Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 37

Morgunblaðið - 12.06.2005, Blaðsíða 37
„Það var lýst eftir þér, þú ert eftirlýstur,“ sagði hún og flissaði. „Það var mynd af þér, sem leit út alveg eins og þú, á baksíðu Morgunblaðsins … og undir myndinni stóð nafnið þitt, Ari Pálsson ... Og þess vegna finnst mér frekar undarlegt, skrýtin tilviljun er það ekki? – að ég skuli sitja hérna inni á Hótel Sögu með þér, í svítu og muna ekki hvernig ég komst hingað.“ Steinar Bragi: Sólskinsfólkið (Bjartur 2004) Hún var með fegurðarblett á kinninni sem ég sá hana seinna búa til með spíss-inum á augnskuggakústinum. Og hann virkaði. Hún talaði og ég hlustaði. Það var betra þannig, þá gat ég einbeitt mér að því að horfa á hana. Auk þess hafði hún frá miklu meira að segja. Hún hafði verið yfirþjónn á Hótel Sögu og þjónað þar engum öðrum en Omar Sharif. Ég gapti af undrun. „Omar Sharif úr Doctor Zhivago?“ „Já og Memories of Midnight.“ „Hvernig er Omar?“ „Mjög almennilegur.“ „Nú er ég hissa,“ sagði ég, stóð upp, gekk fyrir borðsendann og settist við hlið- ina á henni. Lagði höndina á beran mjóhrygginn. „Hann sagðist hafa umgengist allar fegurstu konur heims.“ „Og?“ „Hann sagði að ég væri fegurst þeirra allra.“ Bjarni Bjarnason: Andlit (Vaka-Helgafell 2003) Gestir koma í lobbýið, Jón Ágúst færir sig til og horfir lymskulega á mig á meðanég tékka inn norska sægreifa. Ég finn að hann mælir mig út og ég hitna í vöng- um og verð öll meðvitaðri um mig. Tala súper skýrt og finnst enskan mín meirihátt- ar hallærisleg. Brosi og hlæ aðeins of mikið eins og ég sé að kafna úr þjónustulund. – Jæja, best að halda áfram í eldhúsinu, á að gera eitthvað í kvöld? Ég skrælna upp í hálsinum og fæ viprur í munnvikin. Hingað til hafa okkar sam- skipti verið á þá leið að hann er sætur og daðrar. Ég er sæt og roðna. Engin spor fram á við og ég var búin að bóka að hann ætti æðislega kærustu, sólbrúna og leggjalanga. Sem héti Gyða Sól og væri landvörður í Skaftafelli. Birna Anna, Oddný og Silja: Dís (Forlagið 2000) – Hann hafði skilning á því, held ég. – Vantar nokkuð hnífa hérna í eldhúsið? spurði Erlendur. – Ég veit það ekki. Það tapast hnífar og gafflar og glös fyrir tugþúsundir á hverju ári. Líka handklæði og … Heldurðu að hann hafi verið stunginn með hníf frá hót- elinu? – Ég veit það ekki. Erlendur horfði á hótelstjórann matast. – Hann vann hérna í tuttugu ár og enginn þekkti hann. Finnst þér það ekki óvenjulegt? – Starfsfólk kemur og fer, sagði hótelstjórinn. Arnaldur Indriðason: Röddin (M&M 2002) Ímiðri eyðimörkinni stendur Hótel Sand, splunkunýtt bjálkahótel með míníbar,gervihnattadiski og brúnum lausofnum gardínum sem þó ná ekki alveg fyrir gluggana. – Stórbrotið að eiga hér leið um, segir útlendingur við mig í móttökunni, en ekki vildi ég verða hér innlyksa. – Það er annað með ykkur sem eruð vön sandi og myrkri, bætir hann við, bein- línis fædd og uppalin á sandi og myrkri. Það myndi sjálfsagt breyta einhverju fyrir mann ef sandurinn væri ekki svartur, heldur gulur og hitastigið tíu gráðum hærra. Upp á aðlögunina að gera. Auður Ólafsdóttir: Rigning í nóvember (Salka 2004) Ég held það sé eitthvað að hjá mér,“ sagði hún og horfði á hann. „Ég hef líka hugsað það … um sjálfan mig, meina ég,“ sagði Ari og brosti til hennar, svo flissuðu þau og hún fór að hlæja, beygði sig fram á við í keng og hló þangað til hana verkjaði í magann. „Ari,“ sagði hún, hætti að hlæja og rétti úr sér. „Ég er allavega á Hótel Sögu, er það ekki örugglega rétt hjá mér? Í svítu? Einni af þessum svítum? Af hverju erum við hérna?“ „Ég bý hérna,“ sagði Ari. „Býrðu hérna?“ sagði hún. „Á Hótel Sögu? Og ert kannski að fela þig hérna?“ „Ég veit það ekki,“ sagði Ari og sneri sér frá henni. „Er einhver að leita að mér?“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.