Morgunblaðið - 07.01.2005, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 07.01.2005, Blaðsíða 34
34 FÖSTUDAGUR 7. JANÚAR 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Almut Alfonssonfæddist í Rends- burg í Þýskalandi 9. júlí 1936. Hún lést á líknardeild Landspít- alans í Kópavogi 29. desember síðastlið- inn. Foreldrar henn- ar voru dr. Otto Andresen barna- læknir í Rendsburg, f. 18. júlí 1900, d. 24. sept. 1980, og kona hans Erika Andre- sen, fædd Daubitz 6. júlí 1901, d. 22. okt. 1995. Systkini Almut eru: Karin, f. 21. febrúar 1927; Erika, f. 29. mars 1930; Elke, f. 24. janúar 1935; Peter-Boy, f. 6. nóvember 1942, d. 27. júlí 1994, og Thomas, f. 6. nóvember 1942, d. 19. júní 1960. Hinn 5. marz 1959 giftist Al- mut Þorvarði Alfonssyni þjóð- hagfræðingi frá Háskólanum í Kiel, síðar framkvæmdastjóra Iðnþróunarsjóðs. Foreldrar hans voru Alfons, bakari, kaupmaður og símstjóri í Hnífsdal og hrepp- stjóri í Eyrarhreppi, f. 4. febr. 1893, d. 19. maí 1975, Gísla Frið- riks skipasmiðs á Ísafirði, Jóns- sonar og Helga húsmóðir, f. 18. nóv. 1895, d. 19. jan. 1981, Sig- urðardóttir, kaupmanns, útgerð- armanns og fisk- verkanda í Hnífsdal og á Langeyri í Álftafirði, Þorvarð- arsonar. Börn þeirra eru: 1) Ingunn húsmóðir í Reykjavík, f. 10. ágúst 1959, gift Erni Guðmundssyni veitingamanni, f. 14. sept. 1962. Börn þeirra eru Þorvarð- ur, f. 30. jan. 1989, og Lárus Örn, f. 13. febr. 1994, 2) Auður Björg húsmóðir og hjúkrunarfræðingur í Reykjavík, f. 3. ágúst 1964, gift Þorsteini Inga Víglundssyni iðnaðarverk- fræðingi, f. 10. júní 1962. Börn þeirra eru Alma Björg, f. 2. júní 1998, og Víglundur Ottó, f. 4. júní 2002, 3) Sigurður Ottó við- skiptafræðingur, f. 17. jan. 1975. Fyrir giftingu vann Almut við bankastörf í Rendsburg. Þau Þorvarður fluttu til Íslands í september 1959. Auk húsmóður- starfa vann Almut sem sérhæfð- ur aðstoðarmaður við sjúkra- þjálfun á Borgarspítalanum í 16 ár. Almut verður jarðsungin frá Áskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15. Við lát tengdamóður minnar koma upp í hugann minningar frá samverustundum okkar. Hugurinn reikar fyrst til liðins sumars þegar fjölskyldan heimsótti æskuslóðir hennar í Rendsburg í Þýskalandi. Ferðin var farin á ættarmót afkom- enda Ottós og Eriku Andresen, for- eldra hennar. Á þeim hálfa mánuði sem við dvöldumst í Rendsburg kynntumst við mörgu sem á daga hennar og fjölskyldunnar hafði drif- ið og hvaða aðstæður það voru sem hvað mest mótuðu hana í uppvext- inum í Þýskalandi. Þarna gafst okk- ur tækifæri til þess að heimsækja og skoða þá staði sem oft höfðu verið nefndir af Almut og Þorvarði, hvar þau hefðu kynnst og stigið sín fyrstu spor saman. Sögur frá þessum árum urðu lifandi þegar gengið var um garða og götur í Rendsburg, með- fram Kílarskurðinum og um mið- borg Kílar þar sem þau höfðu geng- ið um ung og ástfangin fyrir 46 árum. Þegar sögur voru rifjaðar upp af ýmsum prakkarstrikum sem hún hafði framið í æsku ásamt Ingrid vinkonu sinni er greinilegt að svona var hún alltaf, létt í lund og glettin. Þegar þær systurnar Almut, Erika og Elke komu saman og rifjuðu upp sögur frá sínum æskuárum var greinilegt að hjartahlýja hennar í garð náungans var mótuð í æsku. Samviskusemin sem einkenndi Almut alla tíð átti rætur í fjölskyldu- lífinu og þeim aðstæðum sem krefj- ast þess að þú vinnir öll verk af sam- viskusemi ef þú ætlar að standa þig í lífinu. Þannig agaði hún listhneigð sína og listfengi og náði ótrúlegum árangri í meðferð vatnslita, en margar fegurstu myndir hennar prýða heimili fjölskyldunnar eins og dýrgripir. Ég minnist margra veiði- ferða með fjölskyldunni og þeirrar glettni sem fylgdi þegar betur aflað- ist hjá henni en okkur strákunum, og hvað þá þegar rifjuð var upp sag- an af hennar stærsta laxi, sem eng- inn okkar laxa hefur komist í hálf- kvisti við. Öll verk sem Almut vann voru unnin í góðum anda, allt gert með bros á vör og með léttu spjalli og umhyggju fyrir náunganum, en aldrei skilið eftir hálfunnið verk, ekkert hálfkák og mestar kröfur gerðar til eigin verka. Blessuð sé minning hennar. Þorsteinn Ingi Víglundsson. Það hefur ávallt verið mikil sam- heldni hjá okkur frændsystkinunum sem ólumst upp saman í Stekkjar- húsinu í Hnífsdal. Við sem uxum þar úr grasi á fyrri hluta 20. aldarinnar ólumst upp við það að fjölskyldan starfaði saman og stæði saman í gegnum þykkt og þunnt. Það var því mikil eftirvænting í loftinu hjá fjöl- skyldunni þegar hann Þorvarður bróðir okkar kom heim frá hag- fræðinámi í Þýskalandi með þýska konu sér við hlið. Auðvitað vissum við að hann Varði okkar rasaði ekki um ráð fram í mikilvægri ákvörðun eins og þeirri að velja sér maka. Almut var mægð þeim mikla Ís- landsvini prófessor Kuhn en hann var giftur íslenskri konu. Kuhn kenndi við Kielarháskóla þar sem Varði nam hagfræðina. Þau Almut og Varði höfðu eignast dóttur í Þýskalandi, Ingunni, og var hún á fyrsta ári þegar þau komu hingað til landsins. Ekki ber að orðlengja um það að Almut heillaði okkur frá fyrstu mín- útu með elskulegri og eðlilegri fram- komu sinni. Þá breytti það engu þó nokkrir erfiðleikar yrðu með sam- ræður í fyrstu, mikil jákvæðni og út- geislun Almutar leysti alla slíka tímabundna erfiðleika. Fyrstu mán- uðina bjó fölskyldan hjá Óla bróður og Siggu og varð úr því mikill vin- skapur. Umhyggja Almutar fyrir heimilinu og fjölskyldunni kom strax í ljós og með einstökum dugn- aði sínum og góðum gáfum tókst henni á undra skömmum tíma að falla inn í lífið á Íslandi. Við mág- konurnar hennar úr Hnífsdal og Sigga nutum þess að vera í sam- vistum við þau Almut, Varða og fjöl- skylduna og bar aldrei skugga á þau samskipti. Okkur finnst hún hafa verið kölluð burt allt of snemma en hún barðist gegn illvígu krabba- meininu af miklum kjarki til síðustu stundar. Kjarkur hennar og andlegt þrek í veikindunum var slíkt að það hjálpaði mörgum á spítalanum sem áttu við svipaða erfiðleika að stríða og hún. Við kveðjum Almut okkar með miklum söknuði en um leið þakklæti fyrir yndislegar samverustundir á lífsleiðinni. Megi Guð styrkja þig kæri Varði í sorginni og börnin, tengdabörnin og barnabörnin. Blessuð sé minningin um Almut Alf- onsson. Ólafía, Helga, Ólöf og Sigríður. Fallin er frá mæt kona, Almut Alfonsson. Fyrstu kynni okkar af Almut var fyrir um 45 árum þegar hún rúm- lega tvítug kom með Þorvarði móð- urbróður okkar vestur í Hnífsdal að hitta tengdaforeldra sína og fjöl- skyldu. Ekki náðum við að halda uppi miklum samræðum í fyrstu heimsókninni, enda Almut nýflutt til landsins frá Rensburg í Þýzkalandi með Þorvarði og frumburðinum Ing- unni þá fjögurra vikna. Þrátt fyrir tungumálaerfiðleika vann þessi myndarlega kona strax hug okkar og hjörtu. Síðar kynntumst við enn frekar mannkostum hennar. Ætíð var mikil tilhlökkun hjá okkur þegar von var á fjölskyldunni í heimsókn, hvort sem var um páska þegar farið var á skíði eða síðsumars þegar farið var til berja, veitt eða annarrar úti- vistar notið. Alltaf var stutt í kímni- gáfuna hjá Almut og seinni árin var gaman að rifja upp með henni gömlu stundirnar úr Hnífsdal. Allar þessar skemmtilegu samverustundir með Almut og fjölskyldu viljum við þakka. Heimili Almutar og Þorvarðar stóð okkur ávallt opið þegar við dvöldum um lengri eða skemmri tíma í Reykjavík og nutum við þá gestrisni og hlýju þeirra hjóna. Almut var mikill fagurkeri, hún var listræn, hreifst af fallegum hlut- um og fegurð í lífinu. Umhyggja fyr- ir fjölskyldunni var alltaf forgangs- verkefni hjá Almut, og var hún stolt af börnum sínum og barnabörnum, enda bera þau foreldrum sínum gott vitni. Minningar um hana munum við varðveita í hjörtum okkar. Kæru Þorvarður, Ingunn, Auður, Sigurður Ottó og fjölskyldur, Guð veri með ykkur á þessari erfiðu stundu. Gréta, Helga, Gunnar, Kristján, Aðalbjörg og fjölskyldur. Við minnumst Almutar með sökn- uði og mikilli hlýju. Þegar við hittum hana fyrst kom hún okkur fyrir sjónir sem mjög framandi, hún tal- aði ekki íslensku og fannst okkur sem börnum það mjög sérstakt. Hún var samt svo jákvæð, ófeimin og dugleg að bjarga sér í samskipt- um við okkur, þannig að ekki leið á löngu þar til hún bræddi hjörtu okk- ar allra. Síðan hefur hún alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá okkur systk- inunum úr Álfheimum 24. Hún var alltaf glæsileg og mjög smekkleg í öllu sem hún tók sér fyr- ir hendur. Við minnumst sérstak- lega hve hún var alltaf jákvæð í garð fólks og sýndi öllum sem hún kynnt- ist áhuga. Hjá Almut skiptu allir máli og hún bar ævinlega með sér smitandi glaðværð þannig að ekki var hægt annað en að hrífast með henni og þannig tókst henni jafnan að fá mann til að kætast í amstri hversdagsleikans. Hún var stolt af uppruna sínum og bar með sér nýja siði, sem við höfðum ekki kynnst áð- ur og menningu, sem sem hún hélt á lofti og var mjög gaman fyrir okkur að kynnast. Það var alltaf mikill samgangur á milli fjölskyldnanna og við minnumst allra boðanna og heimsóknanna til þeirra Almutar og Þorvarðar þar sem alltaf ríkti létt- leiki og gleði. Við erum einnig þakk- lát fyrir stuðning og hjálp, sem hún og Þorvarður veittu okkur á erfiðum tímum. Við vottum Þorvarði, börnum, tengdabörnum og barnabörnum hennar okkar innilegustu samúð og biðjum guð að blessa minningu hennar. Þorgerður, Grétar og Bryndís. Það er sárt að kveðja en í dag verð ég að setjast niður til að minn- ast hennar Almut, vinkonu minnar með nokkrum fátæklegum orðum. Við Almut kynntumst fyrir nær 45 árum, þá nýlega búnar að setjast að hér í ókunnu landi þangað sem við fylgdum mökum okkar sem höfðu verið við nám í Þýskalandi. Við höfðum mjög svipaðan bak- grunn: Báðar fæddar og uppaldar í Norður-Þýskalandi á svipuðum slóð- um: Almut í Rendsburg og ég í Hamborg. Feður okkar voru báðir læknar. Þannig höfðum við margt sameiginlegt til að byggja vinskap okkar á. Við fylgdumst með börnum okkar vaxa úr grasi og skiptumst á skoðunum um allt sem varðaði upp- eldi þeirra.Við gátum líka talað um allt milli himins og jarðar. Stundum gat hún verið mjög gagnrýnin en á uppbyggilegan hátt. Ég bað Almut um að vera guðmóður yngra sonar míns og Almut bað mig síðar að vera guðmóður Sigurðar Óttós. Þannig bundumst við enn fastari böndum. Það var alltaf mjög gott að spyrja Almut ráða: Hún var mjög ráðagóð, næm og vönduð kona. Hún var besta vinkona mín og fráfall hennar veldur mér mikilli sorg. Ég vil minnast hennar eins og ég sá hana síðast þegar ég heimsótti hana á sjúkra- húsi: Ærðrulaus eftir hetjulega bar- áttu við skæðan sjúkdóm sagði hún við mig: Ingrid, ég óttast dauðann ekki. Þessi orð báru vitni um mikið innra uppgjör og þannig hafði Almut sigrast á óttanum við það sem var óumflýjanlegt. Ég votta aðstandendum hennar innilega samúð og bið góðan guð að veita þeim styrk í sorg þeirra eftir ástríka eiginkonu, móður, tengda- móður og ömmu. Ingrid. Einstök kona hefur kvatt okkur. Almut starfaði með okkur í sjúkraþjálfun Borgarspítalans / Sjúkrahúsi Reykjavíkur í 16 ár. Hún var sérhæfður aðstoðarmaður sjúkraþjálfara oftar nefnd aðalstoð. Almut var alltaf í hálfu starfi á móti Villu og unnu þær sem einn maður og voru í daglegu tali kallaðar Vilmut. Villa og við hinar vorum lengi að jafna okkur á því þegar Þor- varður ,,lokkaði“ Almut úr vinnu þegar hann fór á eftirlaun. Almut kenndi okkur margt í sam- bandi við vinnulag. Hún var hrein og bein, frábær starfsmaður og um- hyggja og natni við sjúklinga sér- stök. Henni féll aldrei verk úr hendi og þótti við heldur seinar til verka oft á tíðum. Stundum gekk vinnu- gleðin svo langt að hún tók saman það sem gert hafði verið klárt fyrir sjúkling áður en hann kom. Almut var einstaklega smekkleg og vel til höfð og meira að segja samanbrotnir vinnujakkar hlutu ekki náð fyrir hennar augum og voru straujaðir upp á nýtt áður en hún gat hugsað sér að ganga í þeim. Á árlegu vorgrilli deildarinnar, þar sem áhersla er lögð á búninga, sló Almut ævinlega í gegn. Fiðrildi voru hennar uppáhald og gleymir enginn stráhattinum sem hún mætti með eitt vorið alsettan fiðrildum. Í mörg ár var eitt mesta tilhlökk- unarefni jólanna þegar Almut mætti í jólabúningnum. Þetta var peysa með stóru blikk- andi jólatré – síðan voru það rauðu buxurnar – sokkar með bjöllum og svo breytilegt milli ára með höfuð- fatið. Henni var mjög umhugað að tala rétta og góða íslensku, bað hún stöð- ugt um að vera leiðrétt og spurði oft um beygingar. Hún átti þó sín augnablik og er ennþá „Skálað fyrir tuddið“ í okkar hópi. Í heimboðum hjá Almut og Þor- varði nutum við þvílíkrar gestrisni og umgjörðin var öll svo glæsileg að við breyttumst í drottningar. Þó að Almut væri hætt að vinna á spítalanum tók hún þátt í fé- lagsstarfinu og fylgdist með öllu og öllum. Kæri Þorvarður og fjölskylda, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Ég felli tár, en hví ég græt? Því heimskingi ég er! Þín minning hún er sæl og sæt, og sömu leið ég fer. (Kristján Jónsson Fjallaskáld.) Fyrir hönd samstarfsfólks í sjúkraþjálfun. Kalla, Sara Harpa og Vilhelmína. Hlýja, kærleikur, gleði og vin- semd einkendu viðmót Almutar, og þessa nutum við öll í ríkum mæli, sem urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að vera nágrannar hennar í mörg ár. Alltaf fylgdi ferskur andi samtölun- um við Almut. Í Hávamálum stendur: Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. Við vottum fjölskyldu hennar samúð okkar og biðjum góðan Guð að styrkja fjölskylduna á þessum erfiðu tímum. Eyþór, Christa og fjölskylda. Kær vinkona okkar, Almut Alf- onsson, hefur kvatt eftir 3ja ára stranga baráttu við krabbamein. Kynni okkar hófust á námsárun- um í Kiel í Þýskalandi þar sem hún og Þorvarður felldu hugi saman, kynni sem síðar urðu að einlægri og djúpri vináttu sem hefur staðið síð- an. Hún kallaði okkur íslensku fjöl- skylduna sína. Fyrir 45 árum fylgdi hún Þorvarði til Íslands sem varð hennar heima- land síðan. Hún kom með Ingunni dóttur sína kornunga, síðar bættust Auður og Sigurður Ottó í barnahóp- inn. Hún talaði ekki málið þegar hún kom hingað. Fjölskylda Þorvarðar tók vel á móti henni og hjálpaði henni á alla lund sem best þau gátu í þessum erfiðleikum í upphafi. Hún ávann sér traust, virðingu og vináttu þessa fólks alls, sem mat hana mjög mikils og hún hefur ætíð stutt síðan. Almut var glæsileg og hafði mikla persónu, hvar sem hún fór var vel tekið eftir henni. Hún var fé- lagslynd, skemmtileg og glaðvær, með gott skopskyn, hafði ákveðnar skoðanir án þess að vera hávær og var mikill vinur vina sinna. Hún var mikil móðir og húsmóðir og mjög góð heim að sækja enda oft gest- kvæmt á heimilinu. Í 16 ár vann hún hjá sjúkraþjálf- urum á Borgarspítalanum. Það starf féll henni vel, átti afar vel við hana að blanda geði við folk og með glað- værð sinni reyndist hún skjólstæð- ingunum vel. Samstarfshópurinn var henni líka afar dýrmætur. Í nokkur ár bjuggum við í sama húsi og áttum dagleg samskipti en síðar hefur oftast verið stutt á milli heimila okkar og samfundir tíðir. Við söknum vinar í stað og óskum henni velfarnaðar á eilífðarbraut- inni. Þorvarði, Ingunni, Auði, Sigurði Ottó, og fjölskyldum þeirra vottum við einlæga samúð. Guð blessi ykkur öll. Sigríður og Úlfur. Kær vinkona hefur kvatt. Almut var einstök persóna og eftirminni- leg. Í allmörg ár hefur hún átt fast sæti í hópi fólks sem ég leiðbeini með pensla og liti. Hún var fagur- keri og áhugi hennar á myndlist var mikill, enda mætti hún staðfastlega meðan heilsan entist. Hún var manna fyrst á staðinn þegar farnar voru ferðir á myndlistarsýningar og fallega unnar vatnslitamyndir eftir hana voru á sýningu Myndlistaskól- ans MYND-MÁLS fyrir 3 árum. Almut gaf mikið af sér og miðlaði okkur hinum ýmsu ógleymanlegu úr reynsluheimi sínum. Hún var ákveð- in í skoðunum og vel var hlustað á ályktanir hennar og það sem hún hafði til málanna að leggja hverju sinni. Hún var glettin og sá spaugilegar hliðar tilverunnar öðrum augum en margur annar. Hún iðaði af kímni þegar hún sagði okkur að hún starf- aði sem „sérhæfður aðstoðarmaður sjúkraþjálfara“. Titilinn bar hún fram hægt og skýrt eins og þýski Ís- lendingurinn Almut ein gat gert. Einhverju sinni kenndi hún okkur göngu-æfingar til að styrkja ökkl- ana „svo að við misstígum okkur síð- ur og dettum þegar við eldumst“. Almut átti til ótal góð ráð og sýndi okkur samferðafólki sínu sérstaka umhyggju og hlýju. Sæti hennar verður vandfyllt. Okkur sem eftir stöndum er hún mjög skýr og eftirminnileg myndin af fallegri, snyrtilega klæddri kon- unni með ljóst stuttklippt hár og bjarta útgeislun. Guð blessi minn- ingu hennar. Eiginmanni hennar, börnum og fjölskyldum þeirra votta ég djúpa samúð mína. Rúna Gísladóttir. ALMUT ALFONSSON  Fleiri minningargreinar um Almut Alfonsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Margrét Örnólfs- dóttir og Helga Gröndal.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.