Morgunblaðið - 20.05.2004, Qupperneq 10
FRÉTTIR
10 FIMMTUDAGUR 20. MAÍ 2004 MORGUNBLAÐIÐ
VIÐ upphaf þriðju og síðustu um-
ræðu um fjölmiðlafrumvarpið á Al-
þingi sagði Bjarni Benediktsson,
þingmaður Sjálfstæðisflokksins og
formaður allsherjarnefndar, að kom-
ið væri til móts við fjölmargar at-
hugasemdir sem settar hefðu verið
fram um fyrirhugaða lagasetningu á
undanförnum dögum. Með breyting-
artillögum sé leitast við að raska ekki
rekstrargrundvelli fjölmiðlafyrir-
tækja meira en eðlilegt geti talist í
þágu markmiðsins um fjölbreytta
fjölmiðlum. Þá sé komið til móts við
ýtrustu sjónarmið um meðalhóf með
ríflegum aðlögunartíma og öryggis
gætt með tilliti til verndar eigna- og
atvinnuréttinda, sem varin séu af 72.
gr. stjórnarskrárinnar.
Bryndís Hlöðversdóttir, þingmað-
ur Samfylkingarinnar, mælti fyrir
framhaldsnefndaráliti minnihluta
allsherjarnefndar. Sagði hún að vand-
ræðagangur með frumvarpið hefði
haldið áfram milli annarrar og þriðju
umræðu. Lagfæringar á því breyti
ekki þeirri skoðun minnihluta alls-
herjarnefndar og stjórnarandstöð-
unnar að málið sé ónýtt og því verði
ekki bjargað.
Rök sem koma fram í nefndaráliti
minnihlutans eiga enn við að mati
Bryndísar og ef eitthvað er hafi kom-
ið betur í ljós að frumvarpið sé sér-
tækt og beint gegn einu fyrirtæki.
Það muni ganga þvert gegn markmiði
sínu um fjölbreytni í fjölmiðlun. „Lík-
ur eru á að það stangist enn á við
stjórnarskrá lýðveldisins og það tek-
ur á engan hátt tillit til EES-réttar,“
sagði hún og taldi frumvarpið ganga
lengra en nauðsynlegt sé. Það geti
reynst samkeppnishamlandi og dreg-
ið úr aðgangi fjölmiðla að fjármagni.
Andstæðingar í Baugsliði
Bryndís sagði ennfremur að stjórn-
arliðar hefðu sýnt það að undirliggj-
andi markmið frumvarpsins væri að
þagga niður óþægilega umræðu til-
tekinna fjölmiðla sem skaprauni
stjórnvöldum með umfjöllun sinni, og
sagðist hún vitna þar til ummæla
dómsmálaráðherra. „Og þeir sem
kaupa ekki þetta frumvarp, sem eru
ansi margir virðulegi forseti, þeir eru
í Baugsliðinu. Þeir eru að ganga er-
inda auðhringsins sem Davíð Odds-
son, riddari réttlætis og lýðræðis, er í
hatrammri baráttu gegn,“ hélt hún
áfram og sagði alla stjórnarandstöð-
una vera í því liði, lungi þjóðarinnar,
eigendur Morgunblaðsins, stór hluti
lögfræðistéttar, stéttarfélög og sam-
tök þeirra, Samkeppnisstofnun,
Verslunarráð og fleiri. Nú síðast teld-
ist forseti lýðveldisins til þess liðs.
Vísaði hún til ummæla forsætisráð-
herra í sjónvarpsviðtali og sagði að
hann hefði gefið í skyn og fullyt að
forseti lýðveldisins væri að ganga er-
inda eins auðhrings með því að fara
ekki í brúðkaup Danaprins.
„Það er alveg sama hvað ríkis-
stjórnin reynir að kítta í sprungurnar
í þessu máli. Það verður aldrei úr því
trúverðug lagasetning sem hefur lýð-
ræði og fjölbreytni í fjölmiðlum að
leiðarljósi. Það er einfaldlega búið að
segja of margt, virðulegi forseti,“
sagði Bryndís Hlöðversdóttir.
Virða stjórnarskránna
Halldór Ásgrímsson utanríkisráð-
herra tók til máls og sagði almenna
samstöðu á Alþingi um að setja lög-
gjöf sem hamli gegn samþjöppun á
fjölmiðlamarkaði og tryggi þar fjöl-
breytni. Vék hann að þeim spurning-
um sem hafa komið upp í sambandi
við þessa lagasetningu.
Varðandi afturvirkni laganna sagði
Halldór að ekkert í frumvarpinu tæki
rétt eða leyfi af aðilum. Aðlögunar-
tíminn væri tvö ár. Þingmenn yrðu
svo að svara þeirri spurningu hvort
eðlilegt væri að markaðsráðandi að-
ilar hefðu minni möguleika á eignar-
haldi og ráðstöfun fjölmiðla en aðrir.
„Ég svara þeirri spurningu játandi.
Ég tel fulla ástæðu til þess að mark-
aðsráðandi aðilar hafi minni mögu-
leika á því að vera ráðandi afl í fjöl-
miðlum en önnur fyrirtæki,“ sagði
hann. Meiri hætta væri á að þeir mis-
noti stöðu sína. Einnig tryggi aðskiln-
aður á dagblaða- og útvarpsrekstri
meiri fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði.
Halldór sagði stjórnmálamenn
hafa heitið því að virða stjórnar-
skrána og hver og einn alþingismaður
vilji gera það. Álitamálin sem nefnd
hafi verið í umræðunni eigi ekki að
brjóta gegn stjórnarskránni. Ekki sé
um afturvirkni laga að ræða og flestir
svari því játandi að það samrýmist
stjórnarskrá að takmarka eignarhald
á fjölmiðlum. Hann sagði því haldið
fram að það samrýmdist ekki stjórn-
arskránni að banna algjörlega mark-
aðsráðandi fyrirtækjum að eiga í fjöl-
miðlum. „Það er ekki verið að gera
það en það er verið að takmarka það.
Og það eru uppi umræður um það, af
eðlilegum ástæðum, hvað sú tak-
mörkun getur verið mikil,“ sagði
Halldór og nefndi nokkrar hlutfalls-
tölur sem dæmi. Enginn geti svarað
því nákvæmlega hvað það hlutfall eigi
að vera hátt en álit ríkisstjórnarinnar
sé að það eigi að vera 5%.
„Og þó að við höfum unnið það heit,
að virða okkar stjórnarskrá hér á Al-
þingi, þá höfum við aldrei unnið það
heit, að það geti aldrei reynt á túlkun
hennar,“ sagði utanríkisráðherra. Í
andsvörum sagðist hann aldrei úti-
loka að það reyni á þessa túlkun þeg-
ar hann ynni að málum. Stjórnarskrá-
in sé ekki nákvæmt plagg hvernig
eigi að standa að lagasetningu.
Nefndi hann yfirlýst áform Norð-
urljósa, án þess að nefna fyrirtækið
sérstaklega á nafn, að kvarta yfir
þessari lagasetningu til eftirlitsstofn-
unar Evrópska efnahagssvæðisins,
ESA, og í framhaldinu hugsanlega til
EFTA-dómstólsins. „Mér finnst eðli-
legt að um slíkt mál, að það sé fjallað
um það eins hratt og mögulegt er eins
og öll önnur mál. Ég mun fyrir mitt
leyti óska eftir því við þá eftirlits-
stofnun að þeir sinni því máli hratt og
vel þótt þeim beri engin sérstök
skylda til að taka tillit til þess. Mér
finnst það nauðsynlegt, að það sé
gert.“
Frumvarp um eignarhald á fjöl-
miðlum beinist ekki gegn einu fyrir-
tæki, sagði Halldór. Hann hefði orðið
glaður þegar hann heyrði stjórnar-
formann Norðurljósa segja í útvarpi
að fyrirtækið myndi standast þessi
lög og starfa áfram. Látið hefði verið í
veðri vaka að til stæði að segja þar
upp öllu starfsfólki og umræðan hefði
gengið út á að hræða þetta fólk sem
væri ósæmilegt. „En ég virði stjórn-
arformann þessa tiltekna fyrirtækis
vegna þess að hann hefur komið fram
í þessari umræðu af mikilli hógværð
og hann hefur gert það með málefna-
legum hætti.“
Lokað á samstöðu
Steingrímur J. Sigfússon, formað-
ur Vinstri grænna, sagði alla þing-
flokka hafa lýst því yfir að mikilvægt
væri að taka eignarhald á fjölmiðlum
til skoðunar. Því sé dapurlegt hvernig
að málinu sé staðið og þingmenn
meirihlutans á Alþingi skuli vera
fangar vinnubragða sem formenn
stjórnarflokkanna þvingi uppá þá.
„Þetta mál er í heljargreipum for-
manna stjórnarflokkanna, sem keyra
með offorsi áfram, og bjóða ekki uppá
umræðu, skoðanaskipti eða viðleitni
til að ná saman um eitt eða neitt,“
sagði hann og dyrunum væri lokað á
samstöðu innan þings og utan.
Þótt þingmenn Vinstri grænna
væru allir af vilja gerðir og vildu
vinna að breytingum á þessu frum-
varpi þá væri það ekki í boði. Á þeim
forsendum væri þingflokkurinn á
móti þessu frumvarpi þótt áherslur
hans beindust í þessa átt. „Vinnu-
brögð formanna stjórnarflokkanna
hafa einfaldlega tekið þetta mál í gísl-
ingu. Það er engin leið að komast að
því á neinum þeim málefnalegu for-
sendum sem gerir það kleift og fært;
að reyna að vinna að því að lagfæra
það,“ sagði Steingrímur. Þvinga eigi
þennan gjörning í gegn sem engan
veginn nái utan um fjölmiðlasviðið í
heild sinni.
Guðjón Arnar Kristjánsson, for-
maður Frjálslynda flokksins, sagði
engan hafa komið með skýringar á
því hvað færi á hliðna í landinu vegna
fjölmiðlareksturs á næstu fimm til
sex mánuðum. Spurði hann af hverju
ekki megi vinna þetta mál áfram
skynsamlega og reyna að ná um það
sátt. Koma eigi með víðtækara og
betra frumvarp inn í Alþingi á haust-
dögum.
„Af því að það var hæstvirtur for-
sætisráðherra, Davíð Oddsson, sem
ákvað að fara með þetta mál af stað
virðist enginn hafa bein í nefinu til að
segja honum að þetta mál er slæmt
eins og það er uppsett,“ sagði Guðjón.
Haldið áfram á morgun
Þriðja umræða hófst klukkan 11 í
gærmorgun og stóð til kl. 22.20 um
kvöldið, með stuttum hléum. Þegar
hlé var gert voru 12 þingmenn á mæl-
endaskrá. Enginn þingfundur er í
dag og hefst þriðja umræða kl. 11 á
morgun, föstudag.
„Beinist ekki
gegn einu
fyrirtæki“
Þriðja umræða um fjölmiðlafrumvarpið hófst á Al-
þingi í gær. Fram kom við umræðurnar að ef Norð-
urljós kvarta til Eftirlitsstofnunar EES vegna
lagasetningarinnar ætlar utanríkisráðherra að
óska sjálfur eftir því að málið vinnist hratt og vel.
Bryndís Hlöðversdóttir sagði lagfæringar á frum-
varpinu ekki breyta skoðun stjórnarandstöðu.
Morgunblaðið/Árni Torfason
Þingmennirnir Bjarni Benediktsson og Ásgeir Friðgeirsson þungt hugsi
við þriðju umræðuna um fjölmiðlafrumvarpið á Alþingi í gær.
SENDIHERRA Bandaríkjanna á Íslandi var kall-
aður í íslenska utanríkisráðuneytið og honum af-
hent formleg mótmæli íslenskra stjórnvalda
vegna upplýsinga um misþyrmingar, sem banda-
rískir hermenn hafa beitt íraska fanga í Abu
Ghraib-fangelsinu í Bagdad í Írak. „Hann kvaðst
mundu koma þeim sjónarmiðum íslenskra stjórn-
valda á framfæri við stjórnvöld í Whasington,“
sagði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra í ut-
andagskrárumræðu um stöðu mála í Írak við upp-
haf þingfundar í gær.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri
grænna, var málshefjandi. Hann sagði innrás
Bandaríkjamanna og Breta í Írak ólögmætt árás-
arstríð samkvæmt þjóðarrétti. Ákvæði Genfar-
sáttmála séu gróflega brotin með skipulögðum
pyntingum hersetuliðsins í Írak. Benti hann líka á
mannréttindabrot í Afganistan og herstöð Banda-
ríkjanna Guantanamo á Kúbu.
„Sem aðilar bæði að stofnsáttmála Sameinuðu
þjóðanna og Genfarsáttmálunum berum við Ís-
lendingar mikla ábyrgð; ekki aðeins á að virða
sjálf ákvæðin heldur ber okkur okkur einnig að
gera okkar til þess að aðrir geri það,“ sagði Stein-
grímur. „Þegar svo bætist við að Ísland á beina að-
ild að málinu vegna stuðningsyfirlýsingar forsæt-
is- og utanríkisráðherra eru spurningarnar sem
vakna um lagalega, pólitíska og siðferðislega
ábyrgð okkar áleitnar.“
Steingrímur lýsti hvernig stuðningur við stríðið
í Írak færi þverrandi og erlendir stjórnmálamenn
þyrftu að gera grein fyrir ábyrgð sinni og ákvörð-
unum. „Það er óhjákvæmilegt að gera þessi mál
upp á Íslandi,“ sagði hann og lagði nokkrar spurn-
ingar fyrir utanríkisráðherra. Vildi hann m.a. fá að
vita hvort forsætis- og utanríkisráðherra hefðu
hugleitt þann möguleika að biðja íslensku og
írösku þjóðirnar afsökunar á ákvörðun sinni um
stuðning við Íraksstríði.
Nöpurlegar kveðjur
Halldór Ásgrímsson sagði ákvörðun um hern-
aðarlega íhlutun í Írak ekki hafa byggst á einni af-
gerandi ástæðu heldur mörgum samverkandi
þáttum og lýsti þeim.
„En það eru nöpurlegar kveðjur til hinnar ný-
frjálsu írösku þjóðar að ákvæði Genfarssáttmál-
ans séu ekki virt af herjum vestrænna lýðræð-
isríkja. Það eru ekki þau skilaboð sem íraska
þjóðin á skilið og ekki þau skilaboð sem við Íslend-
ingar viljum senda frá okkur,“ sagði Halldór og
hann hafi afdráttarlaust lýst því yfir að opinber
rannsókn eigi að fara fram á ásökunum um mis-
þyrmingar herliðsins í Írak.
Halldór sagði það hefði ekki verið auðveld
ákvörðun, sem íslensk stjórnvöld stóðu frammi
fyrir, að styðja hernaðaríhlutun í Írak. „Ákvörðun
ríkisstjórnarinnar var hvort tveggja pólitísk og
jafnframt byggð á grunni alþjóðalaga. Sagan ein
getur dæmt um það hvort hún var rétt, en eitt er
víst að hún var í fullu samræmi við utanríkisstefnu
okkar Íslendinga á umliðnum áratugum. Hún var
pólitísk vegna þess að trúverðugleiki Sameinuðu
þjóðanna var í húfi og hún var lögleg vegna þess að
stjórn Saddams Hussein hafði ítrekað brotið
ályktanir samtakanna,“ sagði Halldór.
Röng ákvörðun
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylking-
arinnar, sagði að þessi ákvörðun hefði verið röng
og ekki lögleg af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar.
„Ríkisstjórnin á að biðja íslensku þjóðina afsök-
unar á því að hafa hnýtt hana, að henni forspurðri,
í tagl innrásarherjanna í Írak. Ríkisstjórnin á líka
að biðja írösku þjóðina afsökunar á þeim miska
sem innrásin hefur unnið henni,“ sagði hann.
Gunnar Örlygsson, þingmaður Frjálslynda
flokksins, lýsti yfir skömm og hneykslan sinni á
framferði utanríkisráðherra og forsætisráðherra
og krafðist þess sem Íslendingur að þeir biðji ís-
lensku þjóðina afsökunar.
Utanríkisráðherra segir kveðjurnar til Íraka nöpurlegar
Sendiherra Bandaríkjanna
afhent formleg mótmæli HALLDÓR Ásgrímsson utanrík-isráðherra fordæmir árásir Ísr-aelshers á menn og mannvirki á
Gaza-svæðinu, einkum dráp og
limlestingar á óbreyttum borg-
urum, þ.m.t. börnum, og eyðilegg-
ingu á heimilum þúsunda Palest-
ínumanna, að því er segir í
tilkynningu frá utanríkisráðuneyt-
inu.
„Þar sem Gaza-svæðið er her-
numið í andstöðu við ítrekaðar
ályktanir öryggisráðs SÞ þá eru
slíkar aðgerðir ótvírætt brot á al-
þjóðalögum. Með slíku atferli
verður vítahringur ofbeldisverka
ekki rofinn.
Íslensk stjórnvöld fagna áform-
um forsætisráðherra Ísraels um
að leggja niður landtökubyggðir
Ísraelsmanna á Gaza-svæðinu og
hvetja sem fyrr til þess að Ísr-
aelsmenn hverfi frá öllum her-
numdu svæðunum um leið og ör-
yggi Ísraelsríkis verði tryggt.
Miklu skiptir að samfélag þjóð-
anna styðji áframhaldandi starf
Fjóreykisins og framkvæmd Veg-
vísisins og stuðli þar með að var-
anlegum friði fyrir botni Miðjarð-
arhafs,“ segir í tilkynningunni.
Utanríkisráð-
herra fordæmir
árásir Ísraels-
hers á Gaza