þótt nú sé að vakna áhugi á að rannsaka óstöðugleikann og hreyfinguna sem í borgum er falinn, þarf það ekki að vera í mót- sögn við þessar fyrri áherslur – þvert á móti er verið að fylla upp í myndina með því að rannsaka eiginleika sem lítill gaumur hefur verið gefinn fram að þessu, þótt þeir varpi afar áhugaverðu ljósi á okkar nánasta umhverfi, þá félagslegu þætti sem móta það, afstöðu og áhrif okkar sjálfra á þró- un þess. Í aðfararorðum að „Unsettling Cities“ er lögð áhersla á slíka þætti; „á það hvernig borgir eru opnar til allra átta, á stöðu þeirra innan stærra kerfis tengsla“. Litið er svo á að borgir séu „í eðli sínu opnir, síkvikir og blandaðir staðir. Ef borgir samtímans eru sá staður þar sem flest fólk virðist vera, þá er það fyrst og fremst vegna þess að þær eru opnar og alþjóðlegar í eðli sínu. Þær eru tákn- mynd þess sem mörg þjóðfélög hafa orðið og um leið þess sem önnur þjóðfélög vilja verða; staðir þar sem ótrúlegur fjöldi félagslegra sambanda og tengsla skarast, með þeim hætti að það afhjúpar veraldlegt eðli þeirra, alla þá ólíku tíma og blönd- un sem þar hlutgerist, og í kjölfarið tilfinningu fyr- ir þeirri miklu orku og fjölbreytileika sem þar er til staðar.“ Höfundum bókarinnar er ákaflega annt um að ekki sé einungis litið til borga út frá fyrirfram- gefnum forsendum er gera ráð fyrir að þær séu sjálfbærar einingar, stöðugar innan ákveðinnar landfræðilegrar stærðar. Þeir vísa til þess að með því að opna landfræðilegar breytur borga, „sé hægt að komast hjá því að borgum sé sniðinn þröngur stakkur þeirra ósveigjanlegu útlína sem oft eru dregnar í kringum þær, og beina frekar at- hyglinni að gljúpu eðli þeirra. Sú aðferð leiðir at- hyglina að hreyfanleikanum, innbyrðis tengslum og ómótuðum einkennum borgarlífsins.“ Titill bókarinnar, „Unsettling Cities“, vísar auðvitað í þennan farveg; honum er ætlað að afhjúpa að borgir mótast ekki einvörðungu af því sem gerist innan þeirra, heldur ekki síður af atburðum og þróun annarstaðar í heiminum. „Því er einungis hægt að skilja uppbyggingu borga og þróun þeirra í alþjóðlegu og sögulegu samhengi“, segja þau Al- len, Massey og Pryke. Heimsborg í heljargreipum múrsins Líklega eru fáar borg- ir eins vel til þess falln- ar að rannsaka með til- liti til þessara hug- mynda um breytilega og óstöðuga borgar- einingar og Berlín; aldagömul heimsborg, sem í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar var njörvuð niður í heljargreipar múra er skáru á flestar líf- æðar hennar, bæði innbyrðis og út í hinn stóra heim. Með tilliti til þess hversu dramatísk saga Berlínarmúrsins er, múrs sem var ein helsta myndbirting átaka austurs og vesturs, kommún- isma og kapítalisma, liggur auðvitað beinast við að skoða borgina með tilliti til stjórnmálasögunnar. Aðrir þættir, er lúta að innri byggingu borgarinn- ar, félagslegu umhverfi fyrir og eftir fall múrsins, ásamt enduruppbyggingu hennar sem sameining- artákns, eru þó einnig eftirtektarverðir. Allt frá því að viðjar múrsins voru brotnar á bak aftur árið 1989 hefur Berlín verið að þróast með hætti sem enginn gat séð fyrir – og margir telja enn erfitt að sjá fyrir endann á. Vegna múrsins og legu borgarinnar í miðju Austur-Þýskalands voru útlínur hennar á tímum þessara viðja afar „ósveigjanlegar“ – svo vísað sé í tilvitnunina hér að ofan – en með falli múrsins var sjónum alls heims- ins beint að ómótaðri framtíð hennar; hreyfanleik- anum sem í þeirri framtíð gat falist og nauðsyn þess að vekja upp hið síkvika eðli heimsborgarinn- ar á nýjan leik. Flestir sem þekkja til Berlínar vísa til hennar sem staðar þar sem sagan er nánast áþreifanleg. Sá áþreifanleiki verður ekki einungis rakinn til þeirra sögu sem skráð er í borgarsamfélagið vegna stríðsátaka seinni heimsstyrjaldar – fleiri borgir en Berlín urðu illa úti í stríðinu og bera þess enn merki með margvíslegum hætti. Víst má telja að það andrúmsloft mjög óvenjulegra aðstæðna sem ríkti í borginni vegna skiptingar hennar, hafi átt mestan þátt í þessari hlutgervingu sögulegrar tilfinningar, andrúmsloft sem klauf ekki einungis þjóð í tvennt, heldur heiminn allan. Sú saga sem skráð hefur verið um múrinn eftir að hann féll leið- ir í ljós að hvorum megin við hann sem menn stóðu, fundu þeir til samúðar með borginni. Blóð- takan sem skipting borgarinnar var, blasti hvar- vetna við sjónum; við sögufræga staði á borð við Brandenburgarhliðið sem stóð nánast upp við múrinn; í götum á borð við Bernauer-stræti þar sem venjulegir borgarar fóru inn um útidyr sínar austanmegin en gátu á meðan múrinn var að rísa kastað sér út um gluggana út í frelsið vestanmeg- in, í neðanjarðarlestakerfinu þar sem lestar vest- urhlutans fóru einnig um myrkvaðar og lokaðar draugastöðvar austanmegin – svo sem í gegnum hina sögufrægu stöð undir Potzdamer-torgi. Orð rithöfundarins Günter de Bruyn lýsa líklega best þeirri innilokun og kúgun sem íbúar austurhlutans máttu sætta sig við, en til þeirra er vísað í bók þeirra Werners Sikorski og Rainers Laabs, „Checkpoint Charlie and the Wall, a Divided People Rebel“ eða „Eftirlitsstöðin Charlie og múr- inn, uppreisn sundraðrar þjóðar“: „[...] Og þó mað- ur heyrði á fimm mínútna fresti hvernig neðan- jarðarlestarnar skröltu undir gangstéttinni frá vestri til vesturs,“ segir de Bruyn, „varð maður fyrr eða síðar að hætta að hugsa: Ó, ef maður gæti nú haldið út í buskann“. Af þessum orðum má ráða að Berlín varð á þess- um tíma táknmynd átaka sem í fyrstu höfðu ótrú- legar sviptingar í för með sér í daglegu lífi borg- aranna. En þegar frá leið var óhjákvæmilegt að laga borgarlífið beggja vegna við múrinn að þess- um óvenjulegu kringumstæðum. Þar sem lega múrsins gat að sjálfsögðu ekki lotið neinum rök- réttum lögmálum varð múrinn að ótrúlega mót- andi afli, hin gamla miðborg var nánast ónýt og það líf sem þar hafði verið leitaði annað. Innri bygging borgarinnar virkaði ekki lengur og nýir kjarnar mynduðust við uppbyggingu eftirstríðs- áranna. Austur-Berlínarbúar unnu í sjálfboða- vinnu eftir hefðbundinn vinnudag í þágu ríkisins við að byggja stórhýsi fyrir alþýðuna við Karl- Marx-Allee, en vestanmegin var hafist við upp- byggingu er litaðist af vestrænum gildum. Eftir fall múrsins Múrinn stóð í 28 ár, 2 mánuði og 27 daga. Fall hans var með þeim hætti að nánast á örfáum sólarhringum breyttist Berlín úr niður- njörvaðri borg er lítið gat þróast, í óreiðufullan stað þar sem endurskipuleggja þurfti allar hefð- bundnar breytur borgarskipulags til þess að borg- in mætti enn á ný verða sá síkviki suðupottur sem hún var – og er, nú tæpum fimmtán árum seinna. Eins og nærri má geta gerðist það þó ekki átaka- laust, en ótrúlega miklum fjármunum og hugviti hefur verið varið í það að byggja upp þá Berlín sem nú blasir við. Vegna þess hversu illa borgin varð úti í kalda stríðinu eru tengsl borgarinnar við erfiða fortíð síðari heimsstyrjaldarinnar mun aug- ljósari en víða í Evrópu og Þjóðverjar, ekki síst Berlínarbúar, gerðu sér grein fyrir því að slíka for- tíð mætti ekki þurrka út, til þess var hún of sárs- aukafull. Í nýju skipulagi og endurbyggingu borg- arinnar skipta tengsl fortíðar og framtíðar því meira máli en ella og markvisst hefur verið unnið að því að opna borgina fyrir utanaðkomandi áhrif- um og þá ekki síður að „græða sárin“. 30. janúar 1994: „Um þessa helgi fara fram prófkjör á vegum Sjálfstæðisflokksins í fimm sveitarfélögum, þ.e. Reykjavík, Hafnarfirði, Ísa- firði, Akranesi og í Njarð- víkum. Gera má ráð fyrir, að þúsundir kjósenda taki þátt í þessum prófkjörum og þar með í vali frambjóð- enda á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í þess- um sveitarfélögum. Athyglin hefur fyrst og fremst beinzt að próf- kjörsbaráttunni í Reykjavík og að nokkru leyti í Hafn- arfirði. Átök hafa oft verið hörð á milli frambjóðenda í prófkjörum Sjálfstæð- ismanna eins og raunar í prófkjörum á vegum stjórn- málaflokka yfirleitt. Að þessu sinni má segja, að prófkjörsbaráttan hafi farið nokkuð rólega fram. Það er styrkur fyrir Sjálfstæð- isflokkinn vegna þess, að oft hafa atvik í prófkjörsbar- áttu valdið sárindum, sem seint hafa gróið.“ . . . . . . . . . . 1. febrúar 1984: „Ronald Reagan, Bandaríkjaforseti, tilkynnti um helgina að hann gæfi kost á sér til endurkjörs í forsetakosn- ingunum sem fram fara næsta haust. Jafnframt var frá því skýrt að forsetinn nyti meira álits og trausts heima fyrir en nokkur and- stæðinga hans. Í flokki demókrata hafa menn að vísu ekki enn gert það upp við sig, hver verður mót- frambjóðandi Reagans. Eins og málum er nú háttað er Walter Mondale, fyrrum varaforseti Jimmy Carters, talinn sigurstranglegastur. Mondale sýnist lítt til þess búinn að ná meirihlutafylgi á móti Reagan þótt honum hafi tekist að afla sér stuðn- ings þeirra skipulögðu hópa sem taldir eru einna öfl- ugastir innan Demókrata- flokksins.“ Fory s tugre inar Morgunb laðs ins Hallgrímur B. Geirsson. Styrmir Gunnarsson. Framkvæmdastjóri: Ritstjóri: STOFNAÐ 1913 Útgefandi: Árvakur hf., Reykjavík. Aðstoðarritstjórar: Karl Blöndal, Ólafur Þ. Stephensen. Fréttaritstjóri: Björn Vignir Sigurpálsson. „AÐ ELSKA, BYGGJA OG TREYSTA Á LANDIГ Hundrað ár eru í dag liðin frá þvíÍsland fékk heimastjórn.Heimastjórnin var mikilvæg- ur áfangi í baráttunni fyrir fullveldi Íslands, sem fékkst 1918. Fyrsti ráð- herra heimastjórnarinnar var þjóð- skáldið og glæsimennið Hannes Haf- stein, óneitanlega verðugur fulltrúi þjóðarinnar, sem nú tók flest sín mál í eigin hendur. Í aldamótakvæði sínu, sem birtist í ársbyrjun 1901 og kalla má öðrum þræði stefnuskrá Hannesar í þjóðmál- um, má jafnframt sjá harla góða forspá um þróun mála á tuttugustu öldinni: Sú kemur tíð, er upp af alda hvarfi upp rís þú, Frón, og gengur frjálst að arfi. Öflin þín huldu geysast sterk að starfi, steinurðir skreytir aftur gróðrar farfi. Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa, sveitirnar fyllast, akrar hylja móa, brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa, menningin vex í lundi nýrra skóga. Sé ég í anda knörr og vagna knúða krafti, sem vannst úr fossa þinna skrúða, stritandi vélar, starfsmenn glaða og prúða, stjórnfrjálsa þjóð, með verzlun eigin búða. Hér sér Hannes fyrir sér fullt sjálf- stæði Íslands, þann árangur, sem náðst hefur í landgræðslu og skóg- rækt, virkjun fallvatnanna, iðn- og vél- væðingu, innlenda verzlun, stórbættar samgöngur - allt gekk þetta eftir nema kannski að sveitirnar fylltust ekki, heldur hafði þéttbýlið vinninginn. Þegar höfð er í huga staða íslenzku þjóðarinnar við upphaf 20. aldar og nú, í upphafi þeirrar 21., má sannarlega taka undir með Hannesi í lokaerindi sama kvæðis: Þá mun sá guð, sem veitti frægð til forna, fósturjörð vora reisa endurborna. Þá munu bætast harmasár þess horfna, hugsjónir rætast. Þá mun aftur morgna. Þótt velta megi fyrir sér orsaka- tengslum þjóðfrelsis og efnahags- framfara - hvort sé forsenda hins - eins og þeir Guðmundur Hálfdanarson og Guðmundur Jónsson gera í skrifum sínum í heimastjórnarblaði Morgun- blaðsins í dag, fer ekki á milli mála að heimastjórnarárin voru tími bjartsýni, framkvæmda og mikilla framfara, hvort heldur var í efnahags-, menning- ar- eða stjórnmálalífi þjóðarinnar. Miklir áfangar náðust í því að af- nema aldagamalt misrétti þegnanna; konur fengu kosningarétt, sem um leið varð að mestu leyti almennur, og Hannes Hafstein beitti sér að hvatn- ingu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur fyrir merkri löggjöf, sem vakti athygli víða um Vesturlönd, um jafnan rétt kynjanna til menntunar og opinberra embætta. Á næstu árum eru því all- mörg aldarafmæli áfanga í jafnréttis- baráttunni framundan og mætti gjarn- an nota þau tímamót til umræðna um það hvort við höfum uppskorið eins og til var sáð á heimastjórnarárunum hvað jafnrétti kynjanna varðar. Með heimastjórninni komst jafn- framt á þingræði á Íslandi; síðan þá hefur stjórn landsins verið ábyrg gagnvart þjóðkjörnu þingi, þótt fram- kvæmd þingræðisins væri raunar óljós fyrstu árin, eins og fram kemur í grein Gunnars Helga Kristinssonar í auka- blaði Morgunblaðsins. Heimastjórnar- afmælið er þess vegna gott tilefni um- ræðna um þingræðið og stöðu þess og hvort Alþingi hafi þann sess og þá stöðu gagnvart framkvæmdavaldinu, sem því ber. Morgunblaðið hefur lengi haldið því fram að svo sé ekki, og þing- ið eigi að hafa frumkvæði að því að styrkja stöðu sína gagnvart ríkis- stjórninni og skrifstofuveldi hennar - og reyndar líka gagnvart sérfræðinga- veldi fyrirtækja og hagsmunasam- taka. Margt hefur breytzt í íslenzku þjóð- lífi á hundrað árum. Þjóðin ber annan svip að flestu leyti, meðal annars vegna þess að inn í hana blandast í vaxandi mæli nýir Íslendingar, sem eiga uppruna sinn í fjarlægum lönd- um. Samfélagið er jafnframt allt opn- ara fyrir alþjóðlegum straumum og stefnum, verkaskipting hefur vaxið og Íslendingar eru margfalt ólíkari inn- byrðis en í byrjun tuttugustu aldar. En eitt eiga þeir sameiginlegt, sem kalla sig Íslendinga, og það er að öll byggjum við þetta sama land, sem er í senn harðbýlt og fráhrindandi, gjöfult og töfrandi - en hvað sem því líður svo fullt af tækifærum. Aldamótadraumur Hannesar Hafstein er rúmri öld síðar ekki að fullu orðinn að veruleika; við getum enn gert betur. Þess vegna á það enn við, sem segir í aldamótaljóði fyrsta ráðherrans: Starfið er margt, en eitt er bræðrabandið, boðorðið, hvar sem þér í fylking standið, hvernig sem stríðið þá og þá er blandið, það er: Að elska, byggja og treysta á landið.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.