Morgunblaðið - 17.05.2004, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 17.05.2004, Blaðsíða 25
MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 17. MAÍ 2004 25 maí síðastliðinn til að kveðja hana í síðasta skipti. Ég hef reynt að hugsa einungis um hversu gott það er fyrir þig, amma mín, að vera loksins komin til afa. Þú og afi vor- uð svo stór partur af litlu fjölskyld- unni okkar. Mín síðustu orð til ömmu minnar voru: „Amma mín, af öllu mínu hjarta elska ég þig, ég mun sakna þín, og allt það sem þú hefur gert fyrir mig mun ég aldrei geta launað þér.“ Ég kvaddi hana svo með kossi og táraflóði. Ekkert getur jafnast á við þá ást sem ég ber til ömmu minnar og hversu gott það var að geta kvatt hana með orðum. Fyrir nokkrum árum dreymdi mig hræðilegan draum, að hún amma mín væri dáin. Ég man ennþá sársaukann þegar ég vaknaði grátklökkur og hversu létt mér var þegar ég uppgötvaði að þetta hafði bara verið draumur. En nú er hún amma mín farin og eftir skilur hún minningar sem snerta mig djúpt þegar ég hugsa til hennar, því amma var mér miklu meira en amma, enda bjó ég hjá henni um tíma eftir að afi dó og er ég henni mjög þakklátur fyrir þau ár. Ég svaf í rúminu hans afa og hún hlúði að mér á þann hátt sem ég mun aldrei gleyma. Á morgnana vaknaði ég upp við ilminn af grautnum og smurt brauð beið mín á fati. Þegar ég kom heim á kvöldin þá var hún búin að setja á disk tvær smurðar brauðsneiðar og sneið af sinni margumtöluðu brúnköku. Tómt glas var við hliðina á disknum og ef hún var vakandi þá kom hún fram og hellti mjólk í glasið. Hún settist hjá mér og vildi vita allt um það hvern- ig dagurinn minn hafði verið. Hún hlustaði á mig af einlægni og sagði alltaf réttu orðin til að láta manni líða vel. Amma var líka glettin, kát og sagði skemmtilega frá, ég beið því spenntur á kvöldin þegar við fórum að sofa, eftir því að fá að heyra sög- ur. Oftast sofnaði ég áður en amma kláraði sögurnar. Það dýrmætasta af öllu sem amma gaf mér var þó kærleikurinn og hlýjan frá henni sem umvafði mig og alla þá sem hana þekktu. Fjölskyldan var henni afar kær og hún var alltaf stolt af sínum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, þau voru henn- ar guðsgjöf. Amma hafði mikil áhrif á uppeldisár mín, hún var mér alltaf sá klettur sem ég gat treyst á og hún kom fram við fólk af miklum heiðarleika, dæmdi ekki aðra en var jafnframt stolt og auðsærð ef henni fannst hún beitt ranglæti. Reiðari varð hún þó ef því var beitt gegn einhverjum sem henni þótti vænt um. Alltaf stóð hún vörð um þá sem minna máttu sín. Virðing hennar var einlæg gagnvart öllum guðs börnum, lífinu og ástinni. Þegar ég bjó hjá henni og einhver af mínum vinum kom í heimsókn, þá var það öruggt að sá aðili fékk prjónaða húfu, vettlinga eða sokka. Sumar vinkonur mínar sem ömmu þótti reglulega vænt um fengu dúka. All- ir fengu samt hina rómuðu brún- köku og að kynnast ömmu. Allar mínar minningar um ömmu mundu fylla heila bók, stundir okkar saman eru mér kærar og verða þær alltaf stór partur af mínu lífi. Ég þakka guði fyrir að hafa gefið mér þær stundir sem ég átti með ömmu og afa, þau gáfu mér meira en ást og umhyggju, þau gáfu mér hvort ann- að. Ég mun sakna þín, amma mín, eins og ég hef saknað afa. Hjarta mitt mun jafna sig með hjálp góðra minninga um ykkur. Þinn sonarsonur Sigurður Karl. Á lífsleiðinni hittum við marga einstaklinga sem móta líf okkar. Hverjum við veljumst með er ekki í okkar höndum. Mitt lán var að tengjast þér og fá leiðsögn þína í líf- inu. Þeim kærleik, manngæsku og trúrækni sem þú bjóst yfir miðlaðir þú til okkar barnanna á hverjum degi. Að rækta trúna og virða ein- staklinginn var mikilvægt í daglegu lífi. Þú hafðir ákveðnar skoðanir, en skoðanir sem tröðkuðu ekki á öðrum heldur leiðbeindu þeim sem á þurftu að halda. Þú varst kjarnakona og strax ung að árum fórstu utan í nám. Það nám nýttist þér svo sem kennara til margra ára. Námsmeyj- ar þínar voru elskar að þér og héldu margar við þig sambandi alla tíð en það segir mikið um persónuna bak við kennarann. Þegar barnabörnin fóru að raðast niður varst þú löngu hætt að vinna og hafðir nægan tíma til að sinna okkur. Faðmur þinn var alltaf út- breiddur jafnt nótt sem dag, enda eyddum við löngum stundum og mörgum nóttum á heimili ykkar afa. Æskuminningar mínar tengjast þér allar á einhvern hátt. Öll jólin, af- mælin, sunnudagskaffin eða rólegar samverustundir eru aðeins brot af minningunum. Þér féll aldrei verk úr hendi. Það var alltaf kaffi og með því á borðinu, saumavélin í gangi og gestagangur mikill, þér var alltaf umhugað um aðra. Þessir þurftu að fá nýja vettlinga eða sokka, þessir þurftu að fá rækilega gott kaffi, aðr- ir bara gott spjall. Það var sama hver það var, þú gerðir aldrei upp á milli. Þegar við systkinin áttum af- mæli fengum við öll gjafir þó aðeins ætti eitt afmæli í einu. Þér tókst alltaf með ótrúlegri hæfni að miðla til okkar jafnt og gefa hverju og einu sinn sérstaka tíma. Þú ert fyr- irmynd mín í lífinu og ég fæ seint þakkað það sem þú kenndir mér. Þótt ég sé döpur í hjarta er ég líka fegin yfir því að loksins sértu búin að fá hvíldina. Þú lifðir fleiri en þú kærðir þig um en trúin kenndi þér að dauðann þyrftir þú ekki að óttast, þinn tími var kominn. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tæki- færi til að kveðja þig, sjá fallega slétta andlitið þitt í síðasta sinn og strjúka hlýja hönd þína. Um þó nokkurn tíma hafði ég óttast að nú væri komið að því að kveðja þig. Ég hef rifjað upp samverustundir okk- ar á árum áður í huganum og ætlað mér að setja þær niður á blað. Það er svo margt sem mig langar að segja, svo margar sögurnar sem ég vil deila með öðrum því ég er svo stolt af því að hafa átt þig sem ömmu. En svo þegar komið er að því vil ég bara fá að syrgja og geyma sögurnar þar til seinna. Ást þín á barnabörnunum var skilyrð- islaus og óteljandi faðmlögin, koss- arnir og hlý orðin sem féllu í okkar garð. Ég er þakklát fyrir þann tíma sem ég átti með þér, ég er rík af fal- legum minningum og geymi þær næst hjarta mínu um ókomna tíð. Ég vil þakka starfsstúlkum á Hlíð fyrir góða umönnun síðustu ára og sérstaklega mömmu sem hugsaði svo vel um þig. Elsku amma, ég kveð þig með bæn sem þú kenndir mér sem barni: Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni, sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni. (Sig. Jónsson frá Presthólum.) Sofðu rótt, elsku amma. Ástar- kveðja. Þín Dagný. Elsku amma mín, ert þú nú farin á brott frá okkur til annarra ástvina á himnum. Það hefur verið ósk þín í mörg ár að fá að fara til afa og systkina þinna sem öll eru farin. Það hefur verið sönn ánægja að hafa átt þig sem ömmu í tuttugu og þrjú bráðum fjögur ár og mun ég sakna þín afskaplega mikið. Það verður erfitt fyrst um sinn að vita ekki til þess að þú sért ekki á þínum venjulega stað þar sem maður gat alltaf leitað ráða og huggunar þegar þannig bar stóð á. Mér eru minn- isstæðir margir hlutir í fari þínu sem og kökubakstur þinn, þar fórst þú venjulega fram úr færustu bök- urum. Aðra eins súkkulaðiköku á ég aldrei aftur eftir að bragða og tala meira að segja aldagamlir vinir mínir, sem komu oft með mér í heimsókn til þín, um þessa köku þótt þeir hafi ekki bragðað hana hjá þér í mörg ár. Þú varst ekki bara góð í köku- gerðarlistinni heldur tókstu einnig öllum öðrum fram þegar kom að saumaskap. Menntun þinni í sauma- skap gastu þú svo miðlað til annarra ungmeyja þegar þú kenndir við kvennaskólann á Blönduósi og svo síðar meir við skólann á Löngumýri í Skagafirði. Ekki er nú skrýtið að þessir staðir urðu fyrir valinu hjá þér þegar þú ákvaðst að gerast saumakennari enda borin og barn- fædd í Skagafirði eða nánar tiltekið í Brekkukoti í Hjaltadal. Ástúðin hefur alltaf verið rík hjá þér í garð okkar barnabarna þinna og man ég þegar ég var smá polli að maður fór aldrei nokkurn tímann svangur út úr Höfðahlíð 7. Þvílík umhyggja fyrir öðrum er einstök og aldrei nokkurn tímann tókstu einn fram yfir annan, allir fengu jafn- stóran bita af kökunni hvort sem þeir voru stórir eða litlir. Mér er skapi næst, amma mín, að líkja þér við móður Teresu. Allt fram á sein- asta dag var umhyggja þín slík að þú spurðir Pálma son þinn hvort hann væri búinn að fá að borða, annað eins er erfitt að finna. Sjálfur mun ég reyna eftir fremsta megni að fylgja í fótspor þín hvað þetta varðar en er ég afskaplega hræddur um að eldamennska mín sé ekki upp á marga fiska. Að lokum vil ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína og ég veit að þið afi fylgist grannt með okkur og haldið vernd- arhendi yfir okkur sem enn göngum á yfirborði jarðarinnar. Kveð ég þig nú og bið Guð að geyma þig. Hvíl í friði. Þinn auðmjúki ömmudrengur Haukur Logi Jóhannsson. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi hveim sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Nafna mín og móðursystir Karlotta hefur kvatt okkur tæplega 95 ára gömul. Hún náði hæstum aldri systkinanna frá Brekkukoti og kveður síðust. Ótal myndir koma fram í hugann þegar ég minnist hennar frænku minnar, minningar tengdar æsku og þroskaárum. Ekki kom annað til tals þegar mér var gefið nafn en Karlottunafnið fylgdi ömmunafni mínu. Ekki var ég alltaf ánægð með nafngiftina og fannst sem barni og unglingi að annað nafnið hefði verið fullnóg. Seinna þegar ég komst til nokkurs þroska sættist ég við nöfnin, enda varla annað hægt, því báðar voru þær baráttukonur og góðar fyrirmyndir nöfnur mínar og þeim vildi ég gjarnan líkjast. Karlotta naut þess að alast upp í stórum systkinahóp. Foreldrarnir voru efnalitlir bændur eins og þá var títt um alþýðufólk. Börnin lærðu að vinna, öll voru þau harð- dugleg, menntuðust að þeirra tíma sið og komust vel til manns. Systk- inin frá Brekkukoti voru afar sam- rýnd, glaðsinna og sáu húmorinn í daglega lífinu. Mér er í fersku minni þegar börnin hennar ömmu komu í heimsókn í Ólafsfjörðinn, en þar bjó amma mín í skjóli foreldra minna Júlíönu og Páls, eftir að hún missti sinn mann og hætti búskap. Það var alltaf hátíð þegar von var á Karlottu eða einhverju hinna systkinanna. Þá var slegið til veislu, málin rædd og sagðar sögur, hlegið og haft gaman af lífinu. Ófáar sögur heyrðum við systkinin af prakkarastrikum sem framin voru í Brekkukoti, saklaust grín sem litaði hversdaginn og gerði lífið að einu ævintýri í minningunni. Hápunktur heimsókna Karlottu var þegar hurðinni að litlu stofunni var lokað og mamma tilkynnti okkur að nú væru þau að ræða pólitík pabbi og Karlotta og við mættum alls ekki trufla. Eftir þunga umræðnanna hlutu þau að vera að leysa heims- vandamálin, pabbi heiðblár og Karlotta fagurgræn. Karlotta var mikil hannyrðakona. Hún fór til náms til Danmerkur og lærði vefnað, var síðan kennari á húsmæðraskólunum á Blönduósi og Löngumýri. Kennslan var hennar aðalstarf til margra ára, bar hún umhyggju fyrir nemendum sínum og bast mörgum þeirra vináttu- og tryggðaböndum. Þegar Karlotta var við nám í Danmörku voru efnin ekki mikil, engir digrir sjóðir í að sækja, foreldrarnir höfðu nóg með sig. Móðir mín hafði lært fatasaum, vann við þá iðn og studdi systur sína fjárhagslega til náms. Ekki var eins auðvelt og nú að senda peninga milli landa og gat það tekið langan tíma. Fróðlegt er að lesa bréf, sem á milli systranna fóru á þessum tíma, en í einu þeirra kemur fram að Karlotta, allslaus af aurum, er farin að bíða eftir bréfi og vænt- anlegum peningum. Líka kemur fram að Steingrímur Steinþórsson, þá fyrrverandi skólastjóri á Hólum og ráðherra, er þeim systrum innan handar hvað varðar peningasend- ingar milli landanna. Fyrir þennan greiða fannst Karlottu hún standa í ævarandi þakkarskuld við móður mína og var sífellt að launa greiðann. Nutum við systkinin elsku hennar ríkulega. Þegar við fórum að heiman eitt af öðru til náms og vinnu stóð heimili þeirra Sigurðar á Bjarmastígnum okkur alltaf opið, sama hvort dvalið var nokkra daga eða heila vetur. Hún bar mikla umhyggju fyrir systkinabörnum sínum og vildi okk- ur allt hið besta. Fyrir allt þetta og miklu meira þakka ég frænku minni og nöfnu. Jóhanni Karli, Pálma og fjöl- skyldum eru sendar samúðarkveðj- ur. Hvíl í friði, frænka mín og nafna. Birgitta Karlotta. Karlotta móðursystir mín er látin 94 ára að aldri. Hún var tilbúin fyrir nokkru að kveðja þennan heim, til að mæta öllum þeim sem voru henni kærir. Karlotta átti tvö hálfsystkin sér eldri, Ásmund sem drukknaði 21 árs gamall og Ingibjörgu móður mína, en hún ólst upp hjá Birgittu ömmu og Jóhanni seinni manni hennar. Birgitta og Jóhann eignuðust fimm börn og var Karlotta elst þeirra. Öll systkinin eru nú látin. Það var að- eins fjögurra ára aldursmunur á móður minni og Karlottu og voru þær alla tíð mjög samrýndar og ákaflega kært á milli þeirra og líka hinna systkinanna sem seinna fæddust. Alla tíð mjög sterk vin- áttubönd milli allra systkinanna og fjölskyldna þeirra. Mig langar til að minnast Karlottu í fáeinum orðum. Karlotta var hægát kona, vönduð til orðs og æðis, vel lesin og fróð um marga hluti. Hún var handavinnukona mik- il, reyndar má segja að það léki allt í höndunum á henni. Hún saumaði mikið, t.d. íslenska kvenþjóðbúning- inn oft og mörgum sinnum, hún heklaði og prjónaði t.d.dúka úr fínu garni, hún gimbaði, orkeraði, saum- aði hvítsaum o.m.fl. Hennar aðalstarf í 13 ár var þó vefnaðurinn sem hún kenndi náms- meyjum í Kvennaskólanum á Blönduósi. Hún mun hafa verið 26 ára þegar hún byrjaði að kenna þar en áður dvaldi hún í Danmörku þar sem hún lærði vefnað. Hún var ákaflega farsæl og vel látin í þessu starfi sem og annars staðar. Sem barn minnist ég Karlottu sem Köllu frænku og mun hún al- mennt hafa verið kölluð Kalla þá. Mér er minnisstætt þegar móðir mín sagði mér að Kalla frænka héti Karlotta og vildi láta kalla sig það hér eftir og fannst mér þá eins og ég hefði misst eitthvað mikilvægt. Þetta fór þó smám saman í vana og frænkan breyttist ekkert. Veturinn 1949–50 var ég við nám á Kvennaskólanum á Blönduósi en það var síðasti veturinn sem Karlotta kenndi þar og fékk ég því að njóta tilsagnar hennar þar. Frá janúar og til vors 1952 lágu leiðir okkar aftur saman þá á Bændaskólanum á Hólum í Hjalta- dal. Karlotta var þá gift Sigurði Karlssyni sem var bústjóri þar og Karlotta ráðskona við búið. Jóhann Karl var þá á fyrsta ári og var ég því þarna til að létta undir með þvotta og önnur innanhússtörf. Þetta var svona lítil fjölskylda, nokkrir menn starfandi við búið og Pálmi Pétursson 12 ára kjörsonur Karlottu. Aldrei minnist ég þess að Karlotta skipti skapi eða væri með einhver læti. Alltaf sama hægláta prúða konan. Um eitt veit ég þó sem hún var ekki sátt við í lífinu. Það var þegar þau hjónin eignuðust dóttur sem fæddist andvana. Það var mikil sorg sem hún átti erfitt með að yfirvinna þótt ekki væri hún að tala mikið um þann þátt í lífi sínu. Ég kveð nú frænku mína með þakklæti fyrir allt sem hún hefur gert fyrir mig og sendi samúðar- kveðjur til Jóhanns Karls og fjöl- skyldu, til Pálma og fjölskyldu, til Gunnhildar og alls frændfólksins. Ása Marinósdóttir. Karlottu Jóhannsdóttur var margt til lista lagt en hún fæddist í fátækt og umhverfi sem ekki var hliðhollt ungum konum sem þráðu að ganga menntaveginn. Ungri að árum tókst henni samt að ganga þann veg til Danmerkur. Það var hart í ári þá og enginn Lánasjóður. Er heim kom gerðist hún brátt kennari við húsmæðraskólann á Blönduósi. Einhvern veginn hefur tilviljun ráðið því að hin síðari ár hef ég kynnst nokkrum námsmeyja Karlottu og allar ljóma þær upp við það eitt að heyra nafnið hennar. Sjálf ljómaði Karlotta í hvert sinn er hún minntist nemenda sinna og kennsluáranna á Blönduósi. Hún var ætíð í hjarta sínu kennari. Um þriggja ára skeið var ég í fæði og húsnæði hjá Karlottu frænku, fetaði þar í spor eldri systur. Um tíma vorum við tveir bræðurnir og á eftir okkur fylgdi yngri systir. Þessa nut- um við gegn afar vægu gjaldi og þegar reynt var að hækka greiðslur mátti Karlotta ekki heyra á það minnst. Hún kvaðst standa í svo mikilli skuld við systur sína, móður okkar. Vísaði hún þar til aura sem henni bárust til Danmerkur og til ævikvöldsins sem Birgitta amma naut heima í Ólafsfirði. Mér er til efs að nokkur „skuld“ hafi verið jafn rækilega greidd. Hverskyns vefnaður og hannyrðir léku í höndum Karlottu, hún lék á orgel og söng, hún setti saman kvæði, hún hélt dönskunni sinni við, hún málaði myndir, hún fylgdist vel með þjóðmálum. Hún Karlotta var afar fjölhæf, mikil og góð mann- eskja. Mig langar til að minnast Karlottu með þessum fátæklegu orðum um leið og ég votta Pálma, Jóhanni Karli og öðrum aðstand- endum samúð mína. Frænku minn- ar get ég ekki minnst án þess að þakka hennar fyrrverandi tengda- dóttur, Gunnhildi Þórhallsdóttur og börnum hennar og Jóhanns Karls, fyrir einstaka umhyggju í garð Karlottu. Blessuð sé minning henn- ar. Hreinn Pálsson. Nú ertu farin, elsku amma mín, og mig langar til að kveðja þig með nokkrum orðum. Ég veit að þú hef- ur átt langa og góða ævi og varst tilbúin til að fara til afa eins og þú sagðir oft sjálf, en ég á erfitt með að vera ekki sorgmæddur. Engan hef ég sárara kvatt en þig, elsku amma mín. Þú og afi voruð mér alltaf stoð og stytta í æsku, góðar fyrirmyndir og í raun er erfitt fyrir mig að lýsa með orðum þeim áhrifum sem þið hafið haft á mig í gegnum árin. Það sem þú og afi gáfuð mér og systk- inum mínum í æsku er mér ómet- anlegt og mun fylgja mér alla ævi. Af þér lærði ég góðar dyggðir og lífsgildi, þú kenndir mér réttsýni, þú gafst mér umhyggju og sýndir mér skilyrðislausa óeigingirni. Þú varst alltaf hvetjandi og gladdist mikið yfir öllum sigrum okkar systkinanna, sama hversu litlir eða stórir þeir voru. Þú passaðir alltaf að gera aldrei upp á milli okkar og komst alltaf fram við alla með sömu hjartans umhyggjunni. Þið afi eruð og verðið alltaf mínar stóru fyr- irmyndir. Vertu blessuð, elsku amma mín, ég veit að þú ert komin á góðan stað núna við hlið afa. Ég elska þig og mun alltaf geyma minningarnar um ykkur afa í hjarta mínu. Takk fyrir allt. Þórhallur Ingi Jóhannsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.