Morgunblaðið - 07.01.2005, Síða 30

Morgunblaðið - 07.01.2005, Síða 30
30 FÖSTUDAGUR 7. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Skúli BjörgvinSighvatsson fæddist á Karlsskála við Reyðarfjörð 27. september 1920. Hann andaðist á heimili sínu að morgni nýársdags. Foreldrar Skúla voru Sighvatur Gunn- laugsson, f. 5. apríl 1876, d. 15. febrúar 1953 og Svanhildur Hektorsdóttir, f. 8. september 1873, d. 26. apríl 1943. Skúli flutti til Keflavíkur ásamt foreldrum sínum um 1940. Hann starfaði lengst af sem húsa- smiður. Systkini Skúla, sem eru öll lát- in, voru a) Gunnlaugur, f. 1900, b) Ljósbjörg, f. 1902, c) Stefán, f. 1903, d. 1963, d) Steinþór, f. 1906, d. 1991, e) Anna, f. 1908, f) Jó- hanna Sigurbjörg, f. 1911, d. 1990 og g) Friðjón, f. 1915, d. 1946. Bróðir Skúla sammæðra var Örn- ólfur Sveinsson, f. 1895, d. 1978. Hinn 10. febrúar 1945 gekk Skúli að eiga Önnu Jónsdóttur, f. í Keflavík 1. febrúar 1927. Foreldr- ar hennar voru Guðfinna Sesselja Benediktsdóttir húsfreyja og Jón Eyjólfsson útvegsbóndi. Systkini Önnu eru Sesselja (látin), Bene- dikt, Guðrún, Elín- rós, Eyjólfur, Hólm- fríður og Kristján Anton. Skúli og Anna eignuðust fimm börn. Þau eru: 1) Sighvatur Svan, f. 1944, maki Valorie Skúlason, f. 1957, synir hans eru Ómar Bjarki, f. 1972 og Gunnar Erik, f. 1979. 2) Ása, f. 1947, maki Karl Taylor, f. 1943. Börn þeirra eru Karl Taylor, f. 1964, d. 1964, Anna, f. 1968, og Jón Fannar, f. 1976. 3) Guðfinna Sesselja, f. 1950, maki Sigurður Tómas Garðarsson, f. 1950. Synir þeirra eru Albert Svan, f. 1968, Skúli Björgvin, f. 1976 og Garðar Árni, f. 1983 4) Bryndís, f. 1961, maki Magnús Sigurður Björnsson, f. 1960. Dæt- ur þeirra eru Margrét Ósk, f. 1983, Lilja Guðný, f. 1987 og Ásdís Birta, f. 1996. 5) Svanhildur, f. 1962, maki Hörður Jóhann Geirs- son, f. 1967. Börn þeirra eru Anna Rut, f. 1982, Ásgeir Smári, f. 1995 og Laufey Rún, f. 1997. Langafa- börnin eru sjö. Útför Skúla fer fram frá Kefla- víkurkirkju í dag og hefst athöfn- in klukkan 14. Húsaröðin við Skólaveg í Keflavík, frá Hringbraut að Sóltúni, er, þegar ég hugsa til þess, mikil bæjarprýði. Einn af þeim góðu mönnum sem gerðu þennan reit jafn fallegan og raun ber vitni var tengdafaðir minn, Skúli Sighvatsson. Það sýnir vel hvern mann hann geymdi, að húsið sem hann byggði fyrir lífstíð sína er samræmt heildarmynd götunnar. Þó er húsið og öll umgjörðin með stíl- bragði, sem er engu líkt og sýnir að þar byggði og bjó snyrtimenni sem hafði næmt auga fyrir því samræmi sem við dáumst að þegar saman fer fallegt hús og snyrtilegt umhverfi. Ég minnist þessa hér því svona þekkti ég hann í leik og starfi. Traustur, smekkvís og einlægur þátttakandi í þeim hópi sem hann skipaði, en laus við allt framapot og vegsauka í lífshlaupinu. Hann lá ekki á liði sínu frekar en fyrri daginn, þegar við hjónin höfð- um fengið úthlutaða lóð við Suður- velli og mælt hafði verið út og settir niður hælar fyrir hússtæðið. Fyrr en varði vorum við búnir að slá upp fyr- ir grunninum og Skúli leyfði að steypt væri í mótin. Eftir þetta varð ekki aftur snúið og öll atriði við byggingu hússins framkvæmd með hjálp og undir vökulum augum Skúla. Ég var óhræddur að spyrja hann ráða, enda auðsótt og í hvert sinn var ráðið heilt, burtséð frá því hve einfeldingslega var spurt. Eftir á að hyggja þá sé ég núna hvernig hann leiddi mig í gegnum bygging- arferilinn og sá til þess, á sinn góð- láta hátt, að ekkert misfærist eða væri hálfkarað. Svo margs er að minnast þegar lit- ið er um öxl og hugsað til ógleym- anlegra atvika úr ferðalögum m.a. sumarfrís í Hollandi, minnisstæðrar veiðiferðar í Veiðivötn og ótal göngu- ferða vítt um Reykjanesið. Á síðastliðnu sumri áttum við Maddi sérstakar ánægjustundir með Skúla er við fórum saman á heima- leiki Keflavíkur í knattspyrnu. Þær stundir munu ylja okkur um hjarta- rætur og gefa okkur tilefni til að heiðra minningu hans, með því að mæta áfram á völlinn og hvetja okk- ar menn. Kærar þakkir fyrir samfylgdina og umhyggjuna. Megi Guðs blessun fylgja Önnu, ástinni í lífi þínu. Sigurður T. Garðarsson. Þær voru blendnar tilfinningarnar sem fóru um mig þegar ég heyrði frá honum pabba að hann afi Skúli hafði kvatt okkur í hinsta sinn. Það er allt- af sárt að missa einhvern náinn og blessunarlega hef ég sloppið við það að mestu. En á hinn bóginn var þetta nú hinsta óskin hans afa, því sá gamli var orðinn aldurhniginn og tilbúinn kallinu mikla. Þjáningar einkenndu hans síðustu ár og þó að þær lík- amlegu hafi verið til staðar voru þær andlegu enn meiri, því afi vildi alltaf vera eitthvað að sansa, gera við úti í skúr eða taka til hendinni. Það fór illa í hann að geta ekki verið á fótum að takast á við eitthvað sem hann vildi koma í verk. Þó ég hafi nú ekki þekkt hann afa manna best, þá var það sem ég þekkti til hans af öllu því besta. Þegar ég var spurður um fjöl- skylduhagi og nafnið hans afa Skúla bar á góma, þá fylgdi orðið dugnaður nafni hans nánast undantekninga- laust. Já hann afi Skúli var mann- taksmaður. Húmorinn hjá þeim gamla var líka á sínum stað þótt hann hafi sjaldan flaggað honum. Afi sá meira segja húmor í því að vera á sínum lokastundum, en þegar ég spurði hann fyrir fáeinum vikum hvort hann vildi ekki fara að skella sér út og viðra sig aðeins, þá svaraði hann: Jú jú, ég vil bara drífa mig upp í kirkjugarð. Nú er ég eini „Skúlinn“ eftir í fjölskyldunni og ber nafnið með stolti. Ég kveð þig afi minn með stöku eftir tengdamóður þína, sem hún ástkær eiginkona þín og elsku- leg amma mín sönglaði fyrir okkur á dánardegi þínum í stofunni á Skóla- vegi. Hingað berst mér hljómur skær, heyrið nú hvað klukkan slær, dagleið einni er dauðinn nær í dag heldur en var í gær. (Guðfinna Sesselja Benediktsdóttir.) Hvíl í friði, elsku afi minn. Skúli Björgvin. Nýársdagur staðfesti líkt og margir aðrir dagar að lífið er líkt og veðrið, það skiptast á skin og skúrir. Að loknum hátíðarhöldum gamlárs- dags og fögnuði yfir að nýtt ár væri hafið hófst nýársdagur með símtali um að afi Skúli væri dáinn. Minningarnar um afa eru margar en það sem kemur fyrst upp í hug- ann er afi að skemmta yngstu afa- og langafabörnunum. Hann hafði gam- an af börnum og síðustu ár var fátt sem gladdi hann meira en heimsókn- ir þeirra. Hafragrautur, fótbolti, kartöflur, sviðakjammar, vasahnífur og græn Lada er meðal þess sem vekur upp góðar minningar. Þegar við afabörn- in fengum að gista hjá ömmu og afa á Skólaveginum var spennandi að vakna með afa á morgnana og fá hafragraut eins og hann. Hann borð- aði oftast hafragraut á morgnana og svo var einnig á gamlársdagsmorg- un, allt til síðasta dags. Afi naut þess að búa í návígi við fótboltavöllinn í Keflavík enda hafði hann mikinn áhuga á fótbolta. Hann studdi Kefla- víkurliðið af heilum hug og fór á leiki þegar færi gafst eða fylgdist með af efri hæð hússins á Skólaveginum, þar sem knattspyrnuvöllurinn blasti við. Bak við húsið á Skólaveginum var til margra ára stór kartöflugarð- ur sem með árunum hefur minnkað í samræmi við íbúafjölda í húsinu. Ósjaldan fengum við krakkarnir að vera með í að setja niður og taka upp kartöflur. Nýuppteknar, soðnar kartöflur voru eitthvað sem afa fannst gott og gat farið mörgum og fögrum orðum um. Afi og amma ferðuðust mikið um landið og höfðu gaman af. Til margra ára áttu þau græna Lödu sem flutti þau hvert sem þau vildu. Okkur fannst þetta alltaf frekar ljótur bíll en afi var hæst ánægður með hann og oft kom það fyrir í þessum úti- legum þeirra að bílnum var lagt fyrir utan veg og þau sváfu í bílnum. Í úti- legum var afi alltaf með vasahnífinn í vasanum og líklega átti hann þar sæti öllum stundum. Minnisstæð eru augnablik þar sem afi sat úti í nátt- úrunni, borðandi sviðakjamma með vasahnífnum. Fyrir ungt afabarn var þessi sjón sérkennileg en jafnframt skemmtileg og ekki var minna spennandi að láta afa stinga upp í sig bita af sviðahaus með vasahnífnum. Þetta er bara brot af því sem geymt er í minningarskúffunni um afa Skúla. Afi var góður maður og vinnusamur en hin síðari ár, þegar heilsunni tók að hraka, var augljóst að það átti illa við hann að vera upp á aðra kominn. Elsku amma, megi góður guð styrkja þig í sorginni. Afi Skúli; hvíl í friði. Anna Karlsdóttir og Jón Fannar Karlsson. Skúli Björgvin Sighvatsson var ákaflega dagfarsprúður maður. Hann var að eðlisfari dulur, trúr og traustur. Þeim sem stóðu honum næst opnaði hann, á góðum stund- um, hug sinn og hjarta. Ytri glæsi- leiki hans duldist engum en verk- lagni hans og úrræði vöktu aðdáun þeirra sem nutu verka hans og vin- áttu. Ég naut þeirrar gæfu að alast upp í kærleiksríku samfélagi sem borið var uppi af foreldrum mínum og elstu systkinum, sem voru hvert af öðru að festa ráð sitt í bernsku minni og þar á meðal Anna systir mín. Samlífssaga þeirra Önnu og Skúla er því ofin í endurminningasjóð minn, sem ég nú, í hlýhug og þökk, sé líða hjá með áherslu á sérstöðu mágs míns Skúla. Sífellt voru að koma fram hæfileikar sem maður vissi al- mennt ekki að hann byggi yfir fyrr en aðstæður kölluðu þá fram. Kross- gátur, myndagátur ásamt útsjón við tafl- og spilaborð, svo dæmi séu tek- in, allt var þetta honum eðlislæg list við að fást. Atvikin höguðu því þannig, að snemma morguns á fæðingardegi frumburðarins varð hann að hlýða kalli og halda til síldveiða en framan af voru sjómennska og fiskvinnsla hans aðalstörf. Í frystihúsinu Jökli hf. var Skúla eitt sinn fenginn hamar til að aðstoða smiði. Guðmundur smíðameistari Skúlason sá þá strax að þennan mann þyrfti hann að fá í vinnuflokk sinn og eftir það varð tré- smíðavinna aðalstarf Skúla. Um þetta leyti hófst hann handa við að koma upp húsi sínu á Skóla- vegi 24, sem fjölskyldan flutti í um miðjan sjötta áratuginn. Um dagana hef ég kynnst mörg- um sem lagt hafa á sig þrotlaust starf við að koma yfir sig þaki en enginn stendur framar Skúla í þeim efnum enda má segja að öll þau verk sem hann tók sér fyrir hendur léku í höndum hans. Natni og vandvirkni einkenndu framar öðru vinnubrögð hans. Meðan við bjuggum enn heima á Túngötu hófst gagnfræðaskóla- ganga mín og þar með nám í dönsku og ensku. Þá kom á daginn að Skúli var betri en enginn í leiðsögn í fram- andi tungum. Þegar hagur fólks fór almennt að vænkast svo að tími bílaeignar al- þýðufólks rann upp, þá var engin fyrirstaða hjá Skúla, því að á daginn kom að hann hafði ungur tekið bíl- próf. Svo var kominn hér tónlistar- skóli þegar yngstu dætur þeirra hjónanna voru að komast á legg og þá var keypt píanó, sem Skúli lék á af fingrum fram jafnt sem eftir nótum. Við eftirgrennslan vitnaðist mér að hann hafði ungur numið hljóðfæra- leik á æskustöðvunum fyrir austan og m.a. leikið fyrir dansi á harmon- íku. Já, hann Skúli var svo sannarlega mörgum góðum kostum búinn, kost- um sem komu svona í ljós einn af öðrum við löng og náin kynni. Hann hafði líka unun af því að njóta sum- arblíðunnar, ferðast um landið og tjalda á fögrum stöðum, rölta um haga og rifja upp nöfn fugla, jurta og kennileita. Ég kvaddi Skúla heima í rúmi sínu að morgni gamlársdags, hann var búinn að heyja langt sjúk- dómsstríð en hugsunin og minnið var óbilað. Undir morgun á nýársdag sofnaði hann til feðra sinna. Önnu systur minni og fjölskyldu hennar flytjum við hjónin innilega samúðar- kveðju. Kristján A. Jónsson. SKÚLI BJÖRGVIN SIGHVATSSON ✝ Ásgeir Þórarins-son fæddist í Reykjavík 27. okt 1922. Hann lést á Líknardeild Landa- kots 28. desember síðastliðinn. Foreldr- ar hans voru hjónin Theodora Oddsdótt- ir, f. í Reykjavík 8. nóv. 1898, d. 20. apríl 1982 og Benedikt Þórarinn Dúason, skipstjóri í Reykjavík til 1939 síðar skip- stjóri og hafnarstjóri frá 1950 á Siglufirði, f. á Akureyri 19. maí 1895, d. 19. ágúst 1976. Systkini Ásgeirs eru Aldís Dúa f. 23. sept 1921, Brynja f. 4. sept. 1924 og Ása Hafdís f. 28. ágúst 1928, d. 10. júní 2003. Ásgeir kvæntist 7. október 1955 Katr- ínu Valtýsdóttur, f. í Stettin í Þýskalandi 5. sept. 1926, d. 7. ágúst 1979. Sonur Ásgeirs og Stefaníu Frímanns- dóttur er Guðmund- ur Þórarinn f. 22. júlí 1943, hann á tvö börn. Börn Ásgeirs og Ástu Teitsdóttur eru Esther, f. 17. mars 1945. Hún á þrjú börn, og Bragi f. 26. mars 1950, hann á dóttur og stjúpson. Barna- börnin eru 16. Ásgeir verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 15. Elsku afi Geiri. Með örfáum orðum langar okkur að kveðja þig og biðjum guð að vernda þig og blessa. Í bernsku okkar vorum við mikið á heimili ömmu Ástu. Á sunnudögum var nokkuð víst að þú kæmir í heimsókn til ömmu og gæfir okkur þúsundkall ef vel lá á. Fórum við í marga bíltúrana á vörubílnum niður á bryggju, keypt- um ís og keyrðum um, reyndir þú að fræða okkur um skipin, hvað þau hétu og hvaðan þau kæmu, sem var þitt áhugamál. Á fullorðinsárum og eftir að amma Ásta var ekki lengur hjá okkur að halda fjölskyldunni saman, þá voru samskipti okkar stopulli og meira á þínum forsendum. Gerðum við systurnar þér ljóst að þú værir alltaf velkomin á heimili okkar, því við vissum að ekki þýddi að bjóða þér, þú vildir koma þegar þér passaði. Stundum hittumst við daglega og aðra tíma leið langur tími á milli. Duglegastur varst þú að heim- sækja okkur þegar við vorum heima með börnin okkar lítil. Hjá Ástu varstu tíður gestur í Ofanleitinu og komst gjarnan í kaffi og nýbakaða súkkulaðiköku. Minnisstæðustu tím- arnir mínir með þér, afi minn, voru þegar ég og fjölskyldan mín bjugg- um í Safamýrinni, þá voru dæturnar eins og tveggja ára gamlar og þú ný- hættur að vinna. Áttir það nú ekki við þig frekar en annað iðjuleysi. Mættir þú daglega til mín í heilt ár og bauðst til að keyra mig í vinnuna og dæturnar í leikskólann, eina sem hægt var að gera fyrir þig í staðinn var að eiga rúgbrauð með sméri, Moggann og stöku ákavíti inn á milli. Var þetta sérstakur og góður tími til að kynnast þér betur, afi minn. Fluttumst við síðar erlendis og hittumst eingöngu með löngum milli- bilum næstu árin. Við sendum bréf og fjölskyldu-video en fengum aldrei nein svör. Seinna vissum við að þú geymdir þetta allt og varðveittir og voru tár á hvarmi þegar þú horfðir á myndefnið. Það var ekki þinn vani að sýna miklar tilfinningar, nema ein- hver ætti bágt, þá varstu fyrstur manna að hjálpa til: Gamall maður staulast yfir götu í hálku og þú sagð- ir: Æ vonleysinginn, ég þekki hann, best að skutla honum heim. Ein frægasta setning þín var þeg- ar einhver hlauparinn skokkaði um bæinn: Helvíti verður hann hraustur þessi, þegar hann drepst. Eiginlega má segja þetta um þig því hraustur varstu alltaf og varðst þú mest hissa sjálfur að þú skyldir veikjast. En sem betur fer, afi minn, var þetta ekki langt stríð, það hefðir þú ekki viljað. Erum við innilega þakklátar fyrir þann tíma sem við höfðum með þér þessa síðustu daga. Hvíl í friði, afi minn, og mundu hvíslið. Fyrir hönd okkar systra, Olga J. Stefánsdóttir. ÁSGEIR ÞÓRARINSSON Elskulegur sambýlismaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, JÓHANNES ÓLAFSSON, Ásum 4, Hveragerði, áður Ásum í Stafholtstungum, lést á heimili sínu miðvikudaginn 5. janúar. Jarðarförin verður auglýst síðar. Margrét Larsen, Þórhildur Erla Jóhannesdóttir, Larry Sutherland, Kristján Jóhannesson, Vigdís Hallfríður Guðjónsdóttir, Björn Jóhannesson, Jóhannes Jóhannesson, Kristín Elísabet Möller, Sigríður Guðný Jóhannesdóttir, Skúli Guðmundsson, Ólafur Ingi Jóhannesson, Kolbrún Sigurðardóttir, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.