Morgunblaðið - 07.12.2003, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 07.12.2003, Blaðsíða 11
7.12.2003 | 11 Í fyrsta sinn sem Geir Jón Þórisson klæddist einkennisbúningi lögregl- unnar segist hann hafa orðið feiminn. Það kemur ekki beinlínis á óvart. Þegar þessi hávaxni, vörpulegi maður með sitt skeggjaða og vinalega and- lit fór að birtast á sjónvarpsskjám sem einn helsti talsmaður lögreglunnar í Reykjavík var eins og lögreglubúningurinn fengi nýja ímynd. Horfin var stífni hinnar þurru embættismennsku og í staðinn mættur hress alþýðleiki, mér ligg- ur við að segja þjónustulund. Geir Jón talaði mannamál, vildi gera það besta úr oft erfiðum málum og engu líkara en honum þætti vænt um fólk, jafnvel þótt það gerði eitthvað af sér. Við höfðum heldur ekki verið vön því að sjá yfirlögregluþjóninn í Reykjavík lofsyngja Guð sinn fullum hálsi í kirkjukór eða með kúrekahatt og í leð- urjakka að stýra sumarmótum hvítasunnumanna. Það var greinilega komin öðruvísi lögga í bæinn. Geir Jón er einmitt með „búningadeild“ lögreglunnar á sinni könnu. Hann er yf- irlögregluþjónn yfir almennri deild, svokallaðri, sem nær til sólarhringsvaktarinnar, umferðarlögreglunnar, hverfastöðvanna, forvarnardeildar, útlendinga- og eftirlits- deildar, en síðan er annar yfirlögregluþjónn yfir rannsóknardeildunum. Ég vitna til kvikmyndaleikstjóra sem sagði mér einu sinni að um leið og óbreyttur borgari væri settur í lögreglubúning breytti hann um göngulag og hollningu og tæki á sig það sem hann telur valdsmannslega mynd. Geir Jón kinkar kolli og þegar ég spyr hvernig honum hafi sjálfum orðið innanbrjósts þegar hann klæddist fyrst lögreglu- búningnum segir hann, sem áður er nefnt: „Ég varð feiminn. Jafnvel hálfhræddur. Þetta er reynsla flestallra lögreglumanna. En svo þekkjum við líka dæmi þess að menn hafi breytt um skapgerð við að fara í einkennisbúninginn. Og kunningjarnir segja: Ja, ég þekki hann ekki fyrir sama mann. Þá ganga menn inn í eitthvert ímyndað valdsmannshlutverk. Það er ekki gott. Við erum verndarar laganna en um leið erum við þjónar fólksins og því afar mikilvægt að til þessa starfs veljist menn með rétt hug- arfar, hvort sem þeir eru einkennisklæddir eða ekki.“ Geir Jón segir að menntun lögreglumanna í seinni tíð sé orðin afar góð. „Síðan sker reynslan úr um hvernig hver og einn nýtir sér þá þekkingu og undirstöðu og hvort hann hefur rétta hugarfarið. Þetta starf hentar alls ekki öllum og starfsmanna- velta innan lögreglunnar hefur verið nokkuð hröð; menn hætta þegar þeir finna það annaðhvort sjálfir að þeir eru ekki réttir menn á réttum stað eða þá að þeim er bent á það af okkur yfirmönnunum. Lögreglustarf reynir mjög á andlegt ekki síður en lík- amlegt atgervi manna. Ef það atgervi er ekki í lagi grípa menn stundum til misráðinna skyndilausna, eins og að deyfa innri sársauka með áfengi eða öðrum flótta frá þeim raunveruleika sem við mætum í okkar starfi. Hér áður fyrr var meira talað um það en núna, að lögreglumaðurinn þyrfti að vera svo sterkur að hann þyldi allt. En hann er bara maður. Og það er mjög mikilvægt að lögreglumenn geti losað um þá innri spennu sem fylgir starfinu, rætt um hana og unnið úr henni. Um þetta erum við orðin vel meðvituð núna og sem betur fer er fólk mun opnara en áður var.“ Þetta föstudagssíðdegi er hann nýkominn af fundi suður á Keflavíkurflugvelli þar sem verkefnahópur var að fara yfir flugverndaráætlun fyrir flugvöllinn. Lögreglan er hátæknivædd, tengist fullkomnu tölvukerfi með yfirsýn yfir staðhætti og staðsetn- ingu lögreglubifreiða á suðvesturhorninu og nákvæmlega skilgreindri viðbragðaáætl- un, ef hætta er á ferðum. Skrifstofan á efstu hæð lögreglustöðvarinnar við Hverf- isgötu er rúmgóð; málverk af Viðey hangir á einum vegg, sýnishorn af lögregluhúfum eru uppi á skáp, eitt stykki af KitKat súkkulaðikexi í hillu, og nokkrar ljósmyndir og viðurkenningarskjöl á öðrum vegg. Ein myndin sýnir Geir Jón að spjalla glaðlega við ung börn í Laugardalnum sem spurðu: Ertu nokkuð með byssu? Á annarri mynd er hann að taka jafnglaðlega í spaðann á Hillary Clinton, þar sem menn voru víst áreið- anlega með byssur. Og eitt viðurkenningarskjalið segir að Geir Jón sé heiðurslög- reglumaður í höfuðborg Flórídafylkis, Tallahassee, en fulltrúar íslensku lögreglunnar hafa sótt þangað töluvert starfsþjálfunarnámskeið. Í Tallahassee ganga lögreglumenn líka með byssur. Geir Jón Þórisson kveðst mun frekar vilja vera lögga hér en þar, þótt íslenskur glæpa- og fíkniefnaheimur hafi síðasta áratuginn tekið sér of margar fyr- irmyndir að vestan. Fyrir utan gluggann er Hlemmur, sem lengi var samastaður „góðkunningjanna“ og ekki þurftu þá annað en að labba yfir götuna til að fá húsakjól í fangageymslunum. Á Hlemmi er nú friðsamlegt um að litast, umhverfið frekar heimilislegt og engin þörf á byssum þegar við göngum út úr löggustöðinni og setjumst inná kaffihús í grennd- inni. Það er rekið af fulltrúum hinna „nýju“ kynþátta í okkar fjölmenningarlega sam- félagi sem verður því æ flóknara og á stundum erfiðara viðfangs fyrir löggæsluna. En fólkið á kaffihúsinu er jafnvel enn kurteisara og elskulegra en hinir „hreinræktuðu“, sem sitja í nokkrum eintökum misjafnlega hressir við borðin. Enginn abbast uppá yf- irlögregluþjóninn í Reykjavík, sem fær sér tebolla á einu þeirra og er í leðurjakka yfir bláu lögguskyrtunni, húfulaus. Þegar Geir Jón Þórisson hóf störf sem aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík ár- ið 1992 hafði hann verið 16 ár lögga í Vestmannaeyjum, mun nánara, fámennara og einsleitara samfélagi. En þar komst hann uppá lag með að umgangast fólk eins og fólk. Hann var ekki aðeins lögga, heldur sat í barnaverndarnefnd, félagsmálaráði og húsnæðisnefnd bæjarins, var einnig varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, tók virkan þátt í íþróttastarfi og kristilegu starfi á vegum Hvítasunnusafnaðarins. „Ég nýt þess að vera með fólki,“ segir hann. „Fólki af öllum stærðum og gerðum.“ Valdbeitingin og þjónustan Athygli hefur vakið að Geir Jón er sjálfur mikið úti á vettvangi og fer þar fyrir sínu liði, öfugt við marga fyrirrennara hans sem héldu sig meira inni á skrifstofum sínum. „Þetta er alveg markvisst hjá mér,“ segir hann. „Ég vil vera hjá mínum mönnum í erf- STRÍÐIÐ VIÐ ILLSKUNA Í MANNINUM Baráttan um hið góða og hið illa í manninum er hugðarefni Geirs Jóns Þórissonar í lífi, trú og starfi. Yfirlögregluþjónninn í Reykjavík lítur á starf sitt sem hugsjón og sinnir því af köllun. Eftir Árna Þórarinsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.