Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 10
10 | 12.6.2005 G oðsögnin um villta hegðun rokkstjarna á hótelherbergjum fæddist ummiðjan sjöunda áratug síðustu aldar þegar framferði drengja eins og KeithMoon trommara í Who og Dave Davies gítarleikara í Kinks varð til þess að hljómsveitum þeirra var um langan tíma meinaður aðgangur að hótelum á Bret- landi og víða í Evrópu. Gegndarlaust fyllerí, stóðlífi, sjónvörpum kastað út um glugga, húsgögn brytjuð í spað og jafnvel íkveikjur voru það sem hótelhaldarar þurftu iðulega að glíma við þegar stjörnur bresku poppbylgj- unnar, sem flæddi yfir heiminn eftir að Bítlarnir byltu dæg- urtónlistinni, gistu hjá þeim. Vandamál sem verið hefur til stað- ar allar götur síðan. „Hótel hefur þann kost, ekki síst fyrir rokkara, að vera eins- konar einskismannsland,“ segir Sigtryggur Baldursson, en hann var trommuleikari í Sykurmolunum sem á árunum í kringum 1990 var fyrsta íslenska rokkhljómsveitin sem ferðaðist um heiminn á poppstjörnuplani. „Og þetta sérstaka ábyrgðarleysi sem verið hefur hluti af sjarm- anum í kringum rokk og ról brýst út á svæð- um sem eru einskismannslönd. Aðrir staðir eru til dæmis flug- vellir nema hvað ef maður lætur illa á þeim er maður bara tekinn fastur. En á hóteli gengur allt út á prívasíuna, hið af- markaða einkalíf, og þess vegna er það yndislegur staður til að rasa út.“ Ungt og villt | Sigtryggur telur að „hótelmorðin“, eins og hann kallar þetta fyrirbæri, hafi upphaflega verið ákveðin tíska. „Þegar rokkið og rólið var ungt og villt, þá gekk það út á þetta tvennt, ungt og villt, og sjarminn við það var ekki síst seinna orðið, villt. Það komst hreinlega í tísku meðal rokkara að gera villta hluti eins og að rústa hótelherbergjum, og það varð vinsæll fréttamatur. Það hafði líka sitt að segja að hljómplötufyrirtækin sáu beinlínis hag sinn í að það spyrðist út hvað þetta væru nú villtir og stjórnlausir menn, því það seldi plötur. Goðsögnin sem byggð var upp í kringum rokkið gekk svo mikið út á þetta. Það átti að vera stjórnlaust, það átti að vera geggjað og þeir sem gengu lengst í geðveikinni voru flottastir.“ Það var árið 1988 að Sykurmolarnir fóru í fyrstu hljómleikaferðina um Bretland sem poppstjörnur, eftir að lagið Birthday sló í gegn. „Þá vorum við líka í fyrsta skipti með breskt aðstoðarlið,“ segir Sigtryggur, „rótara, bílstjóra hljóðmenn, ljósamenn og svo framvegis, en áður höfðum við bara séð um þetta sjálf. Þetta voru menn sem bjuggu yfir reynslu og kunnu margar sögur úr bransanum. Við vorum í því að pumpa þá um hedónismann og rokkgeðveikina, en þeir sögðu þá að geggjaðasta bandið sem þeir hefðu lent með í mörg ár væri The James Last Orchestra! Allt sprenglærðir klassískir hljóðfæraleikarar og þetta lið drakk heilu gallónin af börbon í kók, sem er ekta rokkaradrykkur, en það drukkum við aldrei. Við vorum mest í bjórnum, enda var þetta á þeim tíma þegar bjór var enn nokkurt nýmæli fyrir Íslendinga. En hljóm- sveit hins virðulega James Last var víst oft svo drukkin þegar hún kom af sviðinu að liðið stóð varla í lappirnar, í smókingunum sko. Þetta fannst okkur æðislega fyndið.“ Út um gluggann | Sú saga gekk á sínum tíma að Sykurmolarnir hefðu kastað sjónvarpi út um hótelglugga bara til að hafa einu sinni framkvæmt þessa goðsagnakenndu athöfn og verið vísað á dyr fyrir vikið – er hún sönn? „Já,“ glottir Sigtryggur. „Það gerð- ist árla á þriðjudagsmorgni á hóteli í Leeds á Englandi. Og já, þetta var meðvituð hendun á sjónvarpi út um gluggann. Hljóm- sveitin Ham var með okkur á þessum túr – Óttar Proppé, Sig- urjón Kjartansson og þeir snillingar – og það var mikil umræða um hversu langt menn gengju í rokki og róli yfirleitt. Þetta var mjög gáfulegt allt saman og það voru engar grúppíur til staðar, ég get fullyrt það. Þetta var bara svona strákapartý með heim- spekilegum umræðum. Og til að prófa útmörk mannlegrar hegðunar, og til að vita hvort það væri gaman, var sjónvarpið lát- ið flakka. Ég var reyndar steinsofandi á bak við sófa þegar það gerðist og vissi ekki fyrr en okkur var hent út fyrir að sjónvarp hefði farið út um gluggann. Mér þótti það harla fyndið, en fannst líka leiðinlegt að hafa misst af því. Ég hefði viljað heyra hljóðið þegar það lenti og myndlampinn sprakk. Það var víst voða flott sánd, en þetta var ofan af sjöundu hæð. Eftir á runnu náttúrlega á mann tvær grímur og maður hugsaði að þetta væri nú kannski ekkert voðalega sniðugt.“ Sigtryggur hefur á síðastliðnum árum spilað víða um lönd, til dæmis með Emilíönu Torrini – hefur þetta rokkaralíf eitthvað breyst? „Sumt hefur gert það, en annað alls ekki. Ég hef náttúrlega verið að túra mikið með stelpum og það er dálítið öðruvísi. Þær eru ekki að reyna að setja heimsmet og toppa einhverja vitleysu. Drengir eru alltaf í þeim leik að reyna að toppa hver annan í allskonar stælum, þetta hefur eitthvað með testósterónið að gera. Annars hefur þróunin verið sú að núna er þetta allt orðið miklu deildaskiptara, líkt og í þjóðfélaginu almennt séð. Núna eru ákveðnir geirar rokktónlistar þar sem meira er djammað, það eru svona hljómsveitir eins og Mínus sem spila hart rokk og djamma grimmt. Svo er allur gangur á hinu liðinu. En gallinn við umrædda goðsögn finnst mér núorðið vera að oft er þetta framferði svo óttalega heimskt, of heimskt til að vera skemmtilegt til lengdar.“ | pallkristinn@internet.is „MEÐVITUÐ HENDUN Á SJÓNVARPI ÚT UM GLUGGANN“ Sigtryggur Baldursson trommari hefur lifað goðsögnina um villt rokk og ról á hótelherbergjum L jó sm yn d/ K ri st in n In gv ar ss on Út skal sjónvarpið: Sigtryggur bregður á leik. Þeir sem gengu lengst í geðveik- inni voru flottastir. Sykurmolarnir á faraldsfæti á 9. áratugnum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.